Fréttir
  • Starfsmenn Vegagerðar að störfum í Héðinsfjarðargöngum.
  • Birtan verður hvítari með nýju perunum.
  • Skipta þarf um búnað í ljósinu.

Birtir til í Héðinsfjarðargöngum

Gömlum perum skipt út fyrir LED perur

27.5.2019

Nýverið var skipt um perur í styttri Héðinsfjarðargöngum. Sú lýsing sem hefur verið þar hingað til er frá lágþrýstum natríum NaL perum sem gefa gula birtu. Hins vegar stendur til að hætta framleiðslu á slíkum perum og verða þær bannaðar í Evrópu og líklega víðar. Því var ákveðið að skipta þeim út til prufu á 3,9 kílómetra kafla í Héðinsfjarðargöngum og setja í stað þeirra LED perur sem gefa hvítari birtu sem þykir ákjósanlegri en gula birtan. Auk þess nýtir LED peran rafmagn enn betur.
Í þetta sinn var skipt um 220 ljós. Það tók starfsmenn Vegagerðarinnar dágóðan tíma enda þarf að skipta um ákveðinn búnað í ljósinu til að hann henti LED perunni betur. Það tók fimm manna gengi eina klukkustund að skipta um 10 perur og verkið í heild tók því þrjá til fjóra daga.
Gísli Eiríksson forstöðumaður jarðganga hjá Vegagerðinni segir að væntanlega þurfi að skipta út öllum ljósum í göngum landsins þegar fram í sækir. LED ljós eru nú þegar í Norðfjarðargöngum og Vaðlaheiðargöngum.