1900

Bjarki, 21. mars, 1900, 5. árg., 11. tbl., bls. 42:

Akbrautin fyrirhugaða.
Grein mín í Bjarka 9. f.m. um akveg frá Héraði til fjarða hefur Axel sýslumaður Tulinius á Eskifirði nú svarað í Austra 10. þ.m. Hann segir að grein mín, og annað, sem fram hefur komið í Bjarka um þetta mál, sé skrifað til þess, að spilla fyrir akbrautarlagningu um Fagradal til að samtengja Héraðið og firðina. Eftir því að dæma á mér ekki að hafa gengið annað en illgirnin ein til að rita greinina, en þeirri aðdróttun sýslumannsins verð ég að beina frá mér sem alveg ástæðulausri og ósannri.
Ég áleit, og álít enn, skyldu mína að segja skoðun mína afdráttarlaust á því, hvar heppilegast mundi að leggja þessa umræddu akbraut; þetta gerði ég þá aðeins lauslega en skal nú betur sýna fram á hið sama, og það engu síður fyrir það, þótt sýslumaður þykist virða dóm minn að vettugi. Ég vildi ekki bjóða honum út í því að dæma brotlega trollarakapteina enda þótt slíkt lægi innan míns verkahrings, en í því að dæma um akbrautarlagningu á Fagradal og Fjarðarheiði ætla ég að bjóða honum út og mega óhlutdrægnir menn, sem þekkingu hafa á þeim efnum, skera þar úr málum milli okkar.
Þá mætti svo virðast af grein sýslumanns sem þessi akbrautarlagning um Fagradal væri þegar útkljáð mál. Hann kemst svo að orði: “Í lögum 13. apríl 1894, 3. gr. stendur, að flutningabraut skuli vera frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal til Lagarfljóts”. Og svo bætir hann við, að þessi ákvörðun í lögunum sé auðvitað tekin eftir að kostir og ókostir á Fagradal og öðrum vegum milli Héraðs og fjarða hafi verið vegnir hver á móti öðrum.
En þrátt fyrir þetta langar mig þó til að vega Fagradal og Fjarðarheiði hvort á móti og reyna að sýna mönnum hvor þessara fjallvega ætti að verða þyngri á metaskálunum.
. Sýslumaður hefur það eftir Páli vegfræðingi, að brattinn á Fagradal þurfi hvergi að vera meiri en 1 á móti 15. Ég get aftur á móti sagt eftir lærðum mannvirkjafræðingi, sem ég hef orðið samferða yfir Fjarðarheiði, að brattinn á henni Seyðisfjarðarmegin (og um annan bratta er ekki að tal) þyrfti ekki að vera meiri en 1 á móti 20 þar sem brattast yrði.
. Vegalengdin frá Búðareyri við Reyðarfjörð að brúarstæðinu á Lagarfljóti verður rúmum þriðjungi lengri en af Seyðisfjarðaröldu á sama stað.
. Vegarspottinn af melunum fyrir innan Seljateig og upp á varp á Fagradal mundi verða svo afardýr, að eflaust mætti leggja helmingi lengri veg á Fjarðarheiði fyrir þá fjárupphæð sem til hans gengi, og viðhald vegarins á þessum litla spotta mundi kosta mikið fé árlega, þar sem viðhald vegarins á Fjarðarheiði mundi litlu nema.
. Snjóþyngsli á Fagradal Reyðarfjarðarmegin eru oft svo mikil að undrum gegnir. Til að sjá það og skilja, að snjórinn kreppir þar að frá dölunum umhverfis, þarf ekki hálærða menn. Allt öðruvísi er þessu varið á Fjarðarheiði. Snjó leggur mjög jafnt á hana, og þar sem ég álít að akbrautin yrði lögð ætla ég að hagi svo til, að hún lenti sjaldan undir snjó allan veturinn, að minnsta kosti mjög seint að haustinu og kæmi upp snemma að vorinu.
. Þó hægt verði að aka yfir Fagradal stuttan tíma úr sumrinu, þá er ekki um vetrarakstur að tala eftir honum, því til þessa er hann gjörsamlega ófær. Annað mál er um Fjarðarheiði; yfir hana má aka allan veturinn.
. Þó svo færi, að akbraut kæmist á um Fagradal, mundi hún lítið sem ekkert vera notuð. Héraðsmenn mundu eftir sem áður sækja vörur sínar á Seyðisfjörð á hestum sínum eins og nú. Til þess að koma að fullum notum, verður akbrautin að liggja til höfuðkaupstaðarins.
. Seyðisfjörður hefur þar margt til síns ágætis fram yfir Reyðarfjörð. Þar er óefað sú höfn hér á Austfjörðum, sem flest skip koma við á. Viðvíkjandi innsiglingu á Seyðisfjörð og Reyðarfjörð skal ég nefna tvö dæmi. Veturinn 1884 í mars kom ég frá Noregi með gufuskipinu “Nordkap” frá Bergen til Seyðisfjarðar. Hér um bil 20 mílur undan landi kom þoka á, en skipstjóri kvaðst óhræddur leggja inn til Seyðisfjarðar af því innsiglingin þangað væri svo góð. 1895 í nóvember kom ég einnig frá Noregi með gufuskipinu “Alf”, kaft. Torland, sem mörg ár hafði verið stýrimaður eða kafteinn með skipinu hér við land. Við komum upp undir Reyðarfjörð í glaða tunglskini og besta veðri og sáum Seleyna. En kafteinninn treysti sér ekki til að leggja inn og urðum við að bíða úti fyrir alla nóttina. Það sem hann bar fyrir var hræðsla við svokallaðar “Brökur” og svo straum er kynni að vera. Hvers mætti vænta af ókunnugum kafteini þar sem gagnkunnugur maður þorði ekki annað en að vera svo varasamur?
Hve miklu fé þyrfti líka ekki að kosta til, til viðbótar við vegalagninguna á Fagradal, áður jafngóðar jafn góðar bryggjur væru komnar í Reyðarfirði og nú eru hér á Seyðisfirði?
Og hvers vegna ættu menn svo að velja lengri leiðina í stað hinnar styttri?
Lagarfljótsbrúarefninu sleppi ég að sinni, af því ég hef heyrt, að Thor E. Tulinius sé búinn að takast á hendur að koma því að brúarstæðinu. En líklega verður því veitt eftirtekt, hvort ekki hefði mátt koma því fljótlega aðrar leiðir en um Fagradal og einnig, hvort ekki hefði mátt spara landssjóði nokkrar krónur með því, að auglýsa flutninginn í blöðunum hér og gefa mönnum á þann hátt kost á að vera fleirum um boðið.
Seyðisfirði 14. mars 1900.
Guðmundur Hávarðsson


Bjarki, 21. mars, 1900, 5. árg., 11. tbl., bls. 42:

Akbrautin fyrirhugaða.
Grein mín í Bjarka 9. f.m. um akveg frá Héraði til fjarða hefur Axel sýslumaður Tulinius á Eskifirði nú svarað í Austra 10. þ.m. Hann segir að grein mín, og annað, sem fram hefur komið í Bjarka um þetta mál, sé skrifað til þess, að spilla fyrir akbrautarlagningu um Fagradal til að samtengja Héraðið og firðina. Eftir því að dæma á mér ekki að hafa gengið annað en illgirnin ein til að rita greinina, en þeirri aðdróttun sýslumannsins verð ég að beina frá mér sem alveg ástæðulausri og ósannri.
Ég áleit, og álít enn, skyldu mína að segja skoðun mína afdráttarlaust á því, hvar heppilegast mundi að leggja þessa umræddu akbraut; þetta gerði ég þá aðeins lauslega en skal nú betur sýna fram á hið sama, og það engu síður fyrir það, þótt sýslumaður þykist virða dóm minn að vettugi. Ég vildi ekki bjóða honum út í því að dæma brotlega trollarakapteina enda þótt slíkt lægi innan míns verkahrings, en í því að dæma um akbrautarlagningu á Fagradal og Fjarðarheiði ætla ég að bjóða honum út og mega óhlutdrægnir menn, sem þekkingu hafa á þeim efnum, skera þar úr málum milli okkar.
Þá mætti svo virðast af grein sýslumanns sem þessi akbrautarlagning um Fagradal væri þegar útkljáð mál. Hann kemst svo að orði: “Í lögum 13. apríl 1894, 3. gr. stendur, að flutningabraut skuli vera frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal til Lagarfljóts”. Og svo bætir hann við, að þessi ákvörðun í lögunum sé auðvitað tekin eftir að kostir og ókostir á Fagradal og öðrum vegum milli Héraðs og fjarða hafi verið vegnir hver á móti öðrum.
En þrátt fyrir þetta langar mig þó til að vega Fagradal og Fjarðarheiði hvort á móti og reyna að sýna mönnum hvor þessara fjallvega ætti að verða þyngri á metaskálunum.
. Sýslumaður hefur það eftir Páli vegfræðingi, að brattinn á Fagradal þurfi hvergi að vera meiri en 1 á móti 15. Ég get aftur á móti sagt eftir lærðum mannvirkjafræðingi, sem ég hef orðið samferða yfir Fjarðarheiði, að brattinn á henni Seyðisfjarðarmegin (og um annan bratta er ekki að tal) þyrfti ekki að vera meiri en 1 á móti 20 þar sem brattast yrði.
. Vegalengdin frá Búðareyri við Reyðarfjörð að brúarstæðinu á Lagarfljóti verður rúmum þriðjungi lengri en af Seyðisfjarðaröldu á sama stað.
. Vegarspottinn af melunum fyrir innan Seljateig og upp á varp á Fagradal mundi verða svo afardýr, að eflaust mætti leggja helmingi lengri veg á Fjarðarheiði fyrir þá fjárupphæð sem til hans gengi, og viðhald vegarins á þessum litla spotta mundi kosta mikið fé árlega, þar sem viðhald vegarins á Fjarðarheiði mundi litlu nema.
. Snjóþyngsli á Fagradal Reyðarfjarðarmegin eru oft svo mikil að undrum gegnir. Til að sjá það og skilja, að snjórinn kreppir þar að frá dölunum umhverfis, þarf ekki hálærða menn. Allt öðruvísi er þessu varið á Fjarðarheiði. Snjó leggur mjög jafnt á hana, og þar sem ég álít að akbrautin yrði lögð ætla ég að hagi svo til, að hún lenti sjaldan undir snjó allan veturinn, að minnsta kosti mjög seint að haustinu og kæmi upp snemma að vorinu.
. Þó hægt verði að aka yfir Fagradal stuttan tíma úr sumrinu, þá er ekki um vetrarakstur að tala eftir honum, því til þessa er hann gjörsamlega ófær. Annað mál er um Fjarðarheiði; yfir hana má aka allan veturinn.
. Þó svo færi, að akbraut kæmist á um Fagradal, mundi hún lítið sem ekkert vera notuð. Héraðsmenn mundu eftir sem áður sækja vörur sínar á Seyðisfjörð á hestum sínum eins og nú. Til þess að koma að fullum notum, verður akbrautin að liggja til höfuðkaupstaðarins.
. Seyðisfjörður hefur þar margt til síns ágætis fram yfir Reyðarfjörð. Þar er óefað sú höfn hér á Austfjörðum, sem flest skip koma við á. Viðvíkjandi innsiglingu á Seyðisfjörð og Reyðarfjörð skal ég nefna tvö dæmi. Veturinn 1884 í mars kom ég frá Noregi með gufuskipinu “Nordkap” frá Bergen til Seyðisfjarðar. Hér um bil 20 mílur undan landi kom þoka á, en skipstjóri kvaðst óhræddur leggja inn til Seyðisfjarðar af því innsiglingin þangað væri svo góð. 1895 í nóvember kom ég einnig frá Noregi með gufuskipinu “Alf”, kaft. Torland, sem mörg ár hafði verið stýrimaður eða kafteinn með skipinu hér við land. Við komum upp undir Reyðarfjörð í glaða tunglskini og besta veðri og sáum Seleyna. En kafteinninn treysti sér ekki til að leggja inn og urðum við að bíða úti fyrir alla nóttina. Það sem hann bar fyrir var hræðsla við svokallaðar “Brökur” og svo straum er kynni að vera. Hvers mætti vænta af ókunnugum kafteini þar sem gagnkunnugur maður þorði ekki annað en að vera svo varasamur?
Hve miklu fé þyrfti líka ekki að kosta til, til viðbótar við vegalagninguna á Fagradal, áður jafngóðar jafn góðar bryggjur væru komnar í Reyðarfirði og nú eru hér á Seyðisfirði?
Og hvers vegna ættu menn svo að velja lengri leiðina í stað hinnar styttri?
Lagarfljótsbrúarefninu sleppi ég að sinni, af því ég hef heyrt, að Thor E. Tulinius sé búinn að takast á hendur að koma því að brúarstæðinu. En líklega verður því veitt eftirtekt, hvort ekki hefði mátt koma því fljótlega aðrar leiðir en um Fagradal og einnig, hvort ekki hefði mátt spara landssjóði nokkrar krónur með því, að auglýsa flutninginn í blöðunum hér og gefa mönnum á þann hátt kost á að vera fleirum um boðið.
Seyðisfirði 14. mars 1900.
Guðmundur Hávarðsson