Frummatsskýrslur
  • Frummatsskýrsla Dynjandisheiði - Bíldudalsvegur
    Dynjandisheiði og Bíldudalsvegur

Vestfjarðavegur (60) um Dynjandisheiði og Bíldudalsvegur (63) - Frummatsskýrsla

20.12.2019

Vestfjarðavegur (60) um Dynjandisheiði og Bíldudalsvegur (63) frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi á Dynjandisheiði

Vegagerðin kynnir hér með 33 – 40 km langa vegagerð á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði og 29 km langa vegagerð á Bíldudalsvegi, framkvæmd sem fellur undir 5. gr. laga nr. 106/2000 m.s.b. um mat á umhverfisáhrifum.

Frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum, sú sem hér er kynnt, hefur verið send Skipulagsstofnun. Stofnunin kynnir framkvæmdina og frummatsskýrsluna með auglýsingum auk þess sem hún mun liggja frammi til kynningar til 17. febrúar 2020 á Bókasafni Bílddælinga, Bókasafninu Ísafirði, Skipulagsstofnun og í Þjóðarbókhlöðunni.
. Sjá hér að neðan hvert senda skal athugasemdir.

Framkvæmdin er í tveimur sveitarfélögum, Vesturbyggð í Vestur-Barðastrandarsýslu og Ísafjarðarbæ í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Um er að ræða nýjan Vestfjarðaveg sem kemur í stað 40 km langs vegarkafla sem liggur frá Hörgsnesi í Vatnsfirði að Mjólkárvirkjun í Borgarfirði  og nýjan  Bíldudalsveg sem kemur í stað 29 km langs vegarkafla sem liggur frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi í Helluskarði. Samtals eru núverandi vegir sem fyrirhugað er að endurnýja 69 km að lengd en nýir vegir verða samtals 62-69 km að lengd, háð leiðarvali.

Vestfjarðavegur liggur um  Dynjandisheiði og er ekki haldið opnum yfir háveturinn á kaflanum frá Hótel Flókalundi í Vatnsfirði að Þingeyri í Dýrafirði. Sama gildir um Bíldudalsveg á kaflanum frá Fossi að Vestfjarðavegi í Helluskarði á Dynjandisheiði. Vegirnir sem fyrirhugað er að endurbyggja eru að mestu lagðir malarslitlagi og uppfylla ekki kröfur um umferðaröryggi. Á þeim eru samtals 15 einbreiðar brýr, krappar beygjur, brattar brekkur, hæðir og lægðir. Sumardagsumferð á vegarköflunum árið 2017 var mismunandi, en á stærsta hluta Vestfjarðavegar var hún tæplega SDU 300 og á Bíldudalsvegi tæplega SDU 200. Upplýsingar um ársdagsumferð eru mjög lágar því engin umferð er að vetrarlagi.

Vegagerðin telur núllkost, þ.e. óbreytt ástand í samgöngumálum á svæðinu ófullnægjandi miðað við núgildandi kröfur til umferðarmannvirkja.  

Lögð er fram grunnveglína Vestfjarðavegar (60), veglína F, sem þverar Vatnsfjörð en kemur á land skammt frá Flókalundi. Hún liggur eftir það í grennd við núverandi veg um Dynjandisheiði, Dynjandisvog og Borgarfjörð í Arnarfirði. Auk hennar eru lagðar fram átta veglínur sem víkja frá veglínu F, á köflum þar sem Vegagerðin telur tilefni til að skoða aðra möguleika á legu vegarins. Þær eru veglína F2, veglína F3, veglína A1, veglína A2, veglína A3, veglína B2, veglína D og veglína E. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um leiðarval.

Lögð er fram grunnveglína Bíldudalsvegar (63), veglína X, sem liggur frá vegamótum við Bíldudalsflugvöll á Hvassnesi, um Fossfjörð, Reykjarfjörð og Trostansfjörð, upp brekkurnar ofan Trostansfjarðar að Vestfjarðavegi í Helluskarði á Dynjandisheiði. Auk hennar eru lagðar fram tvær veglínur sem víkja frá veglínu X, á köflum þar sem Vegagerðin telur tilefni til að skoða aðra möguleika á legu vegarins. Þær eru veglína Y og veglína Z. Vegagerðin leggur til að veglína Y og Z verði fyrir valinu þar sem þær víkja frá veglínu X

Áætluð efnisþörf vegna framkvæmdarinnar er á bilinu 3,2 - 3,7 milljón m3, háð leiðarvali. Til vegagerðar þarf fyllingar-, burðarlags-, styrktarlags-, rofvarnar- og slitlagsefni sem fæst úr skeringum og námum.

Fyrirhugað er að skipta framkvæmdinni í þrjá áfanga. Áfangarnir eru eftirfarandi:

Áfangi I, Vestfjarðavegur, Hörgsnes - Tröllaháls, veglínur A1, A2, A3, F, F2 og F3.

Áfangi II, Vestfjarðavegur, Tröllaháls - Mjólkárvirkjun, veglínur F, B2, D og E.

Áfangi III, Bíldudalsvegur, Bíldudalsflugvöllur - Vestfjarðavegur, veglínur X, Y og Z.

Framkvæmdaaðili er Vegagerðin og hefur Vestursvæði Vegagerðarinnar umsjón með fyrirhugaðri framkvæmd.

Umsagnir og athugasemdir við frummatsskýrslu skal senda til Skipulagsstofnunar þ.e.a.s. skipulag@skipulag.is.

Frestur almennings til að skila inn umsögnum og athugasemdum við frummatsskýrsluna er til 17. febrúar 2020.

Frummatsskýrsla

Teikningar1-5
Teikningar 6-8
Teikningar 9 hl. 1
Teikningar 9 hl. 2
Teikningar 10
Teikningar 11
Teikningar 12

Viðauki 1 - Fylgiskjal 1-16
Viðauki 1 - Fylgiskjal 17 þrívíddarmyndir
Viðauki 2 - Gróður
Viðauki 3 - Fuglar Dynjandisheiði
Viðauki 4 - Fuglar Bíldudalsveg
Viðauki 5 - Ár og stöðuvötn
Viðauki 6 - Lífríki Djúpavatns
Viðauki 7 - Vatnsfjörður, fjara
Viðauki 8 - Fjörur Bíldudalsvegi
Viðauki 9 - Jarðfræði og efnistaka
Viðauki 10 - Jarðfræði, viðbót
Viðauki 11 - Vatnaskil, Vatnsfjörður þverun
Viðauki 12 - Fornleifaskýrsla
Viðauki 13 - Vatnsfjörður
Viðauki 14 - Dynjandisheiði, samfélagsmat
Viðauki 15 - Vatnaskil 2018, Vatnsfjörður þverun
Viðauki 16 - Vatnaskil 2019, Vatnsfjörður þverun
Viðauki 17 - Lífríki Pennu
Viðauki 18 - Landslag