1890

Ísafold, 5. feb., 1890, 17. árg., 11. tbl., bls. 42.:

Ölfusárbrúin.
Þess var áður getið í blaði þessu, að hr. Tryggvi Gunnarsson heldur menn í vetur við Ölfusá til þess að taka upp grjót í brúarstöplana; ætlar hann að senda steinlím (Cement) í vor til Eyrarbakka og láta hlaða steinstöplana í sumar. Á sjálfu brúarsmíðinu er ekki byrjað enn. Verð á járni hefir hækkað um 3/7, eða nærri helming síðan í fyrra, og mun eiga að hinkra við fram undir vorið, eða ef til vill lengur, ef járnið kynni að lækka aftur í verði, sem ekki er ólíklegt.
Þessi mikla hækkun á verði á járni stafar að nokkru leyti af óvenjumiklum járnskipasmíðum, bæði verslunarskipa og herskipa. Á Frakklandi hafa t. d. verið veittar nýlega 40 millj. kr. til að smíða fyrir 5 nýja járnbarða í herskipaflotann. Sömuleiðis verður lagt mjög mikið af járnbrautum þetta ár.
Þjóðólfur, 28. febr. 1890, 42. árg., 10. tbl., forsíða:
Sænskur vegfræðingur, A. Siwerson, var fenginn hingað til lands til ráðgjafar um vegagerð og hefur hann nú skilað skýrslu til landshöfðingja.

Vegfræðingsskýrsla.
Alþingi 1887 veitti 6.000 kr. fyrir síðastliðið fjárhagstímabil "til að útvega vegfróðan mann til að ferðast um landið og ákveða, hvar helstu vegi skuli leggja". Vegfræðingur sá, sem fenginn var, heitir A. Siwerson, og er sænskur maður. Hann ferðaðist hér um í sumar sem leið og hefur nú sent landshöfðingja fróðlega skýrslu um ferðir sínar og áætlanir um nokkra vegi og brýr, sem vér höfum átt kost á að kynna oss.
Hann ferðaðist fyrst um Borgarfjörð og skoðaði vegarstæði frá Hesthálsi upp í Norðurárdal. Þessa leið á aðalvegurinn eftir hans tillögum að liggja frá Hesthálsi fyrir Grímsá, hjá Varmalæk, yfir Flóká, hjá Kroppi, Deildartungu, yfir Hvítá við Kláffoss, þaðan til Norðurtungu og þaðan yfir Grjótháls. Þessi vegur er 35.720 metrar* að lengd; akvegur alla þessa leið kostar eftir áætlun hans 127 þús. 900 kr., þar í talin stálbrú á Hvítá hjá Kláffossi, sem mundi kosta 10.000 kr., brú á Flóká, 4.600 kr., og brú á Geirsá 1.400 kr.
Eftir það fór hann norður í Húnavatnssýslu og skoðaði aðalpóstleiðina frá Giljá að Bólstaðarhlíð, sem talsverður meiningamunur hefur orðið þar nyrðra, eins og sést hefur í blöðunum. Það hafa komið fram 3 tillögur um, hvar veginn skyldi leggja um Blönduós, upp með Blöndu og fram Langadal; önnur að vegurinn skyldi lagður frá Svínavatni upp hjá Tindum yfir hjá Holtastöðum og fram Langadal, en þriðja, að hann lægi með fram Svínavatni hjá bænum Svínavatni, að Blöndu niður undan Löngumýri. Eftir skýrslu vegfræðingsins er Blönduósleiðin 37.240 metrar, Tindaleiðin 31.040 metrar, en Svínavatnsleiðin ekki nema 26.900 metrar að lengd. Á Tindaleiðinni er ekkert brúarstæði á Blöndu, og bæði á þeirri leið og á Blönduósleiðinni yrði vegurinn að liggja yfir 5 smáskriður í Langadal og 1 stórskriðu fram undir Svartárdalsmynninu; auk þess bætt við, að Blanda bryti af veginum á 2 stöðum í Langadal; vegurinn mundi þannig stöðugt liggja undir skemmdum, og viðhald hans því kosta stórfé. Vegfræðingurinn er því eindregið með því, að leggja veginn með fram Svínavatni, 1.) af því, að þar verður hann 4.140 metrum styttri en Tindaleiðin og 10.340 metrum styttri en Blönduósleiðin. - 2.) Þar er skriðulaust. - 3.) Þar verður vegurinn hallaminnstur. - 4.) Efni í veginn þar nægilegt og auðflutt að honum; þar verður hann og kostnaðarminnstur, því að frá enda Svínavatns skammt frá Reykjum og allt að Bólstaðarhlíð, kostar akvegur þessa leið 51.300 kr., en eftir Tindaleiðinni ekki minna en 78.000 kr.; munurinn er 26.700 kr. - Í fimmta lagi er allgott vað á Blöndu niður undan Löngumýri; um 200 metra fyrir ofan vaðið er góður ferjustaður og um 100 metra þar fyrir ofan gott ("ganske godt") brúarstæði. Hengibrú þar mundi kosta 43.700 kr., en á Neðriklyfunum (á Bl.ósleiðinni) 35.000 kr. - Vegfr. leggur til, að fyrst sé byrjað á veginum nokkuð fyrir sunnan Laxá og fullgjörður að Blöndu; það er 11.400 metrar og mundi hann kosta þar 32.000 kr. Síðan ætti að brúa Blöndu og leggja veg frá henni að Bólst.hl., sem hvorttveggja mundi kosta 55.000 kr., en 8.000 kr. kostaði þá vegurinn frá vatnsendanum suður fyrir Laxá.
Vegfræðingurinn skoðaði því næst veginn yfir Miðfjarðar- og Hrútafjarðarháls og gefur í skýrslu sinni ýmsar bendingar um hann, en hefur sérstaklega gjört áætlun um veg, sem hann vill láta leggja frá Hrútafirði á móts við Borðeyri á snið efst upp á hálsinn fyrir ofan Þóroddsstaði; sá vegur yrði 4.160 metrar á lengd og mundi eftir áætluninni kosta 19.000 krónur.
Eftir það fór hann norður á Akureyri og skoðaði á leiðinni brúarstæði á Valagilsá, sem hann telur áríðandi að brúa sem fyrst; brúarstæði telur hann best 80 metrum fyrir ofan gamla brúarstæðið og brúnni þar óhætt fyrir ánni; áætlar hann, að brúin kosti 4.700 kr.
Milli Akureyrar og Oddeyrar kvað nú vera mjög vondur vegur og jafnvel hættulegur á vetrum; vegagjörð þar áætlar hann að muni kosta 3.700 kr.
Loks hefur hann gjört áætlun um gufuskipabryggju á Akureyri og telur, að hún muni kosta 14.000 kr.
Í næsta blað skulum vér skýra frekara frá skoðun Siwersons á vegagjörð hér á landi.
________
* Einn meter er nokkuð meir en 1½ alin; 100 metar er = 159 8/10 álnir.


Ísafold, 5. feb., 1890, 17. árg., 11. tbl., bls. 42.:

Ölfusárbrúin.
Þess var áður getið í blaði þessu, að hr. Tryggvi Gunnarsson heldur menn í vetur við Ölfusá til þess að taka upp grjót í brúarstöplana; ætlar hann að senda steinlím (Cement) í vor til Eyrarbakka og láta hlaða steinstöplana í sumar. Á sjálfu brúarsmíðinu er ekki byrjað enn. Verð á járni hefir hækkað um 3/7, eða nærri helming síðan í fyrra, og mun eiga að hinkra við fram undir vorið, eða ef til vill lengur, ef járnið kynni að lækka aftur í verði, sem ekki er ólíklegt.
Þessi mikla hækkun á verði á járni stafar að nokkru leyti af óvenjumiklum járnskipasmíðum, bæði verslunarskipa og herskipa. Á Frakklandi hafa t. d. verið veittar nýlega 40 millj. kr. til að smíða fyrir 5 nýja járnbarða í herskipaflotann. Sömuleiðis verður lagt mjög mikið af járnbrautum þetta ár.
Þjóðólfur, 28. febr. 1890, 42. árg., 10. tbl., forsíða:
Sænskur vegfræðingur, A. Siwerson, var fenginn hingað til lands til ráðgjafar um vegagerð og hefur hann nú skilað skýrslu til landshöfðingja.

Vegfræðingsskýrsla.
Alþingi 1887 veitti 6.000 kr. fyrir síðastliðið fjárhagstímabil "til að útvega vegfróðan mann til að ferðast um landið og ákveða, hvar helstu vegi skuli leggja". Vegfræðingur sá, sem fenginn var, heitir A. Siwerson, og er sænskur maður. Hann ferðaðist hér um í sumar sem leið og hefur nú sent landshöfðingja fróðlega skýrslu um ferðir sínar og áætlanir um nokkra vegi og brýr, sem vér höfum átt kost á að kynna oss.
Hann ferðaðist fyrst um Borgarfjörð og skoðaði vegarstæði frá Hesthálsi upp í Norðurárdal. Þessa leið á aðalvegurinn eftir hans tillögum að liggja frá Hesthálsi fyrir Grímsá, hjá Varmalæk, yfir Flóká, hjá Kroppi, Deildartungu, yfir Hvítá við Kláffoss, þaðan til Norðurtungu og þaðan yfir Grjótháls. Þessi vegur er 35.720 metrar* að lengd; akvegur alla þessa leið kostar eftir áætlun hans 127 þús. 900 kr., þar í talin stálbrú á Hvítá hjá Kláffossi, sem mundi kosta 10.000 kr., brú á Flóká, 4.600 kr., og brú á Geirsá 1.400 kr.
Eftir það fór hann norður í Húnavatnssýslu og skoðaði aðalpóstleiðina frá Giljá að Bólstaðarhlíð, sem talsverður meiningamunur hefur orðið þar nyrðra, eins og sést hefur í blöðunum. Það hafa komið fram 3 tillögur um, hvar veginn skyldi leggja um Blönduós, upp með Blöndu og fram Langadal; önnur að vegurinn skyldi lagður frá Svínavatni upp hjá Tindum yfir hjá Holtastöðum og fram Langadal, en þriðja, að hann lægi með fram Svínavatni hjá bænum Svínavatni, að Blöndu niður undan Löngumýri. Eftir skýrslu vegfræðingsins er Blönduósleiðin 37.240 metrar, Tindaleiðin 31.040 metrar, en Svínavatnsleiðin ekki nema 26.900 metrar að lengd. Á Tindaleiðinni er ekkert brúarstæði á Blöndu, og bæði á þeirri leið og á Blönduósleiðinni yrði vegurinn að liggja yfir 5 smáskriður í Langadal og 1 stórskriðu fram undir Svartárdalsmynninu; auk þess bætt við, að Blanda bryti af veginum á 2 stöðum í Langadal; vegurinn mundi þannig stöðugt liggja undir skemmdum, og viðhald hans því kosta stórfé. Vegfræðingurinn er því eindregið með því, að leggja veginn með fram Svínavatni, 1.) af því, að þar verður hann 4.140 metrum styttri en Tindaleiðin og 10.340 metrum styttri en Blönduósleiðin. - 2.) Þar er skriðulaust. - 3.) Þar verður vegurinn hallaminnstur. - 4.) Efni í veginn þar nægilegt og auðflutt að honum; þar verður hann og kostnaðarminnstur, því að frá enda Svínavatns skammt frá Reykjum og allt að Bólstaðarhlíð, kostar akvegur þessa leið 51.300 kr., en eftir Tindaleiðinni ekki minna en 78.000 kr.; munurinn er 26.700 kr. - Í fimmta lagi er allgott vað á Blöndu niður undan Löngumýri; um 200 metra fyrir ofan vaðið er góður ferjustaður og um 100 metra þar fyrir ofan gott ("ganske godt") brúarstæði. Hengibrú þar mundi kosta 43.700 kr., en á Neðriklyfunum (á Bl.ósleiðinni) 35.000 kr. - Vegfr. leggur til, að fyrst sé byrjað á veginum nokkuð fyrir sunnan Laxá og fullgjörður að Blöndu; það er 11.400 metrar og mundi hann kosta þar 32.000 kr. Síðan ætti að brúa Blöndu og leggja veg frá henni að Bólst.hl., sem hvorttveggja mundi kosta 55.000 kr., en 8.000 kr. kostaði þá vegurinn frá vatnsendanum suður fyrir Laxá.
Vegfræðingurinn skoðaði því næst veginn yfir Miðfjarðar- og Hrútafjarðarháls og gefur í skýrslu sinni ýmsar bendingar um hann, en hefur sérstaklega gjört áætlun um veg, sem hann vill láta leggja frá Hrútafirði á móts við Borðeyri á snið efst upp á hálsinn fyrir ofan Þóroddsstaði; sá vegur yrði 4.160 metrar á lengd og mundi eftir áætluninni kosta 19.000 krónur.
Eftir það fór hann norður á Akureyri og skoðaði á leiðinni brúarstæði á Valagilsá, sem hann telur áríðandi að brúa sem fyrst; brúarstæði telur hann best 80 metrum fyrir ofan gamla brúarstæðið og brúnni þar óhætt fyrir ánni; áætlar hann, að brúin kosti 4.700 kr.
Milli Akureyrar og Oddeyrar kvað nú vera mjög vondur vegur og jafnvel hættulegur á vetrum; vegagjörð þar áætlar hann að muni kosta 3.700 kr.
Loks hefur hann gjört áætlun um gufuskipabryggju á Akureyri og telur, að hún muni kosta 14.000 kr.
Í næsta blað skulum vér skýra frekara frá skoðun Siwersons á vegagjörð hér á landi.
________
* Einn meter er nokkuð meir en 1½ alin; 100 metar er = 159 8/10 álnir.