Fréttir
  • Jökulsá á Fjöllum 27. janúar 2021.
  • Jökulsá á Fjöllum 27. janúar 2021.
  • Jökulsá á Fjöllum 27. janúar 2021.

Hætta á öðru krapaflóði í Jökulsá á Fjöllum

Myndband sem sýnir klakamyndun í ánni

28.1.2021

Vegna aukinnar hættu á krapaflóði í Jökulsá á Fjöllum verður vegurinn aðeins opinn í björtu, milli klukkan 9 og 18 næstu daga og umferð yfir brúna verður stýrt.

Síðustu daga hefur vatnshæð í Jökulsá á fjöllum hækkað við brúna á þjóðvegi 1. Áður en mikið krapaflóð varð 26. janúar síðastliðinn var vatnshæð í yfir 5 metrum og hækkaði síðan um 180 cm þegar flóðið gekk yfir. Síðan þá, er enn yfir 5m vatnshæð mæld.

Vegagerðin á í góðu samstarfi við ríkislögreglustjóra, lögreglustjórann á Norðurlandi eystra og Veðurstofu Íslands og vinna þessir aðilar nú áhættumati vegna krapastíflu í Jökulsá á Fjöllum. Daglegir stöðufundir eru haldnir meðan hætta er til staðar.

Í áhættumati sem gert var fimmtudaginn 28. janúar kemur fram að vatnshæð er mjög há, um fimm metrar. Veðurspá er óhagstæð, mikið frost sem getur valdið stækkun á krapastíflum. Hætta getur skapast ef krapi nær inná þjóðveginn en fylgjast þarf vel með brúnni sem þolir illa hliðarálag.

Þar sem illfært er að fylgjast með ánni í myrkri hefur verið ákveðið að umferð verði aðeins leyfð í björtu, milli klukkan 9 og 18, auk þess sem umferð verður stýrt yfir brúna. Þessi takmörkun umferðar stendur yfir til mánudags en verður þá endurskoðuð.
 
Eftirlitsaðilar flugu með dróna yfir Jökulsá á fjöllum miðvikudaginn 27. janúar.  Á meðfylgjandi myndbandi má sjá hversu mikil klakamyndun er í ánni.

l