Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Enn mikil aukning í umferðinni

Umferðin á Hringveginum jókst um tæp átta prósent í ágúst

4.9.2017

Enn heldur umferðin á Hringveginum áfram að aukast mjög mikið. Umferðin í ágúst á Hringveginum jókst um tæp átta prósent sem er gríðarlega mikil aukning. Samt ekki eins mikil og í fyrra þegar umferðin jókst um 13 prósent milli ára. Nú fara meira en 100 þúsund bílar um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á degi hverjum á Hringveginum. 

Það stefnir í að umferðin í ár gæti aukist um 10 prósent.

Milli mánaða 2016 og 2017
Umferðin jókst um 7,9% í ágúst miðað við sama mánuð á síðasta ári. Mest jókst umferðin um mælisnið á Suðurlandi eða um tæp 15% en minnst jókst umferðin um Vesturland eða um 5,4%. 

Þetta er talsvert mikil aukning en hún er þó tæplega helmingi minni en á síðasta ári þegar umferðin jókst um 13% milli ágúst 2016 og 2015.

Hvað einstaka mælisnið varðar þá jókst umferðin mest um mælisnið á Mýrdalssandi en minnst um mælisnið á Mývatnsheiði eða um 2,4%.

Aldrei hafa jafn mörg ökutæki mælst í ágúst á Hringveginum en samanlögð meðalumferð hvern dag fór í fyrsta sinn yfir 100 þúsund bíla markið og gott betur en að jafnaði fóru tæplega 105 þús. ökutæki á sólarhring um mælisniðin 16.

Nú hefur umferðin aukist að jafnaði um 3,8%, frá árinu 2005, en síðustu 5 ár hefur aukningin verið um 7%. 


Samanburdartafla-agust

Milli áranna 2016 og 2017, frá áramótum
Umferðin hefur nú aukist um 10,9% það sem af er ári miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þetta er gríðarleg aukning og aðeins einu sinni áður (frá því að þessi samantekt hófst) hefur mælst meiri aukning miðað við árstíma en það var á síðasta ári en þá var aukningin orðin 12,6%. 

Það sem af er ári hefur umferðin aukist mest um Suðurland en minnst um Vesturland eða um 8,5%. 

Umferð eftir vikudögum
Umferð hefur aukist mikið alla vikudaga en hlutfallslega mest á þriðjudögum eða um 12,8% sem eru að jafnaði umferðarminnstu dagarnir.  En minnst hefur aukningin, það sem af er ári, verið á sunnudögum eða um 9,5%.

Umferðarmestu dagarnir eru að jafnaði föstudagar.  

Horfur út árið 2017
Hegði umferðin sér líkt og undanfarin ár gæti umferðin aukist um 10% að meðaltali yfir mælisniðin 16.

Talnaefni


Ath. er vakin á eftirfarandi:
Öll gögn árið 2017 eru eingöngu grófrýnd og gætu því átt eftir að breytast við endanlega yfirferð.

Mælisnið Vegagerðarinnar eru í heild yfir 300, á öllu þjóðvegakerfinu, hér er því aðeins um lítið brot til athugunar, sem notað er til að gefa vísbendingu um það sem er að gerast á Hringvegi.