Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Tæring stálþilsbryggja á Íslandi - Framhald

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Tæring á stálþilsbryggjum er vel þekkt vandamál við hafnir á Íslandi, en erfitt hefur reynst að hægja á tæringunni, meta hraða hennar og áætla eftirstandandi líftíma. Við tæringu stálþils minnkar efnisþykkt stálþilsplötunnar og ef ekki er brugðist við myndast tæringargöt þar sem bakfyllingarefni skolast út og myndar holrými undir þekjunni. Þetta skapar hættu fyrir umferð, öryggi bryggjunnar og notendur.

Oft eru engar sýnilegar viðvaranir frá landi, þar sem mesta tæringin er yfirleitt neðansjávar og við lægstu fjöru eða í kringum -0,5 til +0,5m sjávarstöðu. Til viðbótar er yfirleitt mikill gróður á stálþiljum þannig að erfitt er að meta umfang tæringarinnar. Vegna þessa getur verið erfitt fyrir hafnir að meta nákvæmt ástand bryggjanna og hversu mikill líftími er eftir. Í dag eru ekki til leiðbeiningar til að ástandsmeta og greina viðgerðarlausnir fyrir íslenskar stálþilsbryggjur. Með góðum leiðbeiningum, ásamt aðstoð kafara og mælitækja er hægt að áætla hvenær, hvernig og kostnað við viðgerð á bryggjum.

Tilgangur þessa verkefnis er að hjálpa íslenskum höfnum og Vegagerðinni að ástandsgreina stálþilsbryggjur þannig að öryggi notenda sé tryggt. Í verkefninu verður til dæmis leitast við að svara eftirfarandi spurningum:

· Hvernig tærist stálþil við íslenskar aðstæður?

· Hvers vegna tærist stálþil mishratt eftir landshlutum?

· Hvaða viðvaranir má greina og hvernig?

· Hvernig áætlast eftirstandandi líftími bryggju?

· Meta ávinning og kostnað mismunandi lausna til viðgerða og endurbóta á stálþilsbryggjum.

Rannsókninni er ætlað að gefa gott yfirlit yfir núverandi ástand stálþilsbryggja á Íslandi og einfalda áætlanagerð fyrir viðgerðir, endurbætur og/eða endurbyggingu stálþilsbryggja.

Við hönnun nýrra stálþilsbryggja er mikilvægt að hafa þekkingu á mismunandi tæringu þiljanna og hvaða hönnunarforsendur skulu notaðar við Ísland.

Vinna verkefnisins myndi nýtast við gerð samgönguáætlana og íslenskum hafnarhöldurum, þar með talið Vegagerðinni.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur þessa rannsóknarverkefnis er að lýsa tæringar vandamáli íslenskra stálþilsbryggja og gera leiðbeiningar til að auðvelda ástandsmat bryggjanna. Markmið verkefnisins er að svara eftirfarandi spurningum:

·       Hver er orsök tæringar á stálþilsbryggjum og hvernig fer tæringin fram?

·       Hvernig má meta núverandi ástand stálþilsbryggja og líftíma sem þær eiga eftir?

·       Hvernig má koma í veg fyrir tæringu eða hægja á henni? Hvað kosta slíkar lausnir?

·       Hvenær borgar sig að ráðast í endurbætur og hvenær borgar sig að endurbyggja stálþilsbryggjur?

·       Hvert er núverandi ástand (0-staða) stálþilsbryggja á Íslandi? Yfirlit yfir stálþilsbryggjur með upplýsingum um til dæmis aldur, efnistegund stáls, snið, lengd og dýpi.

·       Yfirlit yfir ástand, viðgerðarlausnir og kostnað við endurbætur á íslenskum stálþilsbryggjum

·       Tillaga að forgangsröðun fyrir viðgerðir, endurbætur og endurnýjun á Íslenskum stálþilsbryggjum.

·       Yfirlit um hvaða hönnunarforsendur vegna tæringar skal nota fyrir mismunandi hönnunarlíftíma.

Það mun vera umtalsverður ávinningur fyrir íslenskar hafnir og Vegagerðina að fá yfirlit yfir núverandi ástand stálþilsbryggja, sem einfaldar áætlunargerð og kostnaðaráætlun í samgönguáætlun.