Fréttir
  • Nemendur í 6. og 7. bekk Grunnskóla Þingeyrar skrifa og senda bréf til samgönguráðherra í janúar 2020.
  • Frá „fyrstu skóflustungunni“ 2. júní 2010.
  • Frá „fyrstu skóflustungunni“ 2. júní 2010.
  • Barnahópur frá Þingeyri sem viðstaddur var hátíðarsprengingu í Dýrafirði 14. september 2017.
  • Nemendur í 6. og 7. bekk Grunnskóla Þingeyrar skrifa og senda bréf til samgönguráðherra í janúar 2020.
  • Nemendur í 6. og 7. bekk Grunnskóla Þingeyrar skrifa og senda bréf til samgönguráðherra í janúar 2020.

Börnin á Þingeyri fyrst í gegnum göngin

Dýrafjarðargöng verða opnuð sunnudaginn 25. október

22.10.2020

Skólabörn í Grunnskólanum á Þingeyri verða þau fyrstu sem aka í gegnum Dýrafjarðargöng þegar þau verða opnuð sunnudaginn 25. október. Með þeim í för verður Gunnar Gísli Sigurðsson sem mokað hefur Hrafnseyrarheiði frá árinu 1974 og gerði það í síðasta sinn síðastliðið vor.

Börnin í Grunnskólanum á Þingeyri hafa tekið virkað þátt í að þrýsta á samgöngubætur í sveitarfélagi sínu. Fyrir tíu árum, 2. júní 2010, fór hópur krakka úr skólanum ásamt foreldrum og starfsfólki, alls um 70 manns, og byrjaði að grafa göng undir Hrafnseyrarheiði. Markmið gjörningsins var að vekja athygli á því að göngin höfðu nokkrum sinnum verið slegin út af samgönguáætlun. Því má segja að börnin hafi tekið fyrstu skóflustunguna að Dýrafjarðargöngum þó eiginlegar framkvæmdir við göngin hafi ekki farið af stað fyrr en sjö árum síðar.

Þau börn sem tóku þátt í uppgreftrinum fyrir tíu árum eru nú orðin fullorðin, kannski sum sjálf orðnir foreldrar. Nú er það næsta kynslóð sem tekur við en í byrjun þessa árs sendu fulltrúar nemenda í 6. og 7. bekk Grunnskólans á Þingeyri samgönguráðherra bréf í byrjun árs. Þar óskuðu þau eftir því að börnin í bænum fengju að vera þau fyrstu sem færu í gegnum göngin þegar þau yrðu opnuð.

Samgönguráðherra tók vel í þessa beiðni og sendi á dögunum svarbréf þar sem hann hrósaði krökkunum fyrir frumkvæðið og því að taka ábyrgð á því að vera virkir þátttakendur í samfélaginu sínu. Hann lýsti ánægju yfir því að geta uppfyllt ósk barnanna um að vera þau fyrstu sem færu í gegnum göngin og bætti því jafnframt við að með þeim í för yrði Gunnar Gísli Sigurðsson sem mokað hefur Hrafnseyrarheiðina í hátt í hálfa öld.

Hér má nálgast myndband frá síðasta mokstrinum yfir Hrafnseyrarheiði