Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Grunnnet samgangna – hjólreiðastígar

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Ný samgönguáætlun var samþykkt á Alþingi í febrúar 2019 og tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 hefur verið lögð fram á Alþingi. Í báðum áætlunum er í 5 ára aðgerðaáætlun sett fram verkefnið „Lokið verði við skilgreiningu á grunnneti hjólreiðastíga innan helstu þéttbýliskjarna og á vinsælustu ferðamannaleiðum.”. Við gerð samgönguáætlunar er unnið í takt við fimm meginmarkmið að samgöngur séu öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Verkefnið um skilgreiningu á grunnneti hjólreiðastíga er sett fram undir markmiði um greiðar samgöngur.

 

Verkefnisumsókn þessi snýst um að framkvæma þetta skilgreinda verkefni í samgönguáætlun um að skilgreina grunnnet hjólreiðastíga innan helstu þéttbýliskjarna og á vinsælustu ferðamannaleiðum. Þannig verði skilgreining á grunnneti samgangna útvíkkuð til að stofnstígar hjólreiða bætist þar við. Það er þýðingarmikið að skilgreining grunnnetsins sé útvíkkuð til að innifela þennan samgöngumáta og myndi gera Vegagerðinni kleift að vinna markvissar að honum. Stofnstígar hjólaleiða geta verið skilgreindir sem hluti af grunnnetinu á sama hátt og stofnvegir að því leyti að um er að ræða byggð mannvirki.

 

Skoðuð verða erlend dæmi um hvernig grunnnet samgangna er skilgreint og tengingu hjólreiðastíga þar í. Horft verður til Norðurlandanna og annarra nálægra landa eins og Bretlands, Kanada eða Bandaríkjanna. Farið verður yfir hvernig Vegagerðin kemur að hjólreiðum í dag, þ.e. utanumhaldi, hönnun og fjárveitingum. Settar verða fram tillögur að leiðum í netið. Skoðaðar verða bæði núverandi leiðir og mögulegar nýjar leiðir, og einnig verða bæði skoðaðar leiðir innan þéttbýlis og á landsbyggðinni.

 

Í samgönguáætlun er stefnt að því að byggja upp og efla grunnnet allra samgangna. Í skilgreindu grunnneti eru um 5.000 km vegakerfi, 38 hafnir, 13 flugvellir og nokkrar ferju-, skipa- og flugleiðir. Sérstök aukin áhersla er í áætluninni lögð á almenningssamgöngur, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þá verður unnið að því að auka möguleika hjólandi í umferðinni í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Tilgangur og markmið:

 

Við gerð samgönguáætlunar er unnið í takt við fimm meginmarkmið um að samgöngur séu öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Áhersla á hjólreiðar styður við öll fimm meginmarkmiðin og er mikilvægur liður í að bæta öryggi, hagkvæmni og umhverfislega sjálfbærni samgangna og getur haft mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun. Með hjólreiðum má gera samgöngur ódýrari og aðgengilegri auk þess sem hjólreiðar hafa jákvæð áhrif á lýðheilsu.

 

Með því að taka hjólreiðar inn í grunnnet samgangna getur Vegagerðin unnið markvissar að þessum samgöngumáta. Tilgangur verkefnisins er að skoða hvernig að þessari útvíkkun verði best staðið og hvaða hjólaleiðir ættu að verða hluti af grunnnetinu. Einnig hvort ástæða sé til að áfangaskipta slíkri innleiðingu, að fyrst verði teknar inn lykilleiðir og fleiri leiðir svo teknar inn síðar. Einnig er sótt um annað verkefni sem fjallar um að greina kosti þess að lykilleiðir almenningssamgöngukerfisins verði hluti af grunnneti samgangna.

 

Markmiðið er að við lok verkefnisins verði til útvíkkuð skilgreining á grunnneti samgangna fyrir Vegagerðina og samgönguáætlun og tillaga að hjólaleiðum til að taka inn í grunnnetið, sem megi svo nota í samtali við sveitarfélög og landshlutasamtök og innleiða í hlutverk Vegagerðarinnar.