Frummatsskýrslur
  • Jökuldalsvegur - Yfirlitsmynd

Jökuldalsvegur (923) um Hrafnkelsdal - Frummatsskýrsla

11.4.2013

Vegagerðinni hefur verið falið að byggja nýjan veg sem tengir Austurleið 910 (Kárahnjúkaveg) við Jökuldal. Framkvæmdasvæðið er í sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði í Norður-Múlasýslu.  Frá Austurleið (Kárahnjúkavegi) liggur 7 km langur malarvegur að Aðgöngum 3 Kárahnjúkavirkjunar í Glúmsstaðardal. Vegurinn er uppbyggður og getur þjónað sem hluti af framtíðar tengingu að Hrafnkelsdal, án endurbóta.

Nýr vegur, Jökuldalsvegur (923) mun liggja frá Aðgöngum 3 niður að Aðalbóli í Hrafnkelsdal, samtals um 9,7 km langa leið. Nýlagning er um 6,5 km en vegurinn fylgir núverandi Jökuldalsvegi á rúmlega 3 km löngum kafla. Vegalengdin frá Austurleið að Aðalbóli verður 16,3 km löng.

Núverandi Jökuldalsvegur frá Austurleið að Aðalbóli telst til fjallvega. Hann er 18,5 km langur, liggur hátt yfir sjó, er brattur á köflum, niðurgrafinn, lokast í fyrstu snjóum og er aðeins fær stórum bílum lítinn hluta af árinu. Leiðin er óbrúuð og skammt innan við Aðalból er vað á ánni Hrafnkelu.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur á Austurlandi með því að skapa góða aðkomu að Vatnajökulsþjóðgarði úr Jökuldal. Einnig með því að tengja betur Jökuldal og Vesturöræfi.

Framkvæmdin fellur undir 6. gr. laga nr. 106/2000 m.s.b. um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. framkvæmdir þar sem kanna þarf matsskyldu. Niðurstaða Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin væri háð mati á umhverfisáhrifum barst 16. apríl 2008.

Framkvæmdaaðili er Vegagerðin og ber hún ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda.

Vegagerðin hefur metið umhverfisáhrif vegna fyrirhugaðra framkvæmda í samræmi við matsáætlun og í samráði við ýmsa sérfræðinga. Í frummatsskýrslu er tilhögun fyrirhugaðra vegaframkvæmda lýst og umhverfisáhrif þeirra metin.

Frummatsskýrsla er lögð fram til athugunar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt lögum nr. 106/2000 m.s.b. Vegagerðin leggur fram 1 veglínu með tvenns konar útfærslum. Við athugunarferlið mun stofnunin leita umsagnar opinberra umsagnaraðila og athugasemda almennings.

Allir hafa rétt til að leggja fram athugasemdir. Athugasemdafrestur er til 27. maí 2013. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 105 Reykjavík. Athugasemdir skulu póstlagðar eigi síðar enn þann dag sem frestur til athugasemda rennur út.

Þá mun Skipulagsstofnun senda Vegagerðinni umsagnir og athugasemdir sem hafa borist. Í kjölfarið mun Vegagerðin vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu þar sem gerð verður grein fyrir framkomnum athugasemdum og umsögnum og tekin afstaða til þeirra.

Matsskýrsla verður send Skipulagsstofnun sem hefur 4 vikur til að gefa álit sitt á hvort skýrslan uppfylli lög nr. 106/2000 m.s.b. um mat á umhverfisáhrifum og hvort umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.

Frummatsskýrsla
Teikningar
Viðauki I Fylgiskjöl
Viðauki II Fornleifaskráning vegna vegagerðar í Hrafnkelsdal
Viðauki III Hrafnkelsdalur-Gróðurfar og verndargildi landslags
Viðauki IV Fuglar og hreindýr í Hrafnkelsdal