Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Þróun á endafrágangi brúarmannvirkja til að lágmarka viðhald vega við brúarenda

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Með stuðningi Rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar og í öðrum verkefnum hefur EFLA verkfræðistofa síðustu misseri unnið með nýjar lausnir á endafrágangi brúa án þensluraufa. Brýr án þensluraufa eru algengar á Íslandi, og raun er það útfærsla sem beitt er á lengri brýr hérlendis samanborið við nágrannalöndin. Rannsókn sem unnin var fyrir rannsóknasjóð 2016 sýnir að sig og niðurbrot vegfyllingar við enda á brúm án þensluraufa er ákveðið vandamál sem dregur úr umferðaröryggi og útheimtir viðhald.

Þróunarverkefnið EFLU miðar að því að auka umferðaröryggi og lækka viðhaldskostnað á vegfyllingum næst brúm án þensluraufa með því að útfæra frágang sem:

  • lágmarkar sig vegfyllingar með því að a) lækka spennur í fyllingunni með notkun frauðplasts milli brúarenda og fyllingar, og b) auka styrk og samloðun fyllingar með jarðvegsdúk og
  • dreifir sprungum í slitlagi á yfirborði vegar með styrkingu slitlags. Í stað einnar stórar og staðbundinnar sprungu er stuðlað að mörgum smærri sprungum yfir lengri lengd.

Í þessum hluta verkefnis, sem fylgir eftir rannsóknarverkefni um sama viðfangsefni frá fyrra ári, er sett saman vöktunaráætlun í samráði við Vegagerðina sem miðar að því að sýna fram á að tillögur að endurbættum frágangi séu betri en núverandi aðferðir m.t.t. viðhalds vegar við brúarenda. Gert er ráð fyrir að brýr verði valdar í samráði við Vegagerðina til vöktunar og nýr frágangur staðfærður.

Tilgangur og markmið:

 

Þessi rannsókn er framhald á þróun á endafrágangi brúa án þensluraufa, sem Rannsóknarsjóður styrkti 2019. Þróunin miðar að því að innleiða lausnir í endafrágangi sem lágmarka sig vegfyllingar og vegyfirborðs við brúarenda og auka þannig umferðaröryggi, jafnframt því að lækka viðhaldskostnað.

Í verkefninu er unnið með fyrri reynslu EFLU og fyrirliggjandi rannsóknarniðurstöður. Skilgreindur verður endafrágangur sem er frábrugðinn því sem algengast er hérlendis. Sett verður fram prófunaráætlun sem ætlað er að sýna fram á að vegyfirborð við brýr með hinn nýja endafrágang sigi minna en það sem algengast er nú. Með minna sigi eykst umferðaröryggi og viðhaldskostnaður lækkar. 

Til lengri tíma er horft til þess að þær lausnir sem unnið er með í rannsókninni verði til viðmiðunar í hönnunarleiðbeiningum brúa á Íslandi.