Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Umferðaröryggisgreining með samgöngulíkani höfuðborgarsvæðisins

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Við allar ákvarðanir er snerta samgöngumál er umferðaröryggi í forgrunni. Enn fremur er eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar að stuðla að öruggum samgöngum. Að sama skapi er það krafa samfélagsins að samgöngukerfi séu skipulögð og hönnuð til þess að lágmarka hættu á alvarlegum slysum.

Með samgöngulíkan höfuðborgarsvæðisins var stigið stórt skref í líkanagerð og möguleikum til að skoða áhrif mismunandi aðgerða á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Að auki býður líkanið upp á hinu ýmsu greiningarmöguleika, s.s. að nota slysagögn til þess að framkvæma greiningu á samgöngukerfinu m.t.t. umferðaröryggis. Þannig má nýta það til að framkvæma greiningu á núverandi gatnakerfi en einnig, og sem áhugaverðara er, að nýta það til að gera spá um þróun slysa á gatnakerfinu. Með því  að „mata“ líkanið slysagögnum má nýta sér Safety viðbót PTV Visum til að samkeyra breyttar forsendur gatnakerfisins og slysaspár. Þannig má spá fyrir um fjölda og dreifingu slysa mismunandi sviðsmynda, s.s. þeirra sem gera ráð fyrir uppbyggingu innan höfuðborgarsvæðisins til ársins 2024, 2029 og 2034, oft á tíðum með og án framkvæmda.

Svartblettir eru staðir í vegakerfinu þar sem slys eru óeðlilega mörg og með háa slysatíðni, samanborið við sambærilega staði. Með PTV Visum Safety er möguleiki að svartbletta greiningar (e. black spot management) auk þess að flokka og sýna mismunandi gerðir slysa. Er það ekki ósvipað og þeirri nálgun sem nú er beitt í skráningu og upplýsingagjöf umferðarslysa hérlendis. Einnig er hugbúnaðurinn nytsamlegur til að taka saman slysagögn og reikna slysatíðni (e. network safety management). Út frá samgönguspám og þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru býður Visum Safety upp á er að framkvæma  umferðaröryggismat, þ.e. spá fyrir um breytingu á fjölda og gerð slysa (e. road safety impact assessment). Slíkar greiningar gætu nýst í hagkvæmnismat framkvæmda og mögulega til að meta hvaða aðgerðir séu vænlegastar hverju sinni með tilliti til breytinga í umferðarmagni.  

Tilgangur og markmið:

 

Markmið rannsóknarinnar er að meta fýsileika þess að nýta PTV Visum Safety í umferðaröryggisgreiningum á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins og spá fyrir um þróun slysa með tilliti til breytts fyrirkomulags samgöngukerfisins. Bornar verða saman mismunandi sviðsmyndir til komandi ára. Einnig verður litið til þeirra gagnasöfnunar sem á sér stað í dag varðandi óhappa- og slysaskráningu með það að markmiði að skoða hvernig slík gögn nýtast í greiningu og spár um þróun óhappa og slysa. Rannsóknin miðar að því að svara eftirfarandi spurningu:

  • Meta hvort PTV Visum Safety sé fýsilegur kostur til að meta núverandi slysatíðni
  • Hvort PTV Visum Safety veiti áreiðanleg spágildi um
  • Þróun slysatíðni með tilliti til þróunar í umferðarmagni
  • Þróun slysatíðni með tilliti til breytinga á gatnakerfinu
  • Þróun slysatíðni fyrir alla samgöngumáta

Jafnframt er vonast til þess að geta samtímis

  • metið hvort slysaskráning hérlendis sé nægilega ítarleg til að unnt sé að vinna spár um þróun
  • greint staði með háa slysastíðni á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til  núverandi gatnakerfis
  • metið umferðaröryggisáhrif þeirra framkvæmda sem áætlað er að farið verði í á næstu árum

Verkefni er í grófum dráttum þrískipt:

  • Undirbúningur og gagnasöfnun fyrir hermanir og greiningar. Rýni á núverandi gagnasöfnun m.t.t. slíkra greininga.
  • Mat á trúverðugleika niðurstaðna.
  • Slysagreining. Núverandi ástand og framtíðarsviðsmyndir.