Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Notkun gagna Vegagerðarinnar í umferðaröryggisstjórnun

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Vegagerðin á stór gagnasett með fjölbreytta möguleika til úrvinnslu, vegna þessa er mikilvægt að menn komi sér saman um hvernig er best að nýta upplýsingarnar. Íslenska vegakerfið er víðfeðmt og krafan um aukið umferðaröryggi alltaf að aukast, vegna þessa er nauðsynlegt að nýta vel allar þær upplýsingar sem verið er að afla. Til þess að niðurstaðan verði sem best er verkefnið unnið í samstarfi á milli hönnunar-, umferðar- og upplýsingatæknideildar með það að markmiði að ólík sjónarmið og reynsla komi fram við vinnsluna.

Mörg þessara gagnakerfa hafa verið rekin um árabil en árið 2018 fjárfesti Vegagerðin í nýjum búnaði sem kallaður er veggreinir. Veggreinirinn auðveldar mælingar og mat á ástandi vega, en möguleikarnir til úrvinnslu eru margir en hægt er að fá upplýsingar um hjólför, hrýfi, yfirborð, vegbreiddir, halla fláa og svo mætti lengi telja. Grunnbúnaður veggreinis er:

· Novatel GPS loftnet með IMU leiðréttingarbúnaði.

· Tveir leysi (laser) mælar – annar niðurvísandi þannig að hægt sé að fá nákvæma mælingu á vegyfirborði (t.d. hjólfaramælingar) og hinn uppvísandi þannig að hægt sé t.d. að mæla þversnið jarðgangna. Hægt er að vinna saman þessar mælingar við GPS staðsetningu og fá þá nákvæmt punktský, eða landlíkan af veginum og á svæðinu í kringum veginn.

· Þrívíddar hröðunarnemi er staðsettur hægra megin á afturás og notaður til að mæla hrýfi eða sléttleika vegar í lengdarstefnu. Mikilvægt er að skoða hrýfi vega og fylgjast með breytingu á hrýfi milli ára, en hrýfi hefur mikil áhrif á þægindi ökumanns og á umferðaröryggi.

· Greenwood leysi (laser) skannar, en þeir meta hrýfi beggja hjólfara mjög nákvæmlega.

· Þrjár myndbandupptöluvélar eru á toppboga auk hitamyndavélar og fyrir miðju mastri er 360° myndavél. Þessar myndavélar gefa mikla möguleika við myndvinnslu, til dæmis til glöggvunar á aðstæðum og við öryggisúttektir.

· Þrjár jarðsjár eru á veggreininum, tvær 2Ghz til að nákvæmnisgreina efstu lög í veghloti og svo ein 400 Mhz fyrir dýpri mælingar í vegi, allt niður á 5 metra. Með jarðsjánum er m.a. hægt skoða mismunandi jarðlög í uppbyggingu og meta breytilegan raka í yfirborðslögum.

Með veggreininum var keyptur hugbúnaður, Road Doctor, þar sem unnið er úr mælingum sem framkvæmdar eru með veggreininum. Með nýjum búnaði koma ný gögn sem nauðsynlegt er að tengja við þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir.

Tilgangur og markmið:

 

Íslenska vegakerfið er stórt og víðfeðmt og þess vegna áskorun að tryggja umferðaröryggi ferðalanga sem um vegina fara. En nauðsynlegt er að fylgjast vel með ástandi og aðstæðum vegakerfisins og forgangsraða aðgerðum til úrbóta. Við þessa vinnu er samnýting ólíkra gagna mikilvæg til þess að forgangsröðun verði eins og best verður á kosið. Með nýjum veggreini er miklum upplýsingum safnað saman, en leggjast þarf í rannsóknar- og þróunarvinnu til þess að tryggja að gögnin nýtist samhliða öðrum gögnum sem þegar er safnað.

Verkefnið fellst í þróun á vinnslu gagna sem þegar er safnað og tengja það við gögn sem nú er safnað með nýjum veggreini Vegagerðarinnar. Það sem til stendur í þessum fyrsta áfanga er að greina:

·         Vegbreidd, akreinabreidd og axlabreidd

·         Veghalla

·         Fláar, hæð og halla

og koma á form sem nýtist inn í grunna Vegagerðarinnar. Fyrst stendur til að skoða hvernig taka megi ákveðnar upplýsingar um kerfið sem heild, og nýta en á seinni stigum væri einnig mögulegt að skoða hvaða upplýsingar væru nýtilegar við greiningu slysastaða og keyra þá saman staði þar sem slys hafa orðið við gögn úr veggreininum ásamt öðrum gögnum sem safnað er á slysstað. Ef í ljós kemur að hægt er að fá upplýsingar um ofan nefnd gögn úr veggreininum getur það auðveldað mjög forgangsröðun nákvæmari umferðaröryggisúttekta en þær eru m.a. framkvæmdar til að meta ýmis almenn atriði sem hafa áhrif á öryggi, þ.e. bæði atriði sem hafa áhrif á að slys verði og líka atriði sem hafa áhrif á afleiðingar slysa.