Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Rafbílar - áhrif á hljóðstig og tíðniróf

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Rafbílar hafa verið þónokkuð mikið í umræðunni undanfarin misseri, og er oft talað um að þeir séu alveg hljóðlausir. Það er þó ekki rétt, því þrátt fyrir að vélarhljóð séu lítil sem engin, þá er dekkjaniður óbreyttur frá öðrum „hefðbundnum“ aflgjöfum. Eldri rannsóknir sýna að hljóðgjöf frá dekkjum verði ráðandi þáttur hljóðgjafar þegar ökuhraði er kominn yfir 50 - 55 km/klst, og þá hafi hljóðgjöf frá aflgjafa ökutækisins lítil sem engin áhrif. Verkefnið snýst um að framkvæma mælingar á hljóðgjöf frá sambærilegum bifreiðum sem hafa mismunandi aflgjafa (diesel, bensín og rafmagn) og bera saman niðurstöður mælinga á hljóðstigi frá þeim og bera einnig saman mismun í tíðnirófi.  Þetta verði framkvæmt með að mæla hljóðstig frá ökutækjum með mismunandi aflgjafa og á mismunandi hraða (t.d. 30 km/klst, 50 km/klst, 70 km/klst og 90 km/klst), og þannig mældur breytileikinn í hljóðstigi og tíðnirófi.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að skoða hvaða áhrif mismunandi aflgjafar kunna að hafa á hljóðstig í umhverfinu og þær mótvægisaðgerðir sem ráðist er í vegna umferðarhávaða. Ef að niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hljóðstig frá umferð muni breytast í náinni framtíð með auknu hlutfalli rafbíla, þá er gott að sjá það með fyrirvara, sérstaklega í ljós þess hve margir þéttbyggingarreitir eru nú í uppbyggingu. Þá hefur tíðniróf umferðarhávaða mikil áhrif á þær mótvægisaðgerðir sem beitt er í dag vegna umferðarhávaða, bæði með hljóðmönum, hljóðveggjum og ekki síst hljóðvarnargleri og hljóðdeyfðum loftrásum í byggingum. Við hönnun á hljóðvarnargleri og hljóðdeyfðum loftrásum er notast við Rw + Ctr til að meta getu til að lækka umferðarhávaða, en Ctr leiðréttingin er af mörgum talin komin til ára sinna þar sem að hún byggir á gömlum niðurstöðum. Sú breyting sem nú er í gangi ýtir því enn frekar undir þörf á rannsóknum á tíðnirófi umferðarhávaða m.v. breytta aflgjafa og þróun í hjólbörðum.

Þessar breytingar á hljóðstigi og tíðnirófi kunna að hafa í för með sér að minni þörf verður á mótvægisaðgerðum og/eða að mótvægisaðgerðir verði ódýrari.