Fréttir
  • Covid Umferðin á Hb vikuleg 46
  • Covid umferðin það sem af er ári 16.11.2020

Aukning frá síðustu viku

en samdráttur miðað við fyrir ári síðan

16.11.2020

Þótt umferðin í viku 46 í ár sé meiri en í síðustu viku, sem nemur 4,4 prósentum nemur samdrátturinn frá því í sömu viku fyrir ári síðan nærri 20 prósentum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er svipuð hegðun og jafnan, þ.e.a.s. breytingarnar á milli vikna utan að í ár er gríðarlegur samdráttur miðað við fyrri ár.

Umferðin í viku 46 jókst talsvert miðað við viku 45 á þessu ári eða um 4,4% í þremur lykilmælisniðum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, en dróst aftur á móti saman um 19,5% sé miðað við sömu viku á síðasta ári.  Þetta er hlutfallslega nákvæmlega sami samdráttur, þegar horft er á samanburð við síðasta ár, og varð í viku 43 og umferðin er einnig svipuð og í þeirri viku.  Þessi einkenni (að vika 43 og 46 séu álíka stórar) eru ekki fjarri því hvernig þetta var á síðasta ári og jafnvel árið þar á undan, nema núna er hún 19,5% minni eins og áður sagði.

Minnst dregst umferð saman um mælisnið á Reykjanesbraut eða um 14,1% en mest um mælisnið við Kópavogslæk eða um 27,7%.  Þetta er í takt við það sem hefur verið að gerast nánast allt þetta ár að umferðin dregst minnst saman á Reykjanesbraut og mest um Hafnarfjarðarveg.

Uppsafnaður samdráttur mælisniða það sem af er nóvember:

Hafnarfjarðarvegur við Kópavogslæk         -32,6%
Reykjanesbraut við Dalveg                           -19,9%
Vesturlandsvegur ofan Ártúnsbrekku          -21,9%

Af þessu sést að mælisnið á Hafnarfjarðarvegi sýnir u.þ.b. þriðjungi meiri samdrátt en hin sniðin tvö, sem er í takt við það sem hefur verið að gerast allt þetta ár.