1900

Þjóðólfur, 19. janúar, 1900, 52. árg., 3. tbl., bls. 10:

Hjá verkfræðingnum.
Síðan rannsókn sú var hafin, er getið var um í síðasta blaði !!!!, gegn Einari Finnssyni vegfræðingi, hefur margt um hana verið talað hér í bænum, án þess að menn hafi þó fullkomlega vitað, hvernig kærunni var háttað, eða hver atriði það eru, sem hún einkanlega er byggð á. Til að skýra málefni þetta fyrir almenningi, er varðar hann miklu, og til að koma í veg fyrir ósannar getgátur manna um kæruefnið, höfum vér leitað upplýsinga hjá hr. Sigurði Thoroddsen verkfræðingi, og spurðum hann fyrst um, hvort hann hefði ekki fyrstur kært þetta fyrir bæjarfógeta, og kvað hann það satt vera. Báðum vér hann þá að skýra oss frá tildrögum og gangi máls þessa, er væri svo þýðingarmikið og alvarlegt, og varð hann fúslega við þeim tilmælum.
Hann kvaðst í haust hafa heyrt því fleygt, að það mundi viðgangast hjá einum verkstjóranum, Einari Finnsyni, að hann léti verkamennina kvitta fyrir meira kaupi, en þeir hefðu tekið á móti, og það hefði verið altalað meðal verkamanna fyrir austan, að verkstjóri og 2 aðrir honum nákomnir “gerðu út menn”, þ.e. réðu menn til vegavinnunar fyrir viss daglaun, en létu þá kvitta fyrir hærra kaupi. Einn þessara manna, er þannig var ráðinn, Ólafur Oddsson, hafði verið ráðinn af Högna Finnssyni (bróður Einars) í vegagerð fyrir 2 kr. á dag, en þá er hann um haustið rétt fyrir vegavinnulok tók á móti kaupinu 2 kr. fyrir dag hvern, hefði hann orðið þess var, að á kaupskránni stóð 2 kr. 80 a. fyrir dag hvern og hefði hann orðið að kvitta fyrir þeirri upphæð, en síðar hefði hann farið að hugsa út í, hvernig á þessu stæði og hvort það mundi leyfilegt, og fór svo á landshöfðingjaskrifstofuna til að kvarta undan þessu; eftir nokkra rekistefnu hefði svo E.F. orðið að borga Ólafi það sem á vantaði, en bæði hann og Högni hefðu ávítað Ó. harðlega fyrir að hafa “klagað” undan þessu, og sagt, að Sigurður Ámundason, sem mörg ár hefði verið í vegavinnu hjá Einari, hefði ávallt verð mjög ánægður með að fá 2 kr. á dag (en Sigurður þessi stóð á Kaupskránni með 3 kr. daglaunum). Þóttist E. gagnvart Ólafi hafa fullt leyfi til að taka menn upp á þessa skilmála, og kvað það hafa viðgengist hjá sér um mörg ár.
Hr. Sig. Th. kvaðst hafa heyrt getið um 8-10 menn alls, er hefðu verið “gerðir út” af verkstjóra eða frændum hans, auk Sig. Ám. og 6-7 vinnumanna þeirra frændanna. – Þá gat hr. S.Th. þess, að einn verkamannanna (Guðm. Magnússon), hefði staðið á kaupskránni með 121 dagsverk, en sagðist hafa unnið 92 um sumarið, og fleiri séu þeir af verkamönnunum, er standi með of mörg dagsverk á kaupskránum, einn sé t.d. talinn hafa unnið 41 dagsv. í Svínahrauni, en það hafi sannast, að sá maður hafi ekki unnið einn dag í hrauninu.
Þessir 2 fyrrnefndu vottar (Ólafur og Guðm.) hafa borið, að þeir hefðu heyrt, að maður nokkur (Sig. Daníelsson), er kvittað hafi fyrir 14 hestum, hafi fengið 35 kr. fyrir hvern hest hjá Einari, en eftir reikningunum hefðu það átt að vera 65 kr. fyrir hvern hest. Fyrir rétti hafi Sig. Dan. Kannast við, að hann hefði sagt, að hann fengi 35 kr. fyrir hvern hest, en kvaðst hafa sagt það aðeins til þess, að menn skyldu ekki öfunda sig af því, að fá svona mikið (65 kr.) fyrir hestinn. Jafnframt var borið, að nokkrir af þessum hestum hefðu verið svo magrir og illa útlítandi um vorið, að þeir hafi hvað eftir annað gefist upp undir vögnunum og lagst niður.
Um kaup Sig. Ámundas. hjá Einari ber vitnisburðum manna fyrir réttinum alls ekki saman, að því er S.Th. segir, og hljóti því framburður einhverra að vera boginn. T.d. gat hann þess, að Sig. Ámundason segðist hafa fengið 3 kr. um daginn og sver það, en annar maður ber það, að Sig.Á. hafi sagt sér, að hann fengi aðeins 2 kr. hjá Einari, en S.Á. þykist ekki muna eftir því; tveir aðrir menn bera það og sverja, að Högni Finnsson hafi sagt sér, að S.Á. hefði 2 kr. (en Högni þykist ekki muna það), ennfremur beri einn maður það, að Einar hafi sjálfur sagt við sig, að S.Á. hefði 2 kr., en Einar kveður það ósatt, að hann hafi svo mælt.
Vér spurðum verkfræðinginn, hvort það væru aðeins reikningar frá síðasta sumri, er rannsakaðir hefðu verið, og kvað hann svo vera, og þeir væru ekki fullrannsakaðir enn, því allir verkamennirnir hefðu ekki verið yfirheyrðir enn. Svo væri eftir að rannsaka reikninga frá fyrirfarandi sumrum, og gæti verið, að þar fyndist eitthvað athugavert líka.
Vér spurðum hann loks um, hvort rannsóknardómarinn (bæjarfógetinn) gengi ekki ötullega fram í að leiða sannleikann í ljós í þessu máli, er varðaði svo mjög almenning og hag landssjóðs, því að í bænum væru sumir að flimta um, að það kynni að hafa einhver áhrif, að rannsóknardómarinn og E.F. væru Oddfellóar. S.Th. kvaðst ekki geta eða vilja dæma um það, en það væri þó sannfæring sín, að þessi félagsskapur ætti ekki að geta haft nein áhrif á málið. Þá vorum vér ánægðir, þökkuðum fyrir upplýsingarnar, tókum hatt vorn og kvöddum.


Þjóðólfur, 19. janúar, 1900, 52. árg., 3. tbl., bls. 10:

Hjá verkfræðingnum.
Síðan rannsókn sú var hafin, er getið var um í síðasta blaði !!!!, gegn Einari Finnssyni vegfræðingi, hefur margt um hana verið talað hér í bænum, án þess að menn hafi þó fullkomlega vitað, hvernig kærunni var háttað, eða hver atriði það eru, sem hún einkanlega er byggð á. Til að skýra málefni þetta fyrir almenningi, er varðar hann miklu, og til að koma í veg fyrir ósannar getgátur manna um kæruefnið, höfum vér leitað upplýsinga hjá hr. Sigurði Thoroddsen verkfræðingi, og spurðum hann fyrst um, hvort hann hefði ekki fyrstur kært þetta fyrir bæjarfógeta, og kvað hann það satt vera. Báðum vér hann þá að skýra oss frá tildrögum og gangi máls þessa, er væri svo þýðingarmikið og alvarlegt, og varð hann fúslega við þeim tilmælum.
Hann kvaðst í haust hafa heyrt því fleygt, að það mundi viðgangast hjá einum verkstjóranum, Einari Finnsyni, að hann léti verkamennina kvitta fyrir meira kaupi, en þeir hefðu tekið á móti, og það hefði verið altalað meðal verkamanna fyrir austan, að verkstjóri og 2 aðrir honum nákomnir “gerðu út menn”, þ.e. réðu menn til vegavinnunar fyrir viss daglaun, en létu þá kvitta fyrir hærra kaupi. Einn þessara manna, er þannig var ráðinn, Ólafur Oddsson, hafði verið ráðinn af Högna Finnssyni (bróður Einars) í vegagerð fyrir 2 kr. á dag, en þá er hann um haustið rétt fyrir vegavinnulok tók á móti kaupinu 2 kr. fyrir dag hvern, hefði hann orðið þess var, að á kaupskránni stóð 2 kr. 80 a. fyrir dag hvern og hefði hann orðið að kvitta fyrir þeirri upphæð, en síðar hefði hann farið að hugsa út í, hvernig á þessu stæði og hvort það mundi leyfilegt, og fór svo á landshöfðingjaskrifstofuna til að kvarta undan þessu; eftir nokkra rekistefnu hefði svo E.F. orðið að borga Ólafi það sem á vantaði, en bæði hann og Högni hefðu ávítað Ó. harðlega fyrir að hafa “klagað” undan þessu, og sagt, að Sigurður Ámundason, sem mörg ár hefði verið í vegavinnu hjá Einari, hefði ávallt verð mjög ánægður með að fá 2 kr. á dag (en Sigurður þessi stóð á Kaupskránni með 3 kr. daglaunum). Þóttist E. gagnvart Ólafi hafa fullt leyfi til að taka menn upp á þessa skilmála, og kvað það hafa viðgengist hjá sér um mörg ár.
Hr. Sig. Th. kvaðst hafa heyrt getið um 8-10 menn alls, er hefðu verið “gerðir út” af verkstjóra eða frændum hans, auk Sig. Ám. og 6-7 vinnumanna þeirra frændanna. – Þá gat hr. S.Th. þess, að einn verkamannanna (Guðm. Magnússon), hefði staðið á kaupskránni með 121 dagsverk, en sagðist hafa unnið 92 um sumarið, og fleiri séu þeir af verkamönnunum, er standi með of mörg dagsverk á kaupskránum, einn sé t.d. talinn hafa unnið 41 dagsv. í Svínahrauni, en það hafi sannast, að sá maður hafi ekki unnið einn dag í hrauninu.
Þessir 2 fyrrnefndu vottar (Ólafur og Guðm.) hafa borið, að þeir hefðu heyrt, að maður nokkur (Sig. Daníelsson), er kvittað hafi fyrir 14 hestum, hafi fengið 35 kr. fyrir hvern hest hjá Einari, en eftir reikningunum hefðu það átt að vera 65 kr. fyrir hvern hest. Fyrir rétti hafi Sig. Dan. Kannast við, að hann hefði sagt, að hann fengi 35 kr. fyrir hvern hest, en kvaðst hafa sagt það aðeins til þess, að menn skyldu ekki öfunda sig af því, að fá svona mikið (65 kr.) fyrir hestinn. Jafnframt var borið, að nokkrir af þessum hestum hefðu verið svo magrir og illa útlítandi um vorið, að þeir hafi hvað eftir annað gefist upp undir vögnunum og lagst niður.
Um kaup Sig. Ámundas. hjá Einari ber vitnisburðum manna fyrir réttinum alls ekki saman, að því er S.Th. segir, og hljóti því framburður einhverra að vera boginn. T.d. gat hann þess, að Sig. Ámundason segðist hafa fengið 3 kr. um daginn og sver það, en annar maður ber það, að Sig.Á. hafi sagt sér, að hann fengi aðeins 2 kr. hjá Einari, en S.Á. þykist ekki muna eftir því; tveir aðrir menn bera það og sverja, að Högni Finnsson hafi sagt sér, að S.Á. hefði 2 kr. (en Högni þykist ekki muna það), ennfremur beri einn maður það, að Einar hafi sjálfur sagt við sig, að S.Á. hefði 2 kr., en Einar kveður það ósatt, að hann hafi svo mælt.
Vér spurðum verkfræðinginn, hvort það væru aðeins reikningar frá síðasta sumri, er rannsakaðir hefðu verið, og kvað hann svo vera, og þeir væru ekki fullrannsakaðir enn, því allir verkamennirnir hefðu ekki verið yfirheyrðir enn. Svo væri eftir að rannsaka reikninga frá fyrirfarandi sumrum, og gæti verið, að þar fyndist eitthvað athugavert líka.
Vér spurðum hann loks um, hvort rannsóknardómarinn (bæjarfógetinn) gengi ekki ötullega fram í að leiða sannleikann í ljós í þessu máli, er varðaði svo mjög almenning og hag landssjóðs, því að í bænum væru sumir að flimta um, að það kynni að hafa einhver áhrif, að rannsóknardómarinn og E.F. væru Oddfellóar. S.Th. kvaðst ekki geta eða vilja dæma um það, en það væri þó sannfæring sín, að þessi félagsskapur ætti ekki að geta haft nein áhrif á málið. Þá vorum vér ánægðir, þökkuðum fyrir upplýsingarnar, tókum hatt vorn og kvöddum.