Umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar til kynningar
Umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar er nú aðgengileg í Skipulagsgáttinni og er veittur frestur til 30. nóvember til að senda inn umsagnir eða athugasemdir. Samhliða því leitar Skipulagsstofnun umsagna frá lögbundnum umsagnaraðilum og leyfisveitendum.
Vegagerðin í samvinnu við Reykjavíkurborg áformar lagningu Sundabrautar milli Sæbrautar og Kjalarness. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta á svæðinu, stytta vegalengdir og bæta tengingar á milli svæða. Í fyrirliggjandi umhverfismatsskýrslu leggur Vegagerðin fram tvo aðalvalkosti fyrir þverun Kleppsvíkur, þ.e. milli Sæbrautar við Sundahöfn og Gufuness, annars vegar jarðgöng og hins vegar 30 m háa brú. Báðir valkostir fylgja sömu veglínu frá Gufunesi um Geldinganes, Gunnunes, Álfsnes og upp á Kjalarnes. Eiðsvík, Leiruvogur og Kollafjörður verða þveruð með landfyllingum og brúm. Í umhverfismatsskýrslunni er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist árið 2027 og ljúki árið 2031.
Munurinn á brú og göngum í hnotskurn:
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar:
„Umhverfismatsskýrsla og kynning hennar er mikilvægur áfangi í undirbúningi og vali á milli ólíkra leiða við lagningu Sundabrautar. Spilar þar saman mat á áhrifum og hagkvæmni framkvæmdarinnar. Við hlökkum til uppbyggilegrar umræðu um fyrirliggjandi kosti og að geta innan tíðar hafið formlegt útboðsferli við það sem er líklega umfangsmesta einstaka verkefni tengt samgöngubótum sem ráðist hefur verið í hér á landi á undanförnum áratugum.“
Haldnir verða þrír kynningarfundir í Reykjavík, þar sem fjallað verður um niðurstöður umhverfismats Sundabrautar og drög að aðalskipulagsbreytingu. Aðalvalkostir verða kynntir og fjallað um áhrif þeirra á íbúa og starfsemi í nágrenni Sundabrautar.
Fundirnir verða sem hér segir:
20. október kl. 18:00-19:30. Klébergsskóli, Kjalarnesi
21. október kl. 17:30-19:00. Hilton Reykjavík Nordica, Laugardal
22. október kl. 17:30-19:00. Borgaskóli, Grafarvogi
Einnig verða haldnir kynningarfundir um niðurstöður umhverfismats Sundabrautar í Mosfellsbæ, á Akranesi og hjá Vegagerðinni:
23. október kl. 17:30-19:00. Framhaldsskólinn Mosfellsbæ
24. október kl. 9:00-10:30. Vegagerðin, Suðurhrauni 3 í Garðabæ. Fundurinn verður einnig í streymi.
4. nóvember kl. 19:30-21:00. Ráðhúsinu, Akranesi
Niðurstöður umhverfismatsins eru einnig aðgengilegar á vefsjá verkefnisins