1886

Austri, 28. okt 1886, 3. árg., 26. tbl., bls. 102:

Fundinn forn fjallvegur á Austurlandi.
Mér hafði lengi leikið hugur á að fara hina skemmstu leið milli Lóns og Fljótsdals, bak við Hofsjökul og Þrándarjökul og fjöll þau, er ganga út frá þeim um suðurhluta Austfjarða. Ég vissi, að sú leið hafði fyrrum verið farin, og þótti jafnvel líklegt, að hún hefði verið alfaravegur í fornöld, og lengi frameftir, uns Norðlingar hættu að sækja sjó suður í Skaftafellssýslu (sbr. Andv. IX. 68 bls.) en það þeir hafi einhvern tíma farið þessa leið, er ekkert efamál, því að við þá eru enn í dag kennd efstu vöðin á Jökulsá í Lóni og Víðidalsá. En seinna hefur vegurinn alveg lagst niður, og vita menn eigi til, að hann hafi verið farinn alla leið af ríðandi mönnum nokkurn tíma á seinni öldum, en dæmi eru til hins, að gangandi menn hafi farið úr Lóni norður í Fljótsdal að fjallabaki, og þó hefur það mjög sjaldan borið við, og þá ekki verið valinn sumarvegur, og hefur vegur þessi því mátt heita öllum ókunnur til þessa, enda er hann ekki talinn meðal fjallvega landsins, þar sem þeir eru taldir upp í Stjórnartíðindunum. Nú er fyrir fáum árum komin í byggð í Víðidal, upp af Lóni (sjá Austra I. 19.-20. tbl.) og hefur síðan verið miklu árennilegra en áður var, að fara leið þessa, en þó hefur enginn orðið til þess, fyr en nú í haust, er ég var á ferð um Fljótsdalshérað, þá fékk ég mér til fylgdar Sigfús bónda Sigfússon á Skjögrastöðum í Skógum, er talsvert var kunnugur öræfunum inn af Fljótsdal frá fyrri árum, og lagði á stað frá Hallormsstað að kveldi hins 19. sept. í því skyni, að fara Fjallabaksveginn suður í Lón. Veður var stillt en þoka í lofti, sem grúfði yfir fjallabrúnum og fól hinar efstu eggjar þeirra. Ríðum við inn með Lagarfljóti og síðan inn suðurdal Fljótsdals, er Keldá rennur eftir; það er bergvatn, er kemur sunnan og vestan af öræfum, og rennur fyrir utan Fljótsdalsmúla saman við Jökulsá, er fellur um norðurdalinn, og falla þær svo báðar í botn Lagarfljóts, er myndast af þeim og fleirum smærri ám. Suðurdalurinn er miklu fegri en norðurdalurinn, beinn og breiður með sléttum grundum og háum og reglulegum hamrahlíðum beggja vegna. Sá maður varð okkur samferða inn dalinn, er Þorsteinn heitir Sigmundsson, og hefur áður verið á Sturlárflöt, efsta bæ í suðurdalnum, gaf hann okkur góðar bendingar um leiðina inn eftir öræfunum, sem hann hafði kynnst í fjárleitum. Um kveldið komum við að Þorgerðarstöðum, og gistum þar um nóttina, en lögðum á stað um morguninn, kl. 8, og slóst Baldvin bóndi Benediktsson á Þorgerðarstöðum í för með okkur. Var þá nýlega létt upp þokunni og fjallabjart orðið, en loft skýjað. Skammt fyrir innan Þorgerðarstaði klofnar dalurinn, og gengur fell fram á milli fjalldala tveggja, heitir hinn eystri Villingadalur, en hinn vestri og meiri Þorgerðarstaðardalur; rennur Keldá eftir honum í gljúfrum og fórum vér vestan megin (norðan megin) hennar. Austan árinnar undir fellinu eru nú beitarhús frá Sturlárflöt, en fyrrum var þar bær, er hét að Felli, og þar er sagt að Kiðjafellsþing hafi verið háð í fornöld. Blasti nú hinn forni þingstaður við oss, og má þar enn sjá hringmyndaða steinaröð, sem Baldvin sagðist hafa heyrt kallaða dómhring, en niðri á árbakkanum sagði ann að sæist votta fyrir grjótveggjum, er mundu hafa verið búðaveggir, en þar eru rof mikil, og jarðvegur blásinn burtu. Inni á dalnum hefur fyrrum verið haft í seli frá Valþjófsstað, því að Þorgerðarstaðir eru kirkjujörð, og liggur dalurinn og fellið undir staðinn, eru þar örnefnin Prestssel, Sveinssel, Stöppusel, og innst Randalínarsel, er minnir á Randalín Filippusdóttur, konu Odds Þórarinssonar (d. 1255), er Sturlungasaga segir (Sturl.9. 21.) að hafi haldið búi sínu á Valþjófsstað eftir fall bónda síns. Austan megin ár innarlega á dalnum eru örnefnin Broddaselsklif og Broddaselsbotnar, er minna á Brodda son Sörla Brodd-Helgasonar (Ljósv. E. 5.), er ætla má að búið hafi á Valþjófsstað, eins og faðir hans. Er það eftirtektavert, að sel þau, er kennt eru við fornmenn, eru innst á dalnum, þar sem landið er kjarnbest, en erfiðast að nota það, og virðist svo, sem selstaðan hafi sífellt færst utar, eftir því sem krafturinn og framtakssemin minnkaði.
Innst á Þorgerðarstaðadal heita Tungárhvammar, eru þar hagar góðir og er þar kofi leitarmana við litla þverá er Tungá heitir, þangað komum vér kl. 10, og lögðum þaðan upp á öræfin. Er mjög lítið um gróður úr því hér er komið, allt þangað til ofan í Víðidal kemur. Fyrst fórum vér um Tungárfell milli Tungár og Keldár, þá yfir Keldá skammt fyrir ofan það er Sauðá hin ytri fellur í hana austanmegin. Á þessi kemur nærri því úr hásuðri, og hafði Þorsteinn Sigmundsson ráðið Sigfúsi að halda upp með henni vestanmegin. Komum vér þar að henni, sem einkennileg nybba er á háum mel fast við ána, er vér kölluðum Fleyganybbu; spölkorn þar fyrir innan eru einkennilegir drangsteinar á holti, og nefndum vér þá Klofninga; þaðan fegnum vér góðan veg inn með Sauðá að vestanverðu og gekk ferðin greiðlega um hríð. Á einum stað er krókur á ánni og foss lítill, er vér kölluðum Krókfoss; þaðan sést Sauðhamarstindur austanvert í Vatnajökli gnæfa við himin í suðurátt. Annars fela holt og hæðir fjallasýn í austri og suðri, en á hægri hönd máttum vér lengi sjá Snæfell, konung hinna austfirsku fjalla, og var tindurinn þó hulinn þokumekki, en í heiðskýru veðri sést hann víðsvegar af Fljótsdalshéraði, norðan af Möðrudalsfjöllum og sunnan úr Lóni. Þegar lengra dró suður, varð fyrir oss dæld mikil og sléttar leirur, er Sauðá breiðist um og lónar uppi í, og kölluðum vér þær Sauðárleirur; förum vér fram með þeim að vestanverðu, og varð þá fyrir oss forn varða óhrunin, loðin af geitaskóf, er vér nefndum Geitaskófarvörðu. Innan við leirurnar lentum vér í stórgrýti og fórum því austanmegin ár nokkurn spöl, og hlóðum þar litla vörðu á grjóthól einum, en sáum seinna, að vér hefðum átt að halda inn melölduna vestan árinnar, því að í beina stefnu suður (suðvestur) af Geitaskófarvörðu þeim megin, var forn varða hátt á urðarhrauni, er vér kölluðum Urðarhraunsvörðu; þaðan áttum vér skammt að Sauðárvatni, er Sauðá rennur úr, og komum þar kl. 3. Þar voru víða gamlar fannir og riðum vér stundum eftir þeim. Einkennilegur melur stendur sunnan vatnsins með 2 klofasteinum á, þar skal fara yfir ána milli vatnsins og lítils lóns, sem er norðanvert við það. Lítinn spöl héldum vér af melnum inn með vatninu, og rann þar á í vatnið að sunnanverðu, sem vér fórum yfir, síðan riðum vér á hjarnfönnum suður á háa öldu sem er mjög víðsýnt af, og hallar frá á alla vegu; kölluðum vér hana Marköldu, því oss þótti sem þar mundi mörkin vera milli Fljótsdals og Lóns, eða Norður-Múlasýslu og Skaftafellssýslu. Þar var forn varða niður hrunin, er vér hlóðum upp, og aðra vörðu hlóðum vér sunnar á öldunni. Þaðan sást mikill jökla og fjallaklasi fyrir sunna, og tókum vér einkum eftir einum tindi háum mjög, en það var Knappafellstindur, sem ber við loft beint fyrir utan mynni Víðidals. Héldum vér svo áfram og sáum enn forna vörðu á strýtumynduðum hól í suðri; er vér nefndum Strýtuhól; vorum vér þá komnir að Víðidalsdrögum, enda höfðum vér séð í þau af Marköldu. Síðan héldum vér ofan í dalinn og var hvergi mjög bratt ofan, enda riðum vér sumsstaðar á fönnum, var kl. 4 þegar vér riðum niður dalbotninn. Var þá enn bjart veður en þokumökkur utar í dalnum. Víðidalsá steypist ofan úr botni dalsins að vestanverðu, og fórum vér út eftir dalnum austanmegin ár og áðum litla stund þegar vér komum fyrst á gras, (kl. 5), en eftir hálfa klukkustund héldum vér á stað aftur, og kom þá á oss svarta þoka, svo að ferðin ofan dalinn varð fyrir þá sök ógreiðari en ella mundi, með því líka að fyrir oss urðu tvö þvergil (Þverá innri og ytri) er vér urðum að klöngrast yfir þar sem oss sýndist tiltækilegast, en seinast hittum vér glöggt götur, er sýndu að mannabyggð var í nánd, og komum að Grund í Víðidal kl. 6 ¾. Fengum vér þar alúðar-viðtökur hjá Sigfúsi bónda og gistum hjá honum um nóttina. Um morguninn sneru fylgdarmenn mínir aftur norður sama veg, en ég hélt áfram suður og fylgdi Sigfús bóndi Jónsson á Grund mér ofan í Lón. Fórum við á stað kl. 9 og lá leið okkar fyrst yfir Kollumúla, (þar sjást nokkur forn vörðubrot), síðan ofan að Jökulsá um Leiðartungur; eru þar brekkur skógi vaxnar og víða ljómandi fallegt, en Jökulsá rennur fyrir neðan eftir sléttum grjótleirum, og er þar á henni Norðlingavað, þar fórum við yfir, og var áin vatnslítil og góð yfirferðar. Síðan fórum við sem leið liggur yfir Lambatungna-á um Víðibrekkur út að Kömbum og upp Illakamb, er hann allbrattur og hár mjög. Var kl. 12 er við komum uppá kambinn, og má þar sjá stórkostleg gljúfur á báða bóga, en vegurinn liggur upp á Kjarradalsheiði (Ketildalsheiði?), og út heiðina, og eru þar nokkur forn vörðubrot. Heiðin er eintómir gróðurlausir melar, uns vegi hallar niður af henni og kemur ofan í Eskifells-ása, bratt er ofan af heiðinni, en fyrir neðan ásana taka við sléttir aurar, sem ná allar götur út í Lón. Var kl. (ólæsilegt) er við komum að Þórólfsdal, elsta bæ (ólæsilegt) að vestanverðu, og var þá öræfaleiðinni lokið, en ég hélt heim til mín um kveldið.
Með þessari ferð er fundinn hinn forni fjallabaksvegur Austfirðinga, sem ætla má að hafi verið fjölfarinn í fornöld, með því að hann hefur verið víða settur vörðum, sem enn má sjá merki til, og á hann það sannarlega skilið að hann sé tekinn upp aftur, ruddur á stöku stöðum og varðaður sem vandlegast, því að hann er eflaust þriðjungi til helmingi styttri en hinn vanalegi vegur milli Fljótsdals og Lóns, víðast heldur greiðfær af óruddum vegi, og torfærulítill að öðru en því, að Jökulsá í Lóni getur oft orðið ófær á Norðlinga-vaði, en helst mun það vera um hásumarið, þegar leysing er í jöklum. (Víðidalsá getur líka orðið ófær gagnvart bænum á Grund; en þá má fara hana innar, á Norðlingavaði). Þótt oss gengi ferðin seint og við værum nærri tvo daga á leiðinni milli byggðar í Fljótsdal og almannabyggðar í Lóni, með því að vér fórum hægt og urðum að velja oss veg yfir öræfin, þá er enginn efi á því, að leið þessa má fara á talsvert skemmri tíma, þegar hún er orðin alkunnari, og einkanlega ef hún væri rudd þar sem helst er þörf á, en það gæti á margan hátt verið næsta þarflegt, að samgöngur milli norðurhluta og suðurhluta Austfirðingafjórðungs yrðu meiri, greiðari og betri en nú er kostur á. Ætti það því vel við, að fá veg þennan tekinn upp í tölu fjallveganna, sem fjallveg milli Norður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu.
Bjarnanesi 6. október 1896.
Jón Jónsson.


Austri, 28. okt 1886, 3. árg., 26. tbl., bls. 102:

Fundinn forn fjallvegur á Austurlandi.
Mér hafði lengi leikið hugur á að fara hina skemmstu leið milli Lóns og Fljótsdals, bak við Hofsjökul og Þrándarjökul og fjöll þau, er ganga út frá þeim um suðurhluta Austfjarða. Ég vissi, að sú leið hafði fyrrum verið farin, og þótti jafnvel líklegt, að hún hefði verið alfaravegur í fornöld, og lengi frameftir, uns Norðlingar hættu að sækja sjó suður í Skaftafellssýslu (sbr. Andv. IX. 68 bls.) en það þeir hafi einhvern tíma farið þessa leið, er ekkert efamál, því að við þá eru enn í dag kennd efstu vöðin á Jökulsá í Lóni og Víðidalsá. En seinna hefur vegurinn alveg lagst niður, og vita menn eigi til, að hann hafi verið farinn alla leið af ríðandi mönnum nokkurn tíma á seinni öldum, en dæmi eru til hins, að gangandi menn hafi farið úr Lóni norður í Fljótsdal að fjallabaki, og þó hefur það mjög sjaldan borið við, og þá ekki verið valinn sumarvegur, og hefur vegur þessi því mátt heita öllum ókunnur til þessa, enda er hann ekki talinn meðal fjallvega landsins, þar sem þeir eru taldir upp í Stjórnartíðindunum. Nú er fyrir fáum árum komin í byggð í Víðidal, upp af Lóni (sjá Austra I. 19.-20. tbl.) og hefur síðan verið miklu árennilegra en áður var, að fara leið þessa, en þó hefur enginn orðið til þess, fyr en nú í haust, er ég var á ferð um Fljótsdalshérað, þá fékk ég mér til fylgdar Sigfús bónda Sigfússon á Skjögrastöðum í Skógum, er talsvert var kunnugur öræfunum inn af Fljótsdal frá fyrri árum, og lagði á stað frá Hallormsstað að kveldi hins 19. sept. í því skyni, að fara Fjallabaksveginn suður í Lón. Veður var stillt en þoka í lofti, sem grúfði yfir fjallabrúnum og fól hinar efstu eggjar þeirra. Ríðum við inn með Lagarfljóti og síðan inn suðurdal Fljótsdals, er Keldá rennur eftir; það er bergvatn, er kemur sunnan og vestan af öræfum, og rennur fyrir utan Fljótsdalsmúla saman við Jökulsá, er fellur um norðurdalinn, og falla þær svo báðar í botn Lagarfljóts, er myndast af þeim og fleirum smærri ám. Suðurdalurinn er miklu fegri en norðurdalurinn, beinn og breiður með sléttum grundum og háum og reglulegum hamrahlíðum beggja vegna. Sá maður varð okkur samferða inn dalinn, er Þorsteinn heitir Sigmundsson, og hefur áður verið á Sturlárflöt, efsta bæ í suðurdalnum, gaf hann okkur góðar bendingar um leiðina inn eftir öræfunum, sem hann hafði kynnst í fjárleitum. Um kveldið komum við að Þorgerðarstöðum, og gistum þar um nóttina, en lögðum á stað um morguninn, kl. 8, og slóst Baldvin bóndi Benediktsson á Þorgerðarstöðum í för með okkur. Var þá nýlega létt upp þokunni og fjallabjart orðið, en loft skýjað. Skammt fyrir innan Þorgerðarstaði klofnar dalurinn, og gengur fell fram á milli fjalldala tveggja, heitir hinn eystri Villingadalur, en hinn vestri og meiri Þorgerðarstaðardalur; rennur Keldá eftir honum í gljúfrum og fórum vér vestan megin (norðan megin) hennar. Austan árinnar undir fellinu eru nú beitarhús frá Sturlárflöt, en fyrrum var þar bær, er hét að Felli, og þar er sagt að Kiðjafellsþing hafi verið háð í fornöld. Blasti nú hinn forni þingstaður við oss, og má þar enn sjá hringmyndaða steinaröð, sem Baldvin sagðist hafa heyrt kallaða dómhring, en niðri á árbakkanum sagði ann að sæist votta fyrir grjótveggjum, er mundu hafa verið búðaveggir, en þar eru rof mikil, og jarðvegur blásinn burtu. Inni á dalnum hefur fyrrum verið haft í seli frá Valþjófsstað, því að Þorgerðarstaðir eru kirkjujörð, og liggur dalurinn og fellið undir staðinn, eru þar örnefnin Prestssel, Sveinssel, Stöppusel, og innst Randalínarsel, er minnir á Randalín Filippusdóttur, konu Odds Þórarinssonar (d. 1255), er Sturlungasaga segir (Sturl.9. 21.) að hafi haldið búi sínu á Valþjófsstað eftir fall bónda síns. Austan megin ár innarlega á dalnum eru örnefnin Broddaselsklif og Broddaselsbotnar, er minna á Brodda son Sörla Brodd-Helgasonar (Ljósv. E. 5.), er ætla má að búið hafi á Valþjófsstað, eins og faðir hans. Er það eftirtektavert, að sel þau, er kennt eru við fornmenn, eru innst á dalnum, þar sem landið er kjarnbest, en erfiðast að nota það, og virðist svo, sem selstaðan hafi sífellt færst utar, eftir því sem krafturinn og framtakssemin minnkaði.
Innst á Þorgerðarstaðadal heita Tungárhvammar, eru þar hagar góðir og er þar kofi leitarmana við litla þverá er Tungá heitir, þangað komum vér kl. 10, og lögðum þaðan upp á öræfin. Er mjög lítið um gróður úr því hér er komið, allt þangað til ofan í Víðidal kemur. Fyrst fórum vér um Tungárfell milli Tungár og Keldár, þá yfir Keldá skammt fyrir ofan það er Sauðá hin ytri fellur í hana austanmegin. Á þessi kemur nærri því úr hásuðri, og hafði Þorsteinn Sigmundsson ráðið Sigfúsi að halda upp með henni vestanmegin. Komum vér þar að henni, sem einkennileg nybba er á háum mel fast við ána, er vér kölluðum Fleyganybbu; spölkorn þar fyrir innan eru einkennilegir drangsteinar á holti, og nefndum vér þá Klofninga; þaðan fegnum vér góðan veg inn með Sauðá að vestanverðu og gekk ferðin greiðlega um hríð. Á einum stað er krókur á ánni og foss lítill, er vér kölluðum Krókfoss; þaðan sést Sauðhamarstindur austanvert í Vatnajökli gnæfa við himin í suðurátt. Annars fela holt og hæðir fjallasýn í austri og suðri, en á hægri hönd máttum vér lengi sjá Snæfell, konung hinna austfirsku fjalla, og var tindurinn þó hulinn þokumekki, en í heiðskýru veðri sést hann víðsvegar af Fljótsdalshéraði, norðan af Möðrudalsfjöllum og sunnan úr Lóni. Þegar lengra dró suður, varð fyrir oss dæld mikil og sléttar leirur, er Sauðá breiðist um og lónar uppi í, og kölluðum vér þær Sauðárleirur; förum vér fram með þeim að vestanverðu, og varð þá fyrir oss forn varða óhrunin, loðin af geitaskóf, er vér nefndum Geitaskófarvörðu. Innan við leirurnar lentum vér í stórgrýti og fórum því austanmegin ár nokkurn spöl, og hlóðum þar litla vörðu á grjóthól einum, en sáum seinna, að vér hefðum átt að halda inn melölduna vestan árinnar, því að í beina stefnu suður (suðvestur) af Geitaskófarvörðu þeim megin, var forn varða hátt á urðarhrauni, er vér kölluðum Urðarhraunsvörðu; þaðan áttum vér skammt að Sauðárvatni, er Sauðá rennur úr, og komum þar kl. 3. Þar voru víða gamlar fannir og riðum vér stundum eftir þeim. Einkennilegur melur stendur sunnan vatnsins með 2 klofasteinum á, þar skal fara yfir ána milli vatnsins og lítils lóns, sem er norðanvert við það. Lítinn spöl héldum vér af melnum inn með vatninu, og rann þar á í vatnið að sunnanverðu, sem vér fórum yfir, síðan riðum vér á hjarnfönnum suður á háa öldu sem er mjög víðsýnt af, og hallar frá á alla vegu; kölluðum vér hana Marköldu, því oss þótti sem þar mundi mörkin vera milli Fljótsdals og Lóns, eða Norður-Múlasýslu og Skaftafellssýslu. Þar var forn varða niður hrunin, er vér hlóðum upp, og aðra vörðu hlóðum vér sunnar á öldunni. Þaðan sást mikill jökla og fjallaklasi fyrir sunna, og tókum vér einkum eftir einum tindi háum mjög, en það var Knappafellstindur, sem ber við loft beint fyrir utan mynni Víðidals. Héldum vér svo áfram og sáum enn forna vörðu á strýtumynduðum hól í suðri; er vér nefndum Strýtuhól; vorum vér þá komnir að Víðidalsdrögum, enda höfðum vér séð í þau af Marköldu. Síðan héldum vér ofan í dalinn og var hvergi mjög bratt ofan, enda riðum vér sumsstaðar á fönnum, var kl. 4 þegar vér riðum niður dalbotninn. Var þá enn bjart veður en þokumökkur utar í dalnum. Víðidalsá steypist ofan úr botni dalsins að vestanverðu, og fórum vér út eftir dalnum austanmegin ár og áðum litla stund þegar vér komum fyrst á gras, (kl. 5), en eftir hálfa klukkustund héldum vér á stað aftur, og kom þá á oss svarta þoka, svo að ferðin ofan dalinn varð fyrir þá sök ógreiðari en ella mundi, með því líka að fyrir oss urðu tvö þvergil (Þverá innri og ytri) er vér urðum að klöngrast yfir þar sem oss sýndist tiltækilegast, en seinast hittum vér glöggt götur, er sýndu að mannabyggð var í nánd, og komum að Grund í Víðidal kl. 6 ¾. Fengum vér þar alúðar-viðtökur hjá Sigfúsi bónda og gistum hjá honum um nóttina. Um morguninn sneru fylgdarmenn mínir aftur norður sama veg, en ég hélt áfram suður og fylgdi Sigfús bóndi Jónsson á Grund mér ofan í Lón. Fórum við á stað kl. 9 og lá leið okkar fyrst yfir Kollumúla, (þar sjást nokkur forn vörðubrot), síðan ofan að Jökulsá um Leiðartungur; eru þar brekkur skógi vaxnar og víða ljómandi fallegt, en Jökulsá rennur fyrir neðan eftir sléttum grjótleirum, og er þar á henni Norðlingavað, þar fórum við yfir, og var áin vatnslítil og góð yfirferðar. Síðan fórum við sem leið liggur yfir Lambatungna-á um Víðibrekkur út að Kömbum og upp Illakamb, er hann allbrattur og hár mjög. Var kl. 12 er við komum uppá kambinn, og má þar sjá stórkostleg gljúfur á báða bóga, en vegurinn liggur upp á Kjarradalsheiði (Ketildalsheiði?), og út heiðina, og eru þar nokkur forn vörðubrot. Heiðin er eintómir gróðurlausir melar, uns vegi hallar niður af henni og kemur ofan í Eskifells-ása, bratt er ofan af heiðinni, en fyrir neðan ásana taka við sléttir aurar, sem ná allar götur út í Lón. Var kl. (ólæsilegt) er við komum að Þórólfsdal, elsta bæ (ólæsilegt) að vestanverðu, og var þá öræfaleiðinni lokið, en ég hélt heim til mín um kveldið.
Með þessari ferð er fundinn hinn forni fjallabaksvegur Austfirðinga, sem ætla má að hafi verið fjölfarinn í fornöld, með því að hann hefur verið víða settur vörðum, sem enn má sjá merki til, og á hann það sannarlega skilið að hann sé tekinn upp aftur, ruddur á stöku stöðum og varðaður sem vandlegast, því að hann er eflaust þriðjungi til helmingi styttri en hinn vanalegi vegur milli Fljótsdals og Lóns, víðast heldur greiðfær af óruddum vegi, og torfærulítill að öðru en því, að Jökulsá í Lóni getur oft orðið ófær á Norðlinga-vaði, en helst mun það vera um hásumarið, þegar leysing er í jöklum. (Víðidalsá getur líka orðið ófær gagnvart bænum á Grund; en þá má fara hana innar, á Norðlingavaði). Þótt oss gengi ferðin seint og við værum nærri tvo daga á leiðinni milli byggðar í Fljótsdal og almannabyggðar í Lóni, með því að vér fórum hægt og urðum að velja oss veg yfir öræfin, þá er enginn efi á því, að leið þessa má fara á talsvert skemmri tíma, þegar hún er orðin alkunnari, og einkanlega ef hún væri rudd þar sem helst er þörf á, en það gæti á margan hátt verið næsta þarflegt, að samgöngur milli norðurhluta og suðurhluta Austfirðingafjórðungs yrðu meiri, greiðari og betri en nú er kostur á. Ætti það því vel við, að fá veg þennan tekinn upp í tölu fjallveganna, sem fjallveg milli Norður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu.
Bjarnanesi 6. október 1896.
Jón Jónsson.