Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Er ferðaþjónusta málið. Greining á hlutverki Vegagerðarinnar í sjálfbærri uppbyggingu áfangastaða og ferðaleiða á Íslandi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Ferðaþjónustan er einn stærsti atvinnuvegur landsins. Stefna íslenskra stjórnvalda er að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri uppbyggingu ferðaþjónustu 2030. Greiðar og skilvirkar samgöngur gegna lykilhlutverki fyrir uppbyggingu ferðaþjónustunnar svo að ferðafólk geti ferðast um landið allt árið um kring og að allir landshlutar geti notið ávinnings af ferðaþjónustu. Vegagerðin, sem hefur forræði yfir samgöngukerfum landsins og sinnir vegagerð, þjónustu og viðhaldi vega, hefur þar mikilvægu hlutverki að gegna. Bætt vegaaðgengi út fyrir alfaraleið eykur líkur á verðmætasköpun fyrir ferðaþjónustu og samfélög í kring. Þetta rímar við stefnu Vegagerðarinnar sem og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um greiðar, öruggar og sjálfbærar samgöngur.

Norðurstrandaleiðin, Vestfjarðaleiðin og Eldfjallaleiðin eru vöruþróunarverkefni áfangastaðastofa landshlutanna sem hafa það markmið að efla heilsársferðaþjónustu utan alfaraleiða og fá ferðafólk til að dvelja lengur í landshlutunum. Um er að ræða ferðaleiðir sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi og miða að því að tengja saman áfangastaði sem teljast áhugaverðir og ýta jafnframt undir uppbyggingu þeirra. Verkefnin eru unnin í samstarfi helstu hagaðila á svæðunum. Við verkefni sem þessi reynir á hlutverk Vegagerðarinnar, einkum þegar kemur að uppbyggingu vegakerfisins, viðhaldi og þjónustu vega. Þrátt fyrir það hefur Vegagerðin til þessa almennt haft takmarkaða aðkomu að stefnumótun og áætlanagerð í ferðaþjónustu.

Þjónusta stofnunarinnar á vegakerfi landsins er skilgreind eftir mikilvægi leiða og umferðar. Breytingar í atvinnulífi og samfélagi í landinu gætu kallað á endurskoðun á þjónustu og aðkomu Vegagerðarinnar í atvinnu- og byggðaþróun. Niðurstöður þessarar rannsóknar munu varpa ljósi á hlutverk Vegagerðarinnar í uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu í byggðum landsins sem samræmist sjálfbærnimarkmiðum yfirvalda í samgöngu- og ferðamálum

Tilgangur og markmið:

 

Þróun ferðaleiða um landið nýtur aukinna vinsælda og byggir á samstarfi mismunandi aðila s.s. áfangastaðastofa, sveitarfélaga, landeigenda og rekstraraðila tengdum ferðaþjónustu. Þessari rannsókn er ætlað að greina hlutverk Vegagerðarinnar þegar kemur að uppbyggingu áfangastaða og ferðaleiða á Íslandi. Markmiðið er einnig að greina ákvarðanatökuna og verkferlið við þróun nýrra ferðaleiða í ferðaþjónustu. Hvaða hagaðilar koma að ákvarðanatöku vöruþróunarferlisins og hvernig er samtalið þar á milli? Hverjar eru helstu áskoranir og ávinningur ólíkra hagaðila við uppbyggingu og viðhald ferðaleiða á Íslandi? Sjálfbærnimarkmið stjórnvalda í ferðaþjónustu og samgöngum verða höfð til hliðsjónar við mótun rannsóknaráætlunarinnar.

Í rannsókninni eru skoðaðar þrjár ferðaleiðir sem hafa verið þróaðar af áfangastaðastofum landshlutanna og byggja á neti vega sem þegar eru til staðar í landshlutunum. Þær ferðaleiðir sem skoðaðar verða eru:

Norðurstrandarleiðin er 900 km leið um norðurströnd Íslands sem þegar hefur hlotið verðlaun fyrir að vera besti áfangastaður Íslands og var leiðin einnig sett á lista Lonely Planet yfir tíu bestu áfangastaði í Evrópu. Verkefnið er þróunarverkefni Markaðsstofu Norðurlands en leiðin var opnuð formlega í júní 2019. Norðurstrandarleið fylgir strandlengjunni milli Hvammstanga í vestri og Bakkafjarðar í austri þar sem ferðafólki er beint að fáförnum og afskekktum slóðum með áherslu á sjávarbyggðir og sjávartengda þjónustu.

Vestfjarðaleiðin er nýleg 950 km ferðamannaleið um Vestfirði og Dalina sem opnaðist við opnun Dýrafjarðarganga 2020. Verkefnið er samstarfsverkefni Vestfjarðastofu og Vesturlandsstofu og tengir saman náttúruperlur og afþreyingarmöguleika sem eru fyrir hendi á svæðinu og hefur að markmiði að fá ferðafólk til að stoppa, njóta og upplifa.

Eldfjallaleiðin er ný 540 km ferðaleið um suðurströnd Íslands og liggur frá Reykjanesbæ til Hafnar í Hornafirði. Verkefnið er unnið af Markaðsstofu Suðurlands og Markaðsstofu Reykjaness í samstarfi við sveitafélög, Kötlu jarðvang og Ríki Vatnajökuls. Eldfjallaleiðin dregur fram eldvirknina sem eitt af megineinkennum Suðurlands frá vestri til austurs og er ætlað að stýra og hægja á umferð ferðafólks í landshlutanum með áherslu á náttúru og menningu í tengslum við eldvirkni á Suðurlandi. Ferðaleiðin er enn í mótun en vinnufundir með hagsmunaaðilum voru haldnar í nóvember og desember 2022 og því enn óljóst hvenær leiðin verður formlega opnuð.