Vegagerðin í samvinnu við Reykjavíkurborg áformar lagningu Sundabrautar á milli Sæbrautar og Kjalarness. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta á svæðinu, stytta vegalengdir og bæta tengingar á milli svæða.

Að auki miða allar framkvæmdir Vegagerðarinnar að bættu umferðaröryggi. Í tilfelli Sundabrautar fjölgar jafnframt flóttaleiðum á höfuðborgarsvæðinu og aðgengi viðbragðsaðila batnar.
Sundabraut er nýr stofnvegur sem nær frá Sæbraut að Vesturlandsvegi á Kjalarnes. Heildarlengd Sundabrautar er 11 km af nýjum vegum, en það fer þó eftir vali á lausn. Þar sem um er að ræða nýja vegtengingu fjölgar Sundabraut flóttaleiðum á höfuðborgarsvæðinu og eykur aðgengi viðbragðsaðila. Til skoðunar eru tvær leiðir frá Sæbraut yfir í Grafarvog; jarðgöng eða brú yfir Kleppsvík. Frá norðanverðum Grafarvogi eru ein veglína til skoðunar.
Alls er gert ráð fyrir þremur brúm frá Grafarvogi yfir á Kjalarnes: brú yfir Eiðsvík yfir í Geldinganes, brú yfir á Gunnunes við Blikastaðakró og mynni Leiruvogs og brú í Kollafirði með tengingu yfir á Vesturlandsveg.
Undirbúningurinn byggir á yfirlýsingu borgarstjóra og innviðaráðherra um undirbúning Sundabrautar frá árinu 2021. Sundabraut er hluti af stjórnarsáttmála (2024) ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur en var einnig hluti stjórnarsáttmálans fyrri ríkisstjórnar (2021). Sundabraut er hluti af borgarstjórnarsamstarfssáttmála núverandi meirihluta frá árinu 2025 en var einnig hluti af borgarstjórnarsamstarfssáttmála fyrri meirihluta frá árinu 2022.
Unnið er að fyrsta stigi hönnunar sem er grundvöllur útboðsferlis. Kostnaðaráætlun og viðskiptaáætlun verða kláruð í framhaldi af þeirri vinnu. Heildarkostnaður mun einnig ráðast af því hvaða mannvirki verður valið til framkvæmda. Reikna má með að kostnaður verði vel á annað hundrað milljarðar króna.
Stefnt er að því að Sundabraut verði fjármögnuð að fullu með veggjöldum sem verða innheimt af bílaumferð þegar brautin opnar. Fyrirhuguð veggjöld eiga að standa undir kostnaði við undirbúning og framkvæmdir vegna Sundabrautar, viðhaldi og rekstri brautarinnar, auk endurgreiðslu fjármögnunar hennar.
Miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlun er Sundabraut um göng við þverun Kleppsvíkur allt að 25 milljörðum dýrari en brú, háð útfærslu brúarinnar.
Ákvörðun um upphæð og fyrirkomulag veggjalda liggur ekki fyrir. Upphæðin mun taka mið af framkvæmda- og rekstrarkostnaði mannvirkja og væntri umferð um Sundabraut. Við ákvörðun veggjalda þarf að horfa til áætlaðs greiðsluvilja vegfarenda með hliðsjón af þeim ávinningi sem þeir hafa af því að aka brautina. Veggjaldið má hvorki fæla vegfarendur frá því að aka um Sundabraut né ýta undir akstur einkabílsins á kostnað annarra fararmáta.
Vonir standa til þess að lokið verði við samning við framkvæmdaaðila árið 2027 og undirbúningur framkvæmda hefjist í kjölfarið. Áætlaður framkvæmdatími er 5 ár.
Sundabraut verður lögð í einum áfanga. Gert er ráð fyrir að allir hlutar Sundabrautar fari í framkvæmd samtímis. Áætlaður framkvæmdatími er 5 ár.
Jarðgöng eru tímafrekari framkvæmd, m.a. vegna uppsetningar á nauðsynlegum öryggis- og tæknibúnaði að gangagreftri loknum. Verði göng fyrir valinu er áætlað að framkvæmdir við þau taki um tveimur árum lengri tíma en við brú. Samhliða verður unnið að vegtengingum og gatnamótum þannig að í öllum tilvikum hefur verið miðað við um fimm ára heildarframkvæmdatíma. Göng krefjast umfangsmikilla jarðfræðirannsókna, sprengivinnu og loftræstikerfa, sem brúarkostirnir þurfa ekki og því myndi gröftur og frágangur standa yfir allan verktímann.
Já, brú kemur til með að sjást og hærri brú (30 m) hefur talsverð sjónræn áhrif, sérstaklega þegar horft er yfir Kleppsvík frá Gufunesi og Grafarvogi. Ríkið og Reykjavíkurborg hafa sammælst um að efna til hönnunarsamkeppni um útfærslu brúar yfir Kleppsvík, verði sú leið valin.
Nei, á undirbúningsstigi hefur verið stuðst við afar einfaldar útfærslur til viðmiðunar, en í framhaldinu, þegar ákvörðun um leiðarval liggur fyrir, er gert ráð fyrir að efnt verði til alþjóðlegrar hönnunarsamkeppni um útfærslur brúarinnar.
Áætlaður líftími er 100 ár fyrir hvort tveggja.
Ákvörðun um hámarkshraða á Sundabraut liggur ekki fyrir. Við hönnun mannvirkja er tekið mið af svokölluðum hönnunarhraða sem er mismikill eftir mannvirkjum. Leyfilegur hámarkshraði er að jafnaði lægri en hönnunarhraði. Í frumdrögum og mati á umhverfisáhrifum er miðað við hámarkshraðann 80 km/klst. fyrir Sundabraut almennt en lægri hámarkshraða í jarðgöngum og stokkum (sjá bls. 73 í umhverfismatsskýrslu).
Í tengslum við mat á umferðaröryggi voru gerðar greiningar á vindafari í vegstæði Sundabrautar. Þær greiningar ásamt viðbótargögnum, ef þörf krefur, verða nýttar við nánari útfærslu mannvirkja á síðari hönnunarstigum. Í þeirri vinnu verður sérstaklega horft á hönnun mannvirkja í sjó með hliðsjón af öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.
Já. Fyrirséð er að fleiri munu kjósa að nota Sundabrú en Sundagöng. Fyrir vikið minnkar umferð í Ártúnsbrekku meira með Sundabrú en Sundagöngum.
Umferðarþung neðansjávargöng í þéttbýli eru dýr og flókin mannvirki. Það helgast af hönnunarkröfum sem snúa bæði að umferðaröryggi og öryggi mannvirkja. Þannig þurfa Sundagöng undir Kleppsvík að liggja á um 80 m dýpi undir sjávarmáli til þess að tryggja öryggi jarðganganna sjálfra.
Til þess að tryggja umferðaröryggi má bratti í jarðgöngum ekki vera meiri en 5%. Fyrir vikið þurfa Sundagöng að vera að lágmarki 3,2 km löng til þess að komast upp fyrir sjávarmál beggja vegna Kleppsvíkur og enn lengri til þess að tengjast öðrum samgönguinnviðum á yfirborði.
Sama máli gegnir um jarðgöng á öðrum hlutum Sundabrautar. Þau þyrftu að fara á mikið dýpi og leiðir upp á yfirborð yrðu langar. Það takmarkar tengimöguleika á yfirborði eða kallar á löng tengigöng og þar með lengri akstursvegalengdir.
Vel tengd jarðgöng á öðrum hlutum Sundabrautar yrðu því bæði dýrari í framkvæmd og rekstri en vegur á yfirborði auk þess sem aksturskostnaður yrði hærri vegna lengri akstursvegalengda.
Við framkvæmdina verður leitað leiða til að lágmarka umfang og landþörf þannig að áhrif verði sem minnst á verðmæt útivistar- og náttúrusvæði. Jarðgöngin skerða ekki útivistarsvæði. Sundabrú skerðir útivistarsvæði að einhverju marki. Opin svæði í Gufunesi fara undir ný mannvirki og hljóðstig hækkar við brautina. Á móti kemur að aðgengi gangandi og hjólandi milli hverfa batnar. Gott og öruggt aðgengi að opnum svæðum verður tryggt með stígum og undirgöngum.
Lægri brú (12 m) kæmi til með að loka fyrir siglingar stærri skipa og þar með hafa áhrif á hluta þeirrar flutningastarfsemi sem fram fer í Sundahöfn. Hærri brú (30 m) tryggir siglingar farmskipa og fiskiskipa, eins og staðan er núna. Stærri gámaskip (> 30 m) líkt og Samskip og Eimskip eru með í sínum rekstri, munu í báðum tilvikum þurfa að leggja utan brúar.
Rannsóknir hafa sýnt lítið uppstreymi gass úr Gufuneshaugunum. Fram undan eru frekari rannsóknir á gasuppstreymi og mengun frá haugunum. Komi í ljós að vegfarendum eða mannvirkjum stafi hætta af því að leggja veg yfir haugana er mögulegt að nota léttar vegfyllingar eða sneiða fram hjá urðunarsvæðinu með tilfærslu vegstæðisins.
Gert er ráð fyrir að loftgæði við Sæbraut verði nálægt leyfilegum mörkum árið 2040. Á framkvæmdatíma má búast við aukinni rykmyndun og útblæstri. Vöktun á loftgæðum og mótvægisaðgerðir á borð við rykbindingu og stýringu á framkvæmdaumferð draga úr áhrifum á framkvæmdatímanum.
Lengdir brúaropa í mati á umhverfisáhrifum helgast af kröfum um vatnsskipti, seltu og hámarksstraumhraða með það fyrir augum að lífríki sjávar stafi ekki ógn af þverunum. Með hliðsjón af þeim þáttum er ekki talin ástæða til að hafa brúaropin lengri, auk þess sem vegur á fyllingu er hagkvæmari kostur en brú.
Það fer eftir því hvaða lausn verður fyrir valinu. Brú býður upp á göngu- og hjólastíga yfir Kleppsvík, sem bæta til muna tengingar milli hverfa. Göng er ekki hægt að nýta fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
Laxagöngur um Kleppsvík (Elliðaárvog) og Leiruvog munu setja skorður á framkvæmdir í sjó. Þær skorður eru skilgreindar af viðeigandi stofnunum og munu birtast í framkvæmdaleyfi Sundabrautar.
Já, en brú styður betur við almenningssamgöngur en göng. Brú hefur betri tengingu við Grafarvog og hafnarsvæðið og styttri ferðatíma á milli staða á stórhöfuðborgarsvæðinu.
Já, á framkvæmdatíma verður strætóleiðum og stöðvum breytt í samráði við Strætó. Það getur haft tímabundin áhrif á aðgengi.
Meðferðatími milli Akraness og Sæbrautar við Holtaveg í Reykjavík er 37 mínútur skv. rauntímagögnum frá TomTom. Miðað við 80km/klst. á Sundabraut myndu ferðir á þessari leið styttast um 12 mínútur að jafnaði og vegalengdin um 9 km.
Dæmi eru um að straumröst í brúaropum geti verið varasöm kajakræðurum. Framkvæmdaraðili mun vinna áhættumat vegna öryggis sjófarenda og kapp verður lagt á að tryggja öryggi allra sjófarenda.
Ítarleg greining fer fram á áhrifum veglagningarinnar á hljóðvist og gripið verður til mótvægisaðgerða þar sem við á, svo sem með hljóðmönum og öðrum aðgerðum. Á framkvæmdatímanum má gera ráð fyrir áhrifum, en gripið verður til aðgerða til að draga úr þeim.
Já, einhver áhrif verða á friðlýst svæði og fuglalíf, svo sem í Leiruvogi og Blikastaðakró, en um leið er gripið til mótvægisaðgerða til að lágmarka þau. Þær fela t.d. í sér vöktun, fræðslu og hönnun mannvirkja með tilliti til fuglalífs.
Lega Sundabrautar á Álfsnesi og Gunnunesi tekur mið af því að lágmarka eins og kostur er rask á fornminjum. Menningarminjar og fornleifar á áhrifasvæði framkvæmdarinnar hafa verið skráðar. Óheimilt er að raska þeim án leyfis Minjastofnunar. Áformaðar eru mótvægisaðgerðir þar sem við á. Þar undir fellur sérstakt eftirlit og svo uppgröftur og rannsókn á tilgreindum stöðum þar sem ekki verður komist hjá raski, auk fræðsluskilta sem til stendur að setja upp í Gufunesi og víðar.

