Fréttir
  • Einn af fjórum stálbitum hífður á brúna.
  • Yfirbygging brúarinnar var rifin.
  • Brúarviðgerð á síðustu metrunum,  verið að festa gólfið og vegrið komin upp.
  • Brúavinnuflokkurinn frá Vík. F.v. Garðar Ingvar Geirsson, Sigurjón Karlsson, Sævar Halldórsson, Guðmundur Jónsson, Birgir Þór Brynjarsson og Fjölnir Már Geirsson.
  • Frá byggingu brúarinnar, fyrir 90 árum.

Gert við brúna yfir Laxá í Kjós

Brúin aðeins lokuð í 10 daga

13.10.2022

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar vann að viðgerðum á brúnni yfir Laxá í Kjós í september. Þungatakmarkanir höfðu verið settar á þessa 90 ára gömlu brú í sumar og mikilvægt þótti að hefja viðgerðir sem fyrst. Með góðum undirbúningi og forvinnu þurfti aðeins að loka brúnni í tíu daga.

Brúin yfir Laxá í Kjós var byggð árið 1933 og er því 90 ára gömul. „Ástand brúarinnar var orðið fremur slæmt en gott eftirlit var haft með henni. Í sumar þótti svo ljóst að setja þyrfti þungatakmarkanir á brúna sem er óheppilegt enda er nokkur þungaumferð um Hvalfjarðarveginn,“ segir Fjölnir Már Geirsson verkefnastjóri vinnuflokka Vegagerðarinnar. „Þar sem bregðast þurfti hratt við var ákveðið að fela brúarvinnuflokknum í Vík það verkefni að gera við brúna og náðum við að stinga því inn á milli annarra verkefna,“ lýsir Fjölnir.

Hönnunardeild Vegagerðarinnar hannaði endurbyggingu brúarinnar en samhliða því gat brúarvinnuflokkurinn hafið undirbúning. Við reyndum að forvinna brúna eins mikið og hægt var til að stytta framkvæmdatíma á verkstað,“ útskýrir Fjölnir en meðal þess sem hægt var að forvinna var smíði stálbita sem voru notaðir til að styrkja brúna. „Til þess fengum við níu 20 metra langa stálbita sem urðu afgangs við byggingu Landeyjahafnar og smíðuðum úr þeim fjóra 45 metra langa stálbita. Þetta gerðum við í ágúst í húsnæði Vegagerðarinnar í Garðabæ.“ Meðan hluti hópsins smíðaði stálbitana fóru hinir í að forsmíða flekaeiningar úr timbri sem notaðar voru í gólf brúarinnar.

Vinnubúðir voru settar upp við brúna í Kjós í byrjun september. Stefnan var að halda brúnni opinni eins lengi og hægt var. „Við unnum ýmsa undirbúningsvinnu fyrst, mokuðum í bílaplan fyrir norðan brúna til að búa til góðan púða fyrir þungan krana sem þurfti í verkið. Við losuðum rær sem hægt var að losa og söguðum í sundur brúargólfið svo auðveldara væri að hífa það í burtu,“ lýsir Fjölnir og bætir við að flokkurinn hafi átt í góðu samtali við landeigendur, nágranna, sveitarfélagið og veiðifélagið en Laxá í Kjós er mikil laxveiðiá og því mikilvægt að ekki yrði mikið rask.Brúnni var svo lokað vegna framkvæmda 19. september og bílum beint um hjáleið á Kjósarskarðsveg og Meðalfellsveg. „Við byrjuðum á því að rífa alla yfirbyggingu brúarinnar, netmottur, timburgólf, gömul vegrið og slíkt. Síðan hafði safnast mikil mold ofan á steypta hluta brúarinnar og henni þurfti að moka burt. Við höfðum aðeins áhyggjur af því að það hefði áhrif á laxveiðina en veiðifélagið sannfærði mig um að það væri bara gott fyrir þá að fá svona lífræn efni í ána,“ lýsir Fjölnir.

Næst var að styrkja brúna með stálbitunum fjórum, þá voru gólfflekarnir hífðir ofan á stálbitana og vegriðsstoðir settar upp. Þegar þessu var lokið var hægt að opna fyrir umferð um brúna að nýju miðvikudaginn 28. september og var brúin því aðeins lokuð í tíu daga. „Viðgerðunum var þó alls ekki lokið og eftir opnun settum við á slitlagsgólf og netmottur ásamt því að ganga frá vegriðum. Eins þurfum við að vinna í hallanum í landinu í kringum brúna þar sem hún hækkaði um 30 cm vegna stálbitanna.“Næsta verkefni brúarvinnuflokksins er að taka niður vegrið á Borgarfjarðarbrúnni og setja í staðinn ný Securo vegrið sem standast allar nútíma öryggiskröfur. Á næsta ári stendur svo til að snúa aftur að brúnni yfir Laxá í Kjós og laga þá steyptu stöplana undir brúnni.

Greinin birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 6. tbl. 2022 nr. 721. Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.