Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Kolefnisspor reksturs landsvitakerfis Íslands.

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Á undanförnum árum hafa verið gerðar nokkrar greiningar á kolefnisspori framkvæmda hjá Vegagerðinni auk þess sem um þessar mundir fer fram mat á loftslagsáhrifum af þjónustu Vegagerðarinnar.  Markmiðið með þessu verkefni er að meta kolefnisspor starfsemi Vegagerðarinnar með áherslu á rekstur landsvitakerfisins þ.e. umsjón og eftirlit með uppbyggingu hafnarvita og innsiglingarmerkja á Íslandi. Áhersla verður lögð á að meta umhverfislega sjálfbærni við rekstur landsvitakerfisins yfir virðiskeðju kerfisins og tengja hana við heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna, sem er eitt af áherslum Rannsóknasjóðsins í ár.

Greindir verða þeir þættir í rekstri landsvitakerfisins sem teljast hafa bein áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda auk þess sem mat verður lagt á sambærilega óbeina losun yfir virðiskeðju rekstursins svo sem notkun á málningu og flutning á aðföngum. Innkaup afurða og þjónustu við reksturinn fylgir mikil ábyrgð, þar sem nauðsynlegt er að Vegagerðin taki mið af umhverfisáhrifum og hafi hringrásarhugsun að leiðarljósi. Í verkefninu verður bent á leiðir til að lágmarka kolefnissporið og ljósi varpað á gæði þeirra gagna sem eru til staðar í dag við útreikninga.

Nýnæmi verkefnisins er fólgið í því að mat er lagt í fyrsta skipti á kolefnisspor vegna reksturs landsvitakerfisins á Íslandi yfir rekstrartímann. Þær upplýsingar munu nýtast Vegagerðinni við stefnumótun og markmiðasetningu um lækkun á kolefnisspori vegna reksturs kerfisins m.a. við innkaup á vörum og flutning á afurðum og þjónustu er tengjast rekstrinum og sem innlegg í skilgreiningu aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni.

Nauðsynlegt er að Vegagerðin þekki eigin umhverfisáhrif í allri starfsemi hvort sem um er að ræða í framkvæmdum, þjónustu eða rekstri, setji sér markmið um samdrátt losunar og skilgreini raunhæfar leiðir til að ná þeim markmiðum. Þetta verkefni er hugsað sem einn hlekkur í þeirri vegferð.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að meta kolefnisspor starfsemi Vegagerðarinnar með áherslu á rekstur landsvitakerfisins þ.e. viðhald og eftirlit með uppbyggingu hafnarvita og innsiglingarmerkja. Áhersla verður lögð á að meta umhverfislega sjálfbærni við rekstur landsvitakerfisins yfir virðiskeðju kerfisins og tengja hana við heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna.

Einnig verða mögulega leiðir skilgreindar til að minnka kolefnissporið og varpa ljósi á gæði gagna og/eða skort á gögnum sem þarf til að Vegagerðin geti fengið heildstæða mynd af kolefnisspori vegna rekstursins í dag.

Meginmarkmið verkefnisins:

·         Að greina og meta helstu losunarþætti sem Vegagerðin hefur bein áhrif á við rekstur landsvitakerfisins.

·         Að greina og meta helstu losunarþætti sem Vegagerðin hefur óbein áhrif á við rekstur landsvitakerfisins (orkunotkun, framleiðsla hráefna, flutningar, notkun o.fl.), með innkaupum á hráefnum eða þjónustu.

·         Að greina hvaða þættir í rekstri landsvitakerfisins hafa stærsta kolefnissporið.

·         Að meta gæði gagna og skilgreina þau gögn sem nauðsynleg eru en liggja ekki fyrir eða eru ekki aðgengileg.

·         Að koma með tillögur að aðgerðum til að minnka kolefnisspor í rekstri landsvitakerfisins.

·         Tengja rekstur landsvitakerfisins við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Rannsóknarspurningarnar eru þessar:

·         Hver er bein losun gróðurhúsalofttegunda vegna árlegs reksturs landsvitakerfisins á Íslandi miðað við Greenhouse Gas Protocol og hvaða hluti rekstursins er helsti orsakavaldurinn?

·         Hver er óbein losun gróðurhúsalofttegunda vegna reksturs landsvitakerfisins og hverjir eru helstu losunarþættirnir?

·         Hvaða loftslagsmarkmið og aðgerðir getur Vegagerðin skilgreint og innleitt í sína starfsemi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við rekstur kerfisins?

·         Hver eru gæði gagna sem liggja fyrir og nauðsynleg eru til að meta kolefnisspor reksturs landsvitakerfisins? Hvaða gögn vantar til að meta heildstætt kolefnisspor reksturs kerfisins?

·         Hvaða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verða fyrir áhrifum við rekstur landsvitakerfisins á Íslandi?