1886

Tenging í allt blaðaefni ársins 1886

Austri, 11. mars 1886, 3. árg., 6. tbl., forsíða:
“Sá vegur, sem lagður er einungis undir hestafætur, borgar sig aldrei, ef akveg má koma við,” segir greinarhöfundur og rökstyður það með miklum hagfræðilegum skýringum.

Nokkur orð
Um vegi og samgöngur á Austurlandi
“Það skal fyrst til allra orða,
að undirstaðan rétt sé fundin”.
Þegar ég las skýrslu vegfræðings Hovdenaks til landshöfðingja í síðasta Andvara um vegina á Austurlandi, duttu mér í hug þessi vísu orð. Nú á tímum láta allar menntaðar þjóðir sér annt um að ná þeirri undirstöðu, sem endingarbest er á að byggja. Og hvergi sýnist meiri þörf á að ná réttri undirstöðu, en þegar leggja skal veg, er flýta á fyrir samgöngum og gera alla flutninga léttari og kostnaðarminni.
Við Íslendingar erum langt á eftir tímanum það er snertir vegi og samgöngur, og flest það er til framfara horfir. Reyndar stöndum við flestum þjóðum ver að vígi í tilliti til vega og samganga. Og verður því þó ekki neitað, að undir góðum samgöngum er framför okkar og velmegun að miklu leyti komin. Að minni hyggju er það einkum fernt sem tálmar framför okkar í þessu efni: fjöllin, strjálbyggðin, peningaskorturinn og fyrirhyggjuleysið, og ætla ég að fara nokkrum orðum um hvert þeirra.
I.
Há, brött og fannsæl fjöll liggja næstum allstaðar milli Héraðs og Fjarða. Eftir skýrslu Hovdenaks, er áður er nefnd, má sjá að honum eru aðeins kunnir hinir verstu fjallgarðar frá Héraðsflóa til Eskifjarðar. Hovdenak mun fyrstur manna hafa lítið þekkjandi augum yfir Austurland það er til vegalagninga kemur. Því miður hefur honum ekki verið bent lengra suður á leið, og hefur þó náttúran þar á einum stað rofið hina háu Fjallgirðingu og fram boðið þar auðveldan og hættulausan veg, og er furða að sú leið skuli enn ekki hafa verið vandlega skoðuð. Ég efast ekki um að Hovdenak hefði þótts finna það sem hann leitaði að, ef hann hefði farið um Fagradal. Flestum hér eystra er kunnugt, að Fagridalur sker fjöllin sundur frá botni Reyðarfjarðar að Lagarfljóti, og það svo djúpt að hvergi er halli að mun. Líka er alkunnugt, hversu háar, fannsælar og hættulegar Vestdalsheiði og Fjarðarheiði eru. Er fjarska mikill munur á brattleika þeirra og Fagradals auk snjóa og hættu. Fagridalur er auður, þegar ekki sést á dökkan díl á vegum þessara háu heiða. Vegurinn yfir Vestdalsheiði mundi kafinn snjó og ófærð, þegar fara mætti auðan og þurran veg yfir Fagradal. Þá er og hallamunurinn. – Frá botni Reyðarfjarðar inn að Skriðuhól, sem ber hæst í dalnum þeim megin, er vegalengdin á að giska 3000-4000 faðmar. En hæð hólsins yfir sjávarmál mun vera 15-20 faðmar. Ætti þá halli á þeirri leið að vera hérum bil sem 1:200. Nú segir Hovdenak í skýrslu sinni, að á vegi sem hallar 1:10, megi aka 800 pundum á einum hesti, en á halla 1:20 400 pundum eða allt að því hálfu meira. Hversu miklu meira mætti aka á vegi yfir Fagradal er hefði hallan 1:200. Af þessum litla samanburði má sjá mismun á flutningshæfileika þess vegar er minnstan hefur hallan móti hinum halla meiri.
Frá Skriðuhól í Græfur er dalurinn hallalaus að kalla; þaðan að Lagarfljóti mun hallinn líkur því sem áður. Þá er vegaefnið alstaðar við höndina á dalnum, bæði nægt grjót og góður ofaníburður. Svo mun og skynsamlega lagður vegur þar að mestu öruggur fyrir skemmdum af vatnagangi og hlaupum.
Hovdenak gerir ráð fyrir, að í vellögðum vegi kosti hver faðmur 3.80 kr. Eftir mælingu hans er vegalengd af Seyðisfirði yfir Vestdalsheiði og Hálsa að Tókastöðum 11420 faðmar. Ætti þá sá vegur að kosta 43.396 kr. auk brúa. Frá botni Reyðarfjarðar að Lagarfljóti mun vegalengdin vera nálægt 20 föðmum. Nú mun óhætt mega fullyrða, að vegur yfir Fagradal sé þeim mun auðlagðari, að hver faðmur kostaði ekki meir en 1,90 kr. eða hálfu minna; allur sá vegur kostaði þá um 35.000 króna. Brýr þyrfti ekki nema yfir Köldukvísl og Eyvindará. Lengdarmunur á vegum er auðsjáanlega ekki takandi til greina í samanburði við hallamuninn eða flutningshæfilegleikann. Því fullyrða má, að hvergi á dalnum sé halli er nem 1:20.
Af framangreindum ástæðum ræð ég þá alvarlega til að Fagridalur sé mældur að hæð og lengd, og vandlega skoðaður af vegfróðum manni, áður en stórfé verður grafið undir ís og fönn á Vestdalsheiði eða örðum háfjöllum, þar sem akvegur gæti aldrei orðið að tilætluðum notum, né til sparnaðar fyrir almenning, þótt stórfé væri til kostað.
II.
Um strjálbyggðina, sem vanalega gerir vegalagningu hér á landi svo kostnaðarsama, þarf ekki mörgum orðum hér að fara, því að kæmist hæfilegur akvegur að hagkvæmum stað við Lagarfljót, mundi þegar verða fenginn á það eimbátur, hæfilegur til að draga flutningsbáta fram og aftur og yrði þá óvíða tilfinnanleg vegalengd heim að bæjum. Þverlína Héraðsins milli fjalls og fljóts mun óvíða vera fjögur þúsund faðmar og hvergi yfir það. Enda mundu og þá verða farið að bæta vegina milli bæjanna, ef einn aðalvegur væri kominn frá sjá upp í Hérað.
III.
Úr peningaleysinu í þessu tilliti ættu féhirslur landsins að bæta, og sýnist því ekki vera ástæða til að berja við fjárskorti. Landsjóð ætti mest að brúka til almennra þarfa, og væri því óhætt að hann legði talsvert fé fram til svo nauðsynlegs fyrirtækis, er aðalframför eins hins fjölríkasta héraðs á landinu er undir komin.
Sá vegur, sem lagður er einungis undir hestafætur, borgar sig aldrei, ef akveg má koma við. Verði hestum fækkað, má spara fé til stórra muna. Setjum svo að á öllu Fljótsdalshéraði að meðtöldum Jökuldal og Hlíð, séu fullir 200 bæir. EF nú með góðum og hallalitlum akvegi mætti komast af með 3 hæstum færra frá hverjum bæ, þá yrðu það 600 hestar. Ég geri ráð fyrir að hestur albúinn til flutninga með þar til heyrandi áhöldum kosti að minnsta kosti 80 krónur, 600 hestar kosta þá 48.000 kr. Til að flytja á hestum þessum þurfa 100 karlmenn fullgildir til vinnu, ríðandi. Ég skal ekki gera þeim meira en 14 dagsverk af árinu til flutninga. Það er annars mikils til oflítið. Ef hverjum þeirra er ætlað 3 kr. um daginn verða það alls 4.200 kr. 100 reiðhestar með tygjum 120 kr. hver, alls 12.000 kr. Allur kostnaður 64.200 kr. Þetta er höfuðstóll sem útgjöld hvíla á. Ég geri ráð fyrir að þessir hestar endist til jafnaðar 10 ár. Fóður hvers hests og viðhald á tygjum um árið tel ég 30 kr., verður þá kostnaður á 700 hestum í 10 ár 210.000 kr. og daglaun hinna 100 manna í 9 ár 37.800 kr. Með höfuðstólnum 64.200 kr. verður það allt 314.000 kr. Eftir 10 ár þarf að gera nýjan kostnað og svo koll af kolli mann fram af manni meðan svona stendur. Þetta er stórfé og mun þó oflítið í lagt. Annað dæmi: Hovdenak gerir ráð fyrir (Andvari XI bls. 182) að flutt sé af Seyðisfirði á 20 hestum daglega allt árið. Nú skal meta hestlánið 4 kr., alls 80 kr., 3 menn ríðandi, daglaun 3 kr., alls 9 kr., hestur handa þeim, hver 4 kr. alls 12, samtalið 101 kr. á dag. Um árið verður það 36.865 kr., í 10 ár 368.650 kr. eða nokkru meir en í fyrra dæminu. Þetta telur Hovdenak þó oflítið, sem og mun rétt vera. Niðurstaðan verður, hvernig sem á allt er litið, að kostnaður við flutning á hestum er óútreiknanlegur og hinn mesti tálmi fyrir framfarir og velmegun manna. Svo lítur út sem flestir taki lítið eftir þessum gífurlega kostnaði, og kemur það líklega af því, að þetta eru óbeinlínis útgjöld, er menn hafa vanist hver fram af öðrum. Nú er sannarlega mál að reyna að kippa þessu í lag og taka að verja þessu fé á annan hátt, og koma á akveg á hagkvæmum stað; við það mundi sparast fé til stórra muna. Enda ætti ekki að vera erfitt að koma á akveg yfir Fagradal; hann mundi ekki kosta eins mikið og Héraðið eyðir á einu ári til flutninga af Seyðisfirði; úr landsjóði mundi fást talsvert fé til jafn áríðandi fyrirtækis sem það væri, og almenningur mundi fús á að leggja sinn hluta til, þegar honum væri orðið skiljanlegt hið fjarska mikla gagn af góðum akvegi á hentugum stað.
Sumir kunna að hafa það á móti máli mínu að engin verslun sé á innsveit Reyðarfjarðar og því þýðingarlaust að leggja veg yfir Fagradal, og þegar Hovdenak var látinn skoða og mæla vegina hér á Austurlandi, er eins og þetta hafi vakað fyrir mönnum. En það er misskilningur. Höfuðatriðið er, að aðalvegur frá sjó að Lagarfljóti verði lagður á þeim stað sem er halla-, hættu- og kostnaðarminnstur, snjóléttastur og óhættastur fyrir skemmdum. Allt þetta hefur Fagridalur fram yfir alla aðra vegi, sem til Héraðs liggja, sýnist því engum vafa bundið að kjósa þann veginn. Við þá verslunarstaði sem nú eru, Seyðisfjörð og Eskifjörð, stoðar ekki að miða aðalverslunarveg. Það getur ekki samrýmst kröfum núlega tímans og þörf vorri á framförum. Reyndar var ekki furða, þó að Héraðsmenn yrðu fegnir, þegar verslun fyrst byrjaði á Seyðisfirði fyrir fullum 30 árum eins og þá stóð, því að þá var ekki um annan verslunarstað að gera en Eskifjörð, en þar hefur aldrei farið orð af frjálsri og hagfelldri verslun. Nú ættu menn að sjá betur hvað best gegnir, nú eru skipsferðir orðnar léttari og tíðari, svo að ekkert virðist vera því til fyrirstöðu, að vörur verði færðar á þann stað, sem hentugast er að flytja þær frá upp í landið. Seyðisfjörður getur heldur aldrei þrifist sem aðalbær á Austfjörðum. Til þess vantar hann alla hæfilegleika: vegir eru hættulegir og erfiðir og geta aldrei orðið að verulegum notum, þótt miklu yrði til þeirra kostað; landbúnaður er lítill, húsastæði víða mjög hættuleg o.fl. Innsveit Reyðarfjarðar hefur alla kosti til þess að þar gæti myndast aðalbær Austurlands; það mun og reynast að brátt eykst aðsókn og bygging við Reyðarfjörð. Nú hafa Héraðsmenn pantað upp vörur í vor, ættu þá þeir sem búa ofarlega á Héraði að fá vörurnar fluttar á Reyðarfjörð og flytja þær upp í Fagradal. Menn mundu þá komast að raun um, að betra er að fara hann veglausan eins og hann er, heldur en Vestdals- Fjarðarheiðar með vegnefnum þeim, er á þeim eru.
IV.
Óframsýnin hefur gert allmikið til að eyða fé að gagnslausu í vegi og drepa niður áhuga manna með vegabætur. Reyndar er búið að verja miklu fé til vegagerða, en víðast hefur það farið svo afkáralega, að þess sjást engin merki; vegirnir lagðir á svo óhentugum stöðum og svo klaufalega gerðir, að verra er að fara þá en vegleysu, t.d. vegurinn frá Lagarfljóti fram Völluna; fáum mundi koma í hug að fara þann veg vegna krókanna, þó að betur hefði verið lagður; nýlagður var hann víða vegleysu verri, enda nú allvíða horfinn. Þá er Eskifjarðarheiði; hvað gagnar að varpa fleiri þúsundum króna í þann veg? Já, það er póstvegur!! Póstur kann að geta notað hann 2-3 ferðir um hásumarið; aðrir fara ekki þá leið, að teljandi sé. Er nokkur framsýni í að fleygja stórfé í veg þar? Vörður eru hlaðnar á stöku stöðum; goli nokkuð að ráði fjúka þær um; og meðan þær standa, getur enginn sá er áttir hefur misst, áttað sig á þeim, því að ekkert er áttamerkið, engin föst stefna, einlægur krókastígur. Þótt hvað eina af slíku káki, kosti ekki stórfé, þá safnast er saman kemur. Við höfum ekki stórfé til að sóa. Því verra er að sjá stundum almennings fé eytt til einskis. Að vísu hafa þeir er vinna að vegagerðum, allgóð daglaun, og þeir fáu er vinna verkið verða oft hinir einu, er gagn hafa af veglagningunni. Varning almennings fjár til sumra vegagerða líkist launahækkun sumra embættismanna, hún auðgar einstaka menn, en bætir ekki úr þörfum almennings.
Og mörgum er að kenna um óreglu þá er á sér stað í tilliti til þess, hvernig fé er varið til vegagerða. Stundum tiltaka sýslunefndir hvar veg skuli leggja eða lagfæra. Amtmaður leggur úrskurð á og sendir aftur sýslumanni; hann útvegar menn til að vinna verkið og semur um borgun; eru þá stundum þeir teknir er fyrst bjóðast, hvort sem þeir kunna nokkuð að því verki eða ekki. Launin eru greidd, hvernig sem verkið er unnið. Náttúrlega er sýslumaðurinn enginn vegfræðingur og amtmaðurinn of langt burtu, enda er hann ekki betri. Þetta sjá margir og líkar illa, en þeir hafa því miður hvorki kjark né þekking til að kippa því í lag. Það eldir enn eftir af gamla áþjánarandanum, að álíta allt gullvægt sem frá yfirvöldunum kemur, og telja sér óskylt að hafa hönd í bagga með, þó að um almennt gagn sé að ræða. Það er ekki meining mín að ásaka sýslumenn eða gera lítið úr þeirra góða vilja, enginn tekur sig meiri mann en hann er.
Nú er full þörf á að sameina kraftana og koma sem fljótast á góðum akvegi frá sjó og til Héraðs yfir Fagradal. Kæmist hann á, mundi almenningi aukast efni til og áhugi á að bæta útkrókana eftir þörfum.
Það sem að framan er ritað, er einungis ætlað til að benda á þann veg er ég tel vissastan og reynast mun áreiðanlegastur. Þeir sem mér eru færari, ættu að gera hér við athugasemdir og koma máli þessu sem fyrst áleiðis.
Margt vantar hér að athuga, svo sem kostnað þann er hvílir á akvegi, akhesta, kerrur, vagna o.fl., og bera það saman við kostnað þann, sem nú er við flutninga á hestum og við hestaveg. Ég þekki þetta ekki til hlítar, þótt mér sé það ekki með öllu ókunnugt, en ég vona að þeir sem betur eru til færir, muni ekki liggja á liði sínu, heldur rita um þetta. Enda er hér um almennt nauðsynjamál að ræða, mál sem er undirstaða auðsældar og velmegunar aldra og óborinna kynslóða. Það væri því sómi okkar sem nú lifum, að hafa fundið hina réttu undirstöðu, er niðjar vorir gætu með ánægju byggt ofan á.
Dalbúi.


Ísafold, 17. mars 1886, 13. árg., 11. tbl., bls. 44:
“Ármann” segir tvær orsakir fyrir því að Alþingi felldi brúarmálið, sveitardrátt og fákunnáttu þingmanna í samgöngumálum.

Brúarmálið.
Ég sé í þessu í 2. tbl. af “Austra” alllanga grein um hinar fyrirhuguðu brýr á Ölfusá og Þjórsá. Á þessi grein að bera hönd fyrir höfuð Alþingis, sem felldi það mál enn þá einu sinni í sumar, sem leið, en þó ekki nema með eins atkvæðis mun. Ástæður höf. eru þær, að hvorki séu brýr þessar eins áríðandi, eins og viðkomendur ætli, enda sé ósanngjarnt, að landið kosti þær að öllu eða miklu leyti, o.s.frv.
Þessi grein er eftir minni sannfæringu og allra skynugra manna hér eystra mjög lúaleg og undir eins skaðleg í þessu velferðarmáli; og sé sá maður, sem hana hefir samið, eins og sýnist, vel viti borinn og ekki ókunnugur hér um sveitir, á hann að meiri óþökk skilið fyrir þetta frumhlaup inn í málið. Samt eru röksemdir hans svo þunnar og slitnar, að ég þori ekki að tína þær fram, eina og eina; því að grein þessi yrði þá bæði dauf og löng, en málinu lítið borgnara, þó að þær væru hraktar. Það er margbúið að hrekja þær.
Ég vil einungis benda á, hverjar orsakir eru til þess, að þessar brýr, eða önnur þeirra að minnsta kosti, eru ekki þegar komnar á og fullgjörðar.
Orsakirnar eru tvær. Önnur er sveitardráttur á þinginu, missýni og óviljandi eða óafvitandi sérdrægni þeirra þingmanna, sem fjarstir þykjast standa málinu. Fjöldi þeirra mun og hafa ætlað, að ókleyft yrði að lögleiða bæði brýr og banka í senn. Þó vora undantekningar til; stöku menn, eins og Jón Ólafsson og fl., mæltu með báðum frumvörpunum.
En hver er hin orsökin?
Hún er sú – og það er aðal orsökin – að fæstir þingmenn þekkja enn til hlíta hugmyndina samgöngur.
Þetta er sorglegt, en það er satt. Enginn lifandi maður á þingum í öðrum menntuðum löndum hefði þurft eða jafnvel þorað að spyrja um ástæður, þörf, nauðsyn, slíkra brúargjörða eins og þessara. Hver sá þingmaður hefði gjört sig að athlægi. Sérdrægni og sveitardráttur á að vísu nokkurn þátt í þessari vanþekkingu; það sem menn vilja ekki skilja, það geta menn seint skilið.
Annað mál er hitt, hvort sýslur þær, sem mest mundu nota brýrnar, ættu meira eða minna að bera kostnaðinn. Þar má mæla með og á móti; en þó ætti enginn vitur maður að láta blanda sér hug um það, að þessar sýslur eigi réttarkröfu til meiri hluta brúarkostnaðarins, - þessar sýslur, sem svo lengi hafa farið á mis við nær allan hagnað af samgöngu-framförum hinna héraða landsins enda eiga kostnaðarsöm stórvirki fyrir höndum, þar sem nýjar vegagjörðir eru, óðara en brýrnar kæmust á.
Mál þetta er í sannleika svo áríðandi, og þess nauðsyn svo brýn og í augum uppi, að lengri dráttur á því yrði hrópandi hneyksli.
Ármann.


Austri, 13. apríl 1886, 3. árg., 9. tbl., forsíða:
Menn eru mikið farnir að ræða hvar aðalverslunarstaður Austurlands eigi að vera og finnst mönnum þá skipta mestu máli

Um vegi og verslunarstaði á Austurlandi
“Varðar mest til allra orða,
undirstaðan rétt sé fundin”.
Í 6. bl. “Austra” er grein um “vegi og samgöngur á Austurlandi.” Mér virðist að aðalefni hennar séu tvö atriði. Það fyrst: hvar er aðalverslunarstaður Austurlands best settur? Og svo er hitt sem leiðir af hinu fyrra: á hverjum stað yfir fjöllin milli fjarðanna og Héraðsins ber að leggja þann verslunarveg og póstleið sem mest yrði vandaður hér og dýrastur? Nú með því að sjálft málefnið, verslun, vegir og samgöngur, er svo afar merkilegt og mikilsvert fyrir nútíð og framtíð vor Íslendinga, eins og allir vita, að ekki veitir af að það sé skoðað sem nákvæmast, bæði heild þess og einstakar greinir, til þess að “undirstaða þess yrði sem réttast fundin”. Og með því að nú þegar er búið að kosta svo miklu fé til ýmissa aðgerða á Seyðisfirði og vegagerðar á Vestdalsheiði, að ekki ætti að halda þeim kostnaði áfram, ef svo reyndist, að prófuðu máli, að grundvöllurinn hefði ekki verið rétt lagður. Í þriðja lagi að jafnframt og ég játa að “Dalbúinn” eigi þakkir skilið fyrir að hafa hreift þessu nauðsynjamáli, þá verð ég um leið að segja, að ég hef ekki áður og get ekki enn fallist á skoðun hans um kaupstaðinn og vegagerðina, og skoða það mál á annan hátt; og þar eð skoðanir okkar á þessu velferðarmáli vor Austlendinga eru mjög svo ólíkar, álít ég það skyldu mína gagnvart þeim mönnum sem annt er um málið, að láta í ljósi álit mitt, og með því stuðla til að það verði skoðað frá ýmsum hliðum, áður en lengra er haldið með framkvæmd verksins en komið er.
Þá kemur fyrst spurningin; Hvort er aðalbær og helsti verslunarstaður Austurlands betur settur við Seyðisfjörð eða botn Reyðarfjarðar? Mér virðist sem svarið upp á þessa spurning muni undir eins liggja nokkurn veginn ljóst fyrir, þegar þess er gáð að allar verslanir og flestar húseignir hafa orðið til á Seyðisfirði á því 30 ára tímabili sem liðið er, síðan verslun hér við land var með lögum leyft öllum þjóðum. Frá þeim tíma sem allir Austlendingar voru ekki lengur með lögum bundnir við, að versla aðeins á þrem verslunarstöðum, frá því er straumur verslunarinnar mátti tálmunarlítið af laganna hálfu renna þangað og þaðan sem eðlilegt er, hefur verslunarstaður á Seyðisfirði myndast og eflst sem orðið er á stuttum tíma. Verslunarfrelsisárið 1854 mátti sjá aðeins eitt timburhús, verslunarbúð á Seyðisfirði, þá fyrir skömmu byggt, og í hreppnum voru þá 16 heimili og íbúar ekki 200; en 1883 voru húseignir þar sem virtar voru 68 að tölu og virðingarverð þeirra 191.280 kr. Sama ár voru húseignir á Akureyri, sem þó er miklu eldri bær, ekki nema 46, og virðingarverð þeirra eigna aðeins 140.353 kr. Þetta ár var manntal í Seyðisfjarðarhrepp orðið um eða yfir 700. Ávextir frelsisins sýndu sig hér fljótt, þeir sýndu áþreifanlega, hvar aðalverslunarstaður Austlendinga væri eðlilega settur – á Seyðisfirði og það leiðir beinlínis af legu hans við sjávarsíðuna, og afstöðu sveitanna umhverfis hann. Vegna afstöðunnar hlýtur verslunarmagn allra sjávarsveita allt frá Kollumúla norðan við Héraðsflóa, og suður að Gerpi og allra sveita í Héraði, að Skriðdal ef til vill einum undanskildum, heldur að hneigjast til Seyðisfjarðar en Reyðarfjarðar, og eru það alls 12 eða 13 hreppar, og af þeim eru 9 eða 10 hreppar nær Seyðisfirði en svari 5 mílna fjarlægð, og í þeim tveim sem næstir liggja fyrir ofan fjallið er nægur heyskapur og mætti verða miklu meiri. Í öllum héraðssveitunum er allmikill landbúskapur og gætu kaupstaðarbúar á Seyðisfirði fengið þaðan næga landvöru, hey, ull og mat, ef þeir aðeins vildu. Verslunarstaður við Reyðarfjarðarbotn yrði þar á mót á mjög afskekktum stað fyrir flestar sveitir hér austanlands; mikils til of langt inn í landi fyrir fjarðasveitirnar – 6-7 mílna fjarlægt við næstu fjörðu -, og að jöfnum verslunarháttum sem á Eskifirði mundu ekki suðurfjarðarmenn versla þar að nokkrum mun og úr norðurfjörðum alls ekki. Yfir Fagradal yrði sá verslunarstaður í fullri 5-6 mílna fjarlægt við næstu héraðssveitir, Valla og Eyðaþinghá. Hinar miklum mun lengra. Úr skriðdal yrði skemmst leið þangað, en yfir Þórdalsheiði en ekki Fagradal. Breiðdælingar gætu náð til verslunar við botn Reyðarfjarðar, en ekki eru líkindi til að þeir mundu nota það mikið. Þareð vegur þar á milli er langur og ekki góður og Breiðdalssveit liggur að sjó, þó mætti helst vænta þess, ef verslunarstaðurinn í Reyðarfirði næði nokkru afli, að hann hefði það einkum af viðskiptum við tvær hinar síðasttöldu sveitir. Þegar líta skal á, hver staðurinn liggi betur fyrir aðdráttum af sjó og aflaföngum, þá hygg ég (ólæsilegt) afspurn, að flóarnir út af norðurfjörðunum (fyrir norðan Gerpi) séu fullt svo fisksælir sem hinir syðri, og það veit ég af sögn áreiðanlegra manna, að einn hinn mesti formaður til hákarlaveiða þar um slóðir, Þórarinn á Vattarnesi – uppi fyrir 1850 – sótti einatt hákarlaföng sín austur á hákarlamið Seyðfirðinga, “Grýtu”, sem var nafnfrægt aflamið fyrir og á þeim tímum, en það mundi hann ekki hafa gert, hefði hann ekki reynt þau miðin fangasælli, því hann var glöggur maður og skynsamur og sjóleið þangað frá Vattarnesi ekkert smáræði. Um veiði innfjarða á smábátum munar oft mikið, meðan á milli fárra er að skipta, og í þeirri grein getur verið að Reyðarfjörður verði drýgri, þó er ekki fyrir því margra ára reynsla. Fyrir 1860 voru Seyðfirðingar miklir aflamenn, og ekki er víst að Reyðarfjörður hefði fætt íbúa sína betur en Seyðisfjörður á því tímabili sem síðan er liðið, ef þeir hefðu þar jafnmargir verið. Engin von er til þess að nokkur kaupstaður hér á landi nái vexti og stöðugum viðgangi, að tómthúsamenn og sjómenn geti almennt þrifist og það ekki fremur á Seyðisfirði en annarstaðar, ef þeir koma sér ekki við til vinnu nema 3-4 mánuði á ári um hásumarið, ef ekki eru til sjósóknar nema smábátar, hvorki stórir bátar sem af beri haustsjó við fiskiveiðar, eða ferðir til hákarlaveiða út á flóana á vorum, og ekkert þilskip, sem leitað geti hákara eða fiskiveiða fyrir utan land á vori og sumri. Meðan velgengni sjómanna er öll komin undir bátafiski á fjörðum eða rétt við land, en hákarlaveiði er alls ekki stunduð og alls engin veiði á þilskipum, þá eru engin líkindi til að nokkurt sjómanna þorp og um leið verslunarstaður hér á landi geti haldið varanlegum þrifum, Höfn eða skipalægi mun ekki síður öruggt á Seyðisfirði en við botn Reyðarfjarðar, og það virðist mér reynsla næst undanfarinna 30 ára sanna, að fleiri skip hafa strandað og skemmst við Reyðarfjörð en Seyðisfjörð. Á vorum þegar hafís liggur fyrir landi bægir hann eigi síður innsiglingu á Reyðarfjörð en Seyðisfjörð. Ég er “Dalbúanum” samþykkur í því að meiri landbúnað megi hafa kringum kaupstað í Reyðarfirði á innsveit þar þótt hann sé lítill nú, heldur en Seyðisfirði; en það mundi fjarri fara að sá peningsauki gæti jafnast á við gagn það sem kaupstaðarbúar og tómthúsmenn á Seyðisfirði hafa haft, og geta framvegis haft af landbúnaði í nærsveitunum þegar þeir læra betur að nota sér það. Nóga staði þar sem hættulaust er að byggja hús, má fá við botn Seyðisfjarðar eða út með firðinum, einkum síðan í haust að kaupstaðarstæðið var stækkað og byggja má um alla Búðareyri.
Ég hef með undanfarandi athugasemdum borið saman hugmyndina um aðalverslunarbæ Austurlandsins við Reyðarfjarðarbotn – eins og ég lít á hana – við þann verslunarstað sem nú er á Seyðisfirði, og sem er orðinn þar til á einum 80 árum fyrir frjálsa og eðlilega rás atburðanna. Nú er hégómi að hugsa sér hann fluttan suður að botni Reyðarfjarðar, þótt þaðan mætti verða auðveldara að fá akbraut og ekki mun gott að minnka hann eða sundra honum. Mér virðist að við ættum miklu heldur að hlynna að þeim stað, og efla hann, sem best er settur hjá oss sem aðalstöð verslunar og framfara; því meir sem styrkur hans eykst, því meiri von er þess að verslun þar og aðrar sannar framfarir eflist og hafi betrandi áhrif á önnur héruð Austurlandsins, eins og hingað til hefur verið með kaupskap og vöruverð. Þar sem mest samkeppni, og þar hlýtur mönnum yfir höfuð að takast best kaup og sala. Sömuleiðis eru öll líkindi til, þegar verslunarstaðnum eykst aldur og þroski, muni leggjast niður þeir barnabrestir sem nú eru þar, og í þeirra stað koma bindindi og manndáð, og “eftir höfðinu dansa limirnir”.
Nú er eftir sem snöggvast að líta á hinn ímyndaða veg á Fagradal og Vestdalsheiði. Þann af þessum vegum sem almennt yrði álitið að gagnlegri mundi verða, er auðvitað að sem best ætti að vanda, þar eða hann yrði aðal aðflutninga og mannferðar til og frá verslunarstaðnum, og ekki horfa í fáeinar þúsund krónur, ef hann fyrir þær yrði í raun og veru betri og varanlegri. Það yrði aðalmeinið á verslunarstað við Reyðarfjarðarbotn, eins og áður er drepið á, og vegagerð á Fagradal, að hvorttveggja yrði mjög afskekkt og lægi mílu lengra frá og horfði ver við verslun úr flestum fjarða- og héraðssveitum, heldur en verslun á Seyðisfirði og vegur þangað.
Eins og margir vita liggur Fagridalur gegnum fjarðafjöllin. Frá Áreyjum innsta bæ í Reyðarfirði, og sker þaðan langsetis beint í norðaustur fjallgarðinn milli Héraðs og Reyðarfjarðar, kemur saman við Eyvindardal þegar út eftir dregur, og endar síðan þessi hinn langi dalur á móts við Dalhús í Eyðaþinghá, sem stendur yst í honum; ég hef ætíð heyrt að lengd hans væri ein þingmannaleið. Leiðin öll frá Reyðarfjarðarbotni að Lagarfljóti hlýtur víst að reynast 6 mílur eða hálfu lengra en hin mælda leið á Vestdalsheiði. Þessi Fagradalsvegur stefnir svo: Frá fjarðarbotni fyrst eina mílu í suðvestur inn fyrir Grænafell móts við Áreyjar, og síðan alla leið í norðaustur, 4-5 mílur milli byggða út undir takmörk Valla og Eyðaþinghár. Eggi get ég sagt hvað dalurinn liggur hátt, en það hygg ég að skakkt muni vera í grein “Dalbúans” að Skriðuhóll, “sem hæst liggur” sé ekki nema 90-120 fet yfir sjávarmál, og hallinn talsvert öðruvísi en þar er skýrt frá*. Mjög er leið á Fagradal illviðrasöm og mundu menn mjög komast að raun um það ef hún væri fjölfarin, en það er allsjaldan að menn fara þar um, og lengi munu menn hér í sveitum muna skaðana, sem þar urðu haustið 1858, snemma í okt. Slíkir hafa ekki orðið á Seyðisfjarðarheiðum á haustdögum. Hvað kemur til að svo góður vegur og hallalítill sem á Smjörvatnsheiði er, skuli nú vera vanræktur æ meir síðan verslun varð til á Seyðisfirði? Mun það ekki vera af því að sá staður, er hagkvæmur og verslun þar þess vegna meiri og betri; fjallvegur þangað einnig mikið styttri og fjölfarnari, sem er mikill kostur, einkum í haust og vetrarferðum. Setjum að verslunarstaður væri við Reyðarfjarðar botn, og dýrkeyptur góður vegur á Fagradal, og sú leið væri farin; leiðin til uppsveita Héraðsins mundi þá fyrst liggja eina mílu til suðvesturs, þar næst 4 mílur til norðausturs og seinast 1 til 5 mílur í suðvestur, og auka um 2-3 mílur kaupstaðarleiðina sem nú er.
Flutningar eftir Lagarfljóti standa ekki fremur í sambandi við flutningsveg eftir Fagradal en Seyðisfjarðarheiðar. Úthéraðsmenn mundu aldrei – fremur en Norðurfjarðarmenn – versa við Reyðarfjarðarbotn, meðan nokkur verslunarkytra væri á Seyðisfirði, enda yrði leiðin þeim þangað 4 til 6 mílum lengri og að sama skaði örðugri, því þá akbraut væri eftir Fagradal, mundi leiðin samt verða jafnlöng, illviðrasöm og liggja í öfuga átt, og seint mun liggja vagnbrautir heim að hverjum bæ á Héraðinu, eða ekki get ég rýnt svo langt fram í tímann að ég sjái þær.
Mér virðist enn sem fyrri tómt mál um akbraut að Reyðarfirði, þar eð vér höfum þaðan nær því ekki neitt að flytja og leiðin liggur öfugt fyrir oss. Það eru ekki nú þeir tímar, að nokkur getið boðið verslunarstaðnum á Seyðisfirði að taka sig upp og setjast niður við Reyðarfjörð. Eða því mundi ekki verslunarstaður hafa myndast þar, þegar lög bönnuðu það ekki, ef þar er hagkvæmur staður?
Eða mun það stoða oss, og getur það samrýmst kröfum núlega tímans og þörf vorri á framför, að byggður sé vegur fyrir 40-50.000 kr. þangað sem ekki standa nema fáein býli og lítið sem ekkert er að taka til flutnings, og valla hægt að sjá að verði meira síðar, en hætta við vegagerð á þeim vegi sem þegar er byrjaður, og ætla má að fluttur sé yfir árlega nálægt 1000 lesta þungi, og liggur að hinum helsta verslunarbæ vorum. Um veg á Vestdalsheiði á ekki hér að rita, hann hafa nú skoðað og álitið merkir menn og látið það álit sitt í ljósi með prentaðri skýrslu.
Nú hefur ekki náttúran brotið þar hlið á fjallgarðinn, og vér höfum ekki megn svo mikið, en eigum vér þar fyrir ekki að gera þar veg svo traustan og hagkvæman sem unnt er? Oss vantar öll tæki til þess að flytja þungar byrðar sem ekki verða lagðar á hesta í Héraði. Ef skipalægi hefði fengist við Lagarfljótsós, mundi ráð til þess hafa verið fundið, en tilraunir í þá átt eru nú fyrst um sinn strandaðar. Reikningur Dalbúans um flutning á hestum er eftirtektaverður, og mikið væri unnið að framför með því, ef hestahöld vor yrði almennt ódýrri en nú er; en ennþá vantar öldungis alla reikningslega áætlun um hvað varnar kosta, eða flutningur á þeim, og hvort það yrði mannsparnaður að flytja á þann hátt eða hverjir ættu að eiga slíka flutningsvagna? Ólíklegt er að Dalbúinn hafi hugsað sér að hver Héraðsbóndi ætti vagn á braut á Fagradal eins og hesta til heimavinnu og annarra aðdrátta, og mestan hlut leiðarinnar þyrfti þó að flytja á klakknum, meðan enginn brautarstúfur er til í öllu Héraðinu og örfáar kerrur.
Vegurinn yfir Vestdalsheiði þarf að komast á sem allra fyrst einsog ætlað hefur verið, og það sem vönduðust akbraut. Vagnarnir ættu ef til vill að vera svo eða svo margir, t.d. 3-4 sameiginleg eign hvers hrepps, eða allir þeirra hreppanna sem næst liggja fjallveginum, brautin að liggja að Lagarfljóti í miðju Héraði og þaðan frá duglegir flutningsbátar eftir því. Jafnframt þessu ættum vér svo sem unnt er aðkoma oss upp kerrum og venja oss við að nota þær sem allra mest til heimavinnu, flytja á þeim áburð á tún, hey af túnum, mó frá gröfum, hey af engjum og sem flest annað sem flytja þarf, og mun það reynast mikill tímasparnaður og kostnaðarléttir. Jafnhliða því sem vér temjum oss þessa flutningsaðferð, þyrftum vér sem mest að leggja niður þá aðferð á verslun og flutningum sem nú er, að versla í kaupstöðum á öllum tímum árs, og flytja jafnoft varninginn yfir fjallveginn. Hversu mikið manntjón og fartjón höfum vér ekki beðið af þeirri aðferð? Og hvenær sjáum vér fram úr því sem af henni hefur hlotist? – Þá mundu ekki peningarnir sem varið er til vegabóta, vera grafnir undir fönn þegar vér þyrftum að nota þá, því vér versluðum ekki að mun nema sumar og haust þegar vegir eru auðir og þurrir, og flyttum þá ef tími væri naumur, aðeins yfir fjallveginn og í geymsluhús vor, og síðan við hentugt tækifæri á bátum, sleðum, eða hestum, til heimkynna vorra.
S. E.
*) Tvær villur leiðinlegar eru í Austragreininni “um vegi”, báðar í örðum dálki. Hin fyrri 400 pd. Hin síðari: frá Reyðarfirði að Lagarfljótsbotni nálægt 20 faðmar. Talan á líklega að vera 1400 pd. Ekki 400, og hin síðari 2000, en ekki 20.


Ísafold, 14. apríl 1886, 13. árg., 16. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur ræðir hér brúarmál með það fyrir augum “að hrinda brúarmálinu þó ekki sé nema dálítið áfram”.

Lítil bending viðvíkjandi brúarmálinu.
Þegar rætt hefir verið um að brúa Þjórsá og Ölfusá, hvort heldur það hefir verið á alþingi eða í fréttablöðum, hefi ég, eins og aðrir, sem eiga við þá erfiðleika að stríða, að eiga nauðsynjar sínar að sækja yfir stórvötn þessi, fylgt því máli með mestu athygli. Það hefir glatt mig, þegar ég hefi heyrt raddir hlynntar máli þessu; það hafa þá oftast verið menn, sem töluðu, er gagnkunnugir voru bæði landsháttum okkar austanmanna, og ókjörum þeim, sem við eigum við að búa, þar sem árnar eru; á hinn bóginn hafa og margir gjörst andmælendur brúanna, bæði á alþingi og í fréttablöðum; flestir þeirra hafa fært það til máls síns, að ógjörningur væri, að landsjóður kostaði brýrnar; en auk þeirrar ástæðu hafa sumir komið með aðrar léttvægari ástæður, svo sem Holger Clausen, er hann sagði á síðasta þingi á þá leið, að þar sem engar brýr hefðu í nokkur hundruð fyrirfarandi ár verið á ánum, væri oss ekki vandara um, að komast yfir þær brúarlaust, en forfeðrum vorum. Í vetur las ég langa grein um brúarmálið í “Austra”, að sögn eftir síra Jón prófast í Austur-Skaftafellssýslu, sem eins og kunnugt er, á síðasta þingi gjörði sitt til, að fella frumvarpið um brú á Ölfusá, en hefir samt þá ekki þóst hafa úttalað, og furðar mig á, að hann, jafn greindur og réttsýnn maður, skuli vera svo þrár við sinn keip; látum svo vera, þó honum vaxi í augum, að landsjóður leggi fram allt féð til að brúa báðar árnar (200.000 kr., sem er allt of há áætlun), en hitt gegnir furðu, að hann skuli berja það blákalt á fram, að brýrnar muni ekki koma oss sunnlendingum, austan ánna, að tilætluðum notum, og vill hugga okkur með því, að sumir aðrir eigi eins örðugar kaupstaðarferðir og við, og sé oss ekki vandara um en þeim, þetta dregur dám af ummælum H. Clausens.
Á (ólæsilegt) brúarmálið á sama skeri og fyr; meiri hluti neðri deildar neitaði að landssjóður legði allt féð fram. Þótt mér nú virðist það sanngirniskrafa, að landssjóður kostaði brýrnar, þá er það samt skoðun mín, að það sé ísjárvert fyrir oss sunnlendinga, sem hlut eigum að máli, að tefja fyrir brúargerðinni og lengja þingræður með þrábeiðni um “gjafabrýr”; ég er sannfærður um, að hér eftir munu verða lögð brúarfrumvörp fyrir hvert einasta ókomið þing, þar til brýrnar að lokum, fyrir tilstilli Alþingis, verða gjörðar á kostnað landssjóðs. En hver veit hvað lengi það getur dregist? Ef til vill fullan mannsaldur, eða meira; því að aftur á hinn bóginn er ég eins sannfærður um, að fyrst um sinn muni þingmenn úr þeim kjördæmum, sem ekki hafa beinlínis gagn af brúargerðinni, sitja jafnfastir við sinn keip, að landssjóður eigi ekki að kosta brýrnar að öllu, eins og komið hefur fram á fyrirfarandi þingum, og þótt atkvæðamunur hafi verið lítill á síðasta þingi, þá gæti svo farið, að hann yrði miklu meiri á öðrum þingum; en málið er allt of áríðandi, að það þoli slíkan drátt.
Til þess að koma í veg fyrir slíkan drátt, sé ég hið helsta ráð, að brúafrumvörp þau, sem lögð yrðu fyrir næsta alþing, færu í líka stefnu og tillaga Tryggva Gunnarssonar á síðasta þingi; landssjóður ætti að leggja fram féð að hálfu, en nágrannasýslurnar, eða jafnvel allt suðuramtið, ætti að fá rentulaust lán úr landssjóði, sem borga mætti smám saman, árlega, og skal ég leyfa mér hér á eftir að reyna að sýna fram á hvernig ég hefi hugsað mér, að sú lántaka yrði minnst tilfinnanleg fyrir lántakendur.
Upphæð sú, 80.000 kr., sem gert var ráð fyrir á síðasta þingi, að brú á Ölfusá mundi kosta, er að ætlan minni of há; mun Vinfeldt-Hansen hafa gert ráð fyrir þeim kostnaði; kunnugur maður erlendis hefir sagt mér, að á hinum síðustu 10 árum hafi steypt járnsmíði erlendis lækkað mjög í verði (ég gerði ráð fyrir að brýrnar verði úr járni), og ætti því brúarefnið ef til vill að fást með talsvert vægara verði, en þegar V. H. gerði áætlun sína; en hvað sem því líður, þá mundu tilfengnir útlendir brúarsmiðir gera kostnaðaráætlun af nýju, áður en tekið væri til starfa. Ég geri nú samt ráð fyrir, að báðar brýrnar mundu kosta 160.000 kr.; landssjóður legði þá fram 80.000 kr., en hinn helmingurinn væri lánsfé, sem borgast ætti með tiltekinni árlegri afborgun, upp frá þeim tíma að brýrnar væru fullgjörðar og til almennings afnota. Af því ég er kunnugri fyrir austan Þjórsá, mun ég hér aðeins miða við hana. Jafnskjótt og búið væri að velja brúarstæðið skyldi leggja veg af þjóðveginum, sem nú er (t.d. frá bænum Rauðalæk) að brúnni; sá vegur mundi að sönnu kosta talsvert, en ég geri ráð fyrir, að ekki yrði horft í þann kostnað, þegar slíkur væri hagur í aðra hönd, að Þjórsá yrði farin á brú; þeir, sem brúna færu með klyfjahesta, væru einkum Rangæingar og Vestur-Skaftfellingar, sem annaðhvort færu kaupstaðar- eða skreiðarferðir út á Eyrarbakka; reyndar versla sumir þeirra að miklu leyti í Vestmannaeyjum, og þessi síðustu ár hafa Vestur-Skaftfellingar pantað nokkuð af vörum frá útlöndum, og sótt þær til Eyja, en samt munu þó fáir eða engir búendur vera, einkum í Rangárvallasýslu, sem ekki hafa meiri eða minni aðdrætti árlega frá Eyrarbakka. Því miður er mér ekki kunnugt um búendatölu í Rangárvallasýslu, nú sem stendur, en af Johnsens Jarðatali sé ég, að 1844 voru 660 búendur í sýslunni, og mun hún nú ekki vera fjarri því. Ég ætla nú samt ekki, að taka of djúpt í árinni, og aðeins gjöra ráð fyrir, að 500 búendur úr Rvs. fari um brúna árlega með 10 klyfjahesta hver; ætti þá hver þeirra að gjalda 20 aura fyrir hvern klyfjahest, sem færi út yfir og austur yfir aftur á brúnni; þessir 500 búendur mundu þá árlega gjalda 1000 kr., en það væri hið sama, eða minna, en þeir árlega gjalda í ferjutolla (25 aura fyrir klyfjar af einum hesti); sama gjald skyldi lausríðandi gjalda; einnig skyldi taka nokkuð gjald af gangandi mönnum og lausum hrossum, sem farið væri með yfir á brúnni. Það er ekki hægt að giska á, hversu margir lestamenn úr Skaftafellssýslu, lausríðandi menn, eða laus hross (markaðshross hestakaupmanna) mundu árlega fara um brúna, en ekki þætti mér ólíklegt, að brúartollur þeirra mundi einnig nema 1000 kr. Ég þykist hér að framan ekki hafa farið of langt að ætla, að 500 búendur úr Rangárvallas. árlega fari um brúna, þar sem ég sleppi svo miklu af búendatölunni; sömuleiðis eru 10 klyfjahestar ekki ofætlað á hvern búanda; því þótt sumir einstakir fari ekki með svo marga hesta, þá er hinna tala meiri, sem árlega hafa miklu meiri aðdrætti, 20-40 hesta. Eftir þessari áætlun fengjust árlega 2000 kr. í brúartoll; en hver ætti að innheimta þennan brúartoll? Mér virðist liggja beinast fyrir, að brúin væri boðin upp á leigu, til eins eða tveggja ára, og ætti sá, sem brúna tæki á leigu, að skuldbinda sig til, að gjalda árlega í landssjóð peningaupphæð; það segir sig sjálft, að ekki væri fenginn annar brúarvörður, en áreiðanlegur maður, sem ætti veð fyrir árgjaldinu.
Umferðin um brúna kynni ef til vill fyrsta árið ekki að verða eins mikil og ég hefi ætlað á, en eftir því sem nýir vegir yrðu lagðir að henni, mundi hún vaxa með ári hverju, því fáir eða engir mundu heldur kjósa að fara á ferju og sundleggja hesta sína, nema ef vera skyldi menn af næstu bæjum við ferjur á ánni og ef til vill greinarhöf. í Austra; Skaftfellingar eru taldir bestir ferðamenn hér á landi; þess vegna mundu þeir manna helst nota brúna, en ekki eiga á hættu að leggja langþreytta hesta sína í ána og missa þá, eins og oft hefir viljað til; á ári hverju farast fleiri eða færri hestar í Þjórsá, og ef skýrsla væri til um það, hve mörg hross hafa týnst í henni um síðastliðin 40 ár, mundi andvirði þeirra skipta þúsundum króna.
Ég er greinarhöfundi í Austra samdóma í því, að æskilegra væri að brú kæmi fyr á Þjórsá en Ölfusá (því ekki er við að búast, að brýr komist jafn skjótt á báðar árnar); það, sem mælir fram með því, er, að margir Skaftfellingar og flestir Rangæingar fara aðalkaupstaðarferðir sínar á Eyrarbakka, en ekki til kauptúnanna fyrir utan Ölfusá; sömuleiðis er meginhluti Árnessýslu austan Ölfusár, og sækja menn þar helstu nauðsynjar sínar til Eyrarbakka; verslun þar hefur nú í seinni tíð fallið mönnum betur í geð, eftir að kaupmönnum fjölgaði þar; Árnesingum þeim, er búa utan Ölfusár, er innan handar að reka verslun sína annaðhvort í Þorlákshöfn eða kaupstöðunum fyrir vestan fjall. – Hvað lánið yrði fljótt, endurgoldið, er náttúrlega undir því komið, hversu brýrnar yrðu fjölfarnar. Brúarlán til Þjórsár (40.000 kr.) ætti að geta endurgoldist á 40 árum, eða skemmri tíma.
Ég ætla ekki að fjölyrða meir um þetta, en vona, að þessi bending mín, þó henni kunni í ýmsu að vera áfátt, verði til þess, að hrinda brúarmálinu þó ekki sé nema dálítið áfram.
Kirkjubæ 25/3 – “86. Bogi P. Pjetursson.


Ísafold, 23. apríl 1886, 13. árg., 21. tbl., viðaukablað, forsíða:
Hér er birt ágrip af sýslufundargerðum í Árnessýslu en þar er víða rætt um vegamál.

Ágrip
af sýslufundargjörðum í Árnessýslu 1885 og 1886
a. Á aukafundi 30. sept. og 1. okt. 1885.
Á fundinum, sem var haldinn í barnaskólahúsinu á Eyrarbakka, voru mættir, auk oddvita, nefndarmenn úr öllum hreppum sýslunnar, nema Grafningshreppi, þar sem nefndarmaður var dáinn. Nýkosnir nefndarmenn voru mættir; fyrir Hrunamannahrepp: Skúli Þorvarðarson, alþm. á Berghyl, fyrir Skeiðahrepp: Jón hreppstjóri Jónsson á Skeiðáholti, og fyrir Selvogshrepp: Þorsteinn bóndi Ásbjarnarson á Bjarnastöðum.
Til skrifara var kosinn nefndarmaður Ölfushrepps.
13. Tilkynnt bréf suðuramtsins (26. júní), er skýrir frá, að landshöfðingi hafi veitt 1.000 kr. þetta ár til aðalpóstvega, og samþykkt, að þær 487 kr. 47 au., er ekki varð unnið fyrir vegna ótíðar fyrra ár, megi einnig brúkast í ár.
Nefndarmaður Hraungerðishrepps lagði fram álit um og reikning yfir vinnu á aðalpóstvegum þetta ár, sem og kvittanir verkstjórans fyrir gjaldinu.
15. Lagðir fram 2 reikningar um aukaviðgerð á Melabrúnni, að upphæð c. 90 kr.; samþykkt, að greiða þær úr sýsluvegasjóði.
16. Skýrt var frá, að “Melabrúin” hefði í sumar verið endurbætt á þann hátt, að nægilega stórir skurðir hefðu verið gjörðir beggja megin og brúin víða hlaðin að utan, svo að nú vantaði helst íburð. Ákveðið, að gera ráðstafanir fyrir að fá 2.000 kr. lán af þeim 150.000 kr., sem í enda fjárlaganna fyrir 1886-87 eru ætlaðar til að veita mönnum atvinnu, panta nú þegar verkstjóra og láta taka upp og flytja grjót að brúnni til íburðar.
Spurt var um, hvort ákvörðun nefndarinnar á síðasta fundi áhrærandi skemmdir á Melabrúnni hefði verið fullnægt (sjá 34. tölul. síðustu prentuðu fundargerða). Nefndarmaður Sandvíkurhrepps skýrði frá, að allir hlutaðeigendur hefðu neitað að inna verkið (25 dagsverk) af hendi. Samþykkt, að oddviti og nefndarmaður Sandvíkurhrepps taki á sig fulla ábyrgð á, að 50 dagsverk séu unnin að Melabrúnni fyrir næstu fardaga, og lýsi yfir í blaðinu “Ísafold”, að þau séu unnin sem bætur af hálfu þeirra, sem gerðu spjöll á Melabrúnni næstliðið ár, með því að teppa aðalvatnsrúm hennar.
b. Á aðalfundi 13.-17. apríl 1886.
Á þessum fundi, sem haldinn var á sama stað og áður, voru, auk oddvita, mættir allir nefndarmenn, nema frá Grafningshreppi, þar sem nefndarmaðurinn var dáinn. Til skrifara var kosinn nefndarmaður Ölfushrepps.
9. Nefndin veitti fyrir þetta ár 50 kr. styrk af sýslusjóði til sæluhúsahalds á Kolviðarhóli eftir beiðni hreppsnefndar Ölfushrepps.
Nefndin fól oddvita, að fara þess á leit við amtsráðið, að það sjái sæluhúsinu fyrir tryggingu gegn eldsvoða.
26. Oddviti hafði í fundarboðuninni talið málið um brúargerð á Þjórsá og Ölfusá meðal þeirra, er koma mundu til umræðu; tók því nefndin það fyrir, og lýsti því yfir, að þetta mál væri sér sama áhugamál og fyr; en af því alþingi í sumar hafði sérstakan starfa, en fengist ekki við sérstök fjárhagsmál, væri þýðingarlaust að leggja þetta mál fyrir það að þessu sinni.
27. Þá var rætt um sýsluvegi sýslunnar. Nefndinni höfðu ekki borist neinar uppástungur um nýja sýsluvegi, eða breytingar á hinum ákveðnu sýsluvegum.
Þá er rannsakaðar voru skýrslur um verkfæra menn, fundust nokkrir misbrestir á, að ákvörðun nefndarinnar hefði verið fylgt í Grafnings- Biskupstungna- og Hrunamannahreppum. – Nefndin heldur því fram, að þeirri ákvörðun hennar sé rækilega fylgt, að hreppstjórar láti skýrslur prestanna fylgja listum sínum sem fylgiskjöl, og sendi sýslumanni hvorttveggja að minnsta kosti á vorfund sýslunefndarinnar.
Umsjónarnefnd yfir “Melabrúnni” hafði eftir ákvörðun nefndarinnar á haustfundi falað 2.000 kr. lán, af þeim 150.000 kr., sem í enda fjárlaganna fyrir 1886-87 var ætlað til lána að veita mönnum atvinnu, og fengið munnlegt loforð landshöfðingja fyrir þessu, ef atvinnulánið yrði staðfest, og í því trausti ráðið verkstjóra og látið byrja að taka upp og draga að grjót til íburðar í brúna. En meðan sem hæst stóð á verkinu, kom ráðgjafabréf það, sem neitar um samþykki á atvinnuláninu. Umsjónarnefndin lét samt halda verkinu áfram, og var unnið fyrir nál. 1750 kr. – Sýslunefndin viðurkennir, að umsjónarnefndin hafi í fyllsta máta rekið það erindi, sem henni var falið, og að þar sem búið sé að vinna fyrir meiri hluta hins umbeðna láns, ályktar hún, að sjálfsagt sé, að taka lánið á annan hátt með sem vægustum kjörum. Nefndin komst á fundinum í samning um þetta lán, með 4% vöxtum, og 15 ára afborgun. En þar sem verkið er enn eigi hálfgert, grjótið ómulið og ólagt í brúna, telur nefndin óumflýjanlegt, að taka að auki 1500 kr. lán fyrir vegasjóðinn, og var oddvita með nefndarmönnum Stokkseyrar- og Ölfushrepps, þeim sem nú eru, falið að útvega þetta lán með sem vægustum kjörum, og gefið umboð til þess af nefndinni. Oddvita var valið, að útvega leyfi amtsráðsins til þessarar lántöku hvorrar tveggja.
Sýsluvegabótagjald sýslunnar þetta ár er .................. kr. 1839,75
og í vörslum oddvita frá fyrri tíð 14,00
1853,75
Auk þess sótti nefndin um úr landssjóði til póstvega.. kr. 1000.00
þessum samtals 2853,75
samþykkti nefndin að verja þannig, ef hinn umbeðni styrkur fæst:
a. til endurbóta á póstveginum frá Laugardælaferju út að Kömbum ............ kr. 150.00
b. til ýmsra kafla á póstveginum frá Skeggjastöðum austur yfir
(ólæsilegt) staða-engjar ................................................................................. 50.00
c. til framhalds brúargjörðinni á póstveginum fyrir framan Krókskot .......... 800.00
d. til Geysisvegarins í Biskupstungnahreppi ................................................. 14.00
e. til viðgerðar á veginum yfir Þurármýri:
1. til endurborgunar á láni, er leyft var að taka fyrra ár........... kr. 28,25
2. til endurbótar í ár ................................................................. 40,00 68,25
f. til vegarins frá Kotferjustað að Torfeyri:
1. til borgunar vinnu, er unnin var f. á. upp á væntanlegt
samþykki nefndarinnar ........................................................ 62,00
2. til vegargerðar í ár ............................................................... 100,00 162,00
g. til vegarins yfir Grafningsháls að Spóastaðaferju ...................................... 125,00
og séu 25 kr. af þeim brúkaðar til ruðnings á Grafninghálsi.
h. til vegarins frá Óseyrarnesi að Baugstöðum:
1. til endurborgunar á láni, er leyft var að taka f. á. ................ 123,74
2. til vegabótar í ár .................................................................. 170,00 293,74
i. til vegarins frá Torfeyri að Vatnastekk ...................................................... 50,00
j. til brúar hjá Gilvaði í Hraungerðisgr. ......................................................... 12,00
k. til Ásavegarins í Villingaholtshreppi .......................................................... 50,00
l. til Ásavegarins í Gaulverjabæjarhreppi ...................................................... 80,00
m. til brúarinnar í Ragnheiðarstaðasundi ........................................................ 40,00
n. til Melabrúarinnar ...................................................................................... 325,25
o. til endurgjalds á skuld sýsluvegasjóðsins .................................................. 633,51
= 2.853,75
Ef styrkurinn úr landssjóði verður minni en um er beðið, er ætlast til, að vegagerðin undir staflið c. verði út undan.
Nefndin biður amtsráðið að hlutast til um, að hinu útlendi vegfræðingur fáist til að standa fyrir póstvegagerðinni hér í ár, og að styrkurinn úr landssjóði gæti þá orðið allt að 2.000 kr. En þó hann fáist ekki til forstöðu, að hann samt verði sendur til að skoða póstvegabrautina, sem þegar er gerð, og gefa bendingar um: 1. hvort slíkum brautum mætti eigi án verulegs kostnaðarauka haga svo, að síðar gætu að notum komið sem akbrautir; 2. hvað kosta mundi hentug vél til að mölva hraungrjót ofan í vegi, og hvort grjótmulning með slíkri vél mundi verða ódýrari , en með almennum hömrum.
Um framkvæmd sýsluvegavinnunnar var ákveðið, að hreppsnefndum sé falin umsjón og framkvæmd hennar allsstaðar, nema að vinnan að Melabrúnni sé boðin upp á undirboðsþingi og að póstvegagerðin í Hraungerðishreppi sé einnig boðin upp, nema því eins, að vegfræðingurinn fáist þar til forstöðu. – Til aðstoðar oddvita í að samþykkja undirboðin voru kosnir: fyrir Melabrúna nefndarmenn Stokkseyrar- og Ölfushreppa, og fyrir póstveginn, nefndarmenn Hraungerðis- og Skeiðahreppa. – Fáist ekki viðunanlegt boð, er umsjón vinnunnar falin forstöðunefndum, og í þær kosnir: fyrir Melabrúna nefndarmenn Stokkseyrar-, Sandvíkur og Ölfushreppa, fyrir póstveginn nefndarmenn Hraungerðis-, Skeiða- og Villingaholtshreppa.
Lúðvík Alexíussyni, verkstjóra Melabrúarinnar í vetur, voru veittar 12 kr. í ferðakostnað næstl. haust.
28. Skýrslur um aukavega-vinnu voru komnar frá öllum hreppum, en frá nokkrum þeirra aðeins yfirlýsing um, að vel hafi verið unnið lögum samkvæmt. Ánýjar nefndin áskorun sína til þessara hreppa um að gefa greinlega skýrslu.


Ísafold, 14. júlí 1886, 13. árg., 29. tbl., bls. 114:
Hinn norski vegfræðingur, N. Hovdenak, hefur staðið fyrir vegagerð frá Svínahrauni og niður að Lækjarbotnum. Vinnubrögðin þykja nýstárleg og fróðlegt að lesa þetta viðtal við vegfræðinginn.

Úr Svínahraunsveginum
Það er raunar ekki Svínahraunsvegurinn sjálfur, sem nú er verið með, heldur framhald af honum suður á við, niður að Lækjarbotnum.
Þar hefir hinn norski vegfræðingur, N. Hovdenak, staðið fyrir vegagjörð nú um mánaðartíma hér um bil, með nálægt 40 verkamanna, þar á meðal 4 norska, er hann setti upp að mega hafa með sér, af því að hér væri enga að fá nægilega vana réttri vegavinnu.
Hið fyrsta, sem fréttaritari Ísafoldar, er eins og fleiri góðir menn gerði sér erindi til að skoða vegagjörðina nú fyrir skemmstu, spurði vegfræðinginn um, var, hvers, vegna að haldið hefði verið gömlu vegarstefnunni, fyrir sunnan vötnin, í stað þess sem allir kunnugir og greindir menn hefðu álitið sjálfsagt, að taka beina stefnu úr Svínahrauni, þar sem vegurinn beygir við, og á Lyklafell. Þar með hefði hann orðið bæði miklu styttri og fyrirhafnarminni, sér í lagi er til viðhaldsins kemur, þar sem hann hefði getað legið nær alla leið beint til Reykjavíkur eftir eintómum holtahryggjum, þar sem er vatnalaust, í stað þess að nú yrði hann að leggja 2-3 sinnum yfir slæm vötn, og þá hefði meira að segja mátt sameina þennan veg við Mosfellsheiðarveginn góðan spöl neðan til. Mundi að skynugra manna dómi hafa verið meir en til vinnandi, að leggja niður spölkorn af Svínahraunsveginum neðantil, þótt dýr sé orðinn, til að fá þessu framgengt.
“Mér var skipað að halda þarna áfram sem nýja vegagjörðin hætti, fyrir neðan hraunið”, svaraði hann.
“Lendir ekki vegurinn í ófærum vatnagangi eftir þessari stefnu, fyrst fyrir ofan Sandskeiðið og svo aftur þegar kemur niður að Lækjarbotnum?”
“Fyrir ofan Sandskeiðið beygjum við veginn suður á við svo, að hann lendi fyrir ofan það sem vatn stendur hæst þar í leysingum og vatnavöxtum, að kunnugra manna frásögn. Niður hjá Lækjarbotnum er ætlast til að vegurinn beygi norður á við og yfir ána milli Lækjarbotna og Elliðakots – þar verður að hafa brú á henni, helst járnbrú, því járnbrýr eru bæði ódýrari og miklu endingarbetri en trébrýr – síðan á vegurinn að liggja niður ásana fyrir norðan árnar, niður undir Hólm.
“Það er þó bót í máli nokkur, að hann á ekki að lenda í vötnunum og hrauninu fyrir neðan Lækjarbotna. En verður hann ekki býsna krókóttur með þessu móti?”
“Með þessari vegarstefnu verður eigi hjá því komist, enda er betri krókur en kelda.”
“Ég sé, að þér hafið annað lag á veginum, en hér hefir áður þekkst: ekki þennan háa hrygg í miðjunni, heldur lítið eitt kúptan veginn að ofan, jaðrana mjög fláa utan og allstaðar grafið niður með fram veginum fyrir vatnsrennsli. Mér skilst vel, að með þessum mikla fláa muni ræsin meðfram veginum og vegajaðrarnir sjálfir halda sér langtum betur en með gamla laginu, og vegurinn mun víðast hvar geta varist fyrir vatni allt eins vel með því að grafa svona niður með honum beggja vegna eins og að vera að hlaða hann hátt upp, sem auðvitað er miklu kostnaðarsamara; sömuleiðis, að vegurinn gangist miklu jafnara og varðveitist betur með því að hafa hann nærri flatan að ofan, heldur en þennan háa ofaníburðarhrygg í miðjunni. En er ekki ónýtt, að hafa bara mold í vegarköntunum, eða þótt tyrft sé með grassverði, eins og ég sé að gert er sumsstaðar? Grær þessi svörður svo almennilega, svona upp til fjalla? Og ætli vatnið muni ekki grafa sig inn undir kantana og skola þeim burt, eða frost sprengja þá alla í sundur?”
“Ekki á jafnsléttu eða þar sem lítill er halli. Þar er vatnið svo straumlaust eða straumlítið. Það er meðal annars þess vegna, að gott er að hafa vegina sem óbrattasta. Þar sem þeir mega til að vera brattari, er sjálfsagt, að búa öðru vísi um vegarkantana.”
“Hér hefir alltaf verið álitið ónýtt að hafa tóma mold í vegi undir, þótt látinn sé góður ofaníburður (möl) ofan á. Treðst ekki slíkur vegur upp undir eins af hestafótum, þar sem er mikil umferð í vætutíð t.a.m.? Getur maður reitt sig á, að nokkrir vegir endist hér öðruvísi en flórlagðir? Það má vera traust um búið, sem á að þola fryst hlífðarlausa umferð af ef til vill mörg hundruð hestum á dag, og síðan veðráttuna, eins og hún er hér, t.d. haustrigningarnar og stormana, og leysingarnar á vorin.”
“Einföld flórlegging, eins og hér tíðkast er miklu fremur til ills en góðs. Grjótið snarast og skekkist og kemur upp úr von bráðara; flestir slíkir vegir verða að urð áður langt um líður. Flórleggingin verður að vera margföld, ef duga skal, hvort lagið ofan á öðru samfellt og smæsta grjótið efst. Sé síðan fyllt upp með góðum ofaníburði og eftir réttum reglum, fær maður ágætan veg, en líka ákaflega dýran, svo dýran, að slík vegagjörð þykir ekki takandi í mál nema á höfuðþjóðvegum í fjölbyggðum löndum. Annars verða menn að láta sér lynda svona moldarvegi með góðum ofaníburði, og fái þeir að vera í friði meðan verið er að búa þá til, er reynsla fyrir því, að þeir mega vel duga, og það þar sem er miklu skaðlegra veðráttufar fyrir vegi en hér á landi. Að minnsta kosti gefast svona vegir vel í Noregi, og er þar þó rigningarsamara en hér, vestan á Noregi að minnsta kosti, og mjög stormasamt, og brattlendi meira en hér. Og það eru ekki einungis vagnvegir, heldur líka hestvegir”.
“Verðið þér nú við þennan veg í allt sumar?”
“Ég sigli aftur í ágústlok. En það hefur komið til orða, að ég færi núna bráðum austur fyrir fjall, meðal annars til að skoða hin fyrirhuguðu brúarstæði á Þjórsá og Ölfusá”.
“Það verður fróðlegt að heyra, hvernig yður líst á það fyrirtæki. Það mál er hið mesta áhugamál fyrir hlutaðeigandi héruð og hefir nú staðið á dagskrá 10-20 ár. Meðal annars hafa menn borið kvíðboga fyrir, að brýrnar mundu aldrei verða svo traustar, að árnar færu eigi með þær í vatnavöxtum og jakaburði á vorin.”
“Vatnavöxt og jakaburð þekkjum vér í Noregi. Þar er alvanalegt að gera ráð fyrir 20 feta vatnavexti í ám, sem brúaðar eru. Það stendur miklu meiri háski af viðarreki í ám en jakaburði, svo hættulegur sem hann er. Það munar um tuttugu þúsund tylftir í einum viðarflota í straumharðri á, og hafa menn þó komist upp á að gera brýr svo, að þeim sé óhætt fyrir þess konar áhlaupum.”
“Hver stendur nú fyrir vegagjörðinni hér, meðan þér eruð fyrir austan?”
“Einn af norsku verkamönnunum, sem best kann til verka.”
“Má nú ekki nota slíka menn, þótt ólærðir séu, til að standa algjörlega fyrir vegagjörð, þegar búið er að afmarka vegarstefnuna?”
“Það má komast af með þess konar menn til að leggja spotta og spotta, þar sem vandalítið er, ef þeir kunna meðal annars hallamæling nokkurn veginn, eftir að vegfræðingur er búinn að afmarka stefnuna. Og það er gert í Noregi, og slíkir menn hafðir fyrir umsjónarmenn, sem kallað er. En að örðu leyti þykir ekki takandi í mál að fást við vegagjörð nokkursstaðar öðruvísi en með forstöðu reglulegs vegfræðings.”
“Líklegast er yðar nú ekki von hingað oftar?”
“Ekki býst ég við því. Ég átti mjög bágtmeð að koma í þetta sinn; það var svo mikið að gera nú í sumar í Noregi fyrir vegfræðinga, af því að stórþingið veitti nú 200.000 kr. meira til vegabóta heldur en að undanförnu, eða 1.200.000 kr. alls. Ríkissjóður kostar þjóðvegi að ¾ , en sveitarfélög leggja fram ¼, en þau auka framlag sitt svo ár frá ári, að ríkissjóður mátti til að hækka svona vegabótaféð, til þess að verða ekki aftur úr. Hann er nú búinn að verja 86 milj. kr. til vegagjörða síðan 1854; en til þess að fullgera þjóðvegi um land allt, er búist við að þurfa muni 48 milj. í viðbót. Auk þess hefir þegar verið kostað til járnbrauta í Noregi 120 milj. kr.”.
“Hvað mundi nú þurfa að launa miklu útlendum (t.d. norskum) vegfræðing, ef hann ætti að setjast hér að og vera ráðinn til 5-6 ára t.a.m., svo sem meðan við værum að koma okkur upp innlendum vegfræðing?”
“Ég ímynda mér, að þið munduð geta fengið ungan vegfræðing efnilegan fyrir 4.000 kr. laun. Vegfræðingar þurfa miklu til að kosta til undirbúnings sér: fyrst að taka stúdentspróf eða annað próf sem því svarar hér um bil, síðan að ganga í 4 ár á vegfræðingaskóla í Kristjaníu eða Niðarósi, og loks 1 ár á þýskan vegfræðingaskóla til frekari fullkomnunar. Þegar þeir eru þar á ofan búnir að fá nokkra verklega æfingu, geta þeir oftast átt sér vísa vel arðsama atvinnu, og eru því dýrir á vinnu sinni, eftir því sem hér gerist. Ég segi ekki þar með, að ég vildi ganga að þessum kjörum, eftir mínum kringumstæðum. Annars álít ég margra hluta vegna snjallasta ráð fyrir ykkur að koma ykkur upp innlendum vegfræðing. Það er mikilsvert, að vera nákunnugur öllum landsháttum, og innlífaður þeirri þjóð, sem maður á að vinna fyrir”.
“Hvernig líkar yður verkamenn yðar þá íslensku?”
“Þeir eru röskir menn og liðlegir margir. En vegna mannleysis við rétt vinnulag og rétt handtök við hverju einu við vegavinnu vinnst þeim eigi eins drjúgt að jafnaði og hinum norsku.”
“En lærist þeim það ekki fljótt?”
“Það veitir ekki af 2-3 ára æfingu til þess að geta orðið góður verkmaður við vegavinnu, og þarf þó að sjá fyrir sér rétt og liðlegt vinnulag frá upphafi.”
- Fréttaritarinn spurði tvo af hinum innlendu verkamönnum, er hann átti tal við, hvort þeir sæju nokkurn mun á því, sem Norðmennirnir afköstuðu og hinir íslensku verkamenn.
“Ekki ber ég á móti því, að þeim (Norðmönnunum) verði verkið eitthvað drýgra úr hendi en okkur, þó að þeir sýnist ekki fara harðar að, og tefjast þeir þó nokkuð á því að segja okkur til. Það er líka eins og þeim verði síður á að halla sér fram á rekuna og masa við náungann svona snöggvast í bili heldur en okkur. Svo er líka það, að dæmi þeirra kennir mörgum okkar að halda sér betur að verki en áður hefir við brunnið stundum. Enda halda menn sér nú almennt hér mikið vel að verki.” – Þannig svaraði annar þeirra, og staðfesti hinn það í alla staði.
- Eitt hneykslaði þá mjög, og það var það, að þessi Gísli snikkari frá Khöfn, er stjórnin þar hafði sent hingað með Hovdenak, skyldi ekki snerta á verki, heldur bara elta hann iðjulaus og uppábúinn með hendur í vösum, og eiga þó að hafa að sögn 100 kr. í kaup á mánuði. Fréttaritarinn gat huggað þá á því, að eftir því sem maður, er það vissi og því réði, hefði sagt, fengi hann ekki einn eyri í kaup, nema hann tæki þátt í vegavinnunni alveg eins og hinir. Gengi hann iðjulaus, þá væri það á sjálfs hans kostnað.
Því sem búið var af veginum, og þó ekki nema hálfgert, með því að eftir var að bera ofan í, var mjög búið að spilla af umferð ferðamanna, og sögðu verkamenn svo, að ýmsir þeirra riðu hann upp og ofan að gamni sínu, til að spilla honum, af tómum strákskap, sumir algáðir, sumir ekki. “Því eru þeir ekki teknir og sektaðir?” – “Það höfum við ekki myndugleika til.” – “Það má nærri geta, að það stoðar ekki mikið, að búa til dálitla auglýsingu heima á skrifstofu hjá sér og setja í blað, og láta svo þar við lenda.” “Það er eins og að búa til lög um, að enginn megi stela, en láta samt alla þjófa fara í friðið ódæmda og óhengda”, - sagði einn, sem í förinni var.


Ísafold, 4. ágúst 1886, 13. árg., 32. tbl., bls. 126:
Greinarhöfundur ræðir samgöngur í Vestur-Skaftafellssýslu sem hann segir erfiðar og stundum því nær ómögulegar.

Nokkur orð um bygging þjóðgarða og samgöngur í
Vestur-Skaftafellssýslu.
..... Ég vil aðeins nefnda hér tvær meinsemdir af mörgum, sem Skaftafellssýslu eru mjög til niðurdreps og erfiðleika, hvað búnaðinum viðvíkur, sem að minni hyggju væri sannarlega nauðsynlegt að veita eftirtekt, ef vera kynni, þó seint sé, að bót yrði ráðin á því, að minnsta kosti að nokkru leyti. Þessar meinsemdir eru:
1., hin óhagkvæma tilhögun á byggingu þjóðgarða; og
2., hinar erfiðu og stundum því nær ómögulegu samgöngur. .....
...... Hvað hinu síðarnefnda viðvíkur, þá er það almennt viðurkennt, að greiðar samgöngu eru eitt hið helsta skilyrði fyrir framförum í menntunarlegu og búnaðarlegu tilliti. En að því er greiðar samgöngur snertir, þá er Skaftafellssýsla að því leyti eins og sett á hala veraldar og útilokuð frá þeim í samanburði við önnur héruð landsins. Það er margt, sem hér gerir samgöngurnar torveldar, bæði það, að sýslan er sundurskorin af stórum vatnsföllum og eyðisöndum, og svo hitt, að allar samgöngur á sjó eru ómögulegar vegna hafnaleysis og þar af leiðandi ekkert kauptún í allri sýslunni. Þess vegna verða sýslubúum allir aðdrættir afar erfiðir og kostnaðarsamir, þar sem þeir verða að fara allar sínar kaupstaðarferðir annaðhvort vestur á Eyrarbakka eða austur á Papós, sem, eins og kunnugt er, er mjög langur og erfiður yfirferðar. Þrátt fyrir það, þótt talsverðar vegabætur séu gerðar árlega og töluverðu fé kostað til þeirra, þá geta samgöngur á þessu sviði landsins samt sem áður aldrei orðið greiðar landslagsins vegna, nema því eins, að þær verði greiddar á sjó. Því aðeins, að menn gætu fundið einhver ráð til þess á þann þátt að efla samgöngurnar hér í sýslu, gætu þær orðið greiðar og að tilætluðum notum. Það er því sannarlega nauðsynlegt, að það yrði sem fyrst nákvæmlega rannsakað, hvað helst væri auðið að gera samgöngunum til eflingar; ef veruleg bót yrði á þeim ráðin, mundi það verða eitt hið helsta Skaftafellssýslu til viðreisnar.
Ritað í júnímán. 1886.


Þjóðólfur, 13. ágúst 1886, 38. árg., 35. tbl., bls. 139:
Í þessu fréttabréfi úr Ísafjarðarsýslu er m.a. komið inn á vegamál: “að leggja fé til vorra svo nefndu sýsluvega, er liggja í einlægum krákustígum kringum allt Djúp, er að kasta silfri í sæ”, segir bréfritari.

Fréttapistill
Úr Ísafjarðarsýslu 14. júlí 1886.
Tíð hefur mátt heita fremur stirð til lands, og fremur kuldasöm, enda hefur hafísinn öðru hverju legið landfastur við Horn; grasvöxtur hefur því almennt orðið í minna lagi. Útlitið gat þó engan veginn talist slæmt, þar eð afli er öllu meiri en í fyrra, ef fiskur hefði verið í þolanlegu verði, en 35 kr. fyrir skpd. segir lítið upp í skuldirnar hjá sumum. Kaupmenn kvað ætla að söngla sama tóninn og í fyrra, hafa góð orð að sumrinu, en vörulítið að vetrinum; þykir slíkt borga sig best. Efnaðri bændur við Djúp munu helst hafa í hyggju, að reyna að panta vörur og senda sjálfir fiskinn á útlendan markað. Undanfarin sumur hafa kaupmenn sent verslunarskip eftir vörum bænda og flutt þeim aftur nauðsynjavöru, að sögn, mest til að sporna við hinum fyrirhugaða gufubát, en nú munu þeir þykjast hafa kveðið þann draug niður, og ætla því engin skip að senda í sumar. Vonandi er, að þetta verði til að opna augu sumra þeirra, er með hnúum og hnefum hafa barist gegn þessu velferðarmáli sýslunnar. Um allan norðurhluta sýslunnar á sjórinn að vera eini þjóðvegurinn; að leggja fé til vorra svo nefndu sýsluvega, er liggja í einlægum krákustígum kringum allt Djúp, er að kasta silfri í sæ. Þeir, sem kunnugir eru hér vestra furða sig á því, að amtsráðinu skuli eigi hafa hugsast að taka eitthvað af sýsluvegagjaldinu, og verja því í öðrum sýslum amtsins, þar sem það yrði að einhverju liði. Slíkt kynni að vísu að koma í bága við hreppapólitíkina, en eigi við almenna skynsemi.


Þjóðólfur, 20. ágúst 1886, 38. árg., 37. tbl., forsíða:
Menn deila um brúargerð á Ölfusá og Þjórsá. Greinarhöfundur svarar hér grein í Austra sem miðaði, að hans sögn, að því að eyðileggja brúamálið. Röksemdirnar eru fróðlegar, bæði með og á móti.

Um brúagjörð á Þjórsá og Ölvesá
Grein með þessari yfirskrift stendur í Austra 2. 27.-28. Hún miðar auðsjáanlega til að eyðileggja brúamálið. Ekki hefur höfundur hennar viljað nafngreina sig, og hefur hann þó sjálfsagt ekki efast um, að greinin yrði sér til sóma; en raunar er varla hægt að segja að góðgirnin skíni út úr henni, að minnsta kosti ekki þar, sem hann er að leika sér að orðum þeirra, sem áður hafa ritað meðmæli með brúagjörðinni.
En hér varðar ekki um höfundinn. Lítum einungis á greinina. Það var vel, að hún gaf tilefni til, að ræða málið að nýju.
Aðalatriði brúamálsins eru þrjú:
1. Nauðsyn brúanna, 2. skylda landssjóðs að kosta til þeirra og 3. megun hans að geta það.
1. Eru brýrnar nauðsynlegar? Móti því færir greinin allar mögulegar átillur, svo sem: Að þessar sundár muni ekki verri en margar aðrar ár á landinu; að eigi muni verra fyrir hesta að synda ár en vaða; að víðar en í þessum ám fái hestar slæma útreið; en á hinn bóginn: að menn muni hvorki fækka hestum né kaupstaðarferðum þó brýrnar komi; að brýr borgi sig ver hér en í útlöndum, þar eð hér sé byggð strjálli og vörumagn minna; og að þær muni jafnvel líkt og nýir verslunarstaðir (?!) auka drykkjuskap og eyðslusemi í stað velmegunar. Hún er drjúg yfir því, að menn megi lengi bíða eftir allri þeirri velmegun, búsæld og blóma, sem þeir þykjast sjá í anda sem vísan ávöxt af brúnum.
Skoðum nú gildi þessara röksemda: Það, sem gerir sund í ám hart aðgöngu og hættulegt, er mæði og kæling. Það, sem því gerir sundár illar yfirferðar er: straumþungi, jökulkuldi og eigi hvað síst, breidd, og þó verst, þegar allt þetta fer saman; en það er tilfellið með Þjórsá og Ölvesá. Engar aðrar sundár hér á landi munu vera öllu straumþyngri eða kaldari en þær; en flestar eða allar miklu mjórri, svo mæði og kæling hlýtur að ganga nær hestum í þeim en öðrum ám, fyrir utan þá dauðans angist, sem oft hlýtur að gagntaka þá, er þeir eru reknir út í augljósan lífsháska. Mikill munur er á að synda vatn eða vaða: Á sundinu drekka hestar mikið vatn ofan í sig, og kólna því bæði að utan og innan, og svo standa þeir skjálfandi meðan lagt er á lestina; en á vaðinu drekka þeir ekki þannig, og þaðan er hiklaust haldið áfram. Sundið væri þó sök sér, ef ekki þyrfti á því að halda nema í góðu veðri; en í óveðri og vatnavöxtum, frosti og ísskriði, sem hér er altítt vor og haust, er það sannarlega ill meðferð á skepnum (“Dyrplageri”) að leggja hesta í þessar ár, þó menn iðulega neyðist til þess. Þetta hefir líka mörgum hesti að bana orðið, og margir hafa meiðst af því að hlaupa með bakkana til að hita sér eftir sundið. En hve margir hafa fengið langvinna lungnaveiki eða aðra kvilla af innkulsi í ám þessum, liðið þar af þvingun við alla brúkun og því átt bága ævi, það vita menn ógjörla. Ef hestar mættu mæla, mundu menn fræðast um sorglegan sannleik í því efni. Það tjáir ekki að svæfa samviskuna með því að segja: Hestar líða ekki meiri hrakning í ánum en á fjallvegum. Nær er, að láta sér annt um að bæta úr hvorutveggja, að því sem framast er unnt. Fjallvegina er nú verið að bæta; Þjóðfélagið gerir það. Hví skyldi það ekki einnig brúa árnar? Hví skyldi það láta nokkurt tækifæri ónotað, til að afstýra því, að ill nauðsyn helgi illa meðferð á skepnum? Því, fyrir utan kröfu mannúðarinnar, mun það jafnan reynast, að velferð mannanna fer eftir meðferð skepnanna. Sjálfsagt þarf að brúa fleiri brýr en þessar tvær, en eðlilegt er að byrja fyrst þar, sem þörfin er mest: Þar sem tvær stærstu árnar eru saman í fjölmennasta héraðinu, sem stendur til hvað mestra bóta. Því þessi hluti landsins er svo að segja hinn eini, sem gæti haft veruleg not af vagnaflutningum; og þeir geta og eiga að takast upp, ef brýrnar komast á; fyr verður það ekki, eftir því sem til hagar. Það er mjög líklegt, að vagnaflutningar gætu komið miklu góðu til leiðar hér; eigi aðeins sparað hestahald og kaupstaðarferðir að góðum mun, heldur einkum fært nýtt líf í viðskipti og framkvæmdir manna. Satt er það, að hér er byggð strjál og vörumagn lítið og vér erum “fjarskalega skammt á veg komnir” í næsta mörgu. En sú var tíðin að víða í útlöndum var líkt ástatt í því efni og nú er hér, ef ekki miður sumsstaðar. Hvernig bættu menn úr þessu þar? Einmitt með greiðari samgöngum; með þeim kom hugur og dugur, mannfjölgun og vörumagn, menntun og alls konar framfarir. Sama regla mundi gilda hér. Gerum raunar eigi ráð fyrir, að land vort, sem liggur svo norðarlega, muni jafnast við útlönd; en hver veit samt hve miklum framförum það getur tekið? Svo best verða þær samt nokkrar, að gert sé það, sem gera má, til að greiða fyrir samgöngunum. Þess öruggar sem þær ganga á undan, þess vissar fylgir framför á eftir; raunar ekki samstundis, heldur með tímanum. “Róm var ekki byggð á einum degi”, en hefði grundvöllur hennar aldrei verið lagður, þá væri hún óbyggð enn; og svo er um hvað eina. Þeir, sem nú mæla með brúargerðinni, vænta aðalgagnsins af henni með tímanum; þeir óska eigi né vona, að “bíða” svo “lengi” í heimi þessum, að þeir sjái fyrir endann á öllum framförum, sem brýrnar geta valdið. Að draga annað út úr orðum þeirra, er misskilningur ef ekki hártogun; svo drýgindi greinarinnar um hina löngu bið eftir velsæld og blóma, er brýrnar orsaki, eru, vægast talað, alveg óþörf. Drykkjuskapurinn, sem greinin gerir ráð fyrir að brýrnar valdi, er tómur hugarburður. Fyrir hér um bil 30 árum var hér talsverður drykkjuskapur og þá voru þó engar brýr á ánum; svo lögðu menn hann niður sjálfkrafa, án þess kaupstaðarvegur breyttist; nú þykir óvirðing að verða “fullur”; samt hendir það enn stöku mann, því ekki þykir tiltökumál þó menn hressi sig dálítið í ferðalögum allra helst við ferjurnar, sem vorkunn er. Nú er bindindisfélag að eyða síðustu leifum drykkjuskapar hér. Að örðu leyti er það óneitanlegt, að aukin eyðsla fylgir auknum framförum; og á þann hátt mega brýrnar vel hafa aukna eyðslu í för með sér. – Svo ónýt er öll röksemdarfærsla greinarinnar móti nytsemi brúanna; enda viðurkennir hún það sjálf þar, sem hún játar, að fyrirtækið geti, þrátt fyrir allt og allt, verið “gott og blessað í sjálfu sér”
2. Ber landssjóði að kosta brýrnar? Í aðalefninu er öll greinin tilraun til að neita þessu spursmáli; eða, hún gengur út frá neitun þess sem sjálfsagðri, svo að hún kallar það, sem landssjóður kynni að leggja til brúanna, blátt áfram; “gjöf”. Þessari skoðun til stuðnings bendir greinin á: að Sunnlendingar megi vera náttúrunni þakklátir fyrir, að hafa ekki snarbratta fjallgarða í stað ánna; að Árness- og Rangárvallasýslur þyrftu ekki að vera útilokaður frá beinlínis notum af strandferðunum, ef gufubátur gengi með landi, sem kæmi við á Eyrarbakka eða Stokkseyrar höfn, og svo mætti leggja þaðan vagnveg austur að Þjórsá; að brýrnar, þó þær kæmist á, mundi ekki “lyfta öllu landinu á hærra stig í velmegun og hvers kyns blóma” og að þeim, sem mest mundu nota brýrnar, sé ekki vorkunn að kosta þær sjálfum að mestu leyti, á þann hátt, að taka lán uppá ferjutollana eða þar á borð við; þá hefir hún ekki á móti því að landssjóður “gefi” einhvern dálitinn skerf til fyrirtækisins.
Hér við er ýmislegt að athuga. Óneitanlega er það þakkarvert, að ekki eru snarbrattir fjallgarðar í stað ánna, og mest þakkarvert vegna landssjóðs, sem samkvæmt orðum greinarinnar, ætti þá að “grafa í sundur” slíka fjallgarða: því það mundi kosta hann meira en að brúa árnar. En héraðsbúum væri naumast verra að hafa fjallgarðana og hafnir góðar, en árnar og hafnleysið. Þótt því væri að skipta, að gufubátur gengi með landi og ætti, samkvæmt ferðaáætlun sinni, að koma við á Eyrarbakka og Stokkseyrarhöfn, þá mundi brimið, sem svo iðulega lokar þeim höfnum, gera áætlunina mjög óáreiðanlega og gagnið af bátnum að sama skapi harla stopult fyrir þetta hérað. Í tvísýnu færi yrði báturinn annaðhvort að sneiða hjá, - og það yrði oft tilfellið – ellegar leggja inn upp á líf og dauða; og það væri langt um fyrirsjáanlegri hætta, heldur en hin hættan, sem greinin gerir ráð fyrir: “að brýrnar skyldu brotna af einhverjum orsökum þegar þær eru nýlagðar”. Slíkt er raunar hugsanlegt eins og svo margt annað; en ekki er það líklegt. Ef þar kemur einhvern tíma, að gufubátur gengur milli Reykjavíkur og t. a. m. Hornafjarðar, þá er ekki efamál, að hann á að koma við á Eyrarbakka þegar það er óhætt. Það gæti gert sitt til að greiða samgöngur, þó gagnið af því yrði mjög á hverfanda hveli. Hæpið væri að kosta stórfé til að leggja vagnveg að Þjórsá, t. a. m. við Sandhólaferju, sem lengi hefur verið aðal-ferjustaður austanmanna; því nú á seinni árum fer hann mjög versnandi af sandburði, svo men halda, að hann leggist af eða færist til. Yfir höfuð er öll áin þar niðurfrá, og þá líka allir ferjustaðir, sem þar eru á henni, í sífelldri hættu fyrir breytingum af sandburði. Þess utan fullnægði sá vagnvegarspotti hvergi nærri eins vel samgönguþörf Rangárvallasýslu, eins og brýrnar myndi gera. En um þetta er of langt mál orðið. Því er ekki að skipta, að gufubátur fari með ströndum, og, því miður eru litlar líkur til, að það verði að sinni. Og það er hætt við, að um gufubáta hugmyndina, sem fram hefur komið: “Það er álitleg hugmynd”, en “of mikil byrði á landssjóði”. Það mun mega ganga út frá því, að strandferðirnar haldist í sama horfi fyrst um sinn, nema hvað þær kunna að verða auknar þar, sem því verður við komið. Hve langt verður þá, þangað til landssjóður hefur varið til þeirra svo mikilli fjárupphæð, að væri því fé skipt á allar þær sýslur landsins, sem hafa bein not ferðanna, yrði hluti hverrar sýslu svo mikill, að önnur eins upphæð nægði til að brúa Þjórsá eða Ölvesá?
Þessu verður auðvitað ekki svarað með vissu; en að því kemur á sínum tíma. Þá, þó ekki verði fyr, hljóta “aðrir landsbúar að láta sér skiljast”, að hinar hafnalausu sýslur eigi rétt á, að fá tiltölulega upphæð, til þess, að efla samgöngur hjá sér. Er það þá sanngjarnt, að þær fái það ekki fyr en þar er komið? Og er það hyggilegt eða framfaravænt að láta brýrnar – sem fjölmennasta héraði landsins eru nauðsynlegar – bíða þangað til? Ætli þeir sem nú spilla fyrir málinu, fái þá þökk fyrir frammistöðu sína? – En það er leiðinlegt, að þurfa að fara út í þetta. Það er leiðinlegt, ef félagsskapar og framfara hugmyndir manna eru enn eigi svo þroskaðar, að það þyki sjálfsagt að þjóðfélagið taki að sér að láta þeim fyrirtækjum verða framgengt, sem einstöku deildum þess eru nauðsynleg, en ofvaxin, án þess að heimta sönnun fyrir sérstökum kröfurétti hlutaðeigandi héraða, ellegar að öðrum kosti sönnun fyrir því, að fyrirtækið lyfti öllu landinu á hærra stig velgengis og blóma. “Er það nú þegar þess er gætt, að menn verða að gera sig ánægða með það á hinn bóginn, að segja eins og greinin: “að oftast nær verði eitthvert gagn” að því fé, sem landssjóður ver árlega til strandsiglinga og vegabóta, og gott ef svo yrði sagt um allt það, sem fé hans er varið til; en hvort nokkuð af því er, sem “lyftir öllu landinu á hærra stig”, það er spursmál, sem vissara mun að fela ókomna tímanum að svara.
Sjálfsagt er það líka leiðinlegt, þegar menn vilja demba á landssjóð þeim kostnaði, sem þeir sjálfir eiga að bera og geta borið. En það er engin ástæða til að ámæla meðmælendum brúanna í því tilliti. Árnessýsla og Rangárvallasýsla báðu í fyrstunni um lán til brúargerðarinnar; þær treystu því að Vestur-Skaftafellssýsla, Gullbringusýsla og Reykjavík, mundu verða með sér um lántökuna, þar eð þær einnig myndu nota brýrnar; þá var hér líka almenn velmegun. Þó verður ekki annað sagt en að treyst væri á fremsta með svo stórvaxna lántöku, að ógleymdum ferjutollunum; og ekki verður séð, hvernig sýslurnar hefði komist út af því að borga slíkt lán, og leggja þó á sömu árunum vagnvegi þá, sem útheimtast til þess að brýrnar nái tilgangi sínum fyllilega. Þó er öðru máli að gegna nú, þar eð hið erfiða árferði, sem síðan hefur verið, er búið að kippa svo fótum undan velmegun manna, að flestir eru í meir eða minni kröggum; þar eð nú mun lítil eða engin von til, að Vestur-Skaftafellssýsla verði með um lántöku til brúanna og eigi heldur Gullbringusýsla og Reykjavík, - sem þó mundi nota brýrnar meira en vestur hluti Árnessýslu – og þar eð menn á hinn bóginn sjá betur og betur fram á það, að vagnvegirnir mundu útheimta ærið fé, - þá er það nú hið eðlilega og skynsamlega, sem menn í Árness- og Rangárvallasýslum geta gert, að fela þjóðfélaginu að koma fyrirtækinu áleiðis. Það hlýtur fyr eða síðar að taka það að sér, nema það taki heldur að sér vagnvegagerðina; látum þá vera að sýslurnar kosti brýrnar. Í hvoru tilfellinu sem vera skal verður byrðin þeim fullþung, svo að eigi verður ástæða til að telja það eftir þeim, þó ferjutollarnir falli burtu. Þeir gera það heldur ekki alveg. Þar, sem langur krókur er til brúanna, fara menn yfir á ferjum, þegar gott er, eftir sem áður. En sleppum því samt; aðalumferðin yrði um brýrnar, og því kæmi talsvert fé saman ef þær væri tollaðar. En þar er sá galli á, að þá yrði sinn brúarvörður að vera við hvora brú, hafa þar íbúðarhús og eitthvað af fólki með sér. Þar kæmi ærinn aukakostnaður. Staða brúarvarðar yrði ekki heldur sérlega fýsileg í ýmsum greinum: Veitti hann ekki borgunarfrest, yrði það óvinsælt; veitti hann frestinn, gæti innheimtan orðið erfið. Bókfærslu hans yrði torvelt að koma svo fyrir, að hægt væri að taka af öll tvímæli um trúmennsku hans, hvenær sem þurfa þætti. Svo það er efasamt, að hæfilegir menn fengist til að taka þann starfa að sér. Heppilegast mun að hafa brýrnar frjálsar, en að sýslufélögin taki að sér umsjón og viðhald þeirra; en fái ef á þarf að halda, styrk til þess af landssjóði ellegar amts- (eða fjórðungs-) sjóði, ef það þykir betur við eiga.
3. Er landssjóður fær um að kosta brýrnar? Þessu neitar greinin eigi fyllilega; og það hefði líka verið undarlegt, því það, sem hún telur nokkurn veginn vinnandi verk fyrir tvær sýslur, gat hún ekki talið öruggt ef allt landið hjálpaðist að því. Samt kemur hún með úrtölur, svo sem: að ísjárvert sé, að “gefa” einum landshluta svo mikið, og að menn í fjarlægari héruðum muni seint láta sér skiljast, að landssjóði beri að veita féð. En verði landinu annars framfara auðið, mun hitt reynast ísjárverðara, að neita um féð til brúargerðarinnar; það mun þeim skiljast, sem dáð og drengskap hafa, þó í fjarlægum héruðum sé, af öðrum er þess ekki að vænta. Fjárspursmálið er óneitanlega stórt. Greinin gerir ráð fyrir 200.000 kr., en gerir lítið úr áætlun Windfeldt Hansen´s, þar eð hann mun “kunnugri” lygnu fljótunum í Danmörku, en straumþungu jökulvötnunum hér á landi”. En hvar sem er verður að hafa brýr svo háar að vatnið nái þeim aldrei; og það virðist innan handar hér. Það er því naumast líklegt, að næstum þurfi að tvöfalda áætlun W.H´s. Látum samt vera, að hún hækki nokkuð; segjum upp í 150.000 kr., 6% þar af í vexti og afborgun er 9.000 kr. Á ári í 28 ár. Ætti nú tvær sýslur að inna slíkt gjald af höndum ofaná allt annað, þá yrði þeim það ókleyft, þó efnaðar væri, eins og fyr er sýnt. En landssjóði þyrfti ekki að verða það svo mjög tilfinnanlegt; ef viðlagasjóðurinn legði fram upphæðina, sem til brúanna gengi, þá mætti aftur leggja í hann sem svarar 6% þar af á ári í 28 ár; svo félli sú gjaldgrein burt. Fyrir slíku, jafnvel þó það væri 9-12.000 kr. Á ári, gæti landssjóður farið allra sinna ferða “í austurveg að berja tröll”.
Tökum að lyktum undir með greininni í einu atriði, nefnil. Þar, sem hún bendir á, að hafa þurfi varúð við í þessu máli. Aldrei verður of mikil áhersla lögð á það, að láta á brúargerðinni rætast sannmælið: “Það skal vel vanda sem lengi á að standa”.
Br. J.


Þjóðólfur, 24. ágúst 1886, 38. árg., 38. tbl., forsíða:
Jón Jónsson alþingismaður gerir hér grein fyrir því af hverju hann greiddi atkvæði gegn brúarmálinu en það var fellt með eins atkvæðis mun.

Atkvæði mitt í brúarmálinu
Af því, að ég hef séð það tekið fram í tveim blöðum (Ísafold og Fjallkonunni), að alþingi 1885 hafi fellt brúamálið með eins atkvæðis mun. Og heyrðist þar að auki í fyrra sumar, að mér væri einkanlega kennt um málalokin af sumum Sunnlendingum, þá finn ég hvöt til að gera grein fyrir, hvernig málinu víkur við í raun réttri. Það er að vísu satt, að málið var fellt frá 3. umræðu í neðri deild með 12 atkvæðum gegn 11, en það er með öllu óvíst, hve margir af þessum 11 hefðu orðið með málinu við 3. umr. í þeirri mynd, sem það kom fram á þinginu. Því að sumir munu hafa viljað lofa því að ganga til 3. umræðu fyrir orð 2. þingmanns Árnesinga (M. A.) og í þeirri von, að frumvarpið mundi eitthvað verða lagað af flutningsmönnum þess. Ég fyrir mitt leyti vænti þess ekki, að frumvarpið mundi verða neitt aðgengilegra við 3. umræðu, úr því að viðkomandi sýslubúar höfðu með engu lýst því, að það væri vilji sinn að leggja neitt til brúargerðarinnar, og því greiddi ég atkvæði móti frumvarpinu, því að einungis með því skilyrði vildi ég styðja málið, að Árness- og Rangárvallasýslur tækju góðan þátt í kostnaðinum, enda gat mér hvorki fundist það ósannlegt í sjálfu sér, né of þungt fyrir hlutaðeigendur, að taka lán með góðum kjörum, þar sem þeir láta árlega úti stórfé í ferjutolla sem hér hlytu að losast við, ef brýrnar kæmust á.
Mér þykir nú vænt um að sjá, að höfundur greinar um brúamálið í Ísafold 11. tbl. þ. á. tekur því eigi fjarri, að þeir sem mest mundu nota brýrnar kosti einhverju til þeirra, og vona, að Sunnlendingar verði nú svo skynsamir, að gína ekki lengur við þeirri flugu, að landssjóður einn eigi að kosta brýrnar, (því að þetta hefur einmitt spillt mest fyrir málinu að minni hyggju), heldur geri sitt til, að beina þessu áhugamáli sínu í hið eðlilegasta horf, og búi það svo undir alþingi 1887, að þeir, sem eru málinu í sjálfu sér hlynntir, neyðist ekki til að vera á móti því. En geri þeir þetta ekki, þá er ekki að sjá, að þeim sé þetta neitt sérlegt áhugamál, því að lítill áhugi lýsir sér í því, að heimta allt af landssjóð, en vilja ekkert leggja til sjálfur. Það er alveg vandalaust verk.
Bjarnanesi 1. d. Maím. 1886.
Jón Jónsson.


Þjóðólfur, 1. október 1886, 38. árg., 44. tbl., forsíða:
Deilur eru manna á milli, einnig alþingismanna, um ágæti brúarframkvæmda á Ölfusá og Þjórsá.

Atkvæði mitt í brúarmálinu
Með þessari yfirskrift er grein í 38. tbl. Þjóðólfs, sem út kom í dag; höf. kveðst finna hvöt til að gera grein fyrir, hvernig málinu víkur við í raun réttri. Það er nú orðið ljóst, að hann hefur fundið hvöt til að verja skoðun sína á málinu, en ekki get ég séð, að honum hafi tekist að sýna, hvern veg málinu víkur við í raun réttri, til þess þarf að skrifa lengra og gagnorðara. - Þegar mál er fellt með 12 atkv. á móti 11, þá er ekki gott að segja hver það var af þeim 12, sem varð banamaður málsins, því sá sem fyrstur segir nei að viðhöfðu nafnakalli er hvorki frægari eða ófrægari, en hinn er seinastur segir nei, af því að hann á neðar sæti í stafrófsröðinni.
En hér stóð svo á, að það voru meiri líkur til að þingmaður Austurskaftfellinga hefði næmari tilfinningu en sumir aðrir þingmenn fyrir þörf og sanngirni þessa máls, og því greiddi atkvæði með því, þar sem hann hlaut að þekkja af eigin reynslu og kunnugleika í sínu kjördæmi, hver plága sundvötn og samgönguleysi er; mér er ókunnugt hvert nokkur af þeim 11, sem greiddu atkvæði með málinu, hafa gert það fyrir orð 2. þingm. Árnesinga, að draga lífið í frumvarpinu tilgangslaust, þar sem ekki neitt breytingaratkv. lá fyrir, og ekki var von á neinu breytingaratkvæði frá mér sem flutningsmanni. – Ég skal ekki gera neinum þingmanni þær getsakir, að þeir séu að leika sér með frumvörp og spila upp á tíma og peninga; hitt ætla ég, að þeir hafi fellt jafnþýðingarmikið mál, sem þetta af fullri alvöru og sannfæringu. – Það get ég vel skilið að honum þyki vænt um hverja þá skoðun, sem nálgast hans afturhald í málinu. – Ég er nú viss um, að Árnesingar verða svo skynsamir að gína aldrei yfir þeirri flugu, að taka lán til að brúa árnar, því það er hvorutveggja, að þeir ekki geta það, enda fjarri allri sanngirni að neyða þá til þess; það er margbúið að færa rök fyrir því.
Hvað kom til að hann ekki á þingi 1885 bar fram beiðni frá Austur-skaftfellingum um að fá lán úr landssjóði, til að geta fengið gufuskip á Hornarfjarðarós, - með fullu tilliti til þess að það mundi í spöruðum ferðakostnaði ekki verða minni fjárupphæð, en allir ferjutollar í Árness- og Rangárvallasýslu nema? – Ég ætla nú fyllilega að vona, að sú skoðun nái meiri og meiri festu í þinginu, sem ég mun fyrstur hafa flutt inn á þing í ræðu minni um brúarmálið 1883, það er að landssjóður kosti alla aðalpóstvegi um landið og þá líka að brúa stórárnar á þeim leiðum, að því leyti, sem það er mögulegt, sérstaklega þar sem eins stendur á sem hér, að mest vörumagn er innflutt af öllum vegum á landinu, og af hafnaleysi fyrir suðurströnd landsins hlýtur það svo að verða meðan land byggist.

p.t. Reykjavík 24. ágúst 1886.
Þ. Guðmundsson


Austri, 28. okt 1886, 3. árg., 26. tbl., bls. 102:
Jón Jónsson segir hér frá ferð sinni um fornan fjallveg milli Lóns og Fljótsdals. Frásögn þessi kann að vera fróðleg fyrir áhugamenn um fjallvegi.

Fundinn forn fjallvegur á Austurlandi.
Mér hafði lengi leikið hugur á að fara hina skemmstu leið milli Lóns og Fljótsdals, bak við Hofsjökul og Þrándarjökul og fjöll þau, er ganga út frá þeim um suðurhluta Austfjarða. Ég vissi, að sú leið hafði fyrrum verið farin, og þótti jafnvel líklegt, að hún hefði verið alfaravegur í fornöld, og lengi frameftir, uns Norðlingar hættu að sækja sjó suður í Skaftafellssýslu (sbr. Andv. IX. 68 bls.) en það þeir hafi einhvern tíma farið þessa leið, er ekkert efamál, því að við þá eru enn í dag kennd efstu vöðin á Jökulsá í Lóni og Víðidalsá. En seinna hefur vegurinn alveg lagst niður, og vita menn eigi til, að hann hafi verið farinn alla leið af ríðandi mönnum nokkurn tíma á seinni öldum, en dæmi eru til hins, að gangandi menn hafi farið úr Lóni norður í Fljótsdal að fjallabaki, og þó hefur það mjög sjaldan borið við, og þá ekki verið valinn sumarvegur, og hefur vegur þessi því mátt heita öllum ókunnur til þessa, enda er hann ekki talinn meðal fjallvega landsins, þar sem þeir eru taldir upp í Stjórnartíðindunum. Nú er fyrir fáum árum komin í byggð í Víðidal, upp af Lóni (sjá Austra I. 19.-20. tbl.) og hefur síðan verið miklu árennilegra en áður var, að fara leið þessa, en þó hefur enginn orðið til þess, fyr en nú í haust, er ég var á ferð um Fljótsdalshérað, þá fékk ég mér til fylgdar Sigfús bónda Sigfússon á Skjögrastöðum í Skógum, er talsvert var kunnugur öræfunum inn af Fljótsdal frá fyrri árum, og lagði á stað frá Hallormsstað að kveldi hins 19. sept. í því skyni, að fara Fjallabaksveginn suður í Lón. Veður var stillt en þoka í lofti, sem grúfði yfir fjallabrúnum og fól hinar efstu eggjar þeirra. Ríðum við inn með Lagarfljóti og síðan inn suðurdal Fljótsdals, er Keldá rennur eftir; það er bergvatn, er kemur sunnan og vestan af öræfum, og rennur fyrir utan Fljótsdalsmúla saman við Jökulsá, er fellur um norðurdalinn, og falla þær svo báðar í botn Lagarfljóts, er myndast af þeim og fleirum smærri ám. Suðurdalurinn er miklu fegri en norðurdalurinn, beinn og breiður með sléttum grundum og háum og reglulegum hamrahlíðum beggja vegna. Sá maður varð okkur samferða inn dalinn, er Þorsteinn heitir Sigmundsson, og hefur áður verið á Sturlárflöt, efsta bæ í suðurdalnum, gaf hann okkur góðar bendingar um leiðina inn eftir öræfunum, sem hann hafði kynnst í fjárleitum. Um kveldið komum við að Þorgerðarstöðum, og gistum þar um nóttina, en lögðum á stað um morguninn, kl. 8, og slóst Baldvin bóndi Benediktsson á Þorgerðarstöðum í för með okkur. Var þá nýlega létt upp þokunni og fjallabjart orðið, en loft skýjað. Skammt fyrir innan Þorgerðarstaði klofnar dalurinn, og gengur fell fram á milli fjalldala tveggja, heitir hinn eystri Villingadalur, en hinn vestri og meiri Þorgerðarstaðardalur; rennur Keldá eftir honum í gljúfrum og fórum vér vestan megin (norðan megin) hennar. Austan árinnar undir fellinu eru nú beitarhús frá Sturlárflöt, en fyrrum var þar bær, er hét að Felli, og þar er sagt að Kiðjafellsþing hafi verið háð í fornöld. Blasti nú hinn forni þingstaður við oss, og má þar enn sjá hringmyndaða steinaröð, sem Baldvin sagðist hafa heyrt kallaða dómhring, en niðri á árbakkanum sagði ann að sæist votta fyrir grjótveggjum, er mundu hafa verið búðaveggir, en þar eru rof mikil, og jarðvegur blásinn burtu. Inni á dalnum hefur fyrrum verið haft í seli frá Valþjófsstað, því að Þorgerðarstaðir eru kirkjujörð, og liggur dalurinn og fellið undir staðinn, eru þar örnefnin Prestssel, Sveinssel, Stöppusel, og innst Randalínarsel, er minnir á Randalín Filippusdóttur, konu Odds Þórarinssonar (d. 1255), er Sturlungasaga segir (Sturl.9. 21.) að hafi haldið búi sínu á Valþjófsstað eftir fall bónda síns. Austan megin ár innarlega á dalnum eru örnefnin Broddaselsklif og Broddaselsbotnar, er minna á Brodda son Sörla Brodd-Helgasonar (Ljósv. E. 5.), er ætla má að búið hafi á Valþjófsstað, eins og faðir hans. Er það eftirtektavert, að sel þau, er kennt eru við fornmenn, eru innst á dalnum, þar sem landið er kjarnbest, en erfiðast að nota það, og virðist svo, sem selstaðan hafi sífellt færst utar, eftir því sem krafturinn og framtakssemin minnkaði.
Innst á Þorgerðarstaðadal heita Tungárhvammar, eru þar hagar góðir og er þar kofi leitarmana við litla þverá er Tungá heitir, þangað komum vér kl. 10, og lögðum þaðan upp á öræfin. Er mjög lítið um gróður úr því hér er komið, allt þangað til ofan í Víðidal kemur. Fyrst fórum vér um Tungárfell milli Tungár og Keldár, þá yfir Keldá skammt fyrir ofan það er Sauðá hin ytri fellur í hana austanmegin. Á þessi kemur nærri því úr hásuðri, og hafði Þorsteinn Sigmundsson ráðið Sigfúsi að halda upp með henni vestanmegin. Komum vér þar að henni, sem einkennileg nybba er á háum mel fast við ána, er vér kölluðum Fleyganybbu; spölkorn þar fyrir innan eru einkennilegir drangsteinar á holti, og nefndum vér þá Klofninga; þaðan fegnum vér góðan veg inn með Sauðá að vestanverðu og gekk ferðin greiðlega um hríð. Á einum stað er krókur á ánni og foss lítill, er vér kölluðum Krókfoss; þaðan sést Sauðhamarstindur austanvert í Vatnajökli gnæfa við himin í suðurátt. Annars fela holt og hæðir fjallasýn í austri og suðri, en á hægri hönd máttum vér lengi sjá Snæfell, konung hinna austfirsku fjalla, og var tindurinn þó hulinn þokumekki, en í heiðskýru veðri sést hann víðsvegar af Fljótsdalshéraði, norðan af Möðrudalsfjöllum og sunnan úr Lóni. Þegar lengra dró suður, varð fyrir oss dæld mikil og sléttar leirur, er Sauðá breiðist um og lónar uppi í, og kölluðum vér þær Sauðárleirur; förum vér fram með þeim að vestanverðu, og varð þá fyrir oss forn varða óhrunin, loðin af geitaskóf, er vér nefndum Geitaskófarvörðu. Innan við leirurnar lentum vér í stórgrýti og fórum því austanmegin ár nokkurn spöl, og hlóðum þar litla vörðu á grjóthól einum, en sáum seinna, að vér hefðum átt að halda inn melölduna vestan árinnar, því að í beina stefnu suður (suðvestur) af Geitaskófarvörðu þeim megin, var forn varða hátt á urðarhrauni, er vér kölluðum Urðarhraunsvörðu; þaðan áttum vér skammt að Sauðárvatni, er Sauðá rennur úr, og komum þar kl. 3. Þar voru víða gamlar fannir og riðum vér stundum eftir þeim. Einkennilegur melur stendur sunnan vatnsins með 2 klofasteinum á, þar skal fara yfir ána milli vatnsins og lítils lóns, sem er norðanvert við það. Lítinn spöl héldum vér af melnum inn með vatninu, og rann þar á í vatnið að sunnanverðu, sem vér fórum yfir, síðan riðum vér á hjarnfönnum suður á háa öldu sem er mjög víðsýnt af, og hallar frá á alla vegu; kölluðum vér hana Marköldu, því oss þótti sem þar mundi mörkin vera milli Fljótsdals og Lóns, eða Norður-Múlasýslu og Skaftafellssýslu. Þar var forn varða niður hrunin, er vér hlóðum upp, og aðra vörðu hlóðum vér sunnar á öldunni. Þaðan sást mikill jökla og fjallaklasi fyrir sunna, og tókum vér einkum eftir einum tindi háum mjög, en það var Knappafellstindur, sem ber við loft beint fyrir utan mynni Víðidals. Héldum vér svo áfram og sáum enn forna vörðu á strýtumynduðum hól í suðri; er vér nefndum Strýtuhól; vorum vér þá komnir að Víðidalsdrögum, enda höfðum vér séð í þau af Marköldu. Síðan héldum vér ofan í dalinn og var hvergi mjög bratt ofan, enda riðum vér sumsstaðar á fönnum, var kl. 4 þegar vér riðum niður dalbotninn. Var þá enn bjart veður en þokumökkur utar í dalnum. Víðidalsá steypist ofan úr botni dalsins að vestanverðu, og fórum vér út eftir dalnum austanmegin ár og áðum litla stund þegar vér komum fyrst á gras, (kl. 5), en eftir hálfa klukkustund héldum vér á stað aftur, og kom þá á oss svarta þoka, svo að ferðin ofan dalinn varð fyrir þá sök ógreiðari en ella mundi, með því líka að fyrir oss urðu tvö þvergil (Þverá innri og ytri) er vér urðum að klöngrast yfir þar sem oss sýndist tiltækilegast, en seinast hittum vér glöggt götur, er sýndu að mannabyggð var í nánd, og komum að Grund í Víðidal kl. 6 ¾. Fengum vér þar alúðar-viðtökur hjá Sigfúsi bónda og gistum hjá honum um nóttina. Um morguninn sneru fylgdarmenn mínir aftur norður sama veg, en ég hélt áfram suður og fylgdi Sigfús bóndi Jónsson á Grund mér ofan í Lón. Fórum við á stað kl. 9 og lá leið okkar fyrst yfir Kollumúla, (þar sjást nokkur forn vörðubrot), síðan ofan að Jökulsá um Leiðartungur; eru þar brekkur skógi vaxnar og víða ljómandi fallegt, en Jökulsá rennur fyrir neðan eftir sléttum grjótleirum, og er þar á henni Norðlingavað, þar fórum við yfir, og var áin vatnslítil og góð yfirferðar. Síðan fórum við sem leið liggur yfir Lambatungna-á um Víðibrekkur út að Kömbum og upp Illakamb, er hann allbrattur og hár mjög. Var kl. 12 er við komum uppá kambinn, og má þar sjá stórkostleg gljúfur á báða bóga, en vegurinn liggur upp á Kjarradalsheiði (Ketildalsheiði?), og út heiðina, og eru þar nokkur forn vörðubrot. Heiðin er eintómir gróðurlausir melar, uns vegi hallar niður af henni og kemur ofan í Eskifells-ása, bratt er ofan af heiðinni, en fyrir neðan ásana taka við sléttir aurar, sem ná allar götur út í Lón. Var kl. (ólæsilegt) er við komum að Þórólfsdal, elsta bæ (ólæsilegt) að vestanverðu, og var þá öræfaleiðinni lokið, en ég hélt heim til mín um kveldið.
Með þessari ferð er fundinn hinn forni fjallabaksvegur Austfirðinga, sem ætla má að hafi verið fjölfarinn í fornöld, með því að hann hefur verið víða settur vörðum, sem enn má sjá merki til, og á hann það sannarlega skilið að hann sé tekinn upp aftur, ruddur á stöku stöðum og varðaður sem vandlegast, því að hann er eflaust þriðjungi til helmingi styttri en hinn vanalegi vegur milli Fljótsdals og Lóns, víðast heldur greiðfær af óruddum vegi, og torfærulítill að öðru en því, að Jökulsá í Lóni getur oft orðið ófær á Norðlinga-vaði, en helst mun það vera um hásumarið, þegar leysing er í jöklum. (Víðidalsá getur líka orðið ófær gagnvart bænum á Grund; en þá má fara hana innar, á Norðlingavaði). Þótt oss gengi ferðin seint og við værum nærri tvo daga á leiðinni milli byggðar í Fljótsdal og almannabyggðar í Lóni, með því að vér fórum hægt og urðum að velja oss veg yfir öræfin, þá er enginn efi á því, að leið þessa má fara á talsvert skemmri tíma, þegar hún er orðin alkunnari, og einkanlega ef hún væri rudd þar sem helst er þörf á, en það gæti á margan hátt verið næsta þarflegt, að samgöngur milli norðurhluta og suðurhluta Austfirðingafjórðungs yrðu meiri, greiðari og betri en nú er kostur á. Ætti það því vel við, að fá veg þennan tekinn upp í tölu fjallveganna, sem fjallveg milli Norður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu.
Bjarnanesi 6. október 1896.
Jón Jónsson.


Austri, 19. nóv. 1886, 3. árg., 28. tbl., bls. 111:
Greinarhöfundur útskýrir frekar þá skoðun sína að vafasamt sé að brýr á Ölfusá og Þjórsá séu svo nauðsynlegar, að svo miklu fé sé kostað til þeirra að fjárhag landsins sé hætta búinn.

Hálfyrði um brúamálið.
Grein um brúagjörð á Þjórsá og Ölvesá eftir hr. Br. J. er nú prentuð í tveim blöðum vorum (“Austra” og “Þjóðólfi”) og á hún að vera svar upp á grein mína í “Austra” II. 27.-28. Höf. byrjar á því að fullyrða, að grein mín “miði til að eyðileggja brúamálið”, og segir síðan að ég hafi ekki viljað nafngreina mig, og hafi ég þó sjálfsagt eigi efast um að greinir yrði mér til sóma. Ég skal nú segja honum rétt í bróðerni, að ég rita ekki greinar um almenningsmál í blöð til að afla mér lofstírs, heldur til þess að leiða það í ljós, er ég hygg sannast og réttast, og tilgangur minn með greininni var alls ekki að eyðileggja brúamálið, heldur að gjöra hugmyndir almennings ljósari og lýsa afstöðu þess við önnur vegabótamál og samgöngumál landsins. Almenningur getur nú borið saman greinar okkar og dæmt um, hvor okkar réttara hefur að mæla, eða hvort báðir hafa ekki nokkuð til síns máls, þó að hvor skoði málið frá sinni hlið. Ég skal aðeins leyfa mér að taka hér fram nokkur atriði, þar sem mér virðist hr. Br. J. annaðhvort ekki skilja hvað ég fer, eða gefa lítinn gaum að orðum mínum.
Ég hef aldrei haldið því fram, að brýrnar væru ónauðsynlegar, en satt er það, að ég hefi gjört talsvert minna úr nauðsyn þeirra en sumir brúasinnar, sem hafa látið eins og öll önnur framfarafyrirtæki væru undir þeim komnar. Það er enginn efi á því, að það væri “gott og blessað”, að brýr kæmust bæði á Þjórsá1 og Ölvesá og jafnvel allar ár á landinu, en hitt er vafasamt hvort þessar brýr eru svo nauðsynlegar, að því stórfé sé kostandi til þeirra, að fjárhag landsins sé sýn hætta búin (sbr. Alþ.tíð. 1883 B. 654). Vér vitum að í þeim löndum, sem eru miklu auðugri af náttúrugæðum en land vort, hafa menn látið sér nægja með dragferjur á breiðar ár, þangað til fólksfjöldinn og vörumagnið hefur aukist svo að brýr yfir þær geta borgað sig (sjá Ísaf. VIII. 21). En dragferjur mega Sunnlendingar ekki heyra nefndar, og fyrst þeir endilega vilja hafa brýr, þá ættu þeir að vilja vinna nokkuð til að fá þær, (því að ekki er gjörandi ráð fyrir, að þá vanti “dáðina” og “drengskapinn”).
Viðvíkjandi eyðslunni, sem brýrnar mundu valda, læt ég mér nægja að vitna til reynslunnar hér á landi, en hún hygg ég sýni ljóslega, að aukin eyðsla gengur oftast á undan auknum framförum. Þetta er fært fram móti því, er brúarsinnar hafa gumað um hina framúrskarandi nytsemi brúnna, og til þess að benda á að brýrnar geti haft fleira í för með sér, en eintómar framfarir, en vitaskuld er, að ekki má láta það fæla sig frá að auka samgöngurnar, þar sem því verður við komið án svo mikils kostnaðar fyrir landssjóð, að sumir hlutar landsins hljóti að verða alveg útundan um langan aldur, eins og nú horfir til, því að þótt verið sé að bæta fjallvegi o. s. frv., þá gengur það frábærlega seint, eins og von er á, vegna þess að of lítið fé er fyrir hendi.
Landssjóður hefur í mörg horn að líta: auknar samgöngur og vegabætur eru nauðsynlegar fyrir allt landið; í öllum héruðum þess er afar mikið óunnið að vegabótum; hvert hérað ætti að keppast við annað að bæta samgöngur hjá sér; landssjóður má ekki hafa einn landshluta fyrir eftirlætisbarn og annan fyrir olnbogabarn, en þar sem eitt hérað hefur öðrum fremur þörf á hjálp landssjóðs, og um leið vilja til að bjarga sér sjálft, þá hefur það sérstaklega heimtingu á að landssjóður styðji kröftuglega viðleitni þess. Þetta átti heima um Árness- og Rangárvallasýslur 1879 og frá þeirri stefnu áttu sýslur þessar ekki hverfa. Það tjáir ekki að berja við fátækt sýslubúa; þeir losast við bein útgjöld, þar sem ferjutollarnir eru, ef brýr kæmust á árnar, og eru þó óneytanlega færir um að leggja nokkuð til, enda þyrfti það ekki að koma harðara niður á þeim, þótt þeir tækju allmikið lán til fyrirtækisins, heldur en brúartollar mundu koma, og virðast þeir þó ekkert hafa á móti slíkum tollum, nema það, að erfitt sé að koma þeim við, og það kemur okkur Br. J. saman um. Hversu mikið það ætti að vera, sem sýslurnar legðu til, og hversu mikið landssjóður ætti fram að leggja, skal ég ekkert segja um að svo komnu. Það er sannarlega ekki ósanngjarnlegt, að landssjóður leggi fram talsvert fé til brúagjörðarinnar, með því að hlutaðeigandi sýslur hafa minna gagn af strandferðunum2 en margir aðrir hlutar landsins, en að hann leggi fram allt féð endurgjaldslaust, virðist mér öldungis ósanngjörn krafa, enda mundi slíkt auðvitað draga þann dilk eftir sig, að hann yrði að taka að sér margar aðrar stórár til að brúa, og mörg önnur stórvægileg vegabótafyrirtæki víðsvegar um landið, sem honum kynnu að verða ofvaxin, því hvers ættu önnur héruð landsins að gjalda, ef landssjóður ætti ekki líka að losa þau við ferjutolla eða gjöra hjá þeim vagnvegi að öðrum kosti? Sum þeirra hafa þó enn sem komið er enn minna gagn af strandferðunum en Árness- og Rangárvallasýslur og þeim held ég það væri enn meiri skaði, ef hr. Br. J. tækist að eyðileggja gufubátshugmyndina, heldur en Árness- og Rangárvallasýslum væri að því, ef mér tækist að “spilla fyrir brúamálinu”, sem ég kannast reyndar ekki vað að ég hafi ætlað mér, nema ef það er sama sem að spilla fyrir þessu máli, að leggja til að sú stefna sé tekin í því, sem ég held að sé réttust og heppilegust málinu til framgangs.
Mæra-Karl.
1) Sjálfsagt ætti Þjórsárbrúin að ganga fyrir hinni, það að miklu meiri þörf er á henni, enda er líklegt að Vestur-Skaftfellingar vildu leggja nokkuð til hennar.
2) Annars er vert að gæta þess, sem séra Þorkell Bjarnason tók fram á alþingi 1885 (Tíð. B. 571) að menn ferðast ekki ókeypis með gufuskipunum, heldur verða að borga fargjald og gósflutning, svo skipum þessum verður ekki alveg jafnað saman við tollfrjálsar brýr.


Tenging í allt blaðaefni ársins 1886

Austri, 11. mars 1886, 3. árg., 6. tbl., forsíða:
“Sá vegur, sem lagður er einungis undir hestafætur, borgar sig aldrei, ef akveg má koma við,” segir greinarhöfundur og rökstyður það með miklum hagfræðilegum skýringum.

Nokkur orð
Um vegi og samgöngur á Austurlandi
“Það skal fyrst til allra orða,
að undirstaðan rétt sé fundin”.
Þegar ég las skýrslu vegfræðings Hovdenaks til landshöfðingja í síðasta Andvara um vegina á Austurlandi, duttu mér í hug þessi vísu orð. Nú á tímum láta allar menntaðar þjóðir sér annt um að ná þeirri undirstöðu, sem endingarbest er á að byggja. Og hvergi sýnist meiri þörf á að ná réttri undirstöðu, en þegar leggja skal veg, er flýta á fyrir samgöngum og gera alla flutninga léttari og kostnaðarminni.
Við Íslendingar erum langt á eftir tímanum það er snertir vegi og samgöngur, og flest það er til framfara horfir. Reyndar stöndum við flestum þjóðum ver að vígi í tilliti til vega og samganga. Og verður því þó ekki neitað, að undir góðum samgöngum er framför okkar og velmegun að miklu leyti komin. Að minni hyggju er það einkum fernt sem tálmar framför okkar í þessu efni: fjöllin, strjálbyggðin, peningaskorturinn og fyrirhyggjuleysið, og ætla ég að fara nokkrum orðum um hvert þeirra.
I.
Há, brött og fannsæl fjöll liggja næstum allstaðar milli Héraðs og Fjarða. Eftir skýrslu Hovdenaks, er áður er nefnd, má sjá að honum eru aðeins kunnir hinir verstu fjallgarðar frá Héraðsflóa til Eskifjarðar. Hovdenak mun fyrstur manna hafa lítið þekkjandi augum yfir Austurland það er til vegalagninga kemur. Því miður hefur honum ekki verið bent lengra suður á leið, og hefur þó náttúran þar á einum stað rofið hina háu Fjallgirðingu og fram boðið þar auðveldan og hættulausan veg, og er furða að sú leið skuli enn ekki hafa verið vandlega skoðuð. Ég efast ekki um að Hovdenak hefði þótts finna það sem hann leitaði að, ef hann hefði farið um Fagradal. Flestum hér eystra er kunnugt, að Fagridalur sker fjöllin sundur frá botni Reyðarfjarðar að Lagarfljóti, og það svo djúpt að hvergi er halli að mun. Líka er alkunnugt, hversu háar, fannsælar og hættulegar Vestdalsheiði og Fjarðarheiði eru. Er fjarska mikill munur á brattleika þeirra og Fagradals auk snjóa og hættu. Fagridalur er auður, þegar ekki sést á dökkan díl á vegum þessara háu heiða. Vegurinn yfir Vestdalsheiði mundi kafinn snjó og ófærð, þegar fara mætti auðan og þurran veg yfir Fagradal. Þá er og hallamunurinn. – Frá botni Reyðarfjarðar inn að Skriðuhól, sem ber hæst í dalnum þeim megin, er vegalengdin á að giska 3000-4000 faðmar. En hæð hólsins yfir sjávarmál mun vera 15-20 faðmar. Ætti þá halli á þeirri leið að vera hérum bil sem 1:200. Nú segir Hovdenak í skýrslu sinni, að á vegi sem hallar 1:10, megi aka 800 pundum á einum hesti, en á halla 1:20 400 pundum eða allt að því hálfu meira. Hversu miklu meira mætti aka á vegi yfir Fagradal er hefði hallan 1:200. Af þessum litla samanburði má sjá mismun á flutningshæfileika þess vegar er minnstan hefur hallan móti hinum halla meiri.
Frá Skriðuhól í Græfur er dalurinn hallalaus að kalla; þaðan að Lagarfljóti mun hallinn líkur því sem áður. Þá er vegaefnið alstaðar við höndina á dalnum, bæði nægt grjót og góður ofaníburður. Svo mun og skynsamlega lagður vegur þar að mestu öruggur fyrir skemmdum af vatnagangi og hlaupum.
Hovdenak gerir ráð fyrir, að í vellögðum vegi kosti hver faðmur 3.80 kr. Eftir mælingu hans er vegalengd af Seyðisfirði yfir Vestdalsheiði og Hálsa að Tókastöðum 11420 faðmar. Ætti þá sá vegur að kosta 43.396 kr. auk brúa. Frá botni Reyðarfjarðar að Lagarfljóti mun vegalengdin vera nálægt 20 föðmum. Nú mun óhætt mega fullyrða, að vegur yfir Fagradal sé þeim mun auðlagðari, að hver faðmur kostaði ekki meir en 1,90 kr. eða hálfu minna; allur sá vegur kostaði þá um 35.000 króna. Brýr þyrfti ekki nema yfir Köldukvísl og Eyvindará. Lengdarmunur á vegum er auðsjáanlega ekki takandi til greina í samanburði við hallamuninn eða flutningshæfilegleikann. Því fullyrða má, að hvergi á dalnum sé halli er nem 1:20.
Af framangreindum ástæðum ræð ég þá alvarlega til að Fagridalur sé mældur að hæð og lengd, og vandlega skoðaður af vegfróðum manni, áður en stórfé verður grafið undir ís og fönn á Vestdalsheiði eða örðum háfjöllum, þar sem akvegur gæti aldrei orðið að tilætluðum notum, né til sparnaðar fyrir almenning, þótt stórfé væri til kostað.
II.
Um strjálbyggðina, sem vanalega gerir vegalagningu hér á landi svo kostnaðarsama, þarf ekki mörgum orðum hér að fara, því að kæmist hæfilegur akvegur að hagkvæmum stað við Lagarfljót, mundi þegar verða fenginn á það eimbátur, hæfilegur til að draga flutningsbáta fram og aftur og yrði þá óvíða tilfinnanleg vegalengd heim að bæjum. Þverlína Héraðsins milli fjalls og fljóts mun óvíða vera fjögur þúsund faðmar og hvergi yfir það. Enda mundu og þá verða farið að bæta vegina milli bæjanna, ef einn aðalvegur væri kominn frá sjá upp í Hérað.
III.
Úr peningaleysinu í þessu tilliti ættu féhirslur landsins að bæta, og sýnist því ekki vera ástæða til að berja við fjárskorti. Landsjóð ætti mest að brúka til almennra þarfa, og væri því óhætt að hann legði talsvert fé fram til svo nauðsynlegs fyrirtækis, er aðalframför eins hins fjölríkasta héraðs á landinu er undir komin.
Sá vegur, sem lagður er einungis undir hestafætur, borgar sig aldrei, ef akveg má koma við. Verði hestum fækkað, má spara fé til stórra muna. Setjum svo að á öllu Fljótsdalshéraði að meðtöldum Jökuldal og Hlíð, séu fullir 200 bæir. EF nú með góðum og hallalitlum akvegi mætti komast af með 3 hæstum færra frá hverjum bæ, þá yrðu það 600 hestar. Ég geri ráð fyrir að hestur albúinn til flutninga með þar til heyrandi áhöldum kosti að minnsta kosti 80 krónur, 600 hestar kosta þá 48.000 kr. Til að flytja á hestum þessum þurfa 100 karlmenn fullgildir til vinnu, ríðandi. Ég skal ekki gera þeim meira en 14 dagsverk af árinu til flutninga. Það er annars mikils til oflítið. Ef hverjum þeirra er ætlað 3 kr. um daginn verða það alls 4.200 kr. 100 reiðhestar með tygjum 120 kr. hver, alls 12.000 kr. Allur kostnaður 64.200 kr. Þetta er höfuðstóll sem útgjöld hvíla á. Ég geri ráð fyrir að þessir hestar endist til jafnaðar 10 ár. Fóður hvers hests og viðhald á tygjum um árið tel ég 30 kr., verður þá kostnaður á 700 hestum í 10 ár 210.000 kr. og daglaun hinna 100 manna í 9 ár 37.800 kr. Með höfuðstólnum 64.200 kr. verður það allt 314.000 kr. Eftir 10 ár þarf að gera nýjan kostnað og svo koll af kolli mann fram af manni meðan svona stendur. Þetta er stórfé og mun þó oflítið í lagt. Annað dæmi: Hovdenak gerir ráð fyrir (Andvari XI bls. 182) að flutt sé af Seyðisfirði á 20 hestum daglega allt árið. Nú skal meta hestlánið 4 kr., alls 80 kr., 3 menn ríðandi, daglaun 3 kr., alls 9 kr., hestur handa þeim, hver 4 kr. alls 12, samtalið 101 kr. á dag. Um árið verður það 36.865 kr., í 10 ár 368.650 kr. eða nokkru meir en í fyrra dæminu. Þetta telur Hovdenak þó oflítið, sem og mun rétt vera. Niðurstaðan verður, hvernig sem á allt er litið, að kostnaður við flutning á hestum er óútreiknanlegur og hinn mesti tálmi fyrir framfarir og velmegun manna. Svo lítur út sem flestir taki lítið eftir þessum gífurlega kostnaði, og kemur það líklega af því, að þetta eru óbeinlínis útgjöld, er menn hafa vanist hver fram af öðrum. Nú er sannarlega mál að reyna að kippa þessu í lag og taka að verja þessu fé á annan hátt, og koma á akveg á hagkvæmum stað; við það mundi sparast fé til stórra muna. Enda ætti ekki að vera erfitt að koma á akveg yfir Fagradal; hann mundi ekki kosta eins mikið og Héraðið eyðir á einu ári til flutninga af Seyðisfirði; úr landsjóði mundi fást talsvert fé til jafn áríðandi fyrirtækis sem það væri, og almenningur mundi fús á að leggja sinn hluta til, þegar honum væri orðið skiljanlegt hið fjarska mikla gagn af góðum akvegi á hentugum stað.
Sumir kunna að hafa það á móti máli mínu að engin verslun sé á innsveit Reyðarfjarðar og því þýðingarlaust að leggja veg yfir Fagradal, og þegar Hovdenak var látinn skoða og mæla vegina hér á Austurlandi, er eins og þetta hafi vakað fyrir mönnum. En það er misskilningur. Höfuðatriðið er, að aðalvegur frá sjó að Lagarfljóti verði lagður á þeim stað sem er halla-, hættu- og kostnaðarminnstur, snjóléttastur og óhættastur fyrir skemmdum. Allt þetta hefur Fagridalur fram yfir alla aðra vegi, sem til Héraðs liggja, sýnist því engum vafa bundið að kjósa þann veginn. Við þá verslunarstaði sem nú eru, Seyðisfjörð og Eskifjörð, stoðar ekki að miða aðalverslunarveg. Það getur ekki samrýmst kröfum núlega tímans og þörf vorri á framförum. Reyndar var ekki furða, þó að Héraðsmenn yrðu fegnir, þegar verslun fyrst byrjaði á Seyðisfirði fyrir fullum 30 árum eins og þá stóð, því að þá var ekki um annan verslunarstað að gera en Eskifjörð, en þar hefur aldrei farið orð af frjálsri og hagfelldri verslun. Nú ættu menn að sjá betur hvað best gegnir, nú eru skipsferðir orðnar léttari og tíðari, svo að ekkert virðist vera því til fyrirstöðu, að vörur verði færðar á þann stað, sem hentugast er að flytja þær frá upp í landið. Seyðisfjörður getur heldur aldrei þrifist sem aðalbær á Austfjörðum. Til þess vantar hann alla hæfilegleika: vegir eru hættulegir og erfiðir og geta aldrei orðið að verulegum notum, þótt miklu yrði til þeirra kostað; landbúnaður er lítill, húsastæði víða mjög hættuleg o.fl. Innsveit Reyðarfjarðar hefur alla kosti til þess að þar gæti myndast aðalbær Austurlands; það mun og reynast að brátt eykst aðsókn og bygging við Reyðarfjörð. Nú hafa Héraðsmenn pantað upp vörur í vor, ættu þá þeir sem búa ofarlega á Héraði að fá vörurnar fluttar á Reyðarfjörð og flytja þær upp í Fagradal. Menn mundu þá komast að raun um, að betra er að fara hann veglausan eins og hann er, heldur en Vestdals- Fjarðarheiðar með vegnefnum þeim, er á þeim eru.
IV.
Óframsýnin hefur gert allmikið til að eyða fé að gagnslausu í vegi og drepa niður áhuga manna með vegabætur. Reyndar er búið að verja miklu fé til vegagerða, en víðast hefur það farið svo afkáralega, að þess sjást engin merki; vegirnir lagðir á svo óhentugum stöðum og svo klaufalega gerðir, að verra er að fara þá en vegleysu, t.d. vegurinn frá Lagarfljóti fram Völluna; fáum mundi koma í hug að fara þann veg vegna krókanna, þó að betur hefði verið lagður; nýlagður var hann víða vegleysu verri, enda nú allvíða horfinn. Þá er Eskifjarðarheiði; hvað gagnar að varpa fleiri þúsundum króna í þann veg? Já, það er póstvegur!! Póstur kann að geta notað hann 2-3 ferðir um hásumarið; aðrir fara ekki þá leið, að teljandi sé. Er nokkur framsýni í að fleygja stórfé í veg þar? Vörður eru hlaðnar á stöku stöðum; goli nokkuð að ráði fjúka þær um; og meðan þær standa, getur enginn sá er áttir hefur misst, áttað sig á þeim, því að ekkert er áttamerkið, engin föst stefna, einlægur krókastígur. Þótt hvað eina af slíku káki, kosti ekki stórfé, þá safnast er saman kemur. Við höfum ekki stórfé til að sóa. Því verra er að sjá stundum almennings fé eytt til einskis. Að vísu hafa þeir er vinna að vegagerðum, allgóð daglaun, og þeir fáu er vinna verkið verða oft hinir einu, er gagn hafa af veglagningunni. Varning almennings fjár til sumra vegagerða líkist launahækkun sumra embættismanna, hún auðgar einstaka menn, en bætir ekki úr þörfum almennings.
Og mörgum er að kenna um óreglu þá er á sér stað í tilliti til þess, hvernig fé er varið til vegagerða. Stundum tiltaka sýslunefndir hvar veg skuli leggja eða lagfæra. Amtmaður leggur úrskurð á og sendir aftur sýslumanni; hann útvegar menn til að vinna verkið og semur um borgun; eru þá stundum þeir teknir er fyrst bjóðast, hvort sem þeir kunna nokkuð að því verki eða ekki. Launin eru greidd, hvernig sem verkið er unnið. Náttúrlega er sýslumaðurinn enginn vegfræðingur og amtmaðurinn of langt burtu, enda er hann ekki betri. Þetta sjá margir og líkar illa, en þeir hafa því miður hvorki kjark né þekking til að kippa því í lag. Það eldir enn eftir af gamla áþjánarandanum, að álíta allt gullvægt sem frá yfirvöldunum kemur, og telja sér óskylt að hafa hönd í bagga með, þó að um almennt gagn sé að ræða. Það er ekki meining mín að ásaka sýslumenn eða gera lítið úr þeirra góða vilja, enginn tekur sig meiri mann en hann er.
Nú er full þörf á að sameina kraftana og koma sem fljótast á góðum akvegi frá sjó og til Héraðs yfir Fagradal. Kæmist hann á, mundi almenningi aukast efni til og áhugi á að bæta útkrókana eftir þörfum.
Það sem að framan er ritað, er einungis ætlað til að benda á þann veg er ég tel vissastan og reynast mun áreiðanlegastur. Þeir sem mér eru færari, ættu að gera hér við athugasemdir og koma máli þessu sem fyrst áleiðis.
Margt vantar hér að athuga, svo sem kostnað þann er hvílir á akvegi, akhesta, kerrur, vagna o.fl., og bera það saman við kostnað þann, sem nú er við flutninga á hestum og við hestaveg. Ég þekki þetta ekki til hlítar, þótt mér sé það ekki með öllu ókunnugt, en ég vona að þeir sem betur eru til færir, muni ekki liggja á liði sínu, heldur rita um þetta. Enda er hér um almennt nauðsynjamál að ræða, mál sem er undirstaða auðsældar og velmegunar aldra og óborinna kynslóða. Það væri því sómi okkar sem nú lifum, að hafa fundið hina réttu undirstöðu, er niðjar vorir gætu með ánægju byggt ofan á.
Dalbúi.


Ísafold, 17. mars 1886, 13. árg., 11. tbl., bls. 44:
“Ármann” segir tvær orsakir fyrir því að Alþingi felldi brúarmálið, sveitardrátt og fákunnáttu þingmanna í samgöngumálum.

Brúarmálið.
Ég sé í þessu í 2. tbl. af “Austra” alllanga grein um hinar fyrirhuguðu brýr á Ölfusá og Þjórsá. Á þessi grein að bera hönd fyrir höfuð Alþingis, sem felldi það mál enn þá einu sinni í sumar, sem leið, en þó ekki nema með eins atkvæðis mun. Ástæður höf. eru þær, að hvorki séu brýr þessar eins áríðandi, eins og viðkomendur ætli, enda sé ósanngjarnt, að landið kosti þær að öllu eða miklu leyti, o.s.frv.
Þessi grein er eftir minni sannfæringu og allra skynugra manna hér eystra mjög lúaleg og undir eins skaðleg í þessu velferðarmáli; og sé sá maður, sem hana hefir samið, eins og sýnist, vel viti borinn og ekki ókunnugur hér um sveitir, á hann að meiri óþökk skilið fyrir þetta frumhlaup inn í málið. Samt eru röksemdir hans svo þunnar og slitnar, að ég þori ekki að tína þær fram, eina og eina; því að grein þessi yrði þá bæði dauf og löng, en málinu lítið borgnara, þó að þær væru hraktar. Það er margbúið að hrekja þær.
Ég vil einungis benda á, hverjar orsakir eru til þess, að þessar brýr, eða önnur þeirra að minnsta kosti, eru ekki þegar komnar á og fullgjörðar.
Orsakirnar eru tvær. Önnur er sveitardráttur á þinginu, missýni og óviljandi eða óafvitandi sérdrægni þeirra þingmanna, sem fjarstir þykjast standa málinu. Fjöldi þeirra mun og hafa ætlað, að ókleyft yrði að lögleiða bæði brýr og banka í senn. Þó vora undantekningar til; stöku menn, eins og Jón Ólafsson og fl., mæltu með báðum frumvörpunum.
En hver er hin orsökin?
Hún er sú – og það er aðal orsökin – að fæstir þingmenn þekkja enn til hlíta hugmyndina samgöngur.
Þetta er sorglegt, en það er satt. Enginn lifandi maður á þingum í öðrum menntuðum löndum hefði þurft eða jafnvel þorað að spyrja um ástæður, þörf, nauðsyn, slíkra brúargjörða eins og þessara. Hver sá þingmaður hefði gjört sig að athlægi. Sérdrægni og sveitardráttur á að vísu nokkurn þátt í þessari vanþekkingu; það sem menn vilja ekki skilja, það geta menn seint skilið.
Annað mál er hitt, hvort sýslur þær, sem mest mundu nota brýrnar, ættu meira eða minna að bera kostnaðinn. Þar má mæla með og á móti; en þó ætti enginn vitur maður að láta blanda sér hug um það, að þessar sýslur eigi réttarkröfu til meiri hluta brúarkostnaðarins, - þessar sýslur, sem svo lengi hafa farið á mis við nær allan hagnað af samgöngu-framförum hinna héraða landsins enda eiga kostnaðarsöm stórvirki fyrir höndum, þar sem nýjar vegagjörðir eru, óðara en brýrnar kæmust á.
Mál þetta er í sannleika svo áríðandi, og þess nauðsyn svo brýn og í augum uppi, að lengri dráttur á því yrði hrópandi hneyksli.
Ármann.


Austri, 13. apríl 1886, 3. árg., 9. tbl., forsíða:
Menn eru mikið farnir að ræða hvar aðalverslunarstaður Austurlands eigi að vera og finnst mönnum þá skipta mestu máli

Um vegi og verslunarstaði á Austurlandi
“Varðar mest til allra orða,
undirstaðan rétt sé fundin”.
Í 6. bl. “Austra” er grein um “vegi og samgöngur á Austurlandi.” Mér virðist að aðalefni hennar séu tvö atriði. Það fyrst: hvar er aðalverslunarstaður Austurlands best settur? Og svo er hitt sem leiðir af hinu fyrra: á hverjum stað yfir fjöllin milli fjarðanna og Héraðsins ber að leggja þann verslunarveg og póstleið sem mest yrði vandaður hér og dýrastur? Nú með því að sjálft málefnið, verslun, vegir og samgöngur, er svo afar merkilegt og mikilsvert fyrir nútíð og framtíð vor Íslendinga, eins og allir vita, að ekki veitir af að það sé skoðað sem nákvæmast, bæði heild þess og einstakar greinir, til þess að “undirstaða þess yrði sem réttast fundin”. Og með því að nú þegar er búið að kosta svo miklu fé til ýmissa aðgerða á Seyðisfirði og vegagerðar á Vestdalsheiði, að ekki ætti að halda þeim kostnaði áfram, ef svo reyndist, að prófuðu máli, að grundvöllurinn hefði ekki verið rétt lagður. Í þriðja lagi að jafnframt og ég játa að “Dalbúinn” eigi þakkir skilið fyrir að hafa hreift þessu nauðsynjamáli, þá verð ég um leið að segja, að ég hef ekki áður og get ekki enn fallist á skoðun hans um kaupstaðinn og vegagerðina, og skoða það mál á annan hátt; og þar eð skoðanir okkar á þessu velferðarmáli vor Austlendinga eru mjög svo ólíkar, álít ég það skyldu mína gagnvart þeim mönnum sem annt er um málið, að láta í ljósi álit mitt, og með því stuðla til að það verði skoðað frá ýmsum hliðum, áður en lengra er haldið með framkvæmd verksins en komið er.
Þá kemur fyrst spurningin; Hvort er aðalbær og helsti verslunarstaður Austurlands betur settur við Seyðisfjörð eða botn Reyðarfjarðar? Mér virðist sem svarið upp á þessa spurning muni undir eins liggja nokkurn veginn ljóst fyrir, þegar þess er gáð að allar verslanir og flestar húseignir hafa orðið til á Seyðisfirði á því 30 ára tímabili sem liðið er, síðan verslun hér við land var með lögum leyft öllum þjóðum. Frá þeim tíma sem allir Austlendingar voru ekki lengur með lögum bundnir við, að versla aðeins á þrem verslunarstöðum, frá því er straumur verslunarinnar mátti tálmunarlítið af laganna hálfu renna þangað og þaðan sem eðlilegt er, hefur verslunarstaður á Seyðisfirði myndast og eflst sem orðið er á stuttum tíma. Verslunarfrelsisárið 1854 mátti sjá aðeins eitt timburhús, verslunarbúð á Seyðisfirði, þá fyrir skömmu byggt, og í hreppnum voru þá 16 heimili og íbúar ekki 200; en 1883 voru húseignir þar sem virtar voru 68 að tölu og virðingarverð þeirra 191.280 kr. Sama ár voru húseignir á Akureyri, sem þó er miklu eldri bær, ekki nema 46, og virðingarverð þeirra eigna aðeins 140.353 kr. Þetta ár var manntal í Seyðisfjarðarhrepp orðið um eða yfir 700. Ávextir frelsisins sýndu sig hér fljótt, þeir sýndu áþreifanlega, hvar aðalverslunarstaður Austlendinga væri eðlilega settur – á Seyðisfirði og það leiðir beinlínis af legu hans við sjávarsíðuna, og afstöðu sveitanna umhverfis hann. Vegna afstöðunnar hlýtur verslunarmagn allra sjávarsveita allt frá Kollumúla norðan við Héraðsflóa, og suður að Gerpi og allra sveita í Héraði, að Skriðdal ef til vill einum undanskildum, heldur að hneigjast til Seyðisfjarðar en Reyðarfjarðar, og eru það alls 12 eða 13 hreppar, og af þeim eru 9 eða 10 hreppar nær Seyðisfirði en svari 5 mílna fjarlægð, og í þeim tveim sem næstir liggja fyrir ofan fjallið er nægur heyskapur og mætti verða miklu meiri. Í öllum héraðssveitunum er allmikill landbúskapur og gætu kaupstaðarbúar á Seyðisfirði fengið þaðan næga landvöru, hey, ull og mat, ef þeir aðeins vildu. Verslunarstaður við Reyðarfjarðarbotn yrði þar á mót á mjög afskekktum stað fyrir flestar sveitir hér austanlands; mikils til of langt inn í landi fyrir fjarðasveitirnar – 6-7 mílna fjarlægt við næstu fjörðu -, og að jöfnum verslunarháttum sem á Eskifirði mundu ekki suðurfjarðarmenn versla þar að nokkrum mun og úr norðurfjörðum alls ekki. Yfir Fagradal yrði sá verslunarstaður í fullri 5-6 mílna fjarlægt við næstu héraðssveitir, Valla og Eyðaþinghá. Hinar miklum mun lengra. Úr skriðdal yrði skemmst leið þangað, en yfir Þórdalsheiði en ekki Fagradal. Breiðdælingar gætu náð til verslunar við botn Reyðarfjarðar, en ekki eru líkindi til að þeir mundu nota það mikið. Þareð vegur þar á milli er langur og ekki góður og Breiðdalssveit liggur að sjó, þó mætti helst vænta þess, ef verslunarstaðurinn í Reyðarfirði næði nokkru afli, að hann hefði það einkum af viðskiptum við tvær hinar síðasttöldu sveitir. Þegar líta skal á, hver staðurinn liggi betur fyrir aðdráttum af sjó og aflaföngum, þá hygg ég (ólæsilegt) afspurn, að flóarnir út af norðurfjörðunum (fyrir norðan Gerpi) séu fullt svo fisksælir sem hinir syðri, og það veit ég af sögn áreiðanlegra manna, að einn hinn mesti formaður til hákarlaveiða þar um slóðir, Þórarinn á Vattarnesi – uppi fyrir 1850 – sótti einatt hákarlaföng sín austur á hákarlamið Seyðfirðinga, “Grýtu”, sem var nafnfrægt aflamið fyrir og á þeim tímum, en það mundi hann ekki hafa gert, hefði hann ekki reynt þau miðin fangasælli, því hann var glöggur maður og skynsamur og sjóleið þangað frá Vattarnesi ekkert smáræði. Um veiði innfjarða á smábátum munar oft mikið, meðan á milli fárra er að skipta, og í þeirri grein getur verið að Reyðarfjörður verði drýgri, þó er ekki fyrir því margra ára reynsla. Fyrir 1860 voru Seyðfirðingar miklir aflamenn, og ekki er víst að Reyðarfjörður hefði fætt íbúa sína betur en Seyðisfjörður á því tímabili sem síðan er liðið, ef þeir hefðu þar jafnmargir verið. Engin von er til þess að nokkur kaupstaður hér á landi nái vexti og stöðugum viðgangi, að tómthúsamenn og sjómenn geti almennt þrifist og það ekki fremur á Seyðisfirði en annarstaðar, ef þeir koma sér ekki við til vinnu nema 3-4 mánuði á ári um hásumarið, ef ekki eru til sjósóknar nema smábátar, hvorki stórir bátar sem af beri haustsjó við fiskiveiðar, eða ferðir til hákarlaveiða út á flóana á vorum, og ekkert þilskip, sem leitað geti hákara eða fiskiveiða fyrir utan land á vori og sumri. Meðan velgengni sjómanna er öll komin undir bátafiski á fjörðum eða rétt við land, en hákarlaveiði er alls ekki stunduð og alls engin veiði á þilskipum, þá eru engin líkindi til að nokkurt sjómanna þorp og um leið verslunarstaður hér á landi geti haldið varanlegum þrifum, Höfn eða skipalægi mun ekki síður öruggt á Seyðisfirði en við botn Reyðarfjarðar, og það virðist mér reynsla næst undanfarinna 30 ára sanna, að fleiri skip hafa strandað og skemmst við Reyðarfjörð en Seyðisfjörð. Á vorum þegar hafís liggur fyrir landi bægir hann eigi síður innsiglingu á Reyðarfjörð en Seyðisfjörð. Ég er “Dalbúanum” samþykkur í því að meiri landbúnað megi hafa kringum kaupstað í Reyðarfirði á innsveit þar þótt hann sé lítill nú, heldur en Seyðisfirði; en það mundi fjarri fara að sá peningsauki gæti jafnast á við gagn það sem kaupstaðarbúar og tómthúsmenn á Seyðisfirði hafa haft, og geta framvegis haft af landbúnaði í nærsveitunum þegar þeir læra betur að nota sér það. Nóga staði þar sem hættulaust er að byggja hús, má fá við botn Seyðisfjarðar eða út með firðinum, einkum síðan í haust að kaupstaðarstæðið var stækkað og byggja má um alla Búðareyri.
Ég hef með undanfarandi athugasemdum borið saman hugmyndina um aðalverslunarbæ Austurlandsins við Reyðarfjarðarbotn – eins og ég lít á hana – við þann verslunarstað sem nú er á Seyðisfirði, og sem er orðinn þar til á einum 80 árum fyrir frjálsa og eðlilega rás atburðanna. Nú er hégómi að hugsa sér hann fluttan suður að botni Reyðarfjarðar, þótt þaðan mætti verða auðveldara að fá akbraut og ekki mun gott að minnka hann eða sundra honum. Mér virðist að við ættum miklu heldur að hlynna að þeim stað, og efla hann, sem best er settur hjá oss sem aðalstöð verslunar og framfara; því meir sem styrkur hans eykst, því meiri von er þess að verslun þar og aðrar sannar framfarir eflist og hafi betrandi áhrif á önnur héruð Austurlandsins, eins og hingað til hefur verið með kaupskap og vöruverð. Þar sem mest samkeppni, og þar hlýtur mönnum yfir höfuð að takast best kaup og sala. Sömuleiðis eru öll líkindi til, þegar verslunarstaðnum eykst aldur og þroski, muni leggjast niður þeir barnabrestir sem nú eru þar, og í þeirra stað koma bindindi og manndáð, og “eftir höfðinu dansa limirnir”.
Nú er eftir sem snöggvast að líta á hinn ímyndaða veg á Fagradal og Vestdalsheiði. Þann af þessum vegum sem almennt yrði álitið að gagnlegri mundi verða, er auðvitað að sem best ætti að vanda, þar eða hann yrði aðal aðflutninga og mannferðar til og frá verslunarstaðnum, og ekki horfa í fáeinar þúsund krónur, ef hann fyrir þær yrði í raun og veru betri og varanlegri. Það yrði aðalmeinið á verslunarstað við Reyðarfjarðarbotn, eins og áður er drepið á, og vegagerð á Fagradal, að hvorttveggja yrði mjög afskekkt og lægi mílu lengra frá og horfði ver við verslun úr flestum fjarða- og héraðssveitum, heldur en verslun á Seyðisfirði og vegur þangað.
Eins og margir vita liggur Fagridalur gegnum fjarðafjöllin. Frá Áreyjum innsta bæ í Reyðarfirði, og sker þaðan langsetis beint í norðaustur fjallgarðinn milli Héraðs og Reyðarfjarðar, kemur saman við Eyvindardal þegar út eftir dregur, og endar síðan þessi hinn langi dalur á móts við Dalhús í Eyðaþinghá, sem stendur yst í honum; ég hef ætíð heyrt að lengd hans væri ein þingmannaleið. Leiðin öll frá Reyðarfjarðarbotni að Lagarfljóti hlýtur víst að reynast 6 mílur eða hálfu lengra en hin mælda leið á Vestdalsheiði. Þessi Fagradalsvegur stefnir svo: Frá fjarðarbotni fyrst eina mílu í suðvestur inn fyrir Grænafell móts við Áreyjar, og síðan alla leið í norðaustur, 4-5 mílur milli byggða út undir takmörk Valla og Eyðaþinghár. Eggi get ég sagt hvað dalurinn liggur hátt, en það hygg ég að skakkt muni vera í grein “Dalbúans” að Skriðuhóll, “sem hæst liggur” sé ekki nema 90-120 fet yfir sjávarmál, og hallinn talsvert öðruvísi en þar er skýrt frá*. Mjög er leið á Fagradal illviðrasöm og mundu menn mjög komast að raun um það ef hún væri fjölfarin, en það er allsjaldan að menn fara þar um, og lengi munu menn hér í sveitum muna skaðana, sem þar urðu haustið 1858, snemma í okt. Slíkir hafa ekki orðið á Seyðisfjarðarheiðum á haustdögum. Hvað kemur til að svo góður vegur og hallalítill sem á Smjörvatnsheiði er, skuli nú vera vanræktur æ meir síðan verslun varð til á Seyðisfirði? Mun það ekki vera af því að sá staður, er hagkvæmur og verslun þar þess vegna meiri og betri; fjallvegur þangað einnig mikið styttri og fjölfarnari, sem er mikill kostur, einkum í haust og vetrarferðum. Setjum að verslunarstaður væri við Reyðarfjarðar botn, og dýrkeyptur góður vegur á Fagradal, og sú leið væri farin; leiðin til uppsveita Héraðsins mundi þá fyrst liggja eina mílu til suðvesturs, þar næst 4 mílur til norðausturs og seinast 1 til 5 mílur í suðvestur, og auka um 2-3 mílur kaupstaðarleiðina sem nú er.
Flutningar eftir Lagarfljóti standa ekki fremur í sambandi við flutningsveg eftir Fagradal en Seyðisfjarðarheiðar. Úthéraðsmenn mundu aldrei – fremur en Norðurfjarðarmenn – versa við Reyðarfjarðarbotn, meðan nokkur verslunarkytra væri á Seyðisfirði, enda yrði leiðin þeim þangað 4 til 6 mílum lengri og að sama skaði örðugri, því þá akbraut væri eftir Fagradal, mundi leiðin samt verða jafnlöng, illviðrasöm og liggja í öfuga átt, og seint mun liggja vagnbrautir heim að hverjum bæ á Héraðinu, eða ekki get ég rýnt svo langt fram í tímann að ég sjái þær.
Mér virðist enn sem fyrri tómt mál um akbraut að Reyðarfirði, þar eð vér höfum þaðan nær því ekki neitt að flytja og leiðin liggur öfugt fyrir oss. Það eru ekki nú þeir tímar, að nokkur getið boðið verslunarstaðnum á Seyðisfirði að taka sig upp og setjast niður við Reyðarfjörð. Eða því mundi ekki verslunarstaður hafa myndast þar, þegar lög bönnuðu það ekki, ef þar er hagkvæmur staður?
Eða mun það stoða oss, og getur það samrýmst kröfum núlega tímans og þörf vorri á framför, að byggður sé vegur fyrir 40-50.000 kr. þangað sem ekki standa nema fáein býli og lítið sem ekkert er að taka til flutnings, og valla hægt að sjá að verði meira síðar, en hætta við vegagerð á þeim vegi sem þegar er byrjaður, og ætla má að fluttur sé yfir árlega nálægt 1000 lesta þungi, og liggur að hinum helsta verslunarbæ vorum. Um veg á Vestdalsheiði á ekki hér að rita, hann hafa nú skoðað og álitið merkir menn og látið það álit sitt í ljósi með prentaðri skýrslu.
Nú hefur ekki náttúran brotið þar hlið á fjallgarðinn, og vér höfum ekki megn svo mikið, en eigum vér þar fyrir ekki að gera þar veg svo traustan og hagkvæman sem unnt er? Oss vantar öll tæki til þess að flytja þungar byrðar sem ekki verða lagðar á hesta í Héraði. Ef skipalægi hefði fengist við Lagarfljótsós, mundi ráð til þess hafa verið fundið, en tilraunir í þá átt eru nú fyrst um sinn strandaðar. Reikningur Dalbúans um flutning á hestum er eftirtektaverður, og mikið væri unnið að framför með því, ef hestahöld vor yrði almennt ódýrri en nú er; en ennþá vantar öldungis alla reikningslega áætlun um hvað varnar kosta, eða flutningur á þeim, og hvort það yrði mannsparnaður að flytja á þann hátt eða hverjir ættu að eiga slíka flutningsvagna? Ólíklegt er að Dalbúinn hafi hugsað sér að hver Héraðsbóndi ætti vagn á braut á Fagradal eins og hesta til heimavinnu og annarra aðdrátta, og mestan hlut leiðarinnar þyrfti þó að flytja á klakknum, meðan enginn brautarstúfur er til í öllu Héraðinu og örfáar kerrur.
Vegurinn yfir Vestdalsheiði þarf að komast á sem allra fyrst einsog ætlað hefur verið, og það sem vönduðust akbraut. Vagnarnir ættu ef til vill að vera svo eða svo margir, t.d. 3-4 sameiginleg eign hvers hrepps, eða allir þeirra hreppanna sem næst liggja fjallveginum, brautin að liggja að Lagarfljóti í miðju Héraði og þaðan frá duglegir flutningsbátar eftir því. Jafnframt þessu ættum vér svo sem unnt er aðkoma oss upp kerrum og venja oss við að nota þær sem allra mest til heimavinnu, flytja á þeim áburð á tún, hey af túnum, mó frá gröfum, hey af engjum og sem flest annað sem flytja þarf, og mun það reynast mikill tímasparnaður og kostnaðarléttir. Jafnhliða því sem vér temjum oss þessa flutningsaðferð, þyrftum vér sem mest að leggja niður þá aðferð á verslun og flutningum sem nú er, að versla í kaupstöðum á öllum tímum árs, og flytja jafnoft varninginn yfir fjallveginn. Hversu mikið manntjón og fartjón höfum vér ekki beðið af þeirri aðferð? Og hvenær sjáum vér fram úr því sem af henni hefur hlotist? – Þá mundu ekki peningarnir sem varið er til vegabóta, vera grafnir undir fönn þegar vér þyrftum að nota þá, því vér versluðum ekki að mun nema sumar og haust þegar vegir eru auðir og þurrir, og flyttum þá ef tími væri naumur, aðeins yfir fjallveginn og í geymsluhús vor, og síðan við hentugt tækifæri á bátum, sleðum, eða hestum, til heimkynna vorra.
S. E.
*) Tvær villur leiðinlegar eru í Austragreininni “um vegi”, báðar í örðum dálki. Hin fyrri 400 pd. Hin síðari: frá Reyðarfirði að Lagarfljótsbotni nálægt 20 faðmar. Talan á líklega að vera 1400 pd. Ekki 400, og hin síðari 2000, en ekki 20.


Ísafold, 14. apríl 1886, 13. árg., 16. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur ræðir hér brúarmál með það fyrir augum “að hrinda brúarmálinu þó ekki sé nema dálítið áfram”.

Lítil bending viðvíkjandi brúarmálinu.
Þegar rætt hefir verið um að brúa Þjórsá og Ölfusá, hvort heldur það hefir verið á alþingi eða í fréttablöðum, hefi ég, eins og aðrir, sem eiga við þá erfiðleika að stríða, að eiga nauðsynjar sínar að sækja yfir stórvötn þessi, fylgt því máli með mestu athygli. Það hefir glatt mig, þegar ég hefi heyrt raddir hlynntar máli þessu; það hafa þá oftast verið menn, sem töluðu, er gagnkunnugir voru bæði landsháttum okkar austanmanna, og ókjörum þeim, sem við eigum við að búa, þar sem árnar eru; á hinn bóginn hafa og margir gjörst andmælendur brúanna, bæði á alþingi og í fréttablöðum; flestir þeirra hafa fært það til máls síns, að ógjörningur væri, að landsjóður kostaði brýrnar; en auk þeirrar ástæðu hafa sumir komið með aðrar léttvægari ástæður, svo sem Holger Clausen, er hann sagði á síðasta þingi á þá leið, að þar sem engar brýr hefðu í nokkur hundruð fyrirfarandi ár verið á ánum, væri oss ekki vandara um, að komast yfir þær brúarlaust, en forfeðrum vorum. Í vetur las ég langa grein um brúarmálið í “Austra”, að sögn eftir síra Jón prófast í Austur-Skaftafellssýslu, sem eins og kunnugt er, á síðasta þingi gjörði sitt til, að fella frumvarpið um brú á Ölfusá, en hefir samt þá ekki þóst hafa úttalað, og furðar mig á, að hann, jafn greindur og réttsýnn maður, skuli vera svo þrár við sinn keip; látum svo vera, þó honum vaxi í augum, að landsjóður leggi fram allt féð til að brúa báðar árnar (200.000 kr., sem er allt of há áætlun), en hitt gegnir furðu, að hann skuli berja það blákalt á fram, að brýrnar muni ekki koma oss sunnlendingum, austan ánna, að tilætluðum notum, og vill hugga okkur með því, að sumir aðrir eigi eins örðugar kaupstaðarferðir og við, og sé oss ekki vandara um en þeim, þetta dregur dám af ummælum H. Clausens.
Á (ólæsilegt) brúarmálið á sama skeri og fyr; meiri hluti neðri deildar neitaði að landssjóður legði allt féð fram. Þótt mér nú virðist það sanngirniskrafa, að landssjóður kostaði brýrnar, þá er það samt skoðun mín, að það sé ísjárvert fyrir oss sunnlendinga, sem hlut eigum að máli, að tefja fyrir brúargerðinni og lengja þingræður með þrábeiðni um “gjafabrýr”; ég er sannfærður um, að hér eftir munu verða lögð brúarfrumvörp fyrir hvert einasta ókomið þing, þar til brýrnar að lokum, fyrir tilstilli Alþingis, verða gjörðar á kostnað landssjóðs. En hver veit hvað lengi það getur dregist? Ef til vill fullan mannsaldur, eða meira; því að aftur á hinn bóginn er ég eins sannfærður um, að fyrst um sinn muni þingmenn úr þeim kjördæmum, sem ekki hafa beinlínis gagn af brúargerðinni, sitja jafnfastir við sinn keip, að landssjóður eigi ekki að kosta brýrnar að öllu, eins og komið hefur fram á fyrirfarandi þingum, og þótt atkvæðamunur hafi verið lítill á síðasta þingi, þá gæti svo farið, að hann yrði miklu meiri á öðrum þingum; en málið er allt of áríðandi, að það þoli slíkan drátt.
Til þess að koma í veg fyrir slíkan drátt, sé ég hið helsta ráð, að brúafrumvörp þau, sem lögð yrðu fyrir næsta alþing, færu í líka stefnu og tillaga Tryggva Gunnarssonar á síðasta þingi; landssjóður ætti að leggja fram féð að hálfu, en nágrannasýslurnar, eða jafnvel allt suðuramtið, ætti að fá rentulaust lán úr landssjóði, sem borga mætti smám saman, árlega, og skal ég leyfa mér hér á eftir að reyna að sýna fram á hvernig ég hefi hugsað mér, að sú lántaka yrði minnst tilfinnanleg fyrir lántakendur.
Upphæð sú, 80.000 kr., sem gert var ráð fyrir á síðasta þingi, að brú á Ölfusá mundi kosta, er að ætlan minni of há; mun Vinfeldt-Hansen hafa gert ráð fyrir þeim kostnaði; kunnugur maður erlendis hefir sagt mér, að á hinum síðustu 10 árum hafi steypt járnsmíði erlendis lækkað mjög í verði (ég gerði ráð fyrir að brýrnar verði úr járni), og ætti því brúarefnið ef til vill að fást með talsvert vægara verði, en þegar V. H. gerði áætlun sína; en hvað sem því líður, þá mundu tilfengnir útlendir brúarsmiðir gera kostnaðaráætlun af nýju, áður en tekið væri til starfa. Ég geri nú samt ráð fyrir, að báðar brýrnar mundu kosta 160.000 kr.; landssjóður legði þá fram 80.000 kr., en hinn helmingurinn væri lánsfé, sem borgast ætti með tiltekinni árlegri afborgun, upp frá þeim tíma að brýrnar væru fullgjörðar og til almennings afnota. Af því ég er kunnugri fyrir austan Þjórsá, mun ég hér aðeins miða við hana. Jafnskjótt og búið væri að velja brúarstæðið skyldi leggja veg af þjóðveginum, sem nú er (t.d. frá bænum Rauðalæk) að brúnni; sá vegur mundi að sönnu kosta talsvert, en ég geri ráð fyrir, að ekki yrði horft í þann kostnað, þegar slíkur væri hagur í aðra hönd, að Þjórsá yrði farin á brú; þeir, sem brúna færu með klyfjahesta, væru einkum Rangæingar og Vestur-Skaftfellingar, sem annaðhvort færu kaupstaðar- eða skreiðarferðir út á Eyrarbakka; reyndar versla sumir þeirra að miklu leyti í Vestmannaeyjum, og þessi síðustu ár hafa Vestur-Skaftfellingar pantað nokkuð af vörum frá útlöndum, og sótt þær til Eyja, en samt munu þó fáir eða engir búendur vera, einkum í Rangárvallasýslu, sem ekki hafa meiri eða minni aðdrætti árlega frá Eyrarbakka. Því miður er mér ekki kunnugt um búendatölu í Rangárvallasýslu, nú sem stendur, en af Johnsens Jarðatali sé ég, að 1844 voru 660 búendur í sýslunni, og mun hún nú ekki vera fjarri því. Ég ætla nú samt ekki, að taka of djúpt í árinni, og aðeins gjöra ráð fyrir, að 500 búendur úr Rvs. fari um brúna árlega með 10 klyfjahesta hver; ætti þá hver þeirra að gjalda 20 aura fyrir hvern klyfjahest, sem færi út yfir og austur yfir aftur á brúnni; þessir 500 búendur mundu þá árlega gjalda 1000 kr., en það væri hið sama, eða minna, en þeir árlega gjalda í ferjutolla (25 aura fyrir klyfjar af einum hesti); sama gjald skyldi lausríðandi gjalda; einnig skyldi taka nokkuð gjald af gangandi mönnum og lausum hrossum, sem farið væri með yfir á brúnni. Það er ekki hægt að giska á, hversu margir lestamenn úr Skaftafellssýslu, lausríðandi menn, eða laus hross (markaðshross hestakaupmanna) mundu árlega fara um brúna, en ekki þætti mér ólíklegt, að brúartollur þeirra mundi einnig nema 1000 kr. Ég þykist hér að framan ekki hafa farið of langt að ætla, að 500 búendur úr Rangárvallas. árlega fari um brúna, þar sem ég sleppi svo miklu af búendatölunni; sömuleiðis eru 10 klyfjahestar ekki ofætlað á hvern búanda; því þótt sumir einstakir fari ekki með svo marga hesta, þá er hinna tala meiri, sem árlega hafa miklu meiri aðdrætti, 20-40 hesta. Eftir þessari áætlun fengjust árlega 2000 kr. í brúartoll; en hver ætti að innheimta þennan brúartoll? Mér virðist liggja beinast fyrir, að brúin væri boðin upp á leigu, til eins eða tveggja ára, og ætti sá, sem brúna tæki á leigu, að skuldbinda sig til, að gjalda árlega í landssjóð peningaupphæð; það segir sig sjálft, að ekki væri fenginn annar brúarvörður, en áreiðanlegur maður, sem ætti veð fyrir árgjaldinu.
Umferðin um brúna kynni ef til vill fyrsta árið ekki að verða eins mikil og ég hefi ætlað á, en eftir því sem nýir vegir yrðu lagðir að henni, mundi hún vaxa með ári hverju, því fáir eða engir mundu heldur kjósa að fara á ferju og sundleggja hesta sína, nema ef vera skyldi menn af næstu bæjum við ferjur á ánni og ef til vill greinarhöf. í Austra; Skaftfellingar eru taldir bestir ferðamenn hér á landi; þess vegna mundu þeir manna helst nota brúna, en ekki eiga á hættu að leggja langþreytta hesta sína í ána og missa þá, eins og oft hefir viljað til; á ári hverju farast fleiri eða færri hestar í Þjórsá, og ef skýrsla væri til um það, hve mörg hross hafa týnst í henni um síðastliðin 40 ár, mundi andvirði þeirra skipta þúsundum króna.
Ég er greinarhöfundi í Austra samdóma í því, að æskilegra væri að brú kæmi fyr á Þjórsá en Ölfusá (því ekki er við að búast, að brýr komist jafn skjótt á báðar árnar); það, sem mælir fram með því, er, að margir Skaftfellingar og flestir Rangæingar fara aðalkaupstaðarferðir sínar á Eyrarbakka, en ekki til kauptúnanna fyrir utan Ölfusá; sömuleiðis er meginhluti Árnessýslu austan Ölfusár, og sækja menn þar helstu nauðsynjar sínar til Eyrarbakka; verslun þar hefur nú í seinni tíð fallið mönnum betur í geð, eftir að kaupmönnum fjölgaði þar; Árnesingum þeim, er búa utan Ölfusár, er innan handar að reka verslun sína annaðhvort í Þorlákshöfn eða kaupstöðunum fyrir vestan fjall. – Hvað lánið yrði fljótt, endurgoldið, er náttúrlega undir því komið, hversu brýrnar yrðu fjölfarnar. Brúarlán til Þjórsár (40.000 kr.) ætti að geta endurgoldist á 40 árum, eða skemmri tíma.
Ég ætla ekki að fjölyrða meir um þetta, en vona, að þessi bending mín, þó henni kunni í ýmsu að vera áfátt, verði til þess, að hrinda brúarmálinu þó ekki sé nema dálítið áfram.
Kirkjubæ 25/3 – “86. Bogi P. Pjetursson.


Ísafold, 23. apríl 1886, 13. árg., 21. tbl., viðaukablað, forsíða:
Hér er birt ágrip af sýslufundargerðum í Árnessýslu en þar er víða rætt um vegamál.

Ágrip
af sýslufundargjörðum í Árnessýslu 1885 og 1886
a. Á aukafundi 30. sept. og 1. okt. 1885.
Á fundinum, sem var haldinn í barnaskólahúsinu á Eyrarbakka, voru mættir, auk oddvita, nefndarmenn úr öllum hreppum sýslunnar, nema Grafningshreppi, þar sem nefndarmaður var dáinn. Nýkosnir nefndarmenn voru mættir; fyrir Hrunamannahrepp: Skúli Þorvarðarson, alþm. á Berghyl, fyrir Skeiðahrepp: Jón hreppstjóri Jónsson á Skeiðáholti, og fyrir Selvogshrepp: Þorsteinn bóndi Ásbjarnarson á Bjarnastöðum.
Til skrifara var kosinn nefndarmaður Ölfushrepps.
13. Tilkynnt bréf suðuramtsins (26. júní), er skýrir frá, að landshöfðingi hafi veitt 1.000 kr. þetta ár til aðalpóstvega, og samþykkt, að þær 487 kr. 47 au., er ekki varð unnið fyrir vegna ótíðar fyrra ár, megi einnig brúkast í ár.
Nefndarmaður Hraungerðishrepps lagði fram álit um og reikning yfir vinnu á aðalpóstvegum þetta ár, sem og kvittanir verkstjórans fyrir gjaldinu.
15. Lagðir fram 2 reikningar um aukaviðgerð á Melabrúnni, að upphæð c. 90 kr.; samþykkt, að greiða þær úr sýsluvegasjóði.
16. Skýrt var frá, að “Melabrúin” hefði í sumar verið endurbætt á þann hátt, að nægilega stórir skurðir hefðu verið gjörðir beggja megin og brúin víða hlaðin að utan, svo að nú vantaði helst íburð. Ákveðið, að gera ráðstafanir fyrir að fá 2.000 kr. lán af þeim 150.000 kr., sem í enda fjárlaganna fyrir 1886-87 eru ætlaðar til að veita mönnum atvinnu, panta nú þegar verkstjóra og láta taka upp og flytja grjót að brúnni til íburðar.
Spurt var um, hvort ákvörðun nefndarinnar á síðasta fundi áhrærandi skemmdir á Melabrúnni hefði verið fullnægt (sjá 34. tölul. síðustu prentuðu fundargerða). Nefndarmaður Sandvíkurhrepps skýrði frá, að allir hlutaðeigendur hefðu neitað að inna verkið (25 dagsverk) af hendi. Samþykkt, að oddviti og nefndarmaður Sandvíkurhrepps taki á sig fulla ábyrgð á, að 50 dagsverk séu unnin að Melabrúnni fyrir næstu fardaga, og lýsi yfir í blaðinu “Ísafold”, að þau séu unnin sem bætur af hálfu þeirra, sem gerðu spjöll á Melabrúnni næstliðið ár, með því að teppa aðalvatnsrúm hennar.
b. Á aðalfundi 13.-17. apríl 1886.
Á þessum fundi, sem haldinn var á sama stað og áður, voru, auk oddvita, mættir allir nefndarmenn, nema frá Grafningshreppi, þar sem nefndarmaðurinn var dáinn. Til skrifara var kosinn nefndarmaður Ölfushrepps.
9. Nefndin veitti fyrir þetta ár 50 kr. styrk af sýslusjóði til sæluhúsahalds á Kolviðarhóli eftir beiðni hreppsnefndar Ölfushrepps.
Nefndin fól oddvita, að fara þess á leit við amtsráðið, að það sjái sæluhúsinu fyrir tryggingu gegn eldsvoða.
26. Oddviti hafði í fundarboðuninni talið málið um brúargerð á Þjórsá og Ölfusá meðal þeirra, er koma mundu til umræðu; tók því nefndin það fyrir, og lýsti því yfir, að þetta mál væri sér sama áhugamál og fyr; en af því alþingi í sumar hafði sérstakan starfa, en fengist ekki við sérstök fjárhagsmál, væri þýðingarlaust að leggja þetta mál fyrir það að þessu sinni.
27. Þá var rætt um sýsluvegi sýslunnar. Nefndinni höfðu ekki borist neinar uppástungur um nýja sýsluvegi, eða breytingar á hinum ákveðnu sýsluvegum.
Þá er rannsakaðar voru skýrslur um verkfæra menn, fundust nokkrir misbrestir á, að ákvörðun nefndarinnar hefði verið fylgt í Grafnings- Biskupstungna- og Hrunamannahreppum. – Nefndin heldur því fram, að þeirri ákvörðun hennar sé rækilega fylgt, að hreppstjórar láti skýrslur prestanna fylgja listum sínum sem fylgiskjöl, og sendi sýslumanni hvorttveggja að minnsta kosti á vorfund sýslunefndarinnar.
Umsjónarnefnd yfir “Melabrúnni” hafði eftir ákvörðun nefndarinnar á haustfundi falað 2.000 kr. lán, af þeim 150.000 kr., sem í enda fjárlaganna fyrir 1886-87 var ætlað til lána að veita mönnum atvinnu, og fengið munnlegt loforð landshöfðingja fyrir þessu, ef atvinnulánið yrði staðfest, og í því trausti ráðið verkstjóra og látið byrja að taka upp og draga að grjót til íburðar í brúna. En meðan sem hæst stóð á verkinu, kom ráðgjafabréf það, sem neitar um samþykki á atvinnuláninu. Umsjónarnefndin lét samt halda verkinu áfram, og var unnið fyrir nál. 1750 kr. – Sýslunefndin viðurkennir, að umsjónarnefndin hafi í fyllsta máta rekið það erindi, sem henni var falið, og að þar sem búið sé að vinna fyrir meiri hluta hins umbeðna láns, ályktar hún, að sjálfsagt sé, að taka lánið á annan hátt með sem vægustum kjörum. Nefndin komst á fundinum í samning um þetta lán, með 4% vöxtum, og 15 ára afborgun. En þar sem verkið er enn eigi hálfgert, grjótið ómulið og ólagt í brúna, telur nefndin óumflýjanlegt, að taka að auki 1500 kr. lán fyrir vegasjóðinn, og var oddvita með nefndarmönnum Stokkseyrar- og Ölfushrepps, þeim sem nú eru, falið að útvega þetta lán með sem vægustum kjörum, og gefið umboð til þess af nefndinni. Oddvita var valið, að útvega leyfi amtsráðsins til þessarar lántöku hvorrar tveggja.
Sýsluvegabótagjald sýslunnar þetta ár er .................. kr. 1839,75
og í vörslum oddvita frá fyrri tíð 14,00
1853,75
Auk þess sótti nefndin um úr landssjóði til póstvega.. kr. 1000.00
þessum samtals 2853,75
samþykkti nefndin að verja þannig, ef hinn umbeðni styrkur fæst:
a. til endurbóta á póstveginum frá Laugardælaferju út að Kömbum ............ kr. 150.00
b. til ýmsra kafla á póstveginum frá Skeggjastöðum austur yfir
(ólæsilegt) staða-engjar ................................................................................. 50.00
c. til framhalds brúargjörðinni á póstveginum fyrir framan Krókskot .......... 800.00
d. til Geysisvegarins í Biskupstungnahreppi ................................................. 14.00
e. til viðgerðar á veginum yfir Þurármýri:
1. til endurborgunar á láni, er leyft var að taka fyrra ár........... kr. 28,25
2. til endurbótar í ár ................................................................. 40,00 68,25
f. til vegarins frá Kotferjustað að Torfeyri:
1. til borgunar vinnu, er unnin var f. á. upp á væntanlegt
samþykki nefndarinnar ........................................................ 62,00
2. til vegargerðar í ár ............................................................... 100,00 162,00
g. til vegarins yfir Grafningsháls að Spóastaðaferju ...................................... 125,00
og séu 25 kr. af þeim brúkaðar til ruðnings á Grafninghálsi.
h. til vegarins frá Óseyrarnesi að Baugstöðum:
1. til endurborgunar á láni, er leyft var að taka f. á. ................ 123,74
2. til vegabótar í ár .................................................................. 170,00 293,74
i. til vegarins frá Torfeyri að Vatnastekk ...................................................... 50,00
j. til brúar hjá Gilvaði í Hraungerðisgr. ......................................................... 12,00
k. til Ásavegarins í Villingaholtshreppi .......................................................... 50,00
l. til Ásavegarins í Gaulverjabæjarhreppi ...................................................... 80,00
m. til brúarinnar í Ragnheiðarstaðasundi ........................................................ 40,00
n. til Melabrúarinnar ...................................................................................... 325,25
o. til endurgjalds á skuld sýsluvegasjóðsins .................................................. 633,51
= 2.853,75
Ef styrkurinn úr landssjóði verður minni en um er beðið, er ætlast til, að vegagerðin undir staflið c. verði út undan.
Nefndin biður amtsráðið að hlutast til um, að hinu útlendi vegfræðingur fáist til að standa fyrir póstvegagerðinni hér í ár, og að styrkurinn úr landssjóði gæti þá orðið allt að 2.000 kr. En þó hann fáist ekki til forstöðu, að hann samt verði sendur til að skoða póstvegabrautina, sem þegar er gerð, og gefa bendingar um: 1. hvort slíkum brautum mætti eigi án verulegs kostnaðarauka haga svo, að síðar gætu að notum komið sem akbrautir; 2. hvað kosta mundi hentug vél til að mölva hraungrjót ofan í vegi, og hvort grjótmulning með slíkri vél mundi verða ódýrari , en með almennum hömrum.
Um framkvæmd sýsluvegavinnunnar var ákveðið, að hreppsnefndum sé falin umsjón og framkvæmd hennar allsstaðar, nema að vinnan að Melabrúnni sé boðin upp á undirboðsþingi og að póstvegagerðin í Hraungerðishreppi sé einnig boðin upp, nema því eins, að vegfræðingurinn fáist þar til forstöðu. – Til aðstoðar oddvita í að samþykkja undirboðin voru kosnir: fyrir Melabrúna nefndarmenn Stokkseyrar- og Ölfushreppa, og fyrir póstveginn, nefndarmenn Hraungerðis- og Skeiðahreppa. – Fáist ekki viðunanlegt boð, er umsjón vinnunnar falin forstöðunefndum, og í þær kosnir: fyrir Melabrúna nefndarmenn Stokkseyrar-, Sandvíkur og Ölfushreppa, fyrir póstveginn nefndarmenn Hraungerðis-, Skeiða- og Villingaholtshreppa.
Lúðvík Alexíussyni, verkstjóra Melabrúarinnar í vetur, voru veittar 12 kr. í ferðakostnað næstl. haust.
28. Skýrslur um aukavega-vinnu voru komnar frá öllum hreppum, en frá nokkrum þeirra aðeins yfirlýsing um, að vel hafi verið unnið lögum samkvæmt. Ánýjar nefndin áskorun sína til þessara hreppa um að gefa greinlega skýrslu.


Ísafold, 14. júlí 1886, 13. árg., 29. tbl., bls. 114:
Hinn norski vegfræðingur, N. Hovdenak, hefur staðið fyrir vegagerð frá Svínahrauni og niður að Lækjarbotnum. Vinnubrögðin þykja nýstárleg og fróðlegt að lesa þetta viðtal við vegfræðinginn.

Úr Svínahraunsveginum
Það er raunar ekki Svínahraunsvegurinn sjálfur, sem nú er verið með, heldur framhald af honum suður á við, niður að Lækjarbotnum.
Þar hefir hinn norski vegfræðingur, N. Hovdenak, staðið fyrir vegagjörð nú um mánaðartíma hér um bil, með nálægt 40 verkamanna, þar á meðal 4 norska, er hann setti upp að mega hafa með sér, af því að hér væri enga að fá nægilega vana réttri vegavinnu.
Hið fyrsta, sem fréttaritari Ísafoldar, er eins og fleiri góðir menn gerði sér erindi til að skoða vegagjörðina nú fyrir skemmstu, spurði vegfræðinginn um, var, hvers, vegna að haldið hefði verið gömlu vegarstefnunni, fyrir sunnan vötnin, í stað þess sem allir kunnugir og greindir menn hefðu álitið sjálfsagt, að taka beina stefnu úr Svínahrauni, þar sem vegurinn beygir við, og á Lyklafell. Þar með hefði hann orðið bæði miklu styttri og fyrirhafnarminni, sér í lagi er til viðhaldsins kemur, þar sem hann hefði getað legið nær alla leið beint til Reykjavíkur eftir eintómum holtahryggjum, þar sem er vatnalaust, í stað þess að nú yrði hann að leggja 2-3 sinnum yfir slæm vötn, og þá hefði meira að segja mátt sameina þennan veg við Mosfellsheiðarveginn góðan spöl neðan til. Mundi að skynugra manna dómi hafa verið meir en til vinnandi, að leggja niður spölkorn af Svínahraunsveginum neðantil, þótt dýr sé orðinn, til að fá þessu framgengt.
“Mér var skipað að halda þarna áfram sem nýja vegagjörðin hætti, fyrir neðan hraunið”, svaraði hann.
“Lendir ekki vegurinn í ófærum vatnagangi eftir þessari stefnu, fyrst fyrir ofan Sandskeiðið og svo aftur þegar kemur niður að Lækjarbotnum?”
“Fyrir ofan Sandskeiðið beygjum við veginn suður á við svo, að hann lendi fyrir ofan það sem vatn stendur hæst þar í leysingum og vatnavöxtum, að kunnugra manna frásögn. Niður hjá Lækjarbotnum er ætlast til að vegurinn beygi norður á við og yfir ána milli Lækjarbotna og Elliðakots – þar verður að hafa brú á henni, helst járnbrú, því járnbrýr eru bæði ódýrari og miklu endingarbetri en trébrýr – síðan á vegurinn að liggja niður ásana fyrir norðan árnar, niður undir Hólm.
“Það er þó bót í máli nokkur, að hann á ekki að lenda í vötnunum og hrauninu fyrir neðan Lækjarbotna. En verður hann ekki býsna krókóttur með þessu móti?”
“Með þessari vegarstefnu verður eigi hjá því komist, enda er betri krókur en kelda.”
“Ég sé, að þér hafið annað lag á veginum, en hér hefir áður þekkst: ekki þennan háa hrygg í miðjunni, heldur lítið eitt kúptan veginn að ofan, jaðrana mjög fláa utan og allstaðar grafið niður með fram veginum fyrir vatnsrennsli. Mér skilst vel, að með þessum mikla fláa muni ræsin meðfram veginum og vegajaðrarnir sjálfir halda sér langtum betur en með gamla laginu, og vegurinn mun víðast hvar geta varist fyrir vatni allt eins vel með því að grafa svona niður með honum beggja vegna eins og að vera að hlaða hann hátt upp, sem auðvitað er miklu kostnaðarsamara; sömuleiðis, að vegurinn gangist miklu jafnara og varðveitist betur með því að hafa hann nærri flatan að ofan, heldur en þennan háa ofaníburðarhrygg í miðjunni. En er ekki ónýtt, að hafa bara mold í vegarköntunum, eða þótt tyrft sé með grassverði, eins og ég sé að gert er sumsstaðar? Grær þessi svörður svo almennilega, svona upp til fjalla? Og ætli vatnið muni ekki grafa sig inn undir kantana og skola þeim burt, eða frost sprengja þá alla í sundur?”
“Ekki á jafnsléttu eða þar sem lítill er halli. Þar er vatnið svo straumlaust eða straumlítið. Það er meðal annars þess vegna, að gott er að hafa vegina sem óbrattasta. Þar sem þeir mega til að vera brattari, er sjálfsagt, að búa öðru vísi um vegarkantana.”
“Hér hefir alltaf verið álitið ónýtt að hafa tóma mold í vegi undir, þótt látinn sé góður ofaníburður (möl) ofan á. Treðst ekki slíkur vegur upp undir eins af hestafótum, þar sem er mikil umferð í vætutíð t.a.m.? Getur maður reitt sig á, að nokkrir vegir endist hér öðruvísi en flórlagðir? Það má vera traust um búið, sem á að þola fryst hlífðarlausa umferð af ef til vill mörg hundruð hestum á dag, og síðan veðráttuna, eins og hún er hér, t.d. haustrigningarnar og stormana, og leysingarnar á vorin.”
“Einföld flórlegging, eins og hér tíðkast er miklu fremur til ills en góðs. Grjótið snarast og skekkist og kemur upp úr von bráðara; flestir slíkir vegir verða að urð áður langt um líður. Flórleggingin verður að vera margföld, ef duga skal, hvort lagið ofan á öðru samfellt og smæsta grjótið efst. Sé síðan fyllt upp með góðum ofaníburði og eftir réttum reglum, fær maður ágætan veg, en líka ákaflega dýran, svo dýran, að slík vegagjörð þykir ekki takandi í mál nema á höfuðþjóðvegum í fjölbyggðum löndum. Annars verða menn að láta sér lynda svona moldarvegi með góðum ofaníburði, og fái þeir að vera í friði meðan verið er að búa þá til, er reynsla fyrir því, að þeir mega vel duga, og það þar sem er miklu skaðlegra veðráttufar fyrir vegi en hér á landi. Að minnsta kosti gefast svona vegir vel í Noregi, og er þar þó rigningarsamara en hér, vestan á Noregi að minnsta kosti, og mjög stormasamt, og brattlendi meira en hér. Og það eru ekki einungis vagnvegir, heldur líka hestvegir”.
“Verðið þér nú við þennan veg í allt sumar?”
“Ég sigli aftur í ágústlok. En það hefur komið til orða, að ég færi núna bráðum austur fyrir fjall, meðal annars til að skoða hin fyrirhuguðu brúarstæði á Þjórsá og Ölfusá”.
“Það verður fróðlegt að heyra, hvernig yður líst á það fyrirtæki. Það mál er hið mesta áhugamál fyrir hlutaðeigandi héruð og hefir nú staðið á dagskrá 10-20 ár. Meðal annars hafa menn borið kvíðboga fyrir, að brýrnar mundu aldrei verða svo traustar, að árnar færu eigi með þær í vatnavöxtum og jakaburði á vorin.”
“Vatnavöxt og jakaburð þekkjum vér í Noregi. Þar er alvanalegt að gera ráð fyrir 20 feta vatnavexti í ám, sem brúaðar eru. Það stendur miklu meiri háski af viðarreki í ám en jakaburði, svo hættulegur sem hann er. Það munar um tuttugu þúsund tylftir í einum viðarflota í straumharðri á, og hafa menn þó komist upp á að gera brýr svo, að þeim sé óhætt fyrir þess konar áhlaupum.”
“Hver stendur nú fyrir vegagjörðinni hér, meðan þér eruð fyrir austan?”
“Einn af norsku verkamönnunum, sem best kann til verka.”
“Má nú ekki nota slíka menn, þótt ólærðir séu, til að standa algjörlega fyrir vegagjörð, þegar búið er að afmarka vegarstefnuna?”
“Það má komast af með þess konar menn til að leggja spotta og spotta, þar sem vandalítið er, ef þeir kunna meðal annars hallamæling nokkurn veginn, eftir að vegfræðingur er búinn að afmarka stefnuna. Og það er gert í Noregi, og slíkir menn hafðir fyrir umsjónarmenn, sem kallað er. En að örðu leyti þykir ekki takandi í mál að fást við vegagjörð nokkursstaðar öðruvísi en með forstöðu reglulegs vegfræðings.”
“Líklegast er yðar nú ekki von hingað oftar?”
“Ekki býst ég við því. Ég átti mjög bágtmeð að koma í þetta sinn; það var svo mikið að gera nú í sumar í Noregi fyrir vegfræðinga, af því að stórþingið veitti nú 200.000 kr. meira til vegabóta heldur en að undanförnu, eða 1.200.000 kr. alls. Ríkissjóður kostar þjóðvegi að ¾ , en sveitarfélög leggja fram ¼, en þau auka framlag sitt svo ár frá ári, að ríkissjóður mátti til að hækka svona vegabótaféð, til þess að verða ekki aftur úr. Hann er nú búinn að verja 86 milj. kr. til vegagjörða síðan 1854; en til þess að fullgera þjóðvegi um land allt, er búist við að þurfa muni 48 milj. í viðbót. Auk þess hefir þegar verið kostað til járnbrauta í Noregi 120 milj. kr.”.
“Hvað mundi nú þurfa að launa miklu útlendum (t.d. norskum) vegfræðing, ef hann ætti að setjast hér að og vera ráðinn til 5-6 ára t.a.m., svo sem meðan við værum að koma okkur upp innlendum vegfræðing?”
“Ég ímynda mér, að þið munduð geta fengið ungan vegfræðing efnilegan fyrir 4.000 kr. laun. Vegfræðingar þurfa miklu til að kosta til undirbúnings sér: fyrst að taka stúdentspróf eða annað próf sem því svarar hér um bil, síðan að ganga í 4 ár á vegfræðingaskóla í Kristjaníu eða Niðarósi, og loks 1 ár á þýskan vegfræðingaskóla til frekari fullkomnunar. Þegar þeir eru þar á ofan búnir að fá nokkra verklega æfingu, geta þeir oftast átt sér vísa vel arðsama atvinnu, og eru því dýrir á vinnu sinni, eftir því sem hér gerist. Ég segi ekki þar með, að ég vildi ganga að þessum kjörum, eftir mínum kringumstæðum. Annars álít ég margra hluta vegna snjallasta ráð fyrir ykkur að koma ykkur upp innlendum vegfræðing. Það er mikilsvert, að vera nákunnugur öllum landsháttum, og innlífaður þeirri þjóð, sem maður á að vinna fyrir”.
“Hvernig líkar yður verkamenn yðar þá íslensku?”
“Þeir eru röskir menn og liðlegir margir. En vegna mannleysis við rétt vinnulag og rétt handtök við hverju einu við vegavinnu vinnst þeim eigi eins drjúgt að jafnaði og hinum norsku.”
“En lærist þeim það ekki fljótt?”
“Það veitir ekki af 2-3 ára æfingu til þess að geta orðið góður verkmaður við vegavinnu, og þarf þó að sjá fyrir sér rétt og liðlegt vinnulag frá upphafi.”
- Fréttaritarinn spurði tvo af hinum innlendu verkamönnum, er hann átti tal við, hvort þeir sæju nokkurn mun á því, sem Norðmennirnir afköstuðu og hinir íslensku verkamenn.
“Ekki ber ég á móti því, að þeim (Norðmönnunum) verði verkið eitthvað drýgra úr hendi en okkur, þó að þeir sýnist ekki fara harðar að, og tefjast þeir þó nokkuð á því að segja okkur til. Það er líka eins og þeim verði síður á að halla sér fram á rekuna og masa við náungann svona snöggvast í bili heldur en okkur. Svo er líka það, að dæmi þeirra kennir mörgum okkar að halda sér betur að verki en áður hefir við brunnið stundum. Enda halda menn sér nú almennt hér mikið vel að verki.” – Þannig svaraði annar þeirra, og staðfesti hinn það í alla staði.
- Eitt hneykslaði þá mjög, og það var það, að þessi Gísli snikkari frá Khöfn, er stjórnin þar hafði sent hingað með Hovdenak, skyldi ekki snerta á verki, heldur bara elta hann iðjulaus og uppábúinn með hendur í vösum, og eiga þó að hafa að sögn 100 kr. í kaup á mánuði. Fréttaritarinn gat huggað þá á því, að eftir því sem maður, er það vissi og því réði, hefði sagt, fengi hann ekki einn eyri í kaup, nema hann tæki þátt í vegavinnunni alveg eins og hinir. Gengi hann iðjulaus, þá væri það á sjálfs hans kostnað.
Því sem búið var af veginum, og þó ekki nema hálfgert, með því að eftir var að bera ofan í, var mjög búið að spilla af umferð ferðamanna, og sögðu verkamenn svo, að ýmsir þeirra riðu hann upp og ofan að gamni sínu, til að spilla honum, af tómum strákskap, sumir algáðir, sumir ekki. “Því eru þeir ekki teknir og sektaðir?” – “Það höfum við ekki myndugleika til.” – “Það má nærri geta, að það stoðar ekki mikið, að búa til dálitla auglýsingu heima á skrifstofu hjá sér og setja í blað, og láta svo þar við lenda.” “Það er eins og að búa til lög um, að enginn megi stela, en láta samt alla þjófa fara í friðið ódæmda og óhengda”, - sagði einn, sem í förinni var.


Ísafold, 4. ágúst 1886, 13. árg., 32. tbl., bls. 126:
Greinarhöfundur ræðir samgöngur í Vestur-Skaftafellssýslu sem hann segir erfiðar og stundum því nær ómögulegar.

Nokkur orð um bygging þjóðgarða og samgöngur í
Vestur-Skaftafellssýslu.
..... Ég vil aðeins nefnda hér tvær meinsemdir af mörgum, sem Skaftafellssýslu eru mjög til niðurdreps og erfiðleika, hvað búnaðinum viðvíkur, sem að minni hyggju væri sannarlega nauðsynlegt að veita eftirtekt, ef vera kynni, þó seint sé, að bót yrði ráðin á því, að minnsta kosti að nokkru leyti. Þessar meinsemdir eru:
1., hin óhagkvæma tilhögun á byggingu þjóðgarða; og
2., hinar erfiðu og stundum því nær ómögulegu samgöngur. .....
...... Hvað hinu síðarnefnda viðvíkur, þá er það almennt viðurkennt, að greiðar samgöngu eru eitt hið helsta skilyrði fyrir framförum í menntunarlegu og búnaðarlegu tilliti. En að því er greiðar samgöngur snertir, þá er Skaftafellssýsla að því leyti eins og sett á hala veraldar og útilokuð frá þeim í samanburði við önnur héruð landsins. Það er margt, sem hér gerir samgöngurnar torveldar, bæði það, að sýslan er sundurskorin af stórum vatnsföllum og eyðisöndum, og svo hitt, að allar samgöngur á sjó eru ómögulegar vegna hafnaleysis og þar af leiðandi ekkert kauptún í allri sýslunni. Þess vegna verða sýslubúum allir aðdrættir afar erfiðir og kostnaðarsamir, þar sem þeir verða að fara allar sínar kaupstaðarferðir annaðhvort vestur á Eyrarbakka eða austur á Papós, sem, eins og kunnugt er, er mjög langur og erfiður yfirferðar. Þrátt fyrir það, þótt talsverðar vegabætur séu gerðar árlega og töluverðu fé kostað til þeirra, þá geta samgöngur á þessu sviði landsins samt sem áður aldrei orðið greiðar landslagsins vegna, nema því eins, að þær verði greiddar á sjó. Því aðeins, að menn gætu fundið einhver ráð til þess á þann þátt að efla samgöngurnar hér í sýslu, gætu þær orðið greiðar og að tilætluðum notum. Það er því sannarlega nauðsynlegt, að það yrði sem fyrst nákvæmlega rannsakað, hvað helst væri auðið að gera samgöngunum til eflingar; ef veruleg bót yrði á þeim ráðin, mundi það verða eitt hið helsta Skaftafellssýslu til viðreisnar.
Ritað í júnímán. 1886.


Þjóðólfur, 13. ágúst 1886, 38. árg., 35. tbl., bls. 139:
Í þessu fréttabréfi úr Ísafjarðarsýslu er m.a. komið inn á vegamál: “að leggja fé til vorra svo nefndu sýsluvega, er liggja í einlægum krákustígum kringum allt Djúp, er að kasta silfri í sæ”, segir bréfritari.

Fréttapistill
Úr Ísafjarðarsýslu 14. júlí 1886.
Tíð hefur mátt heita fremur stirð til lands, og fremur kuldasöm, enda hefur hafísinn öðru hverju legið landfastur við Horn; grasvöxtur hefur því almennt orðið í minna lagi. Útlitið gat þó engan veginn talist slæmt, þar eð afli er öllu meiri en í fyrra, ef fiskur hefði verið í þolanlegu verði, en 35 kr. fyrir skpd. segir lítið upp í skuldirnar hjá sumum. Kaupmenn kvað ætla að söngla sama tóninn og í fyrra, hafa góð orð að sumrinu, en vörulítið að vetrinum; þykir slíkt borga sig best. Efnaðri bændur við Djúp munu helst hafa í hyggju, að reyna að panta vörur og senda sjálfir fiskinn á útlendan markað. Undanfarin sumur hafa kaupmenn sent verslunarskip eftir vörum bænda og flutt þeim aftur nauðsynjavöru, að sögn, mest til að sporna við hinum fyrirhugaða gufubát, en nú munu þeir þykjast hafa kveðið þann draug niður, og ætla því engin skip að senda í sumar. Vonandi er, að þetta verði til að opna augu sumra þeirra, er með hnúum og hnefum hafa barist gegn þessu velferðarmáli sýslunnar. Um allan norðurhluta sýslunnar á sjórinn að vera eini þjóðvegurinn; að leggja fé til vorra svo nefndu sýsluvega, er liggja í einlægum krákustígum kringum allt Djúp, er að kasta silfri í sæ. Þeir, sem kunnugir eru hér vestra furða sig á því, að amtsráðinu skuli eigi hafa hugsast að taka eitthvað af sýsluvegagjaldinu, og verja því í öðrum sýslum amtsins, þar sem það yrði að einhverju liði. Slíkt kynni að vísu að koma í bága við hreppapólitíkina, en eigi við almenna skynsemi.


Þjóðólfur, 20. ágúst 1886, 38. árg., 37. tbl., forsíða:
Menn deila um brúargerð á Ölfusá og Þjórsá. Greinarhöfundur svarar hér grein í Austra sem miðaði, að hans sögn, að því að eyðileggja brúamálið. Röksemdirnar eru fróðlegar, bæði með og á móti.

Um brúagjörð á Þjórsá og Ölvesá
Grein með þessari yfirskrift stendur í Austra 2. 27.-28. Hún miðar auðsjáanlega til að eyðileggja brúamálið. Ekki hefur höfundur hennar viljað nafngreina sig, og hefur hann þó sjálfsagt ekki efast um, að greinin yrði sér til sóma; en raunar er varla hægt að segja að góðgirnin skíni út úr henni, að minnsta kosti ekki þar, sem hann er að leika sér að orðum þeirra, sem áður hafa ritað meðmæli með brúagjörðinni.
En hér varðar ekki um höfundinn. Lítum einungis á greinina. Það var vel, að hún gaf tilefni til, að ræða málið að nýju.
Aðalatriði brúamálsins eru þrjú:
1. Nauðsyn brúanna, 2. skylda landssjóðs að kosta til þeirra og 3. megun hans að geta það.
1. Eru brýrnar nauðsynlegar? Móti því færir greinin allar mögulegar átillur, svo sem: Að þessar sundár muni ekki verri en margar aðrar ár á landinu; að eigi muni verra fyrir hesta að synda ár en vaða; að víðar en í þessum ám fái hestar slæma útreið; en á hinn bóginn: að menn muni hvorki fækka hestum né kaupstaðarferðum þó brýrnar komi; að brýr borgi sig ver hér en í útlöndum, þar eð hér sé byggð strjálli og vörumagn minna; og að þær muni jafnvel líkt og nýir verslunarstaðir (?!) auka drykkjuskap og eyðslusemi í stað velmegunar. Hún er drjúg yfir því, að menn megi lengi bíða eftir allri þeirri velmegun, búsæld og blóma, sem þeir þykjast sjá í anda sem vísan ávöxt af brúnum.
Skoðum nú gildi þessara röksemda: Það, sem gerir sund í ám hart aðgöngu og hættulegt, er mæði og kæling. Það, sem því gerir sundár illar yfirferðar er: straumþungi, jökulkuldi og eigi hvað síst, breidd, og þó verst, þegar allt þetta fer saman; en það er tilfellið með Þjórsá og Ölvesá. Engar aðrar sundár hér á landi munu vera öllu straumþyngri eða kaldari en þær; en flestar eða allar miklu mjórri, svo mæði og kæling hlýtur að ganga nær hestum í þeim en öðrum ám, fyrir utan þá dauðans angist, sem oft hlýtur að gagntaka þá, er þeir eru reknir út í augljósan lífsháska. Mikill munur er á að synda vatn eða vaða: Á sundinu drekka hestar mikið vatn ofan í sig, og kólna því bæði að utan og innan, og svo standa þeir skjálfandi meðan lagt er á lestina; en á vaðinu drekka þeir ekki þannig, og þaðan er hiklaust haldið áfram. Sundið væri þó sök sér, ef ekki þyrfti á því að halda nema í góðu veðri; en í óveðri og vatnavöxtum, frosti og ísskriði, sem hér er altítt vor og haust, er það sannarlega ill meðferð á skepnum (“Dyrplageri”) að leggja hesta í þessar ár, þó menn iðulega neyðist til þess. Þetta hefir líka mörgum hesti að bana orðið, og margir hafa meiðst af því að hlaupa með bakkana til að hita sér eftir sundið. En hve margir hafa fengið langvinna lungnaveiki eða aðra kvilla af innkulsi í ám þessum, liðið þar af þvingun við alla brúkun og því átt bága ævi, það vita menn ógjörla. Ef hestar mættu mæla, mundu menn fræðast um sorglegan sannleik í því efni. Það tjáir ekki að svæfa samviskuna með því að segja: Hestar líða ekki meiri hrakning í ánum en á fjallvegum. Nær er, að láta sér annt um að bæta úr hvorutveggja, að því sem framast er unnt. Fjallvegina er nú verið að bæta; Þjóðfélagið gerir það. Hví skyldi það ekki einnig brúa árnar? Hví skyldi það láta nokkurt tækifæri ónotað, til að afstýra því, að ill nauðsyn helgi illa meðferð á skepnum? Því, fyrir utan kröfu mannúðarinnar, mun það jafnan reynast, að velferð mannanna fer eftir meðferð skepnanna. Sjálfsagt þarf að brúa fleiri brýr en þessar tvær, en eðlilegt er að byrja fyrst þar, sem þörfin er mest: Þar sem tvær stærstu árnar eru saman í fjölmennasta héraðinu, sem stendur til hvað mestra bóta. Því þessi hluti landsins er svo að segja hinn eini, sem gæti haft veruleg not af vagnaflutningum; og þeir geta og eiga að takast upp, ef brýrnar komast á; fyr verður það ekki, eftir því sem til hagar. Það er mjög líklegt, að vagnaflutningar gætu komið miklu góðu til leiðar hér; eigi aðeins sparað hestahald og kaupstaðarferðir að góðum mun, heldur einkum fært nýtt líf í viðskipti og framkvæmdir manna. Satt er það, að hér er byggð strjál og vörumagn lítið og vér erum “fjarskalega skammt á veg komnir” í næsta mörgu. En sú var tíðin að víða í útlöndum var líkt ástatt í því efni og nú er hér, ef ekki miður sumsstaðar. Hvernig bættu menn úr þessu þar? Einmitt með greiðari samgöngum; með þeim kom hugur og dugur, mannfjölgun og vörumagn, menntun og alls konar framfarir. Sama regla mundi gilda hér. Gerum raunar eigi ráð fyrir, að land vort, sem liggur svo norðarlega, muni jafnast við útlönd; en hver veit samt hve miklum framförum það getur tekið? Svo best verða þær samt nokkrar, að gert sé það, sem gera má, til að greiða fyrir samgöngunum. Þess öruggar sem þær ganga á undan, þess vissar fylgir framför á eftir; raunar ekki samstundis, heldur með tímanum. “Róm var ekki byggð á einum degi”, en hefði grundvöllur hennar aldrei verið lagður, þá væri hún óbyggð enn; og svo er um hvað eina. Þeir, sem nú mæla með brúargerðinni, vænta aðalgagnsins af henni með tímanum; þeir óska eigi né vona, að “bíða” svo “lengi” í heimi þessum, að þeir sjái fyrir endann á öllum framförum, sem brýrnar geta valdið. Að draga annað út úr orðum þeirra, er misskilningur ef ekki hártogun; svo drýgindi greinarinnar um hina löngu bið eftir velsæld og blóma, er brýrnar orsaki, eru, vægast talað, alveg óþörf. Drykkjuskapurinn, sem greinin gerir ráð fyrir að brýrnar valdi, er tómur hugarburður. Fyrir hér um bil 30 árum var hér talsverður drykkjuskapur og þá voru þó engar brýr á ánum; svo lögðu menn hann niður sjálfkrafa, án þess kaupstaðarvegur breyttist; nú þykir óvirðing að verða “fullur”; samt hendir það enn stöku mann, því ekki þykir tiltökumál þó menn hressi sig dálítið í ferðalögum allra helst við ferjurnar, sem vorkunn er. Nú er bindindisfélag að eyða síðustu leifum drykkjuskapar hér. Að örðu leyti er það óneitanlegt, að aukin eyðsla fylgir auknum framförum; og á þann hátt mega brýrnar vel hafa aukna eyðslu í för með sér. – Svo ónýt er öll röksemdarfærsla greinarinnar móti nytsemi brúanna; enda viðurkennir hún það sjálf þar, sem hún játar, að fyrirtækið geti, þrátt fyrir allt og allt, verið “gott og blessað í sjálfu sér”
2. Ber landssjóði að kosta brýrnar? Í aðalefninu er öll greinin tilraun til að neita þessu spursmáli; eða, hún gengur út frá neitun þess sem sjálfsagðri, svo að hún kallar það, sem landssjóður kynni að leggja til brúanna, blátt áfram; “gjöf”. Þessari skoðun til stuðnings bendir greinin á: að Sunnlendingar megi vera náttúrunni þakklátir fyrir, að hafa ekki snarbratta fjallgarða í stað ánna; að Árness- og Rangárvallasýslur þyrftu ekki að vera útilokaður frá beinlínis notum af strandferðunum, ef gufubátur gengi með landi, sem kæmi við á Eyrarbakka eða Stokkseyrar höfn, og svo mætti leggja þaðan vagnveg austur að Þjórsá; að brýrnar, þó þær kæmist á, mundi ekki “lyfta öllu landinu á hærra stig í velmegun og hvers kyns blóma” og að þeim, sem mest mundu nota brýrnar, sé ekki vorkunn að kosta þær sjálfum að mestu leyti, á þann hátt, að taka lán uppá ferjutollana eða þar á borð við; þá hefir hún ekki á móti því að landssjóður “gefi” einhvern dálitinn skerf til fyrirtækisins.
Hér við er ýmislegt að athuga. Óneitanlega er það þakkarvert, að ekki eru snarbrattir fjallgarðar í stað ánna, og mest þakkarvert vegna landssjóðs, sem samkvæmt orðum greinarinnar, ætti þá að “grafa í sundur” slíka fjallgarða: því það mundi kosta hann meira en að brúa árnar. En héraðsbúum væri naumast verra að hafa fjallgarðana og hafnir góðar, en árnar og hafnleysið. Þótt því væri að skipta, að gufubátur gengi með landi og ætti, samkvæmt ferðaáætlun sinni, að koma við á Eyrarbakka og Stokkseyrarhöfn, þá mundi brimið, sem svo iðulega lokar þeim höfnum, gera áætlunina mjög óáreiðanlega og gagnið af bátnum að sama skapi harla stopult fyrir þetta hérað. Í tvísýnu færi yrði báturinn annaðhvort að sneiða hjá, - og það yrði oft tilfellið – ellegar leggja inn upp á líf og dauða; og það væri langt um fyrirsjáanlegri hætta, heldur en hin hættan, sem greinin gerir ráð fyrir: “að brýrnar skyldu brotna af einhverjum orsökum þegar þær eru nýlagðar”. Slíkt er raunar hugsanlegt eins og svo margt annað; en ekki er það líklegt. Ef þar kemur einhvern tíma, að gufubátur gengur milli Reykjavíkur og t. a. m. Hornafjarðar, þá er ekki efamál, að hann á að koma við á Eyrarbakka þegar það er óhætt. Það gæti gert sitt til að greiða samgöngur, þó gagnið af því yrði mjög á hverfanda hveli. Hæpið væri að kosta stórfé til að leggja vagnveg að Þjórsá, t. a. m. við Sandhólaferju, sem lengi hefur verið aðal-ferjustaður austanmanna; því nú á seinni árum fer hann mjög versnandi af sandburði, svo men halda, að hann leggist af eða færist til. Yfir höfuð er öll áin þar niðurfrá, og þá líka allir ferjustaðir, sem þar eru á henni, í sífelldri hættu fyrir breytingum af sandburði. Þess utan fullnægði sá vagnvegarspotti hvergi nærri eins vel samgönguþörf Rangárvallasýslu, eins og brýrnar myndi gera. En um þetta er of langt mál orðið. Því er ekki að skipta, að gufubátur fari með ströndum, og, því miður eru litlar líkur til, að það verði að sinni. Og það er hætt við, að um gufubáta hugmyndina, sem fram hefur komið: “Það er álitleg hugmynd”, en “of mikil byrði á landssjóði”. Það mun mega ganga út frá því, að strandferðirnar haldist í sama horfi fyrst um sinn, nema hvað þær kunna að verða auknar þar, sem því verður við komið. Hve langt verður þá, þangað til landssjóður hefur varið til þeirra svo mikilli fjárupphæð, að væri því fé skipt á allar þær sýslur landsins, sem hafa bein not ferðanna, yrði hluti hverrar sýslu svo mikill, að önnur eins upphæð nægði til að brúa Þjórsá eða Ölvesá?
Þessu verður auðvitað ekki svarað með vissu; en að því kemur á sínum tíma. Þá, þó ekki verði fyr, hljóta “aðrir landsbúar að láta sér skiljast”, að hinar hafnalausu sýslur eigi rétt á, að fá tiltölulega upphæð, til þess, að efla samgöngur hjá sér. Er það þá sanngjarnt, að þær fái það ekki fyr en þar er komið? Og er það hyggilegt eða framfaravænt að láta brýrnar – sem fjölmennasta héraði landsins eru nauðsynlegar – bíða þangað til? Ætli þeir sem nú spilla fyrir málinu, fái þá þökk fyrir frammistöðu sína? – En það er leiðinlegt, að þurfa að fara út í þetta. Það er leiðinlegt, ef félagsskapar og framfara hugmyndir manna eru enn eigi svo þroskaðar, að það þyki sjálfsagt að þjóðfélagið taki að sér að láta þeim fyrirtækjum verða framgengt, sem einstöku deildum þess eru nauðsynleg, en ofvaxin, án þess að heimta sönnun fyrir sérstökum kröfurétti hlutaðeigandi héraða, ellegar að öðrum kosti sönnun fyrir því, að fyrirtækið lyfti öllu landinu á hærra stig velgengis og blóma. “Er það nú þegar þess er gætt, að menn verða að gera sig ánægða með það á hinn bóginn, að segja eins og greinin: “að oftast nær verði eitthvert gagn” að því fé, sem landssjóður ver árlega til strandsiglinga og vegabóta, og gott ef svo yrði sagt um allt það, sem fé hans er varið til; en hvort nokkuð af því er, sem “lyftir öllu landinu á hærra stig”, það er spursmál, sem vissara mun að fela ókomna tímanum að svara.
Sjálfsagt er það líka leiðinlegt, þegar menn vilja demba á landssjóð þeim kostnaði, sem þeir sjálfir eiga að bera og geta borið. En það er engin ástæða til að ámæla meðmælendum brúanna í því tilliti. Árnessýsla og Rangárvallasýsla báðu í fyrstunni um lán til brúargerðarinnar; þær treystu því að Vestur-Skaftafellssýsla, Gullbringusýsla og Reykjavík, mundu verða með sér um lántökuna, þar eð þær einnig myndu nota brýrnar; þá var hér líka almenn velmegun. Þó verður ekki annað sagt en að treyst væri á fremsta með svo stórvaxna lántöku, að ógleymdum ferjutollunum; og ekki verður séð, hvernig sýslurnar hefði komist út af því að borga slíkt lán, og leggja þó á sömu árunum vagnvegi þá, sem útheimtast til þess að brýrnar nái tilgangi sínum fyllilega. Þó er öðru máli að gegna nú, þar eð hið erfiða árferði, sem síðan hefur verið, er búið að kippa svo fótum undan velmegun manna, að flestir eru í meir eða minni kröggum; þar eð nú mun lítil eða engin von til, að Vestur-Skaftafellssýsla verði með um lántöku til brúanna og eigi heldur Gullbringusýsla og Reykjavík, - sem þó mundi nota brýrnar meira en vestur hluti Árnessýslu – og þar eð menn á hinn bóginn sjá betur og betur fram á það, að vagnvegirnir mundu útheimta ærið fé, - þá er það nú hið eðlilega og skynsamlega, sem menn í Árness- og Rangárvallasýslum geta gert, að fela þjóðfélaginu að koma fyrirtækinu áleiðis. Það hlýtur fyr eða síðar að taka það að sér, nema það taki heldur að sér vagnvegagerðina; látum þá vera að sýslurnar kosti brýrnar. Í hvoru tilfellinu sem vera skal verður byrðin þeim fullþung, svo að eigi verður ástæða til að telja það eftir þeim, þó ferjutollarnir falli burtu. Þeir gera það heldur ekki alveg. Þar, sem langur krókur er til brúanna, fara menn yfir á ferjum, þegar gott er, eftir sem áður. En sleppum því samt; aðalumferðin yrði um brýrnar, og því kæmi talsvert fé saman ef þær væri tollaðar. En þar er sá galli á, að þá yrði sinn brúarvörður að vera við hvora brú, hafa þar íbúðarhús og eitthvað af fólki með sér. Þar kæmi ærinn aukakostnaður. Staða brúarvarðar yrði ekki heldur sérlega fýsileg í ýmsum greinum: Veitti hann ekki borgunarfrest, yrði það óvinsælt; veitti hann frestinn, gæti innheimtan orðið erfið. Bókfærslu hans yrði torvelt að koma svo fyrir, að hægt væri að taka af öll tvímæli um trúmennsku hans, hvenær sem þurfa þætti. Svo það er efasamt, að hæfilegir menn fengist til að taka þann starfa að sér. Heppilegast mun að hafa brýrnar frjálsar, en að sýslufélögin taki að sér umsjón og viðhald þeirra; en fái ef á þarf að halda, styrk til þess af landssjóði ellegar amts- (eða fjórðungs-) sjóði, ef það þykir betur við eiga.
3. Er landssjóður fær um að kosta brýrnar? Þessu neitar greinin eigi fyllilega; og það hefði líka verið undarlegt, því það, sem hún telur nokkurn veginn vinnandi verk fyrir tvær sýslur, gat hún ekki talið öruggt ef allt landið hjálpaðist að því. Samt kemur hún með úrtölur, svo sem: að ísjárvert sé, að “gefa” einum landshluta svo mikið, og að menn í fjarlægari héruðum muni seint láta sér skiljast, að landssjóði beri að veita féð. En verði landinu annars framfara auðið, mun hitt reynast ísjárverðara, að neita um féð til brúargerðarinnar; það mun þeim skiljast, sem dáð og drengskap hafa, þó í fjarlægum héruðum sé, af öðrum er þess ekki að vænta. Fjárspursmálið er óneitanlega stórt. Greinin gerir ráð fyrir 200.000 kr., en gerir lítið úr áætlun Windfeldt Hansen´s, þar eð hann mun “kunnugri” lygnu fljótunum í Danmörku, en straumþungu jökulvötnunum hér á landi”. En hvar sem er verður að hafa brýr svo háar að vatnið nái þeim aldrei; og það virðist innan handar hér. Það er því naumast líklegt, að næstum þurfi að tvöfalda áætlun W.H´s. Látum samt vera, að hún hækki nokkuð; segjum upp í 150.000 kr., 6% þar af í vexti og afborgun er 9.000 kr. Á ári í 28 ár. Ætti nú tvær sýslur að inna slíkt gjald af höndum ofaná allt annað, þá yrði þeim það ókleyft, þó efnaðar væri, eins og fyr er sýnt. En landssjóði þyrfti ekki að verða það svo mjög tilfinnanlegt; ef viðlagasjóðurinn legði fram upphæðina, sem til brúanna gengi, þá mætti aftur leggja í hann sem svarar 6% þar af á ári í 28 ár; svo félli sú gjaldgrein burt. Fyrir slíku, jafnvel þó það væri 9-12.000 kr. Á ári, gæti landssjóður farið allra sinna ferða “í austurveg að berja tröll”.
Tökum að lyktum undir með greininni í einu atriði, nefnil. Þar, sem hún bendir á, að hafa þurfi varúð við í þessu máli. Aldrei verður of mikil áhersla lögð á það, að láta á brúargerðinni rætast sannmælið: “Það skal vel vanda sem lengi á að standa”.
Br. J.


Þjóðólfur, 24. ágúst 1886, 38. árg., 38. tbl., forsíða:
Jón Jónsson alþingismaður gerir hér grein fyrir því af hverju hann greiddi atkvæði gegn brúarmálinu en það var fellt með eins atkvæðis mun.

Atkvæði mitt í brúarmálinu
Af því, að ég hef séð það tekið fram í tveim blöðum (Ísafold og Fjallkonunni), að alþingi 1885 hafi fellt brúamálið með eins atkvæðis mun. Og heyrðist þar að auki í fyrra sumar, að mér væri einkanlega kennt um málalokin af sumum Sunnlendingum, þá finn ég hvöt til að gera grein fyrir, hvernig málinu víkur við í raun réttri. Það er að vísu satt, að málið var fellt frá 3. umræðu í neðri deild með 12 atkvæðum gegn 11, en það er með öllu óvíst, hve margir af þessum 11 hefðu orðið með málinu við 3. umr. í þeirri mynd, sem það kom fram á þinginu. Því að sumir munu hafa viljað lofa því að ganga til 3. umræðu fyrir orð 2. þingmanns Árnesinga (M. A.) og í þeirri von, að frumvarpið mundi eitthvað verða lagað af flutningsmönnum þess. Ég fyrir mitt leyti vænti þess ekki, að frumvarpið mundi verða neitt aðgengilegra við 3. umræðu, úr því að viðkomandi sýslubúar höfðu með engu lýst því, að það væri vilji sinn að leggja neitt til brúargerðarinnar, og því greiddi ég atkvæði móti frumvarpinu, því að einungis með því skilyrði vildi ég styðja málið, að Árness- og Rangárvallasýslur tækju góðan þátt í kostnaðinum, enda gat mér hvorki fundist það ósannlegt í sjálfu sér, né of þungt fyrir hlutaðeigendur, að taka lán með góðum kjörum, þar sem þeir láta árlega úti stórfé í ferjutolla sem hér hlytu að losast við, ef brýrnar kæmust á.
Mér þykir nú vænt um að sjá, að höfundur greinar um brúamálið í Ísafold 11. tbl. þ. á. tekur því eigi fjarri, að þeir sem mest mundu nota brýrnar kosti einhverju til þeirra, og vona, að Sunnlendingar verði nú svo skynsamir, að gína ekki lengur við þeirri flugu, að landssjóður einn eigi að kosta brýrnar, (því að þetta hefur einmitt spillt mest fyrir málinu að minni hyggju), heldur geri sitt til, að beina þessu áhugamáli sínu í hið eðlilegasta horf, og búi það svo undir alþingi 1887, að þeir, sem eru málinu í sjálfu sér hlynntir, neyðist ekki til að vera á móti því. En geri þeir þetta ekki, þá er ekki að sjá, að þeim sé þetta neitt sérlegt áhugamál, því að lítill áhugi lýsir sér í því, að heimta allt af landssjóð, en vilja ekkert leggja til sjálfur. Það er alveg vandalaust verk.
Bjarnanesi 1. d. Maím. 1886.
Jón Jónsson.


Þjóðólfur, 1. október 1886, 38. árg., 44. tbl., forsíða:
Deilur eru manna á milli, einnig alþingismanna, um ágæti brúarframkvæmda á Ölfusá og Þjórsá.

Atkvæði mitt í brúarmálinu
Með þessari yfirskrift er grein í 38. tbl. Þjóðólfs, sem út kom í dag; höf. kveðst finna hvöt til að gera grein fyrir, hvernig málinu víkur við í raun réttri. Það er nú orðið ljóst, að hann hefur fundið hvöt til að verja skoðun sína á málinu, en ekki get ég séð, að honum hafi tekist að sýna, hvern veg málinu víkur við í raun réttri, til þess þarf að skrifa lengra og gagnorðara. - Þegar mál er fellt með 12 atkv. á móti 11, þá er ekki gott að segja hver það var af þeim 12, sem varð banamaður málsins, því sá sem fyrstur segir nei að viðhöfðu nafnakalli er hvorki frægari eða ófrægari, en hinn er seinastur segir nei, af því að hann á neðar sæti í stafrófsröðinni.
En hér stóð svo á, að það voru meiri líkur til að þingmaður Austurskaftfellinga hefði næmari tilfinningu en sumir aðrir þingmenn fyrir þörf og sanngirni þessa máls, og því greiddi atkvæði með því, þar sem hann hlaut að þekkja af eigin reynslu og kunnugleika í sínu kjördæmi, hver plága sundvötn og samgönguleysi er; mér er ókunnugt hvert nokkur af þeim 11, sem greiddu atkvæði með málinu, hafa gert það fyrir orð 2. þingm. Árnesinga, að draga lífið í frumvarpinu tilgangslaust, þar sem ekki neitt breytingaratkv. lá fyrir, og ekki var von á neinu breytingaratkvæði frá mér sem flutningsmanni. – Ég skal ekki gera neinum þingmanni þær getsakir, að þeir séu að leika sér með frumvörp og spila upp á tíma og peninga; hitt ætla ég, að þeir hafi fellt jafnþýðingarmikið mál, sem þetta af fullri alvöru og sannfæringu. – Það get ég vel skilið að honum þyki vænt um hverja þá skoðun, sem nálgast hans afturhald í málinu. – Ég er nú viss um, að Árnesingar verða svo skynsamir að gína aldrei yfir þeirri flugu, að taka lán til að brúa árnar, því það er hvorutveggja, að þeir ekki geta það, enda fjarri allri sanngirni að neyða þá til þess; það er margbúið að færa rök fyrir því.
Hvað kom til að hann ekki á þingi 1885 bar fram beiðni frá Austur-skaftfellingum um að fá lán úr landssjóði, til að geta fengið gufuskip á Hornarfjarðarós, - með fullu tilliti til þess að það mundi í spöruðum ferðakostnaði ekki verða minni fjárupphæð, en allir ferjutollar í Árness- og Rangárvallasýslu nema? – Ég ætla nú fyllilega að vona, að sú skoðun nái meiri og meiri festu í þinginu, sem ég mun fyrstur hafa flutt inn á þing í ræðu minni um brúarmálið 1883, það er að landssjóður kosti alla aðalpóstvegi um landið og þá líka að brúa stórárnar á þeim leiðum, að því leyti, sem það er mögulegt, sérstaklega þar sem eins stendur á sem hér, að mest vörumagn er innflutt af öllum vegum á landinu, og af hafnaleysi fyrir suðurströnd landsins hlýtur það svo að verða meðan land byggist.

p.t. Reykjavík 24. ágúst 1886.
Þ. Guðmundsson


Austri, 28. okt 1886, 3. árg., 26. tbl., bls. 102:
Jón Jónsson segir hér frá ferð sinni um fornan fjallveg milli Lóns og Fljótsdals. Frásögn þessi kann að vera fróðleg fyrir áhugamenn um fjallvegi.

Fundinn forn fjallvegur á Austurlandi.
Mér hafði lengi leikið hugur á að fara hina skemmstu leið milli Lóns og Fljótsdals, bak við Hofsjökul og Þrándarjökul og fjöll þau, er ganga út frá þeim um suðurhluta Austfjarða. Ég vissi, að sú leið hafði fyrrum verið farin, og þótti jafnvel líklegt, að hún hefði verið alfaravegur í fornöld, og lengi frameftir, uns Norðlingar hættu að sækja sjó suður í Skaftafellssýslu (sbr. Andv. IX. 68 bls.) en það þeir hafi einhvern tíma farið þessa leið, er ekkert efamál, því að við þá eru enn í dag kennd efstu vöðin á Jökulsá í Lóni og Víðidalsá. En seinna hefur vegurinn alveg lagst niður, og vita menn eigi til, að hann hafi verið farinn alla leið af ríðandi mönnum nokkurn tíma á seinni öldum, en dæmi eru til hins, að gangandi menn hafi farið úr Lóni norður í Fljótsdal að fjallabaki, og þó hefur það mjög sjaldan borið við, og þá ekki verið valinn sumarvegur, og hefur vegur þessi því mátt heita öllum ókunnur til þessa, enda er hann ekki talinn meðal fjallvega landsins, þar sem þeir eru taldir upp í Stjórnartíðindunum. Nú er fyrir fáum árum komin í byggð í Víðidal, upp af Lóni (sjá Austra I. 19.-20. tbl.) og hefur síðan verið miklu árennilegra en áður var, að fara leið þessa, en þó hefur enginn orðið til þess, fyr en nú í haust, er ég var á ferð um Fljótsdalshérað, þá fékk ég mér til fylgdar Sigfús bónda Sigfússon á Skjögrastöðum í Skógum, er talsvert var kunnugur öræfunum inn af Fljótsdal frá fyrri árum, og lagði á stað frá Hallormsstað að kveldi hins 19. sept. í því skyni, að fara Fjallabaksveginn suður í Lón. Veður var stillt en þoka í lofti, sem grúfði yfir fjallabrúnum og fól hinar efstu eggjar þeirra. Ríðum við inn með Lagarfljóti og síðan inn suðurdal Fljótsdals, er Keldá rennur eftir; það er bergvatn, er kemur sunnan og vestan af öræfum, og rennur fyrir utan Fljótsdalsmúla saman við Jökulsá, er fellur um norðurdalinn, og falla þær svo báðar í botn Lagarfljóts, er myndast af þeim og fleirum smærri ám. Suðurdalurinn er miklu fegri en norðurdalurinn, beinn og breiður með sléttum grundum og háum og reglulegum hamrahlíðum beggja vegna. Sá maður varð okkur samferða inn dalinn, er Þorsteinn heitir Sigmundsson, og hefur áður verið á Sturlárflöt, efsta bæ í suðurdalnum, gaf hann okkur góðar bendingar um leiðina inn eftir öræfunum, sem hann hafði kynnst í fjárleitum. Um kveldið komum við að Þorgerðarstöðum, og gistum þar um nóttina, en lögðum á stað um morguninn, kl. 8, og slóst Baldvin bóndi Benediktsson á Þorgerðarstöðum í för með okkur. Var þá nýlega létt upp þokunni og fjallabjart orðið, en loft skýjað. Skammt fyrir innan Þorgerðarstaði klofnar dalurinn, og gengur fell fram á milli fjalldala tveggja, heitir hinn eystri Villingadalur, en hinn vestri og meiri Þorgerðarstaðardalur; rennur Keldá eftir honum í gljúfrum og fórum vér vestan megin (norðan megin) hennar. Austan árinnar undir fellinu eru nú beitarhús frá Sturlárflöt, en fyrrum var þar bær, er hét að Felli, og þar er sagt að Kiðjafellsþing hafi verið háð í fornöld. Blasti nú hinn forni þingstaður við oss, og má þar enn sjá hringmyndaða steinaröð, sem Baldvin sagðist hafa heyrt kallaða dómhring, en niðri á árbakkanum sagði ann að sæist votta fyrir grjótveggjum, er mundu hafa verið búðaveggir, en þar eru rof mikil, og jarðvegur blásinn burtu. Inni á dalnum hefur fyrrum verið haft í seli frá Valþjófsstað, því að Þorgerðarstaðir eru kirkjujörð, og liggur dalurinn og fellið undir staðinn, eru þar örnefnin Prestssel, Sveinssel, Stöppusel, og innst Randalínarsel, er minnir á Randalín Filippusdóttur, konu Odds Þórarinssonar (d. 1255), er Sturlungasaga segir (Sturl.9. 21.) að hafi haldið búi sínu á Valþjófsstað eftir fall bónda síns. Austan megin ár innarlega á dalnum eru örnefnin Broddaselsklif og Broddaselsbotnar, er minna á Brodda son Sörla Brodd-Helgasonar (Ljósv. E. 5.), er ætla má að búið hafi á Valþjófsstað, eins og faðir hans. Er það eftirtektavert, að sel þau, er kennt eru við fornmenn, eru innst á dalnum, þar sem landið er kjarnbest, en erfiðast að nota það, og virðist svo, sem selstaðan hafi sífellt færst utar, eftir því sem krafturinn og framtakssemin minnkaði.
Innst á Þorgerðarstaðadal heita Tungárhvammar, eru þar hagar góðir og er þar kofi leitarmana við litla þverá er Tungá heitir, þangað komum vér kl. 10, og lögðum þaðan upp á öræfin. Er mjög lítið um gróður úr því hér er komið, allt þangað til ofan í Víðidal kemur. Fyrst fórum vér um Tungárfell milli Tungár og Keldár, þá yfir Keldá skammt fyrir ofan það er Sauðá hin ytri fellur í hana austanmegin. Á þessi kemur nærri því úr hásuðri, og hafði Þorsteinn Sigmundsson ráðið Sigfúsi að halda upp með henni vestanmegin. Komum vér þar að henni, sem einkennileg nybba er á háum mel fast við ána, er vér kölluðum Fleyganybbu; spölkorn þar fyrir innan eru einkennilegir drangsteinar á holti, og nefndum vér þá Klofninga; þaðan fegnum vér góðan veg inn með Sauðá að vestanverðu og gekk ferðin greiðlega um hríð. Á einum stað er krókur á ánni og foss lítill, er vér kölluðum Krókfoss; þaðan sést Sauðhamarstindur austanvert í Vatnajökli gnæfa við himin í suðurátt. Annars fela holt og hæðir fjallasýn í austri og suðri, en á hægri hönd máttum vér lengi sjá Snæfell, konung hinna austfirsku fjalla, og var tindurinn þó hulinn þokumekki, en í heiðskýru veðri sést hann víðsvegar af Fljótsdalshéraði, norðan af Möðrudalsfjöllum og sunnan úr Lóni. Þegar lengra dró suður, varð fyrir oss dæld mikil og sléttar leirur, er Sauðá breiðist um og lónar uppi í, og kölluðum vér þær Sauðárleirur; förum vér fram með þeim að vestanverðu, og varð þá fyrir oss forn varða óhrunin, loðin af geitaskóf, er vér nefndum Geitaskófarvörðu. Innan við leirurnar lentum vér í stórgrýti og fórum því austanmegin ár nokkurn spöl, og hlóðum þar litla vörðu á grjóthól einum, en sáum seinna, að vér hefðum átt að halda inn melölduna vestan árinnar, því að í beina stefnu suður (suðvestur) af Geitaskófarvörðu þeim megin, var forn varða hátt á urðarhrauni, er vér kölluðum Urðarhraunsvörðu; þaðan áttum vér skammt að Sauðárvatni, er Sauðá rennur úr, og komum þar kl. 3. Þar voru víða gamlar fannir og riðum vér stundum eftir þeim. Einkennilegur melur stendur sunnan vatnsins með 2 klofasteinum á, þar skal fara yfir ána milli vatnsins og lítils lóns, sem er norðanvert við það. Lítinn spöl héldum vér af melnum inn með vatninu, og rann þar á í vatnið að sunnanverðu, sem vér fórum yfir, síðan riðum vér á hjarnfönnum suður á háa öldu sem er mjög víðsýnt af, og hallar frá á alla vegu; kölluðum vér hana Marköldu, því oss þótti sem þar mundi mörkin vera milli Fljótsdals og Lóns, eða Norður-Múlasýslu og Skaftafellssýslu. Þar var forn varða niður hrunin, er vér hlóðum upp, og aðra vörðu hlóðum vér sunnar á öldunni. Þaðan sást mikill jökla og fjallaklasi fyrir sunna, og tókum vér einkum eftir einum tindi háum mjög, en það var Knappafellstindur, sem ber við loft beint fyrir utan mynni Víðidals. Héldum vér svo áfram og sáum enn forna vörðu á strýtumynduðum hól í suðri; er vér nefndum Strýtuhól; vorum vér þá komnir að Víðidalsdrögum, enda höfðum vér séð í þau af Marköldu. Síðan héldum vér ofan í dalinn og var hvergi mjög bratt ofan, enda riðum vér sumsstaðar á fönnum, var kl. 4 þegar vér riðum niður dalbotninn. Var þá enn bjart veður en þokumökkur utar í dalnum. Víðidalsá steypist ofan úr botni dalsins að vestanverðu, og fórum vér út eftir dalnum austanmegin ár og áðum litla stund þegar vér komum fyrst á gras, (kl. 5), en eftir hálfa klukkustund héldum vér á stað aftur, og kom þá á oss svarta þoka, svo að ferðin ofan dalinn varð fyrir þá sök ógreiðari en ella mundi, með því líka að fyrir oss urðu tvö þvergil (Þverá innri og ytri) er vér urðum að klöngrast yfir þar sem oss sýndist tiltækilegast, en seinast hittum vér glöggt götur, er sýndu að mannabyggð var í nánd, og komum að Grund í Víðidal kl. 6 ¾. Fengum vér þar alúðar-viðtökur hjá Sigfúsi bónda og gistum hjá honum um nóttina. Um morguninn sneru fylgdarmenn mínir aftur norður sama veg, en ég hélt áfram suður og fylgdi Sigfús bóndi Jónsson á Grund mér ofan í Lón. Fórum við á stað kl. 9 og lá leið okkar fyrst yfir Kollumúla, (þar sjást nokkur forn vörðubrot), síðan ofan að Jökulsá um Leiðartungur; eru þar brekkur skógi vaxnar og víða ljómandi fallegt, en Jökulsá rennur fyrir neðan eftir sléttum grjótleirum, og er þar á henni Norðlingavað, þar fórum við yfir, og var áin vatnslítil og góð yfirferðar. Síðan fórum við sem leið liggur yfir Lambatungna-á um Víðibrekkur út að Kömbum og upp Illakamb, er hann allbrattur og hár mjög. Var kl. 12 er við komum uppá kambinn, og má þar sjá stórkostleg gljúfur á báða bóga, en vegurinn liggur upp á Kjarradalsheiði (Ketildalsheiði?), og út heiðina, og eru þar nokkur forn vörðubrot. Heiðin er eintómir gróðurlausir melar, uns vegi hallar niður af henni og kemur ofan í Eskifells-ása, bratt er ofan af heiðinni, en fyrir neðan ásana taka við sléttir aurar, sem ná allar götur út í Lón. Var kl. (ólæsilegt) er við komum að Þórólfsdal, elsta bæ (ólæsilegt) að vestanverðu, og var þá öræfaleiðinni lokið, en ég hélt heim til mín um kveldið.
Með þessari ferð er fundinn hinn forni fjallabaksvegur Austfirðinga, sem ætla má að hafi verið fjölfarinn í fornöld, með því að hann hefur verið víða settur vörðum, sem enn má sjá merki til, og á hann það sannarlega skilið að hann sé tekinn upp aftur, ruddur á stöku stöðum og varðaður sem vandlegast, því að hann er eflaust þriðjungi til helmingi styttri en hinn vanalegi vegur milli Fljótsdals og Lóns, víðast heldur greiðfær af óruddum vegi, og torfærulítill að öðru en því, að Jökulsá í Lóni getur oft orðið ófær á Norðlinga-vaði, en helst mun það vera um hásumarið, þegar leysing er í jöklum. (Víðidalsá getur líka orðið ófær gagnvart bænum á Grund; en þá má fara hana innar, á Norðlingavaði). Þótt oss gengi ferðin seint og við værum nærri tvo daga á leiðinni milli byggðar í Fljótsdal og almannabyggðar í Lóni, með því að vér fórum hægt og urðum að velja oss veg yfir öræfin, þá er enginn efi á því, að leið þessa má fara á talsvert skemmri tíma, þegar hún er orðin alkunnari, og einkanlega ef hún væri rudd þar sem helst er þörf á, en það gæti á margan hátt verið næsta þarflegt, að samgöngur milli norðurhluta og suðurhluta Austfirðingafjórðungs yrðu meiri, greiðari og betri en nú er kostur á. Ætti það því vel við, að fá veg þennan tekinn upp í tölu fjallveganna, sem fjallveg milli Norður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu.
Bjarnanesi 6. október 1896.
Jón Jónsson.


Austri, 19. nóv. 1886, 3. árg., 28. tbl., bls. 111:
Greinarhöfundur útskýrir frekar þá skoðun sína að vafasamt sé að brýr á Ölfusá og Þjórsá séu svo nauðsynlegar, að svo miklu fé sé kostað til þeirra að fjárhag landsins sé hætta búinn.

Hálfyrði um brúamálið.
Grein um brúagjörð á Þjórsá og Ölvesá eftir hr. Br. J. er nú prentuð í tveim blöðum vorum (“Austra” og “Þjóðólfi”) og á hún að vera svar upp á grein mína í “Austra” II. 27.-28. Höf. byrjar á því að fullyrða, að grein mín “miði til að eyðileggja brúamálið”, og segir síðan að ég hafi ekki viljað nafngreina mig, og hafi ég þó sjálfsagt eigi efast um að greinir yrði mér til sóma. Ég skal nú segja honum rétt í bróðerni, að ég rita ekki greinar um almenningsmál í blöð til að afla mér lofstírs, heldur til þess að leiða það í ljós, er ég hygg sannast og réttast, og tilgangur minn með greininni var alls ekki að eyðileggja brúamálið, heldur að gjöra hugmyndir almennings ljósari og lýsa afstöðu þess við önnur vegabótamál og samgöngumál landsins. Almenningur getur nú borið saman greinar okkar og dæmt um, hvor okkar réttara hefur að mæla, eða hvort báðir hafa ekki nokkuð til síns máls, þó að hvor skoði málið frá sinni hlið. Ég skal aðeins leyfa mér að taka hér fram nokkur atriði, þar sem mér virðist hr. Br. J. annaðhvort ekki skilja hvað ég fer, eða gefa lítinn gaum að orðum mínum.
Ég hef aldrei haldið því fram, að brýrnar væru ónauðsynlegar, en satt er það, að ég hefi gjört talsvert minna úr nauðsyn þeirra en sumir brúasinnar, sem hafa látið eins og öll önnur framfarafyrirtæki væru undir þeim komnar. Það er enginn efi á því, að það væri “gott og blessað”, að brýr kæmust bæði á Þjórsá1 og Ölvesá og jafnvel allar ár á landinu, en hitt er vafasamt hvort þessar brýr eru svo nauðsynlegar, að því stórfé sé kostandi til þeirra, að fjárhag landsins sé sýn hætta búin (sbr. Alþ.tíð. 1883 B. 654). Vér vitum að í þeim löndum, sem eru miklu auðugri af náttúrugæðum en land vort, hafa menn látið sér nægja með dragferjur á breiðar ár, þangað til fólksfjöldinn og vörumagnið hefur aukist svo að brýr yfir þær geta borgað sig (sjá Ísaf. VIII. 21). En dragferjur mega Sunnlendingar ekki heyra nefndar, og fyrst þeir endilega vilja hafa brýr, þá ættu þeir að vilja vinna nokkuð til að fá þær, (því að ekki er gjörandi ráð fyrir, að þá vanti “dáðina” og “drengskapinn”).
Viðvíkjandi eyðslunni, sem brýrnar mundu valda, læt ég mér nægja að vitna til reynslunnar hér á landi, en hún hygg ég sýni ljóslega, að aukin eyðsla gengur oftast á undan auknum framförum. Þetta er fært fram móti því, er brúarsinnar hafa gumað um hina framúrskarandi nytsemi brúnna, og til þess að benda á að brýrnar geti haft fleira í för með sér, en eintómar framfarir, en vitaskuld er, að ekki má láta það fæla sig frá að auka samgöngurnar, þar sem því verður við komið án svo mikils kostnaðar fyrir landssjóð, að sumir hlutar landsins hljóti að verða alveg útundan um langan aldur, eins og nú horfir til, því að þótt verið sé að bæta fjallvegi o. s. frv., þá gengur það frábærlega seint, eins og von er á, vegna þess að of lítið fé er fyrir hendi.
Landssjóður hefur í mörg horn að líta: auknar samgöngur og vegabætur eru nauðsynlegar fyrir allt landið; í öllum héruðum þess er afar mikið óunnið að vegabótum; hvert hérað ætti að keppast við annað að bæta samgöngur hjá sér; landssjóður má ekki hafa einn landshluta fyrir eftirlætisbarn og annan fyrir olnbogabarn, en þar sem eitt hérað hefur öðrum fremur þörf á hjálp landssjóðs, og um leið vilja til að bjarga sér sjálft, þá hefur það sérstaklega heimtingu á að landssjóður styðji kröftuglega viðleitni þess. Þetta átti heima um Árness- og Rangárvallasýslur 1879 og frá þeirri stefnu áttu sýslur þessar ekki hverfa. Það tjáir ekki að berja við fátækt sýslubúa; þeir losast við bein útgjöld, þar sem ferjutollarnir eru, ef brýr kæmust á árnar, og eru þó óneytanlega færir um að leggja nokkuð til, enda þyrfti það ekki að koma harðara niður á þeim, þótt þeir tækju allmikið lán til fyrirtækisins, heldur en brúartollar mundu koma, og virðast þeir þó ekkert hafa á móti slíkum tollum, nema það, að erfitt sé að koma þeim við, og það kemur okkur Br. J. saman um. Hversu mikið það ætti að vera, sem sýslurnar legðu til, og hversu mikið landssjóður ætti fram að leggja, skal ég ekkert segja um að svo komnu. Það er sannarlega ekki ósanngjarnlegt, að landssjóður leggi fram talsvert fé til brúagjörðarinnar, með því að hlutaðeigandi sýslur hafa minna gagn af strandferðunum2 en margir aðrir hlutar landsins, en að hann leggi fram allt féð endurgjaldslaust, virðist mér öldungis ósanngjörn krafa, enda mundi slíkt auðvitað draga þann dilk eftir sig, að hann yrði að taka að sér margar aðrar stórár til að brúa, og mörg önnur stórvægileg vegabótafyrirtæki víðsvegar um landið, sem honum kynnu að verða ofvaxin, því hvers ættu önnur héruð landsins að gjalda, ef landssjóður ætti ekki líka að losa þau við ferjutolla eða gjöra hjá þeim vagnvegi að öðrum kosti? Sum þeirra hafa þó enn sem komið er enn minna gagn af strandferðunum en Árness- og Rangárvallasýslur og þeim held ég það væri enn meiri skaði, ef hr. Br. J. tækist að eyðileggja gufubátshugmyndina, heldur en Árness- og Rangárvallasýslum væri að því, ef mér tækist að “spilla fyrir brúamálinu”, sem ég kannast reyndar ekki vað að ég hafi ætlað mér, nema ef það er sama sem að spilla fyrir þessu máli, að leggja til að sú stefna sé tekin í því, sem ég held að sé réttust og heppilegust málinu til framgangs.
Mæra-Karl.
1) Sjálfsagt ætti Þjórsárbrúin að ganga fyrir hinni, það að miklu meiri þörf er á henni, enda er líklegt að Vestur-Skaftfellingar vildu leggja nokkuð til hennar.
2) Annars er vert að gæta þess, sem séra Þorkell Bjarnason tók fram á alþingi 1885 (Tíð. B. 571) að menn ferðast ekki ókeypis með gufuskipunum, heldur verða að borga fargjald og gósflutning, svo skipum þessum verður ekki alveg jafnað saman við tollfrjálsar brýr.