Fréttir
  • Höfuðborgin umferð

Um 4,5 % minni umferð á höfuðborgarsvæðinu 2010 en 2008

Vegagerðin birtir nú í fyrsta sinn umferðartölur af höfuðborgarsvæðinu frá þremur stöðum

9.12.2010

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu, sé tekið mið af þremur völdum talningarstöðum, sýnir að umferðin hefur dregist saman um 4,5 prósent milli áranna 2008 og 2010. Vegagerðin hefur ekki áður birt þessar tölur en í framtíðinni verður framsetning þeirra svipuð og af umferðinni á Hringvegi. 

Rétt er þó að hafa þann fyrirvara að um þrjá talningarstaði er að ræða og ekki víst að þeir sýni þróunina á öllu höfuðborgarsvæðinu þótt þeir gefi vísbendingu um hana.

Vegagerðin hefur ekki áður tekið saman umferðartölur innan höfuðborgarsvæðisins sjálfs, en vegna aukinnar eftirspurnar eftir þessum tölum höfum við nú ákveðið að birta tölur fyrir þrjá staði innan höfuðborgarsvæðisins (þar sem Vegagerðin hefur teljara með innhringibúnaði).

Talnaefni og gröf.

Reikna með að framsetning þessara talna verði með svipuðum hætti og á 16. völdum talningastöðum á Hringvegi.

Þess ber að geta að ekki er hægt að fullyrða að þessir þrír talningastaðir sýni þróun á öllu höfuðborgarsvæðinu, heldur ber að taka þetta sem staðbundna þróun á þessum þremur stöðum. Birtar aksturstölur eru því bara reiknigildi fyrir þessa þriggja staða og eiga ekki við um aðra vegkafla. En auðvitað gefur þetta vísbendingu um þróun aksturs á öllu vegakerfi höfuðborgarsvæðisins.

Almennt gildir að innanbæjarakstur fylgir talsvert öðru umferðarmynstri en akstur úti á þjóðvegum, t.d. á Hringvegi. Á meðfylgjandi línuriti ,,Samanlagður meðalakstur í hverjum mánuði" má sjá að júlímánuður, innan höfuðborgarsvæðisins, er jafnan minnstur meðan hann er lang stærstur úti á Hringveginum. Það skýrist af því að fólk flykkist í frí út á þjóðvegina, sem hefur í för með sér færri bíla í akstri innan höfuðborgarinnar. Einnig má nefna að fólk þarf að komast til og frá vinnu, sækja sér þjónustu og dægrastyttingu, í ríkari mæli en út á þjóðvegum. Það skýrir mismuninn líka.

Samantekt þessara þriggja staða sýnir það einmitt að þróun innan svæðisins hefur verið talsvert frábrugðin frá þeim 16 talningastöðum sem við höfum áður birt tölur frá.

Í þessum tölum vekur það athygli að árið 2008, mælist mesti akstur um þessa þrjá staði, þar á eftir kemur árið 2007 og loks 2009. Árið 2010 stefnir í verða fjórða stærsta umferðarár á höfuðborgarsvæðinu eða 1,4% undir árinu 2009. Borið saman við 16 valda talningastaði á Hringvegi þá var árið 2007 stærst, 2009 kom næst og síðan 2008 en árið 2010 stefnir í svipaða umferð og árið 2006, sjá nánar talnaefni á heimasíðu Vegagerðarinnar http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/umferdin/tolfrumferdar/ (16 lykilteljarar á Hringvegi) einnig undir fréttir.

Ef reynt er að skýra það hvers vegna árið 2008 kemur svona vel út innan höfuðborgarsvæðis má sjá í töflu 1. að um gríðarlega aukningu er um að ræða milli sex fyrstu mánaða áranna 2008 og 2007 eða allt upp í 8,8% en eftir það dregur úr aukningunni sem endar loks endar í 1,3%. Allt árið 2009 einkennist síðan af samdrætti og endar í 2,9%. Áframhaldandi samdráttur hefur síðan verið allt árið 2010 einnig og stefnir nú í 1,3%. Nú stefnir í um 4,5% uppsafnaðan samdrátt milli áranna 2008 og 2010.

 

Uppsafnaður akstur á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, stefnir í að aksturinn í ár verði minni en árin 2007, 2008 og 2009:

Höfuðborgin umferð

 

Ath. umferðartölur fyrir árið 2010 eru órýndar, gætu því tekið breytingum við nánari skoðun Vegagerðarinnar þegar árið er gert upp.

Frekari upplýsingar gefur Friðleifur I Brynjarsson í fib@vegagerdin.is eða í síma 522-1817