1891

Ísafold, 17. jan. 1891, 18. árg., 5. tbl., forsíða:

Póstvegurinn í Árnessýslu.
Í staðinn fyrir að svara "m-g" orði til orðs, vil ég biðja lesendur Ísafoldar að bera vandlega saman greinir hans og mína. Ég get ekki séð, að hann hafi hrakið neitt í henni. Spurningarnar hans fara utan við merginn málsins, og það, sem hann segir um Hraunsá, er ónákvæmt: hún var ófær daginn sem flóðið var mest, en ferjað yfir hana daginn eftir. Það er líka auðséð á síðari grein "m-g´s", að hann hefir að nokkru leyti látið sannfærast, líklega bæði af grein minni og af því að pósturinn tepptist við Sandhólaferju í vetur.
Nú get ég því verið stuttorður, og skal að eins líta á aðalspursmálið, sem er þetta:
Er það samgöngumáli sýslunnar í hag, eða óhag, að fallast á tillögu "m-g´s"?
Svo hagar til, að aðalstraumar umferðarinnar um sýsluna austan Ölfusár eru eftir 4 aðalvegum: Eyrarbakkavegi, milli Óseyrar og Sandhólaferju; Ásavegi, milli uppsveita og Eyrarbakka; Hraungerðisvegi, milli uppsveita og Ölfusár ferjustaða, eða milli brúanna tilvonandi ("uppsveitir" eru báðum megin Þjórsár); og Melavegi, milli Ölfusár (ferjustaða eða brúar) og Eyrarbakka. Þar er umferðin einna minnst, og þó eigi lítil. Allir, sem fara um Ölfusárbrú, hljóta annaðhvort að fara Hraungerðisveg eða Melaveg; og eftir því sem til hagar, hlýtur meiri hlutinn að fara Hraungerðisveg. Þar er mjög mikil umferð, hvað sem "m-g" segir, og hlýtur að verða svo lengi, sem uppsveitamenn hafa viðskipti við kaupstaði og útver við Faxaflóa. Og þau viðskipti hafa ekki minnkað að sama skapi sem viðskipti við Eyrarbakka hafa aukist, síðan einokunin var rofin þar og síðan farið var að hafa lóð til fiskiveiða þar. En viðskiptalífið hefir mikið glæðst síðan. Um slíkt þótti mér ekki þörf að orðlengja; það er ekki mergurinn málsins. Hann er sá; að allir þessir vegir eru nauðsynlegir og þurfa að vera í góðu lagi. Hraungerðisvegurinn er póstvegur (þó ekki allur fyr, en Þjórsárbrúin kemur); en hinir allir, ásamt mörgum öðrum, hvíla eingöngu á sýsluvegasjóðnum. Nú er vegasjóðurinn ekki einungis fátækur, heldur í stórskuld eftir Melabrúna; er mikill og tilfinnanlegur brestur á því, að hann geti fullnægt þörfum sýsluveganna. En nú vill "m-g", að hann hafi skipti: láti landssjóð taka við Melaveginum, þar sem af er hið harðasta, en taki aftur að sér Hraungerðisveginn, þar sem hvað mest er ógjört: það sem þar er búið að gjöra, er varla nema byrjun. Slík skipti mundu því auka vandræði vegasjóðsins að miklum mun, og það yrði því meiri brestur eftir en áður á því, að vegasjóðurinn gæti fullnægt þörfum sýsluveganna.
Vert er að taka það fram, að vegarkaflinn, sem búið er að gjöra á Hraungerðisvegi, hefir orðið fyrir árflóði og ekki sakað, því hann var klakaður, en slík árflóð koma aldrei þegar jörð er þíð, þó þau komi, sem ég hefi aldrei fortekið.
En þó landssjóður tæki að sér Melaveg og Eyrarbakkaveg, þá mundi hann að eins kosta til viðhalds brúanna þar, en ekki gjöra þá að akvegum að sinni. Þar er alstaður með sjónum torfærulaust fyrir hesta, þó víða sé grýtt eftir sjóganginn sem þar er eigi sjaldgæfur. En ætti að leggja þar akveg, yrði fyrst að tryggja hann með öflugum sjógarði alla leið frá Baugstaðasíki að Óseyrarferjustað. Ég er nú engan veginn vonlaus um, að þetta verði gjört með tímanum, t. a. m. þegar búið er að bæta Eyrarbakkahöfn og gjöra hana frjálsa; því fátt er líklegra til að hafa stórvægilegar framfarir í för með sér, bæði fyrir Eyrarbakka og nærhéruðin. En meðan ekki er fyrir akvegi að gangast, sé ég ekki betur en að ferðamönnum megi standa á sama, hvort vegurinn heitir póstvegur eða ekki; eins og Eyrarbakkamönnum mun mega standa á sama, hvort það er póststöð eða bréfhirðing; þeir senda flestöll bréf sín með öðrum ferðum.
Í þeirri von, að ég þurfi ekki oftar að taka til máls í þessu máli, vil ég gleðja "m-g" með því, að ef búið væri að brúa báðar árnar, ef Hraungerðisvegurinn væri kominn í það lag, sem þörf er og, og ef vissa væri fyrir því, að akvegur yrði lagður frá Eyrarbakka til brúanna beggja, þá mundi ég ekki álíta tillögu hans háskalega fyrir samgöngumál vor. Vill hann nú ekki láta hana bíða eftir þessu? Vilji hann það ekki, er hætt við, að fleirum en mér detti í hug, að sá fiskur liggi undir steini, sem ekki er lagaður til að greiða fyrir Þjórsárbrúnni eða samgöngunum yfir höfuð.
Brynjólfur Jónsson.


Ísafold, 17. jan. 1891, 18. árg., 5. tbl., forsíða:

Póstvegurinn í Árnessýslu.
Í staðinn fyrir að svara "m-g" orði til orðs, vil ég biðja lesendur Ísafoldar að bera vandlega saman greinir hans og mína. Ég get ekki séð, að hann hafi hrakið neitt í henni. Spurningarnar hans fara utan við merginn málsins, og það, sem hann segir um Hraunsá, er ónákvæmt: hún var ófær daginn sem flóðið var mest, en ferjað yfir hana daginn eftir. Það er líka auðséð á síðari grein "m-g´s", að hann hefir að nokkru leyti látið sannfærast, líklega bæði af grein minni og af því að pósturinn tepptist við Sandhólaferju í vetur.
Nú get ég því verið stuttorður, og skal að eins líta á aðalspursmálið, sem er þetta:
Er það samgöngumáli sýslunnar í hag, eða óhag, að fallast á tillögu "m-g´s"?
Svo hagar til, að aðalstraumar umferðarinnar um sýsluna austan Ölfusár eru eftir 4 aðalvegum: Eyrarbakkavegi, milli Óseyrar og Sandhólaferju; Ásavegi, milli uppsveita og Eyrarbakka; Hraungerðisvegi, milli uppsveita og Ölfusár ferjustaða, eða milli brúanna tilvonandi ("uppsveitir" eru báðum megin Þjórsár); og Melavegi, milli Ölfusár (ferjustaða eða brúar) og Eyrarbakka. Þar er umferðin einna minnst, og þó eigi lítil. Allir, sem fara um Ölfusárbrú, hljóta annaðhvort að fara Hraungerðisveg eða Melaveg; og eftir því sem til hagar, hlýtur meiri hlutinn að fara Hraungerðisveg. Þar er mjög mikil umferð, hvað sem "m-g" segir, og hlýtur að verða svo lengi, sem uppsveitamenn hafa viðskipti við kaupstaði og útver við Faxaflóa. Og þau viðskipti hafa ekki minnkað að sama skapi sem viðskipti við Eyrarbakka hafa aukist, síðan einokunin var rofin þar og síðan farið var að hafa lóð til fiskiveiða þar. En viðskiptalífið hefir mikið glæðst síðan. Um slíkt þótti mér ekki þörf að orðlengja; það er ekki mergurinn málsins. Hann er sá; að allir þessir vegir eru nauðsynlegir og þurfa að vera í góðu lagi. Hraungerðisvegurinn er póstvegur (þó ekki allur fyr, en Þjórsárbrúin kemur); en hinir allir, ásamt mörgum öðrum, hvíla eingöngu á sýsluvegasjóðnum. Nú er vegasjóðurinn ekki einungis fátækur, heldur í stórskuld eftir Melabrúna; er mikill og tilfinnanlegur brestur á því, að hann geti fullnægt þörfum sýsluveganna. En nú vill "m-g", að hann hafi skipti: láti landssjóð taka við Melaveginum, þar sem af er hið harðasta, en taki aftur að sér Hraungerðisveginn, þar sem hvað mest er ógjört: það sem þar er búið að gjöra, er varla nema byrjun. Slík skipti mundu því auka vandræði vegasjóðsins að miklum mun, og það yrði því meiri brestur eftir en áður á því, að vegasjóðurinn gæti fullnægt þörfum sýsluveganna.
Vert er að taka það fram, að vegarkaflinn, sem búið er að gjöra á Hraungerðisvegi, hefir orðið fyrir árflóði og ekki sakað, því hann var klakaður, en slík árflóð koma aldrei þegar jörð er þíð, þó þau komi, sem ég hefi aldrei fortekið.
En þó landssjóður tæki að sér Melaveg og Eyrarbakkaveg, þá mundi hann að eins kosta til viðhalds brúanna þar, en ekki gjöra þá að akvegum að sinni. Þar er alstaður með sjónum torfærulaust fyrir hesta, þó víða sé grýtt eftir sjóganginn sem þar er eigi sjaldgæfur. En ætti að leggja þar akveg, yrði fyrst að tryggja hann með öflugum sjógarði alla leið frá Baugstaðasíki að Óseyrarferjustað. Ég er nú engan veginn vonlaus um, að þetta verði gjört með tímanum, t. a. m. þegar búið er að bæta Eyrarbakkahöfn og gjöra hana frjálsa; því fátt er líklegra til að hafa stórvægilegar framfarir í för með sér, bæði fyrir Eyrarbakka og nærhéruðin. En meðan ekki er fyrir akvegi að gangast, sé ég ekki betur en að ferðamönnum megi standa á sama, hvort vegurinn heitir póstvegur eða ekki; eins og Eyrarbakkamönnum mun mega standa á sama, hvort það er póststöð eða bréfhirðing; þeir senda flestöll bréf sín með öðrum ferðum.
Í þeirri von, að ég þurfi ekki oftar að taka til máls í þessu máli, vil ég gleðja "m-g" með því, að ef búið væri að brúa báðar árnar, ef Hraungerðisvegurinn væri kominn í það lag, sem þörf er og, og ef vissa væri fyrir því, að akvegur yrði lagður frá Eyrarbakka til brúanna beggja, þá mundi ég ekki álíta tillögu hans háskalega fyrir samgöngumál vor. Vill hann nú ekki láta hana bíða eftir þessu? Vilji hann það ekki, er hætt við, að fleirum en mér detti í hug, að sá fiskur liggi undir steini, sem ekki er lagaður til að greiða fyrir Þjórsárbrúnni eða samgöngunum yfir höfuð.
Brynjólfur Jónsson.