Fréttir
  • Samanlögð umferð í maí
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin uppsafnað
  • Vikudagar-mai

Gríðarleg aukning umferðar á Hringveginum í maí

hvert metið á fætur öðru er nú slegið í umferðinni

1.6.2016

Umferðin á Hringveginum, um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar, jókst gríðarlega mikið í maí eða um tæp 13 prósent. Aukningin fyrstu fimm mánuði ársins nemur ríflega 15 prósentum og er þessi hækkun einsdæmi og miklu meiri en mælingar frá 2005 hafa áður sýnt. Nú er útlit fyrir að umferðin í ár geti aukist um ríflega 9 prósent sem er gríðarlega mikil aukning á einu ári. 

Umferð milli mánaða 2015 og 2016
Umferð jókst mjög mikið milli maí mánaða 2015 og 2016 eða um tæplega 13%.  Þetta er mesta aukning milli maí mánaða frá því að þessi samantekt hófst árið 2005.  Mest eykst umferðin um Austurland eða um tæplega 42%.  Slíkar hækkanir hlutfallstölu eru fáséðar yfir heilt svæði, en einna helst hefur borið á slíkum hækkunum á Austurlandi það sem af er ári og á síðasta ári. T.d. jókst umferðin um heil 54%, eða rétt tæplega það, á milli mars mánaða.  Minnst jókst umferðin um og við höfuðborgarsvæðið eða um 9,4%.

Fyrir einstaka talningarstaði jókst umferðin mest um talningarsnið sem staðsett er við Gíslastaðagerði sunnan Egilsstaða á Austurlandi eða um rúmlega 57%, miðað við sama mánuð á síðasta ári.

Þess ber að geta að umferðin um Hringveginn á Austurlandi er mjög lítil borin saman við önnur svæði, því segir hlutfallsleg hækkun ekki til um sambærilegan fjölda ökutækja á milli svæða.

Umferð það sem af er ári milli 2015 og 2016
Nú hefur umferð aukist um 15,4% það sem af er ári miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Það er ekki nóg með að þessi mikla aukning sé einsdæmi miðað við árstíma, frá því að þessi samantekt hófst, heldur lang mesta aukningin fram til þessa. Næst þessu kemst aukningin mill 2006 og 2007, fyrir sama tímabil en þá hafði aukningin numið 6,4%.

Umferðin hefur aukist lang mest um Austurland eða 36,4% en minnst um og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða 13,0%, sem er gríðarleg aukning vegna þeirra fjölda ökutækja sem fer um þau talningarsnið.


Samanburdur-mai

Umferð eftir vikudögum, það sem af er ári, milli 2015 og 2016
Eins og nærri má geta hefur umferð aukist mikið alla vikudaga, en mest hefur umferðin aukist á sunnudögum eða um 22,5% en minnst á fimmtudögum eða um 12,0%.  Skýringin á hlutfallslega mikilli aukningu á sunnudögum er sú að á síðasta ári hafði sunnudagsumferðin verið óvenju lítil. Eins og áður er umferðin lang mest á föstudögum en minnst á þriðjudögum.

Horfur út árið 2016
Eins og staðan er í dag eru horfur á mjög mikilli aukningu á umferð um Hringveginn nú í ár miðað við síðasta ár eða um rúmlega 9%.  Gangi slík spá eftir yrði það lang mesta aukning sem orðið hefur til þessa.  Umferðin um mælisniðin 16 jókst um 6,2% milli 2014 og 2015, þetta yrði þá annað árið í röð þar sem umferð eykst umfram 5% markið. 

Svona mikil aukning ár eftir ár dregur úr líkum á því að viðhaldi vega verði sinnt til samræmis, þar sem fjárveitingar og innviðir þurfa þá einnig að vaxa í takt við þessa aukningu.  Hver endanleg niðurstaða verður veltur mikið á því hvernig umferðin þróast í næstu þremur mánuðum ársins. 

Á myndinni sem fylgir um uppsafnaða umferð, sést vel að umferðin er mun meiri í ár en undanfarin á og stefnir í að verða mjög mikil, ef sama þróun verður í umferðarmestu mánuðunum júní, júlí og ágúst.


Talnaefni