Fréttir
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, Jón Bjarnason, Haraldur Þór Jónsson og Bergþóra Þorkelsdóttir.
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, Jón Bjarnason, Haraldur Þór Jónsson og Bergþóra Þorkelsdóttir.
  • Oddvitar sveitarfélaganna tvegga ýttu kassabílum með börnum af svæðinu yfir brúna.
  • Oddvitar sveitarfélaganna tvegga ýttu kassabílum með börnum af svæðinu yfir brúna.

Formleg opnun nýrrar tvíbreiðrar brúar yfir Stóru-Laxá

Börn í kassabílum fyrst yfir brúna

13.7.2023

Ný tvíbreið brú yfir Stóru-Laxá í Hreppum var opnuð formlega í dag, fimmtudaginn 13. júlí 2023. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar héldu stuttar ræður á brúnni áður en þau klipptu á borða til að marka hina formlegu opnun. Með þeim í því verkefni voru þeir Haraldur Þór Jónsson oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Jón Bjarnason oddviti Hrunamannahrepps. Stóra-Laxá liggur enda á mörkum sveitarfélaganna tveggja.

Hefð hefur verið fyrir því að ráðherra fari fyrstur yfir brýr eftir formlega opnun en í þetta sinn voru það börn af svæðinu sem fengu þann heiður en fararskjótarnir voru forláta kassabílar sem þeir Haraldur og Jón ýttu yfir brúna.

Nánari upplýsingar um verkið; Skeiða- og Hrunamannavegur (30) um Stóru Laxá

Ný tvíbreið brú yfir Stóru-Laxá var opnuð fyrir umferð 25. júní 2023. Hún kemur í stað einbreiðrar 120 m langrar brúar frá árinu 1985. Umferðaröryggi eykst til muna með tilkomu brúarinnar. Samgöngur um Skeiða- og Hrunamannaveg verða mun greiðari enda hefur umferð aukist töluvert á þessu svæði síðustu ár, sér í lagi með tilkomu aukins ferðamannastraums.

Verkið sem Vegagerðin bauð út bar heitið; Skeiða- og Hrunamannavegur (30) um Stóru-Laxá. Í því fólst bygging brúar yfir Stóru-Laxá, gerð nýs vegkafla Skeiða- og Hrunamannavegar (30) beggja vegna, breikkun vegamóta við Skarðsveg og við Auðsholtsveg og gerð reiðstígs. Nýja brúin er til hliðar við gömlu brúna, tvíbreið, staðsteypt, eftirspennt bitabrú, 145 m löng í fjórum höfum. Lengd vegkafla er rúmlega 1000 m og lengd reiðstígs rúmir 300 m.

Umferðarþungi

Eitt af markmiðum framkvæmdanna var að fækka einbreiðum brúm á landinu, sér í lagi á umferðarmiklum vegum. Umferð um Skeiða- og Hrunamannaveg hefur þyngst töluvert síðasta áratug. Frá aldamótum hefur umferðin aukist, að jafnaði, um 3,7 % á ári. Heildaraukning frá aldamótum er 124%. Heildaraukning milli áranna 2010 og 2022 er 57%.

 

Aukið öryggi fyrir hestamenn

Stefnt er að því að gamla brúin fái nýtt hlutverk sem göngu- og reiðbrú. Brúna þarf að lagfæra fyrir þetta nýja hlutverk t.d. með uppsetningu nýrra handriða. Gamla brúin tengir saman reiðleiðir sitt hvoru megin við Stóru Laxá. Hún var byggð árið 1985, er 120 metrar að lengd og 4,8 metra breið.

Á mótum tveggja sveitarfélaga

Stóra-Laxá, oft kölluð Stóra-Laxá í Hreppum, er 90 kílómetra löng dragá. Hún á upptök sín í Grænavatni, Laxárdrögum sunnan Kerlingarfjalla og fellur á hreppamörkum Hrunamanna- og Skeiða- og Gnúpverjahrepps í Hvítá hjá bænum Iðu, ásamt Litlu-Laxá. Hún er all vatnsmikil, með 512 ferkílómetra vatnasvið.

Brúin yfir Stóru-Laxá er tenging milli sveitarfélaganna tveggja, Hrunamannahrepps, og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Því þótti viðeigandi að oddvitar beggja sveitarfélaga, þeir Haraldur Þór Jónsson oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Jón Bjarnason oddviti Hrunamannahrepps, klipptu á borðann með innviðaráðherra og forstjóra Vegagerðarinnar, til að marka formlega opnun nýju brúarinnar yfir Stóru-Laxá.

Verktakar og eftirlit

Tilboð í verkið voru opnuð 24. ágúst 2021. Ístak bauð rúma 791 m.kr. í verkið sem var tæplega 82 prósent af áætluðum verktakakostnaði. Skrifað var undir verksamning við Ístak 23. september 2021. Framkvæmdir hófust í október það ár.

Tilboð í eftirlit með verkinu voru opnuð 31. ágúst 2021. Samið var við VSÓ verkfræðistofu sem bauð tæpar 17 m.kr. í eftirlitið. Verkefnastjórn og umsjón framkvæmda var í höndum framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar. Auk þessara aðila komu fjölmargir starfsmenn Vegagerðarinnar að ýmsum þáttum undirbúnings og einstökum hlutum verksins.

Með aðalverktakanum Ístaki störfuðu margir undirverktakar við útboðsverkið: Steypustöðin sá um steypuframleiðslu, Nesey annaðist jarðvinnu og vegagerð, VA-verktakar unnu við niðurlögn steypu í brúardekk, CCL sá um uppspennu, Bikun sá um klæðningar á vegum og Rekverk settu upp vegrið.

Tafir vegna kuldatíðar og afhendingu búnaðar

Verklok voru áætluð í lok september 2022 en brúin var opnuð fyrir umferð í júní 2023.

Vegna ytri aðstæðna urðu tafir á afhendingu búnaðar sem þurfti til brúargerðarinnar. Það varð þess valdandi að framkvæmdum seinkaði fram á vetur. Veturinn 2022-2023 reyndist afar kaldur með langvarandi frostatíð sem gerði erfitt um vik að steypa brúargólfið. Því var brugðið á það ráð að byggja yfir brúna og tjalda yfir og niður með hliðum að jörð. Kynt var bæði undir brúargólfið og einnig  í tjaldinu yfir brúargólfinu áður en steypt var. Þar inni var orðinn um 10° c hiti þegar steypuvinna hófst. Steypuvinna við brúargólfið hófst að morgni þriðjudagsins 24. janúar og lauk seinnipart miðvikudagsins 25.janúar og hafði vinnan þá staðið yfir samfellt í 30 klukkustundir.

Brúnni forðað frá stórtjóni

Kuldatíðin hafði fleiri áhrif á framkvæmdina. Í janúar 2023 höfðu myndast klakastíflur í árfarveginum sem voru í þann veginn í bresta. Stefndi þá í stórtjón á brúnni sem var á viðkvæmu byggingarstigi. Við byggingu brúarinnar hafði árfarvegurinn verið þrengdur og verkpallar reistir yfir hann. Fyrirséð var að vatnsopið bæri ekki stóraukið vatnsrennsli með jakaburði. Til að bjarga málum var vegurinn að gömlu brúnni rofinn 19. janúar til að opna nýjan farveg fyrir ána og skapa svigrúm fyrir aukið vatnsrennsli.  Næsta dag, þann 20. janúar, gerði asahláku eftir um sex vikna samfelldan frostakafla. Mikill ís var kominn á ána og því viðbúið að áin ryddi sig með miklu vatnsflóði og jakaburði. Þann 21. janúar, tveimur dögum eftir að vegurinn var rofinn, ruddi áin sig fram með miklu flóði og streymdi að hluta um hinn nýja farveg. Með stórvirkum vinnuvélum tókst verktakanum að bægja frá ísjökum og halda rennslinu greiðu á meðan vatnselgurinn var mestur og forða nýja mannvirkinu frá skemmdum.

Loka þurfti Skeiða- og Hrunamannavegi (30) um nokkurt skeið vegna þessa. Heimafólki og öðrum vegfarendum sem urðu fyrir óþægindum vegna lokananna er þökkuð þolinmæðin.

Slysatíðni

Slysatíðni við brúna gömlu yfir Stóru-Laxá var ekki há. Fimm atvik hafa orðið frá aldamótum. Hins vegar urðu alvarleg meiðsli á fólki í tveimur tilvikum.