Fréttir
  • Gagnvirk hraðahindrun af gerðinni Actibump frá sænska fyrirtækinu Edeva.  Hleri fellur niður um nokkra sentímetra sé ökutæki ekið of hratt miðað við leyfilegan hámarkshraða götunnar.
  • Skynjari mælir hraða ökutækja og virkjar hraðahindrunina sé ökutæki ekið of hratt.
  • Til stendur að setja gagnvirka hraðahindrun og útfæra gangbrautir á Ennisbraut í Ólafsvík, nálægt grunnskóla, íþróttahúsi og sundlaug.

Gagnvirk hraðahindrun á Ennisbraut í Ólafsvík

Aðeins óþægileg fyrir þá sem aka of hratt

23.6.2021

Til stendur að setja niður gagnvirka hraðahindrun af gerðinni Actibump frá sænska fyrirtækinu Edeva á Ennisbraut í Ólafsvík á næstu vikum.  Gagnvirkar hraðahindranir eru kerfi sem virka á þann veg að hleri fellur niður um nokkra sentímetra ef ökutæki er ekið of hratt miðað við leyfilegan hámarkshraða götunnar.

Fyrstu virku hraðahindranir þessarar tegundar voru settar upp árið 2010 í Linköping í Svíþjóð.  Í dag eru þessar hraðahindranir alþjóðleg lausn sem hefur verið komið fyrir í löndum víðs vegar um heiminn. Stærsti munurinn á hefðbundnum hraðahindrunum og virkum hraðahindrunum er sá að ökutæki þurfa ekki að hægja á sér áður en ekið er yfir hraðahindrunina og því hægt að viðhalda jöfnum umferðarhraða innan leyfilegra marka. 

Búnaðurinn virkar þannig að skynjari, yfirleitt radarmælir, mælir hraða ökutækja og virkjar hraðahindrunina sé ökutæki ekið of hratt.  Þegar hraðahindrunin er virkjuð fellur hleri, sem búið er að koma fyrir í yfirborði vegarins, niður um nokkra sentímetra, við það fá ökumenn áminningu um að ekið sé of hratt.

Gagnvirkar hraðahindranir eiga sérstaklega vel við á stöðum þar sem að:

  • Mikilvægt er að útfæra öruggt umhverfi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur
  • Þar sem að hraðakstur er vandamál
  • Þar sem þarf að viðhalda fullu aðgengi fyrir allar gerðir ökutækja

Ávinningur gagnvirkra hraðahindrana er fyrst og fremst að hraðakstur minnkar á svæðum þar sem  þeim hefur verið komið fyrir. Áhrif gagnvirkra hraðahindrana á umferðaröryggi er svipaður og við sjálfvirkar hraðamyndavélar. Með jöfnu umferðarflæði hefur búnaðurinn jákvæð áhrif á loftgæði, hljóðmengun og loftmengun. 

Á næstu vikum hefjast framkvæmdir við uppsetningu gagnvirkra hraðahindrana á Ennisbraut í Ólafsvík.  Þjóðvegurinn liggur nokkuð greitt í gegnum Ólafsvík, vegurinn er breiður og á honum er ekið hratt.  Við Ennisbraut er grunnskóli, íþróttahús og sundlaug og handan vegarins er þjónusta á borð við matvöruverslun. Töluverð umferð gangandi- og hjólandi vegfarenda er á þessu svæði sem þverar Ennisbraut. Um Ennisbraut fara þungaflutningar og stærri gerðir ökutækja sem er m.a. ástæða þess að ekki er vilji til þess að setja upp hefðbundna hraðahindrun. Ákveðið var að útfæra gangbraut á tveimur stöðum nálægt grunnskóla, íþróttahúsi og sundlaug ásamt gagnvirkum hraðahindrunum til þess að stuðla að auknu umferðaröryggi án þess að hafa neikvæð áhrif á þungaflutninga.

Áætlað er að gagnvirka hraðahindrunin á Ennisbraut í Ólafsvík verði tilbúin í lok júní. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs þar sem að Vegagerðin leigir búnaðinn frá fyrirtækinu Edeva. Ef vel til tekst stendur til að kaupa búnaðinn að ári.

Þessi grein birtist í 4. tbl Framkvæmdafrétta sem er á leið til lesenda.  Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.