Kynningargögn

Norðausturvegur, Hófaskarðsleið um Borgarás - breytingar á veglínu

Könnun á matsskyldu

22.9.2009

Þann 3. júní 2009 tilkynnti Vegagerðin Skipulagsstofnun um fyrirhugaða breytingu á 1,7 km löngum kafla á veglínu Norðausturvegar (85), Hófaskarðaleið, við Klapparós og Katastaði, Norðurþingi. Kynntir voru tveir nýir kostir, leið 162 og 165. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var að framkvæmd samkvæmt veglínu 165 sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum en að leið 162 kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og að hún skuli því háð mati á umhverfisáhrifum.

Ekki verður hægt að taka Norðausturveg um Hófaskarð í notkun fyrr en búið verður að leggja þann kafla sem hér er kynntur. Leið 165 kemur ekki til greina vegna andstöðu landeiganda að Katastöðum, ábúenda Presthóla og Norðurþings. Vegagerðin telur að umhverfismatsferlið vegna leiðar 162 taki of langan tíma. Því var ákveðið að skoða aðra möguleika.

Þann 17. september 2009 tilkynnti Vegagerðin fyrirhugaða breytingu á veglínu Norðausturvegar (85), Hófaskarðsleið, við Borgarás í, Norðurþingi, til Skipulagsstofnunar samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. og lið 13a í 2. viðauka laganna.

Lagt er til að gerð verði breyting á vesturenda fyrirhugaðs Norðausturvegar um Hófaskarð í Norðurþingi. Breytingin verði á 1,8 km kafla frá núverandi Norðausturvegi sunnan við Klapparós að fjárrétt í landi Katastaða. Nýja veglínan liggur þvert yfir Borgarás. Breytingarnar eru gerðar í kjölfar dóms Hæstaréttar og til að fá veg sem veldur ekki meiri umhverfisáhrifum en veglína 150 sem kynnt var við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Vegagerðin telur að vegur samkvæmt nýrri veglínu, nr. 174, muni hafa í för með sér minni spjöll á jörðinni Katastöðum og hrauni en veglína 150 en muni hafa meiri sjónræn áhrif vegna skeringa í Borgarási og fyllinga sem ná út í Klapparós. Einnig mun hún raska meira af votlendi.

Könnun á matsskyldu - Skýrsla