1880

Ísafold, 21. des. 1880, 7. árg., 32. tbl., bls. 126:

Fjallvegir
Það er vafalaust rétt af síðasta þingi að skipa fyrir, að vegabætur á póstvegum, sem jafnframt eru fjallvegir, eigi að ganga fyrir öðrum vegbótum. En aftur á móti virðist sú skoðun ekki alls kostar rétt, sem sumir þingmenn létu í ljósi, að lítil eða engin þörf væri á að ryðja eður bæta þá fjallvegu, sem ekki eru póstvegir, síst eftir það, að strandsiglingar umhverfis landið eru á komnar. Því bæði er það, að síst er fyrir að synja, hverjir fjallvegir með tímanum gætu orðið póstvegir, væru þeir vel ruddir, sæluhús komin á o.s.frv. – þótt ekki verði þeir notaðir á vetrardag – enda eru vegir fleirum ætlaðir, en póstum. Heyrt höfum vér fundið að því, að gjört hefir verið við Grímstunguheiði; en varla trúum vér því, að kaupafólk á haustdag eða fjárrekstrarmenn að norðan álíti þetta fyrirtæki vítavert. Þeir tímar geta komið, að afli verði lítill norðanlands, eins og átti sér stað fram á miðja þessa öld, þegar títt var að fara skreiðarferðir suður, bæði Sprengisand, Vatnahjalla (Eyfirðingaveg) og Stórasand (Skagfirðingaveg), og myndi það þá koma sér vel, að vegir væru færir og glöggir. Sama er að segja, að á sumardag myndi margur maður, innlendur og útlendur, fara vegi þessa, bæði sér til gagns og skemmtunar, ef vegir væru. Eða á haustdag um göngur, myndi það ekki koma gangnamönnum vel, ef sem flestir fjallvegir væru greiðir, sæluhús og fjárborgir sem víðast o.s. frv.? Þetta var eitt af því, sem Eysteinn Noregskonungur taldi sér helst til gildis, að hann hefði frelsað líf og heilsu margs manns með góðum fjallvegum og sæluhúsum. Og á síðari tímum hafa Norðmenn ekki látið staðar nema við járnbrautir, strandsiglingar og póstvegu. Í fáum löndum eru fleiri, og betri fjallvegir, en einmitt þar, og óvíða jafnmiklu til kostað. – Hvernig eiga landsbúar að geta kannað og kynnt sér landið, allt miðbik þess, nema þeir fjölgi fjallvegum eða að minnsta kosti haldi þeim fornu vegum við. Skulum vér til dæmis taka Fjallabaks- eða Goðalandsveginn úr Skaftártungum og ofan á Rangárvelli. Eftir því sem Njála segir frá, fór Flosi þennan veg í hvert sinn austan frá Svínafelli í Öræfum og á Þríhyrningshálsa; þennan veg fara nú Skaftfellingar jafnaðarlega kaupstaðarferðir á Eyrarbakka, Hafnarfjörð og Reykjavík, og þar eru hausleitir Rangvellinga; með því móti sneiða menn hjá vondum og mannskæðum vatnsföllum, svo sem Hólmsá, Kúðafljóti, Múlakvísl, Sandvatninu, Jökulsá á Sólheimasandi og Markarfljóti; vegurinn er 14 tíma reið fyrir lausríðandi mann, tveir áfangar með áburði; en hann er óruddur, og á einum stað, í Kaldaklofi, illfær fyrir leirbleytu; hvergi er sæluhúskofi, og má þó nærri því geta, að á vegi, sem liggur milli Torfajökuls að norðanverðu og Mýrdals, Goðalands og Eyjafjallajökuls að sunnanverðu, muni allra veðra von jafnvel á sumardegi, enda hefir margur maður orðið þar úti. Þennan veg er sjálfsögð skylda hins opinbera að gera góðan; enda er það hægt, því það má víða skeiðríða hann, t.d. allan Mælifellssand, þótt kaflar séu seinfarnir; en þar þarf sæluhúss, t.d. í Hvannagili, einum skásta áfangastaðnum og jafnvel víðar. Sama má segja um ýmsa aðra fjallvegi. Tökum Sprengisandsveginn. Hér að sunnan liggja afréttir hreppa og landmanna o.fl. allt norður að Tungnaá og norður fyrir Tungnaá upp á Hestatorfu, Klofshagavelli, upp á Þúfuver og jafnvel allt upp undir Köldukvíslabotna. Að norðan úr Þingeyjarsýslu er leitað upp á Austurfjöll, upp undir Herðubreið og upp í Ódáðahraun og langt suður og austur fyrir Kiðagil. Er hér engin þörf á vegum og sæluhúsum? Líkt mun eiga sér stað með Vatnahjalla (Eyfirðinga) veg og Kjalveg; hagar eru á þeirri leið, bæði í Pollum og Gránunesi, og síst fyrir að synja, að fé flækist þangað á haustdag. Menn kvarta yfir illum heimtum á hverju ári, en vilja þó ekki hafa fjallvegi! – Jafnvel Vatnajökulsveg eða Bárðargötu milli Árness- og Suðurmúlasýslu vildum vér óska eitthvað væri gjört við, þó aldrei væri nema til að kanna hagana í norðanverðum jöklinum og Hvannalindum, þar sem Þingeyingar í sumar er leið fundu tóftina. Yfir höfuð er það bæði smán og tjón fyrir hverja þjóð, sem sjálf ræður hag sínum, að líða það, að fornir vegir leggist af, án þess nýir komi í þeirra stað, og láta ¾ af landinu vera vegaleysu. Útilegumannatrúin er hinn besti vottur um ástandið. Landsbúum þykir hægra að róa á rúmstokknum og smíða sér hugarburð um ókunnar byggðir í afdölum, heldur en að kanna óbyggðirnar og sannfærast um, hver fótur sé undir trúnni. En til þess að komast í óbyggðirnar, þarf vegu, og til vegagjörðar þarf vinnukraft og fé.


Ísafold, 21. des. 1880, 7. árg., 32. tbl., bls. 126:

Fjallvegir
Það er vafalaust rétt af síðasta þingi að skipa fyrir, að vegabætur á póstvegum, sem jafnframt eru fjallvegir, eigi að ganga fyrir öðrum vegbótum. En aftur á móti virðist sú skoðun ekki alls kostar rétt, sem sumir þingmenn létu í ljósi, að lítil eða engin þörf væri á að ryðja eður bæta þá fjallvegu, sem ekki eru póstvegir, síst eftir það, að strandsiglingar umhverfis landið eru á komnar. Því bæði er það, að síst er fyrir að synja, hverjir fjallvegir með tímanum gætu orðið póstvegir, væru þeir vel ruddir, sæluhús komin á o.s.frv. – þótt ekki verði þeir notaðir á vetrardag – enda eru vegir fleirum ætlaðir, en póstum. Heyrt höfum vér fundið að því, að gjört hefir verið við Grímstunguheiði; en varla trúum vér því, að kaupafólk á haustdag eða fjárrekstrarmenn að norðan álíti þetta fyrirtæki vítavert. Þeir tímar geta komið, að afli verði lítill norðanlands, eins og átti sér stað fram á miðja þessa öld, þegar títt var að fara skreiðarferðir suður, bæði Sprengisand, Vatnahjalla (Eyfirðingaveg) og Stórasand (Skagfirðingaveg), og myndi það þá koma sér vel, að vegir væru færir og glöggir. Sama er að segja, að á sumardag myndi margur maður, innlendur og útlendur, fara vegi þessa, bæði sér til gagns og skemmtunar, ef vegir væru. Eða á haustdag um göngur, myndi það ekki koma gangnamönnum vel, ef sem flestir fjallvegir væru greiðir, sæluhús og fjárborgir sem víðast o.s. frv.? Þetta var eitt af því, sem Eysteinn Noregskonungur taldi sér helst til gildis, að hann hefði frelsað líf og heilsu margs manns með góðum fjallvegum og sæluhúsum. Og á síðari tímum hafa Norðmenn ekki látið staðar nema við járnbrautir, strandsiglingar og póstvegu. Í fáum löndum eru fleiri, og betri fjallvegir, en einmitt þar, og óvíða jafnmiklu til kostað. – Hvernig eiga landsbúar að geta kannað og kynnt sér landið, allt miðbik þess, nema þeir fjölgi fjallvegum eða að minnsta kosti haldi þeim fornu vegum við. Skulum vér til dæmis taka Fjallabaks- eða Goðalandsveginn úr Skaftártungum og ofan á Rangárvelli. Eftir því sem Njála segir frá, fór Flosi þennan veg í hvert sinn austan frá Svínafelli í Öræfum og á Þríhyrningshálsa; þennan veg fara nú Skaftfellingar jafnaðarlega kaupstaðarferðir á Eyrarbakka, Hafnarfjörð og Reykjavík, og þar eru hausleitir Rangvellinga; með því móti sneiða menn hjá vondum og mannskæðum vatnsföllum, svo sem Hólmsá, Kúðafljóti, Múlakvísl, Sandvatninu, Jökulsá á Sólheimasandi og Markarfljóti; vegurinn er 14 tíma reið fyrir lausríðandi mann, tveir áfangar með áburði; en hann er óruddur, og á einum stað, í Kaldaklofi, illfær fyrir leirbleytu; hvergi er sæluhúskofi, og má þó nærri því geta, að á vegi, sem liggur milli Torfajökuls að norðanverðu og Mýrdals, Goðalands og Eyjafjallajökuls að sunnanverðu, muni allra veðra von jafnvel á sumardegi, enda hefir margur maður orðið þar úti. Þennan veg er sjálfsögð skylda hins opinbera að gera góðan; enda er það hægt, því það má víða skeiðríða hann, t.d. allan Mælifellssand, þótt kaflar séu seinfarnir; en þar þarf sæluhúss, t.d. í Hvannagili, einum skásta áfangastaðnum og jafnvel víðar. Sama má segja um ýmsa aðra fjallvegi. Tökum Sprengisandsveginn. Hér að sunnan liggja afréttir hreppa og landmanna o.fl. allt norður að Tungnaá og norður fyrir Tungnaá upp á Hestatorfu, Klofshagavelli, upp á Þúfuver og jafnvel allt upp undir Köldukvíslabotna. Að norðan úr Þingeyjarsýslu er leitað upp á Austurfjöll, upp undir Herðubreið og upp í Ódáðahraun og langt suður og austur fyrir Kiðagil. Er hér engin þörf á vegum og sæluhúsum? Líkt mun eiga sér stað með Vatnahjalla (Eyfirðinga) veg og Kjalveg; hagar eru á þeirri leið, bæði í Pollum og Gránunesi, og síst fyrir að synja, að fé flækist þangað á haustdag. Menn kvarta yfir illum heimtum á hverju ári, en vilja þó ekki hafa fjallvegi! – Jafnvel Vatnajökulsveg eða Bárðargötu milli Árness- og Suðurmúlasýslu vildum vér óska eitthvað væri gjört við, þó aldrei væri nema til að kanna hagana í norðanverðum jöklinum og Hvannalindum, þar sem Þingeyingar í sumar er leið fundu tóftina. Yfir höfuð er það bæði smán og tjón fyrir hverja þjóð, sem sjálf ræður hag sínum, að líða það, að fornir vegir leggist af, án þess nýir komi í þeirra stað, og láta ¾ af landinu vera vegaleysu. Útilegumannatrúin er hinn besti vottur um ástandið. Landsbúum þykir hægra að róa á rúmstokknum og smíða sér hugarburð um ókunnar byggðir í afdölum, heldur en að kanna óbyggðirnar og sannfærast um, hver fótur sé undir trúnni. En til þess að komast í óbyggðirnar, þarf vegu, og til vegagjörðar þarf vinnukraft og fé.