Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Kolefnisbinding í mómýrum undir áhrifum eldvirkni

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Á norðurslóðum er mesta útbreiðsla mójarðar (e. histosol) sem er sú jarðvegsgerð sem bindur mest kolefni og gegnir því mikilvægu hlutverki sem mótvægi við uppsöfnun CO2 í andrúmslofti. Stöðugleika kolefnis í mójörð stafar hætta af ýmsum þáttum, t.d. loftslagsbreytingum, uppbyggingu mannvirkja og landbúnaði. Vegna þekkingarskorts á ferlum kolefnis í jarðvegi, ekki síst í íslensku umhverfi, eru möguleikar til að leggja mat á því hvernig mómýrar munu bregðast við utanaðkomandi álagi takmarkaðar jafnvel þótt gróflega megi álykta um ýmsa þætti sem hafa áhrif á stöðugleika kolefnis í jarðvegi. Utanaðkomandi álag, t.d. framræsla mýra, getur haft áhrif á gróðursamsetningu og vatnsbúskap mýra og þar með niðurbrot lífrænna efna sem leiðir til losunar kolefnis. Beinar rannsóknir á þessu skortir þó verulega hér á landi. Sökum eldvirkni er mójörð á Íslandi frábrugðin mójörð í öðrum Norðurlöndum en hér á landi hefur hún bæði einkenni mójarðar og eldfjallajarðar (e. Andosol). Líklegt er að áhrif sérstakra eiginleika mójarðar á Íslandi á kolefnisbindingu séu margþætt. Fokefni í formi gjósku og efna frá rofsvæðum landsins breyta vatns- og næringarefnabúskap mýra, hækka sýrustig og hafa áhrif á gróðurfarseinkenni mýra. Gróðurfarseinkenni eru forsenda efnaeiginleika kolefnis í mójörð, en efnasamsetning kolefnis hefur áhrif á stöðugleika þess. Fyrri rannsóknir umsækjenda sýna fram á að gjóska og önnur fokefni eru ekki síður mikilvægur áhrifaþáttur kolefnisbindingar í mómýrum á eldvirkum svæðum. Aukning á kolefnislosun með auknu hitastigi er t.d. vanalega háð efnasamsetningu kolefnis, en fokefni geta dulið áhrif efnasamsetningar kolefnis. Ljóst er að frekari rannsókna á þessu er þörf. Áhrif steinefna í jarðvegi á stöðugleika kolefnis hafa vissulega verið rannsökuð áður og eykur myndun s.k. knippa milli humus og ólífrænna jarðvegsagna stöðugleika þess. Slík knippi eru vanalega ekki talin hafa áhrif á stöðugleika kolefnis í lífrænum jarðvegi eins og mójörð, en sökum mikils áfoks á Íslandi er ekki hægt að útiloka áhrif þeirra í jörð hér á landi. Rannsóknin sem hér er sótt um styrk til tengist því beint fyrri rannsóknum umsækjenda. Henni er ætlað að kanna nánar áhrif steinefna í mójörð á stöðugleika kolefnis samanborið við áhrif efnasamsetningar kolefnis. Rannsóknirnar verða framkvæmdar á óraskaðri mójörð og munu því gagnast sem “náttúruleg viðmiðunargildi” ef borið er saman við breytingar sem verða á mójörð t.d. vegna verklegra framkvæmda.

Tilgangur og markmið:

 

Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt, er ætlað að bæta úr þeim þekkingarskorti, sem er á  ferlum, myndunarskilyrðum og bindingu kolefnis í óframræstum mómýrum nálægt og fjarri virkum eldfjalla- og  rofsvæðum. Til að meta stöðugleika kolefnis í jarðvegi við mismunandi umhverfisaðstæður hér á landi er mikilvægt að rannsaka áhrif eldfjallaeinkenna jarðvegs og efnaeiginleika lífræns kolefnis samhliða. Til að ná markmiði rannsóknarinnar verða áhrif eldfjallaeinkenna og efnasamsetningar lífræns kolefnis í mójörð á stöðugleika kolefnis í óframræstum mómýrum því könnuð samhliða, með áherslu á víxlverkanir milli eldfjallaeiginleika og efnasamsetningar kolefnis. Rannsókninni er ætlað að svara eftirfarandi spurningum:

  • Hver eru áhrif efnasamsetningar kolefnis í mójörð á stöðugleika þess undir mismunandi áhrifum áfoksefna (gjóska og ólífræn efni frá rofsvæðum)?
  • Hver eru áhrif knippa milli húmus og steinda á bindingu kolefnis og stöðugleika þess í mójörð?
  • Hafa eldfjallaeinkenni jarðvegs áhrif á efnasamsetningu lífræns kolefnis í jarðvegi?

Að svara þessum spurningum er sérlega mikilvægt í ljósi þess að mómýrar eru stærstu kolefnisgeymslur jarðvegs í heiminum og á Íslandi [t.d. 1, 2-4]*. Niðurstöðurnar munu auka færni okkar að spá fyrir um hvað verður um kolefni í jarðvegi í ljósi umhverfisbreytinga.

*Samber heimildalista í viðhengi 1