Fréttir
  • Biskupsbeygjan heyrir nú sögunni til en nýr og beinni vegur hefur verið tekinn í notkun
  • Opnað var fyrir umferð á nýja kaflanum í júlí.
  • Engin marktæk stytting verður á veginum þó beygjan hverfi en öryggið hefur hins vegar aukist til muna.

Biskupsbeygjan er öll

Framkvæmdafréttir 5. tbl 2021 eru komnar á netið

15.9.2021

Opnað var fyrir umferð á nýjum vegarkafla um Heiðarsporð á Holtavörðuheiði í júlí en þar með var kvödd varasöm beygja á Hringveginum sem í daglegu tali er kölluð Biskupsbeygja. Engum er söknuður að beygjunni sem var stórvarasöm og völd að ófáum slysum í gegnum árin.
„Biskupsbeygja hefur verið stórhættuleg og mikið af útafkeyrslum á veturna. Meira að segja urðu nokkrar slíkar á framkvæmdatímanum,“ segir Reynir Georgsson verkfræðingur á tæknideild Vestursvæðis sem var umsjónarmaður framkvæmdarinnar Hringvegur (1), um Heiðarsporð.

Verkið var boðið út 2020 en upphaflega var ætlunin að bjóða það út ári síðar. Ákveðið var að flýta útboðinu sem hluta af átaki ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins.

Verkið snérist um endurbyggingu á 1,8 km kafla á Hringvegi um Heiðarsporð í sunnanverðri Holtavörðuheiði þar sem hún tekur að lækka í átt að Norðurárdal. Nýi vegkaflinn tengist núverandi vegi um 200 m norðan við brú yfir Norðurá og tekur beygju til norðvesturs frá núverandi vegi með mýkri veglínu en núverandi vegur.
Töluverðar breytingar urðu á veglínu við framkvæmdina en verkið fól einnig í sér upprif á slitlagi og útjöfnun gamla vegarins en ákveðið var að bíða með að fjarlægja gamla veginn. Nýi vegurinn er 9,0 m að breidd. Þar af er akbrautin 7,0 m og hvor öxl 1,0 m.

Beygjan var barn síns tíma

Inntur eftir því af hverju þessi skrítna beygja hafi yfirleitt verið á veginum svarar Reynir að líklega hafi þurft að laga veglínuna að náttúrulegum aðstæðum á heiðinni. „Gamli vegurinn liggur á melum en nýi vegurinn fer yfir mýrlendi. Að leggja veg yfir mýri kallar á nútímalegri framkvæmd enda þarf að setja farg, reikna sigtíma og gera ýmsar rannsóknir áður en hægt er að byrja að leggja sjálfan veginn. Þetta hefur líklega ekki þótt gerlegt hér áður fyrr.“

Reynir segir enga marktæka styttingu verða á veginum þó beygjan hverfi en hins vegar hafi öryggið aukist umtalsvert og ekki bara á nýja vegkaflanum heldur einnig ofar á heiðinni. „Við framkvæmdirnar kom upp mikið magn af ónothæfum jarðvegi sem við ákváðum að nota við vegkaflann í Jónsflóa. Þar er vegurinn hátt byggður upp en við nýttum jarðveginn til að gera svokallaða fláafleyga sem gera veginn öruggari með tilliti til útafaksturs,“ lýsir Reynir en slíkir fleygar eru í raun aflíðandi brekkur út frá veginum.

Fundu gamla brú

Reynir segir framkvæmdir hafa gengið nokkuð vel og framkvæmdatími hafi staðist nokkurn vegin. Spurður hvort eitthvað óvænt hafi gerst rifjar hann upp að verktakinn hafi þurft að fara yfir námu sem ekki var vitað af áður. Þar hafi fundist gömul steypt brú. „Brúin hafði verið urðuð í námunni og þessi fundur kom okkur dálítið á óvart. Við þurftum að fjarlægja brúna og farga henni.“

Hann segir að einn lærdóm hafi menn dregið af framkvæmdinni. „Við þurfum að standa okkur betur í að hanna og leggja hjáleiðir,“ segir hann en hjáleiðin var lögð og klædd áður en frost fór úr jörðu. „Þegar hlýnaði fór hún illa og erfitt var að halda henni við enda nokkur þungaumferð um heiðina.“

Umferðin gekk hægt um framkvæmdasvæðið en sett var á 30 km hámarkshraði vegna ástand hjáleiðarinnar. Framkvæmdin hafði því töluverð áhrif á ökumenn, sér í lagi þegar umferðarþungi var mikill en samkvæmt umferðartölum frá árinu 2018 er umferðin á þessum stað 2400 bílar á sólarhring yfir sumartímann.

Ekki fornt heiti

Sumir gætu haldið að Biskupsbeygjan dragi nafn sitt af fornum biskupum eða náttúrufyrirbrigðum á Holtavörðuheiði en svo er víst ekki. Sagan segir að biskup Íslands hafi eftir miðja síðustu öld lent þar útaf í hríð og snjó og setið fastur. Þá hafi komið þar að bílstjóri Norðurleiðar og bjargað biskupi. Varð þá til þetta heiti sem síðan hefur ratað víða, meðal annars í samgönguáætlun og dagbækur lögreglunnar enda tíð slys á vegkaflanum.

Þessi grein birtist í 5. tbl. Framkvæmdafrétta.  Rafræna útgáfu má finna hér.   Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.