Fréttir
  • Jökulsá á Sólheimasandi - flóð 27. júlí 2022
  • Flóðhæð í Jökulsá á Sólheimasandi
  • Jökulsá á Sólheimasandi - bráðabrigðabrú
  • Bakkakotsá - flóð 27. júlí 2022
  • Svaðbællisá - flóð 27. júlí 2022

Bráðabirgðabrúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi hélt

dýpkun árfarvegarins dugði til

28.7.2022

Þrátt fyrir mikla vatnavexti síðustu sólarhringa kom ekki til þess að loka þyrfti bráðabirgðabrúnni yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Það bjargaði brúnni að grafa djúpa rás í árfarveginn þannig að meira vatn kæmist undir brúna.

Gríðarlega mikið vatn var í ám á öllu Suðurlandi einsog sjá má af myndunum, ekki bara í Jökulsánni heldur t.d. einnig í Bakkakotsá og Svaðbælisá.

Þegar ljóst var í hvað stefndi var ákveðið að grafa djúpa rás í árfarveginn og hreinsa til, sjá má á einni myndinni hluta þess sem síðar var grafið í burtu. Bráðabirgðabrúin er reist á 12 m löngum stálstaurum sem reknir eru niður í árfarveginn þannig að það var gott svigrúm til að dýpka undir miðri brúnni.

Sjá má á grafinu vatnshæðina. Um kl. 16:00 þann 26. júlí má sjá lækkunina sem var tilkomin vegna þess að árfarvegurinn var dýpkaður, síðan hækkar jafnt og þétt þar til það verður skörp hækkun að morgni þess 27. júlí. Lítið lón fyrir framan sporð Sólheimajökuls virkaði tempraði hækkunina lítillega og tafði hækkunina, svo sem sjá má á grafinu.

Vatnið hefði ekki mátt hækka mikið meira til að grípa hefði þurft til aðgerða. Hefði farvegurinn ekki verið dýpkaður má ætla að hækkunin hefði haldið áfram með sama hraða og rjúfa hefði þurft veginn beggja vegna bráðabirgðabrúarinnar. Til þess kom ekki og er ástandið nú orðið eðlilegt.