Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum

Dregur úr umferðaraukningu á höfuðborgarsvæðinu

minnsta mánaðaraukningin í ár í september

2.10.2018

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í september jókst um 1,5 prósent en það er minnsta aukningin í einum mánuði á þessu ári. Þetta er einnig mun minni aukning en að meðaltali í september áranna 2005-2018. Umferðin á svæðinu hefur aukist í ár um 2,7 prósent sem er einungis einn þriðji þess sem aukning var á sama tíma í fyrra. 

Milli mánaða
Umferðin um 3 lykilsnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um 1,5% í nýliðnum mánuði miðað við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er minnsta aukning milli einstakra mánuða á þessu ári, en fram til þessa hefur umferðin aukist mest á milli janúar mánaða 2017 og 2018 eða um 4,6%.  

Nú hefur umferðin aukist að jafnaði um 2,9%, í september, frá árinu 2005 þ.a.l. er umrædd aukning einungis helmingur þess sem gerist í meðalári.  Mest jókst umferðin í sniði fyrir ofan Ártúnsbrekku eða um 3,3% en dróst saman um 0,8% í sniði á Reykjanesbraut við Dalveg.

Frá áramótum
Umferðin hefur nú aukist um 2,7% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þetta er rúmlega þrisvar sinnum minni aukning en á sama tíma á síðasta ári.

Umferð eftir vikudögum
Í september var mest ekið á föstudögum rétt sjónarmun meira en á fimmtudögum.  Minnst var ekið á sunnudögum. Hlutfallslega jókst umferðin mest á miðvikudögum eða um 4,6% en minnst jókst umferðin á laugardögum eða um 0,8%.

Umferð á bíllausa deginum, laugardaginn 22. sept., var 1,5% meiri en á meðallaugardegi í septembermánuði.

Horfur út árið 2018
Nú stefnir í að umferðin í umræddum lykilsniðum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu geti aukist um 3%, sem yrði þá svipuð aukning og árin 2013 og 2014.

Talnaefni