Fréttir
  • Breytingar verða á almenningssamgöngum á landsbyggðinni um áramót.

Breytingar á akstri almenningsvagna á landsbyggðinni um áramót

Fjögur svæði boðin út síðastliðið vor

30.12.2020

Þann 1. janúar verða nokkrar breytingar á skipulagi almenningsvagna í framhaldi af útboði Vegagerðarinnar í vor. Nýir aðilar taka við akstri flestra leiða nema á Austurlandi og Vestfjörðum. Vegagerðin annast skipulag almenningssamgangna á landsbyggðinni. Hún sér þannig um skipulag á akstri almenningsvagna á milli sveitarfélaga og þéttbýlissvæða, á rekstri ferja og að haldið sé úti flugi á ákveðna staði.

Akstur almenningsvagna á landsbyggðinni hefur á undanförnum árum verið á herðum margra verktaka en rekstur hefur miðast við hverja akstursleið fyrir sig. Til að einfalda rekstur og fá betri yfirsýn yfir hvert landsvæði var ákveðið að bjóða út akstur á landsbyggðinni með nýjum hætti síðastliðið vor.

Ríkiskaup fór með umsjón útboðsins fyrir hönd Vegagerðarinnar. Útboðið var í fjórum hlutum: Vestur- og Norðurland, Norður- og Norðausturland, Suðurland og Suðurnes. Hægt var að senda inn tilboð í einstaka hluta útboðsins eða alla fjóra.

Niðurstaðan var að taka tilboði Hópbíla um Vestur- og Norðurland, Suðurland og Suðurnes, og tilboði SBA um Norður- og Norðausturland.

Austurbrú, samtök sveitarfélaga á Austurlandi, sem hingað til hefur haft umsjón með akstri almenningsvagna á Austurlandi heldur því áfram. Þá voru Vestfirðir ekki inn í útboðinu, þar er enn samið við verktaka um einstakar akstursleiðir en þó er ætlunin að gera Vestfirði að sér útboðssvæði síðar meir.

Akstur á vegum Hópbíla og SBA hefst 1. janúar 2021 en þjónustutíminn er til 31. desember 2023.

Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Strætó bs., www.straeto.is en Vegagerðin er með þjónustusamning við Strætó sem leggur til merkingar Strætó bs á vagna og stoppistöðvar og sinnir allri akstursáætlun í samstarfi við Vegagerðina, auk reksturs á þjónustuveri og upplýsingagjöf til notenda.

Vegagerðin vill koma á framfæri kærum þökkum til þeirra sem þjónustað hafa akstur á landsbyggðinni síðustu ár.


Þetta eru þær akstursleiðir sem eru í boði á landsbyggðinni

Vestur- og Norðurland                 Hópbílar ( nánari upplýsingar á straeto.is )

57 Akureyri » Sauðárkrókur » Blönduós » Borgarnes » Akranes » Reykjavík

58 Stykkishólmur » Borgarnes

59 Borgarnes » Búðardalur » Hólmavík

82 Hellissandur » Grundarfjörður » Stykkishólmur

84 Skagaströnd » Blönduós

 

Norður- og Norðausturland       SBA ( nánari upplýsingar á straeto.is )

56 Akureyri » Reykjahlíð » Egilsstaðir

78 Siglufjörður » Ólafsfjörður » Dalvík » Akureyri

79 Húsavík » Akureyri

 

Suðurnes            Hópbílar ( nánari upplýsingar á straeto.is )

55 KEF Airport » Reykjanesbær » Keilir » Fjörður » Reykjavík/HÍ

87 Vogar » Vogaafleggjari

88 Grindavík » Grindavíkurafleggjari » Reykjanesbær

89 Reykjanesbær » Garður » Sandgerði

 

Suðurland          Hópbílar ( nánari upplýsingar á straeto.is )

51 Höfn » Skaftafell » Vík »Hvolsvöllur » Selfoss » Hveragerði » Reykjavík

52 Reykjavík » Hveragerði » Selfoss » Hella » Hvolsvöllur » Landeyjahöfn

71 Þorlákshöfn » Hveragerði

72 Selfoss » Borg » Reykholt » Flúðir » Selfoss

73 Selfoss » Flúðir » Reykholt » Laugarvatn » Grímsnes » Selfoss

75 Selfoss » Stokkseyri » Eyrarbakki » Selfoss

 

Austurland         Austurbrú ( nánari upplýsingar á  straeto.is )

E1 Egilsstaðir » Reyðarfjörður » Eskifjörður » Norðfjörður (Neskaupsstaður)

E3 Seyðisfjörður » Egilsstaðir

E2 Reyðarfjörður » Fáskrúðsfjörður » Stöðvarfjörður » Breiðdalsvík

E4 Djúpivogur » Höfn

E5 Borgarfjörður » Egilsstaðir

 

Vestfirðir

Upplýsingar um almenningssamgöngur milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar.

Upplýsingar um almenningssamgöngur á Patreksfirði,Tálknafirði og Bíldudal.