Fjölmenni á fundi um Sundabraut
Fjölmenni var á opnum kynningarfundi í Laugardalnum í gær þar sem farið var yfir nýútkomið mat á umhverfisáhrifum vegna lagningar Sundabrautar og drög að breytingu á aðalskipulagi í Reykjavík.

Bekkurinn var þétt setinn á fundinum.
Guðmundur Valur Guðmundsson, fulltrúi Vegagerðarinnar og formaður verkefnisstjórnar um undirbúning Sundabrautar, kynnti verkefnið og efni umhverfismatsskýrslunnar á fundinum. Andri Gunnarsson og Ragnhildur Gunnarsdóttir, frá verkfræðistofunni EFLU, sem er ráðgjafi við gerð umhverfismatsskýrslunnar, fjölluðu um vegtengingar og afmarkaða þætti umhverfismatsins og Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, fór yfir samspil framkvæmdarinnar og aðalskipulags borgarinnar.
Að kynningum loknum tóku við spurningar og umræður þar sem farið var yfir málin. Einnig gafst fólki tækifæri til að rýna gögnin í samtali við sérfræðinga á nokkrum stöðvum í salnum og kynna sér málið nánar.
Á meðal þess sem var rætt var á fundinum voru áhyggjur íbúa af umferðarnið og hljóðvist, einnig var rætt um mótvægisaðgerðir við því, spurt um umhverfið og náttúruna og einnig dýpkun og landfyllingar. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum, þar með talið umræðum hér:
Alls verða þrír kynningarfundir vegna Sundabrautar haldnir í Reykjavík, þar sem fjallað verður um niðurstöður umhverfismats Sundabrautar og drög að aðalskipulagsbreytingu. Næsti fundur verður í Grafarvoginum í kvöld. Athugið breytta staðsetningu en fundurinn fer fram í Sambíóunum Egilshöll, sal 1.
Hægt er að kynna sér verkefnið nánar á Sundabrautin.is
Hægt er að senda inn umsagnir á Skipulagsgáttina.

Húsfyllir var á fundinum.

Fundurinn var haldinn á Hilton Reykjavík Nordica.

Fundurinn var annar í röð kynningafunda um Sundabraut.

Góð þátttaka var í umræðum.

G.Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar, var fundarstjóri.

Guðmundur Valur Guðmundsson, formaður verkefnisstjórnar um undirbúning Sundabrautar, kynnti verkefnið og efni umhverfismatsskýrslunnar.

Ragnhildur Gunnarsdóttir, frá verkfræðistofunni EFLU, sem er ráðgjafi við gerð umhverfismatsskýrslunnar, fjallaði um afmarkaða þætti umhverfismatsins.

Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, fór yfir samspil framkvæmdarinnar og aðalskipulags borgarinnar.