1890

Ísafold, 6. des. 1890, 17. árg., 98. tbl., forsíða:

Póstvegurinn í Árnessýslu.
Herra Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi hefir með all-langri grein í 91. bl. Ísafoldar þ. á. viljað reyna að sanna að uppástunga mín um, að breyta póstveginum í Árnessýslu yfir nokkurn hluta sýslunnar, sé óalandi og óferjandi í alla staði. En vegna þess að ég á hér við mann, sem kunnur er að góðri greind og vandlegri íhugun þess, sem hann fer með, en almenningi hættir oft við að líta meira á manninn en málefnið, og því má búast við að sumir kunni að fallast á mótmæli hans umhugsunarlaust, þykir mér rétt, að svara honum í eitt skipti nokkrum orðum.
Hr. Br. J. byrjar mótmæli sín á því, að ég forðist að nefna á nafn hina tilvonandi brú á Þjórsá og gjöri ráð fyrir því eins og sjálfsögðum hlut, að henni yrði ekki komið á, ef aðalþjóðvegur Árnesinga um neðanverða sýsluna yrði lagður um Eyrarbakka, og enn fremur, að svo líti út eins og ég sé ánægður með, að Rangárvallasýsla fái engar samgöngubætur.
Hér sannast orðatiltækið : "Skýst þó skýr sé".
Það er einmitt langnauðsynlegast fyrir Rangæinga og Skaftfellinga, að vegurinn til Eyrarbakka verði sem allra-bestur; því flestir þeirra fá flestar nauðsynjar sínar þá leiðina, en öllum fjölda þeirra má hér um bil á sama standa, hvað sjálfa þá snertir, hversu glæsilegur vegur verður lagður yfir miðjan Flóann. Þeir nota hann mjög lítið, eins og eðlilegt er. Þeir kynoka sér við að fara suður til Reykjavíkur, nema brýna nauðsyn beri til.
Hefir ekki Br. J. heyrt þess getið, að Rangæingar hafi alvarlega óskað þess í haust, að þeir gæti eftirleiðis fengið kaupfélagsvörurnar fluttar upp á Stokkseyri? Veit hann ekki, að jafnvel flestir Árnesingar austan Hvítár skirrast við, að sækja þungavöru suður yfir fjall, þó þeir kunni að hafa verslunarviðskipti þar? Veit hann ekki, hve mikill fjöldi manna úr austursveitunum rær í verstöðunum austanfjalls, þar á meðal margir Hreppamenn í Grindavík, og flestir verða þeir að fara eftir Eyrarbakkaveginum,en geta engin not haft af póstveginum?
Jú, þetta hlýtur hann að vita, en hann hefir varast eins og heitan eld að nefna neitt af þessu á nafn.
Það getur vel verið, að áður hefði verið þörf á því, að hafa dýrasta veg sýslunnar yfir miðjan Flóann; en hr. Br. J. veit víst, að vegagjörðir eru ekki sniðnar eða mega ekki vera sniðnar eftir því, sem verið hefir, ef viðskiptaskilyrðin hafa breyst. Og hann hlýtur að vita, að verslunin austanfjalls hefir tekið svo miklum breytingum til batnaðar fyrir bændur á hinum síðustu 20 árum, að lítil líkindi eru til að ferðum þeirra muni fjölga til Reykjavíkur hér eftir. Það er eins og hann hafi helst í hyggju stóðhrossin, sem hrossakaupmennirnir láta reka til Reykjavíkur og sauðfjárrekstra sauðakaupmanna, og að þeirra vegna ríði á að hafa sem þráðbeinastan veginn yfir Flóann.
Ég fyrir mitt leyti hygg nú, að þjóðvegir landsins eigi fyrst og fremst að vera fyrir vöruflutningana. Getur honum blandast nokkuð hugur um, að margfalt meiri vöruflutningur sé eftir Eyrarbakkaveginum á öllum tímum árs, heldur en eftir hinum núverandi póstvegi? Og er líklegt, að akvegur komi nokkursstaðar eins fljótt að lið í sýslunni eins og Eyrarbakkavegurinn, þ.e. frá hinni tilvonandi Ölfusárbrú til Eyrarbakka, og þaðan austur að Þjórsá og upp með henni?
Hr. Br. J. talar um ýmsa, sem fari eftir póstveginum, sem nú er, Hreppamenn, Skeiðamenn og þá Rangæinga, sem fari yfir Þjórsá á Hrosshyl, Nautavaði eða Króksferju, og gerir allmikið úr því. Ég neita því ekki, að ýmsir kunni að vera, sem fari hann öðru hvoru, t. d. einu sinni á ári, og einstöku maður oftar. En ég segi aftur á móti, að mestur hluti þeirra reki verslun sína til Eyrarbakka austur að Baugstöðum, og þaðan annaðhvort upp Ásaveg, sem svo er nefndur, norðaustur yfir Flóann, eða þá austur með sjó að Sandhólaferju, og til Eyrarbakka sæki þeir mestallar nauðsynjar sínar.
Hefði Br. J. sagt, að Ásavegurinn ætti eftirleiðis að verða aðalþjóðleið sýslunnar eða nálægt honum yrði að leggja þjóðveginn upp að hinni tilvonandi Þjórsárbrú, þá skyldi ég hafa sagt, að hann hefði leyst knútinn í máli þessu; því það yrði hagfelldari og skemmri leið heldur en fara alla leið með sjónum austur að Selparti og þaðan upp með Þjórsá að Þjótanda o. s. frv.; en það hefir honum þó ekki dottið í hug, af umhyggjunni fyrir veginum milli Hraungerðis og Laugardæla, þeim veg, sem ekki hefir sér til ágætis annað en að hann liggur í beina stefnu.
Hvað Ásavegurinn snertir, þá yrði reyndar allmikill kostnaður að gera hann að góðum þjóðvegi; en fullnægi hann hvað flutningsmagn eftir honum snertir betur samgöngunum en aðrir vegir, þegar brúin yrði komin á Þjórsá, er auðsætt, að hann mundi liggja einna best við til þess að vera gjörður að þjóðvegi.
Hr. Br. J. talar um, að fjárrekstrunum sé betra að fara eftir póstveginum heldur en yfir Eyrarbakka, vegna þess, að kindurnar verði síður sárfættar á honum, heldur en í sandinum með sjónum. Ég held hann hugsi sér póstveginn eins og grasi vaxinn fjárstíg, en ekki lagðan veg með ofaníburði úr leir og möl, eða þá að fjárrekstrarnir fari einhverja vegleysu hvar sem mýkst er undir fæti. Mér sýnist það þá benda á, að ekki þurfi að taka fjárrekstrana til greina, þegar talað er um þetta mál.
Hr. Br. J. gerir gys að því, að ég segi að fjöldi manna sem kemur lengra að og fer til Reykjavíkur, komi ýmsra orsaka og erinda vegna við á Eyrarbakka, að minnsta kosti í annarri leiðinni. Honum getur held ég ekki skilist, að það sé í öðrum erindum en að fá sér í staupinu. Hann hefir líklega ekki heyrt þess getið t.d., að margir borga þar verslunarskuldir í peningum á haustin, sem þeir hafa lánað á lestunum o. s. frv. Hann segir meira að segja, að aðalpóststöð sýslunnar sé ekki hentug þar, því þá verði svo örðugt fyrir íbúa uppsveitanna að vitja um böggulsendingar, því sjaldnast þurfi að gera ráð fyrir, að þeir eigi þangað annað erindi um leið, nema haust og vor. Til hvers hefir hann dvalið jafn lengi á Eyrarbakka eins og hann hefir gert, og hafa ekki orðið var við, að til Eyrarbakka eru að kalla má stöðugar ferðir daglega úr öllum hreppum Árnessýslu austan Hvítár, nema svo sem þriggja vikna tíma í ágústmánuði og framan af janúarmánuði? Leiti hann sér vitneskju um þetta hjá kunnugum mönnum. Hann segir, að ekki hafi komið nema einu sinni fyrir í 17 ár, að póstur hafi verið vegtepptur í Hraungerði í 1 dag og þá hafi Hraunsá við Eyrarbakka verið ófæri. Satt er það; en það var ferjað yfir hana, en Flóamýrarnar voru lítt færar allan veturinn. Hann heldur, að árflóð úr Hvítá komi ekki framar fyrir, því flóðgarðurinn komi í veg fyrir það, og tekur það óstinnt upp, að ég minnist ekki á hann. Náttúran hefir nú stundum ráðist á og haft undir öflugra mannvirki en hann er; að minnsta kosti hafa sumir sýslungar hr. Br. J. minni trú á honum, og vildi ég láta hann sýna sig í nokkur ár áður en ég fer að treysta honum til fullnustu. Ég hefi séð á brjóta í sundur sterkan steinboga með jakaburði, og því finnst mér ekkert tiltökumál, þó Hvítá færi eins með flóðgarðinn hjá Brúnastöðum, sem er af manna höndum gjör og þeim ekki hamrömmum.
Hr. Br. J. talar um, að póstferðin muni verða dýrari í hvert sinn, sé póstleiðin lengd og ég tek það upp aftur, að ég álít það tilvinnandi ef mörg hundruð manna fá fyrir það betri veg með aðflutning sinn. Hraungerðisvegurinn ætti einungs að vera sýsluvegur, og komandi kynslóðir munu sjá það, ef meiri hluti manna sér það ekki nú þegar.
Þó Eyrabekkingar kunni að hafa einhver dálítinn hægðarauka af breytingu þessari, álít ég það ekkert mæla mót henni, heldur þvert á móti. Þar er nú langmest mannbyggð í héraðinu og eykst ár frá ári. Er engan veginn lítilsvert, ef þeim mannfjölda opnuðust sem flestir vegir til að hafa ofan af fyrir sér.
Ég vona að hr. Br. J. athugi mál þetta frá fleiri hliðum en hann hefir enn þá gjört, áður en hann mótmælir enn á ný, og að hann hætti að minnsta kosti algjörlega að ímynda sér að breyting þessi mundi tefja fyrir eða tálma brúargjörð á Þjórsá.
m.-g.


Ísafold, 6. des. 1890, 17. árg., 98. tbl., forsíða:

Póstvegurinn í Árnessýslu.
Herra Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi hefir með all-langri grein í 91. bl. Ísafoldar þ. á. viljað reyna að sanna að uppástunga mín um, að breyta póstveginum í Árnessýslu yfir nokkurn hluta sýslunnar, sé óalandi og óferjandi í alla staði. En vegna þess að ég á hér við mann, sem kunnur er að góðri greind og vandlegri íhugun þess, sem hann fer með, en almenningi hættir oft við að líta meira á manninn en málefnið, og því má búast við að sumir kunni að fallast á mótmæli hans umhugsunarlaust, þykir mér rétt, að svara honum í eitt skipti nokkrum orðum.
Hr. Br. J. byrjar mótmæli sín á því, að ég forðist að nefna á nafn hina tilvonandi brú á Þjórsá og gjöri ráð fyrir því eins og sjálfsögðum hlut, að henni yrði ekki komið á, ef aðalþjóðvegur Árnesinga um neðanverða sýsluna yrði lagður um Eyrarbakka, og enn fremur, að svo líti út eins og ég sé ánægður með, að Rangárvallasýsla fái engar samgöngubætur.
Hér sannast orðatiltækið : "Skýst þó skýr sé".
Það er einmitt langnauðsynlegast fyrir Rangæinga og Skaftfellinga, að vegurinn til Eyrarbakka verði sem allra-bestur; því flestir þeirra fá flestar nauðsynjar sínar þá leiðina, en öllum fjölda þeirra má hér um bil á sama standa, hvað sjálfa þá snertir, hversu glæsilegur vegur verður lagður yfir miðjan Flóann. Þeir nota hann mjög lítið, eins og eðlilegt er. Þeir kynoka sér við að fara suður til Reykjavíkur, nema brýna nauðsyn beri til.
Hefir ekki Br. J. heyrt þess getið, að Rangæingar hafi alvarlega óskað þess í haust, að þeir gæti eftirleiðis fengið kaupfélagsvörurnar fluttar upp á Stokkseyri? Veit hann ekki, að jafnvel flestir Árnesingar austan Hvítár skirrast við, að sækja þungavöru suður yfir fjall, þó þeir kunni að hafa verslunarviðskipti þar? Veit hann ekki, hve mikill fjöldi manna úr austursveitunum rær í verstöðunum austanfjalls, þar á meðal margir Hreppamenn í Grindavík, og flestir verða þeir að fara eftir Eyrarbakkaveginum,en geta engin not haft af póstveginum?
Jú, þetta hlýtur hann að vita, en hann hefir varast eins og heitan eld að nefna neitt af þessu á nafn.
Það getur vel verið, að áður hefði verið þörf á því, að hafa dýrasta veg sýslunnar yfir miðjan Flóann; en hr. Br. J. veit víst, að vegagjörðir eru ekki sniðnar eða mega ekki vera sniðnar eftir því, sem verið hefir, ef viðskiptaskilyrðin hafa breyst. Og hann hlýtur að vita, að verslunin austanfjalls hefir tekið svo miklum breytingum til batnaðar fyrir bændur á hinum síðustu 20 árum, að lítil líkindi eru til að ferðum þeirra muni fjölga til Reykjavíkur hér eftir. Það er eins og hann hafi helst í hyggju stóðhrossin, sem hrossakaupmennirnir láta reka til Reykjavíkur og sauðfjárrekstra sauðakaupmanna, og að þeirra vegna ríði á að hafa sem þráðbeinastan veginn yfir Flóann.
Ég fyrir mitt leyti hygg nú, að þjóðvegir landsins eigi fyrst og fremst að vera fyrir vöruflutningana. Getur honum blandast nokkuð hugur um, að margfalt meiri vöruflutningur sé eftir Eyrarbakkaveginum á öllum tímum árs, heldur en eftir hinum núverandi póstvegi? Og er líklegt, að akvegur komi nokkursstaðar eins fljótt að lið í sýslunni eins og Eyrarbakkavegurinn, þ.e. frá hinni tilvonandi Ölfusárbrú til Eyrarbakka, og þaðan austur að Þjórsá og upp með henni?
Hr. Br. J. talar um ýmsa, sem fari eftir póstveginum, sem nú er, Hreppamenn, Skeiðamenn og þá Rangæinga, sem fari yfir Þjórsá á Hrosshyl, Nautavaði eða Króksferju, og gerir allmikið úr því. Ég neita því ekki, að ýmsir kunni að vera, sem fari hann öðru hvoru, t. d. einu sinni á ári, og einstöku maður oftar. En ég segi aftur á móti, að mestur hluti þeirra reki verslun sína til Eyrarbakka austur að Baugstöðum, og þaðan annaðhvort upp Ásaveg, sem svo er nefndur, norðaustur yfir Flóann, eða þá austur með sjó að Sandhólaferju, og til Eyrarbakka sæki þeir mestallar nauðsynjar sínar.
Hefði Br. J. sagt, að Ásavegurinn ætti eftirleiðis að verða aðalþjóðleið sýslunnar eða nálægt honum yrði að leggja þjóðveginn upp að hinni tilvonandi Þjórsárbrú, þá skyldi ég hafa sagt, að hann hefði leyst knútinn í máli þessu; því það yrði hagfelldari og skemmri leið heldur en fara alla leið með sjónum austur að Selparti og þaðan upp með Þjórsá að Þjótanda o. s. frv.; en það hefir honum þó ekki dottið í hug, af umhyggjunni fyrir veginum milli Hraungerðis og Laugardæla, þeim veg, sem ekki hefir sér til ágætis annað en að hann liggur í beina stefnu.
Hvað Ásavegurinn snertir, þá yrði reyndar allmikill kostnaður að gera hann að góðum þjóðvegi; en fullnægi hann hvað flutningsmagn eftir honum snertir betur samgöngunum en aðrir vegir, þegar brúin yrði komin á Þjórsá, er auðsætt, að hann mundi liggja einna best við til þess að vera gjörður að þjóðvegi.
Hr. Br. J. talar um, að fjárrekstrunum sé betra að fara eftir póstveginum heldur en yfir Eyrarbakka, vegna þess, að kindurnar verði síður sárfættar á honum, heldur en í sandinum með sjónum. Ég held hann hugsi sér póstveginn eins og grasi vaxinn fjárstíg, en ekki lagðan veg með ofaníburði úr leir og möl, eða þá að fjárrekstrarnir fari einhverja vegleysu hvar sem mýkst er undir fæti. Mér sýnist það þá benda á, að ekki þurfi að taka fjárrekstrana til greina, þegar talað er um þetta mál.
Hr. Br. J. gerir gys að því, að ég segi að fjöldi manna sem kemur lengra að og fer til Reykjavíkur, komi ýmsra orsaka og erinda vegna við á Eyrarbakka, að minnsta kosti í annarri leiðinni. Honum getur held ég ekki skilist, að það sé í öðrum erindum en að fá sér í staupinu. Hann hefir líklega ekki heyrt þess getið t.d., að margir borga þar verslunarskuldir í peningum á haustin, sem þeir hafa lánað á lestunum o. s. frv. Hann segir meira að segja, að aðalpóststöð sýslunnar sé ekki hentug þar, því þá verði svo örðugt fyrir íbúa uppsveitanna að vitja um böggulsendingar, því sjaldnast þurfi að gera ráð fyrir, að þeir eigi þangað annað erindi um leið, nema haust og vor. Til hvers hefir hann dvalið jafn lengi á Eyrarbakka eins og hann hefir gert, og hafa ekki orðið var við, að til Eyrarbakka eru að kalla má stöðugar ferðir daglega úr öllum hreppum Árnessýslu austan Hvítár, nema svo sem þriggja vikna tíma í ágústmánuði og framan af janúarmánuði? Leiti hann sér vitneskju um þetta hjá kunnugum mönnum. Hann segir, að ekki hafi komið nema einu sinni fyrir í 17 ár, að póstur hafi verið vegtepptur í Hraungerði í 1 dag og þá hafi Hraunsá við Eyrarbakka verið ófæri. Satt er það; en það var ferjað yfir hana, en Flóamýrarnar voru lítt færar allan veturinn. Hann heldur, að árflóð úr Hvítá komi ekki framar fyrir, því flóðgarðurinn komi í veg fyrir það, og tekur það óstinnt upp, að ég minnist ekki á hann. Náttúran hefir nú stundum ráðist á og haft undir öflugra mannvirki en hann er; að minnsta kosti hafa sumir sýslungar hr. Br. J. minni trú á honum, og vildi ég láta hann sýna sig í nokkur ár áður en ég fer að treysta honum til fullnustu. Ég hefi séð á brjóta í sundur sterkan steinboga með jakaburði, og því finnst mér ekkert tiltökumál, þó Hvítá færi eins með flóðgarðinn hjá Brúnastöðum, sem er af manna höndum gjör og þeim ekki hamrömmum.
Hr. Br. J. talar um, að póstferðin muni verða dýrari í hvert sinn, sé póstleiðin lengd og ég tek það upp aftur, að ég álít það tilvinnandi ef mörg hundruð manna fá fyrir það betri veg með aðflutning sinn. Hraungerðisvegurinn ætti einungs að vera sýsluvegur, og komandi kynslóðir munu sjá það, ef meiri hluti manna sér það ekki nú þegar.
Þó Eyrabekkingar kunni að hafa einhver dálítinn hægðarauka af breytingu þessari, álít ég það ekkert mæla mót henni, heldur þvert á móti. Þar er nú langmest mannbyggð í héraðinu og eykst ár frá ári. Er engan veginn lítilsvert, ef þeim mannfjölda opnuðust sem flestir vegir til að hafa ofan af fyrir sér.
Ég vona að hr. Br. J. athugi mál þetta frá fleiri hliðum en hann hefir enn þá gjört, áður en hann mótmælir enn á ný, og að hann hætti að minnsta kosti algjörlega að ímynda sér að breyting þessi mundi tefja fyrir eða tálma brúargjörð á Þjórsá.
m.-g.