1893

Þjóðólfur, 24. mars 1893, 45. árg., 14. tbl., forsíða:

Vegurinn um Eyrabakka.
Þó að samgöngu- og vegamálið hafi verið eitt hið mesta áhugamál þjóðarinnar nú í nokkur ár, og mikið hafi verið gert til að endurbæta gamla vegi og leggja nýja, þá hefur vegurinn um Eyrarbakka orðið mjög út undan í því efni, því þegar farinn er vegurinn frá Baugstöðum út á Eyrarbakka og jafnvel að Óseyrarnesi, getur manni komið til hugar, að maður sé fyrir 20 árum að ferðast um einhvern útkjálka landsins, en ekki um annan hinn fjölfarnasta veg á Suðurlandi. Á öllum þessum vegi hefur ekki verið kastað steini úr götu nú í mörg ár, og þó á vegi þessum séu allgóðir kaflar, þá er hann mestallur mjög vondur yfirferðar og má heita, að skepnur geti víðast ekki stigið svo fæti, að þær rekist ekki á lausagrjót, og þar af leiðandi fengið meiðsli á fótum, þegar þær eru að dragast með þungar klyfjar aftur og fram, enda má oft sjá hestafætur hróflaðar af grjótinu, að ég ekki tali um þann háska, sem mönnum er búinn, sem verður það á að ríða hart, sem æði oft kemur þó fyrir, sem náttúrlegt er, því vegur þessi lítur út fyrir að vera greiðfær yfir að líta. Verður því mönnum, sem ekki eru honum kunnugir oft á, að hleypa hestum sínum, og hef ég verið sjónarvottur að voðalegustu byltu, þar sem hestur datt um stein og maðurinn féll af baki og lenti á steini, og var öll ástæða til, þótt maður þessi hefði rotast, enda meiddist hann stórkostlega.
Þetta skeytingarleysi með viðhald á vegi þessum er næsta undarlegt, fyrst og fremst af því, að hann er, eins og ég hef áður tekið fram mjög fjölfarinn, jafnvel engu síður en vegurinn til Reykjavíkur, og svo vegna þess, að Eyrarbakki er mesta framfara og menningarbyggðarlag. Hér er heldur ekki að ræða um stóran kostnað, sem þyrfti til að endurbæta veginn, því ekki þarf að sprengja upp grjót eða leggja nýjan veg, heldur aðeins kasta úr gamla veginum lausagrjóti, sem sjórinn færir upp í hann í stórflóðum og sjávargangi. Ennfremur má geta þess, að í sýslunefnd Árnesinga ætla ég að hafi verið til þessa einn kaupmaðurinn á Eyrarbakka, og ætti engum að vera meira áhugamál en kaupmönnunum þar, að vegurinn að og frá kaupstaðnum geti verið góður. Vegur þessi hygg ég að vera muni sýsluvegur, og er því vonandi, að hin háttvirta sýslunefnd Árnessýslu láti ekki lengur dragast að gera umbætur á því, sem ég hef nú tekið fram að ábótavant sé. Um mál þetta hefur verið kvartað af sýslunefnd Rangárvallasýslu fyrir nokkrum árum, en því ekki verið sinnt af þeim, sem hlut eiga að máli.
Ég hygg, að enginn geti með sanni sagt, að hér sé kvartað um að þetta að óþörfu, því að ef ekki verður bráðlega að gert, má búast við að slys hljótist af, og ætti hið nýafstaðna sorglega atvik á Hellisheiðarveginum, að vera knýjandi hvöt til, að menn gættu sem best að því, að hafa vegi sem greiðasta og hættuminnsta, þar sem það er mögulegt.
Hala, í janúar 1893.
Þ. Guðmundsson.


Þjóðólfur, 24. mars 1893, 45. árg., 14. tbl., forsíða:

Vegurinn um Eyrabakka.
Þó að samgöngu- og vegamálið hafi verið eitt hið mesta áhugamál þjóðarinnar nú í nokkur ár, og mikið hafi verið gert til að endurbæta gamla vegi og leggja nýja, þá hefur vegurinn um Eyrarbakka orðið mjög út undan í því efni, því þegar farinn er vegurinn frá Baugstöðum út á Eyrarbakka og jafnvel að Óseyrarnesi, getur manni komið til hugar, að maður sé fyrir 20 árum að ferðast um einhvern útkjálka landsins, en ekki um annan hinn fjölfarnasta veg á Suðurlandi. Á öllum þessum vegi hefur ekki verið kastað steini úr götu nú í mörg ár, og þó á vegi þessum séu allgóðir kaflar, þá er hann mestallur mjög vondur yfirferðar og má heita, að skepnur geti víðast ekki stigið svo fæti, að þær rekist ekki á lausagrjót, og þar af leiðandi fengið meiðsli á fótum, þegar þær eru að dragast með þungar klyfjar aftur og fram, enda má oft sjá hestafætur hróflaðar af grjótinu, að ég ekki tali um þann háska, sem mönnum er búinn, sem verður það á að ríða hart, sem æði oft kemur þó fyrir, sem náttúrlegt er, því vegur þessi lítur út fyrir að vera greiðfær yfir að líta. Verður því mönnum, sem ekki eru honum kunnugir oft á, að hleypa hestum sínum, og hef ég verið sjónarvottur að voðalegustu byltu, þar sem hestur datt um stein og maðurinn féll af baki og lenti á steini, og var öll ástæða til, þótt maður þessi hefði rotast, enda meiddist hann stórkostlega.
Þetta skeytingarleysi með viðhald á vegi þessum er næsta undarlegt, fyrst og fremst af því, að hann er, eins og ég hef áður tekið fram mjög fjölfarinn, jafnvel engu síður en vegurinn til Reykjavíkur, og svo vegna þess, að Eyrarbakki er mesta framfara og menningarbyggðarlag. Hér er heldur ekki að ræða um stóran kostnað, sem þyrfti til að endurbæta veginn, því ekki þarf að sprengja upp grjót eða leggja nýjan veg, heldur aðeins kasta úr gamla veginum lausagrjóti, sem sjórinn færir upp í hann í stórflóðum og sjávargangi. Ennfremur má geta þess, að í sýslunefnd Árnesinga ætla ég að hafi verið til þessa einn kaupmaðurinn á Eyrarbakka, og ætti engum að vera meira áhugamál en kaupmönnunum þar, að vegurinn að og frá kaupstaðnum geti verið góður. Vegur þessi hygg ég að vera muni sýsluvegur, og er því vonandi, að hin háttvirta sýslunefnd Árnessýslu láti ekki lengur dragast að gera umbætur á því, sem ég hef nú tekið fram að ábótavant sé. Um mál þetta hefur verið kvartað af sýslunefnd Rangárvallasýslu fyrir nokkrum árum, en því ekki verið sinnt af þeim, sem hlut eiga að máli.
Ég hygg, að enginn geti með sanni sagt, að hér sé kvartað um að þetta að óþörfu, því að ef ekki verður bráðlega að gert, má búast við að slys hljótist af, og ætti hið nýafstaðna sorglega atvik á Hellisheiðarveginum, að vera knýjandi hvöt til, að menn gættu sem best að því, að hafa vegi sem greiðasta og hættuminnsta, þar sem það er mögulegt.
Hala, í janúar 1893.
Þ. Guðmundsson.