Vel sóttur Sundabrautarfundur í Grafarvogi
Mjög góð mæting var á kynningarfund í Grafarvogi miðvikudagskvöldið 21.október en tilefni fundarins var að umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar og drög að aðalskipulagsbreytingu eru komin í Skipulagsgáttina.

Fundurinn var afar vel sóttur.
Góð þátttaka var í umræðum sem fram fóru eftir kynningar í sal 1 í Sambíóunum í Egilshöll en áætlað er að um 230 manns hafi mætt á fundinn.
Guðmundur Valur Guðmundsson, fulltrúi Vegagerðarinnar og formaður verkefnisstjórnar um undirbúning Sundabrautar, kynnti verkefnið og efni umhverfismatsskýrslunnar á fundinum. Andri Gunnarsson og Ragnhildur Gunnarsdóttir, frá verkfræðistofunni EFLU, sem er ráðgjafi við gerð umhverfismatsskýrslunnar, fjölluðu um vegtengingar og afmarkaða þætti umhverfismatsins og Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, fór yfir samspil framkvæmdarinnar og aðalskipulags borgarinnar. Fundarstjóri var G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar.
Að spurningum loknum gafst fólki tækifæri til að rýna gögnin í samtali við sérfræðinga á nokkrum þematengdum stöðvum og kynna sér málið nánar.
Á meðal þess sem var rætt var á fundinum voru áhyggjur íbúa af umferðarnið og mögulegar mótvægisaðgerðir. Spurt var um framkvæmdatíma Sundabrautar og hvort hún yrði byggð upp í áföngum eða ekki. Íbúar veltu einnig fyrir sér framtíðaráformum með Hallsveg, umferðarlíkönum og uppbyggingu. Áhrif Sundabrautar á náttúru og útivist komu nokkuð við sögu, loftgæði á framkvæmdatíma og líftími brúa og ganga. Einnig voru fleiri spurningar er vörðuðu umferðarflæði, til dæmis hvort brú eða göng hafi meiri áhrif á umferð í Ártúnsbrekku. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér, þar með talið spurt og svarað hluta fundarins:
Fundurinn í Egilshöll var sá þriðji af sex í röð opinna funda þar sem almenningi gefst kostur á að fá kynningu á framkvæmdinni. Markmiðið er að gefa fólki tækifæri til að kynna sér framkvæmdina milliliðalaust, fá ítarlegri upplýsingar og spyrja sérfræðinga um þau atriði sem helst brenna á því.
Umhverfismatsskýrslan og drög að aðalskipulagsbreytingu eru aðgengileg í Skipulagsgáttinni. Hægt er að senda inn umsagnir eða athugasemdir við hana til 30. nóvember næstkomandi.
Sjá einnig:
Niðurstöður umhverfismatsins í vefsjá verkefnisins
Aðalskipulagsbreytingar í Skipulagsgátt
Upplýsingavefur Vegagerðarinnar um Sundabraut – Sundabrautin.is

Ragnhildur Gunnarsdóttir fer yfir helstu niðurstöður.

Guðmundur Valur Guðmundsson, fulltrúi Vegagerðarinnar og formaður verkefnisstjórnar um undirbúning Sundabrautar, kynnti verkefnið og efni umhverfismatsskýrslunnar á fundinum.

Kynningarfundurinn var færður í Egilshöll vegna mikils áhuga.

Fjölmenni var á fundinum.

Hægt var að kynna sér málið á stöðvum með sérfræðingum eftir fundinn.

Hægt var að kynnar sér málið á stöðvum með sérfræðingum eftir fundinn.