• Opin náma við vegamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar

Námuskrá

Vegagerðin heldur námuskrá þar sem eru skráðar upplýsingar um efnisnámur á Íslandi. Í námukerfinu eru skráðar námur á landinu óháð því hvaða námurétthafi hefur tekið efni úr námunni. Í námuskránni eru birtar ýmsar upplýsingar um námur m.a. um staðsetningu við veg, efnisgerð, frágang og heiti jarðar sem náman er staðsett á. Staðsetning námanna er í ÍSN93 hnitakerfi.

Frágangur gamalla efnistökusvæða

Á fundi yfirstjórnar Vegagerðarinnar þann 15. desember 2003 var samþykkt tillaga um gerð langtímaáætlunar fyrir frágang eldri náma. Þessi ákvörðun var tekin í samræmi við ákvæði 49. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999 en þar segir að efnistökusvæði skuli ekki standa ónotað og ófrágengið lengur en þrjú ár.

Ýtarlegar leiðbeiningar um námufrágang eru í ritinu Námur - efnistaka og frágangur (75 bls. 4,9 MB PDF). Breytingar hafa m.a. verið gerðar á lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, eftir að ritið var gefið út. Unnið er að endurskoðun ritsins og verður það gefið út í vefútgáfu.

Áætlunina í heild sinni má sjá hér: Langtímaáætlun um námufrágang 2004 - 2018 (1,8 MB PDF) Sjá einnig efni um námufrágang í umhverfisskýrslum Vegagerðarinnar

Í langtímaáætluninni var mörkuð sú stefna Vegagerðarinnar að frágangi náma, sem ekki eru lengur í notkun, skuli lokið á fimmtán árum þ.e. á árunum 2004 – 2018. Það voru árið 2004 um 897 námur sem Vegagerðin áætlaði að ganga frá á 15 árum og því yrði gengið frá um 60 efnisnámum árlega. Vegna efnahagsþrenginga hefur ekki tekist að standa að fullu við áætlunina.

Verklagsregla um frágang gamalla efnisnáma kveður á um það með hvaða hætti Vegagerðin eigi að standa að frágangi gamalla efnisnáma. Mörg undanfarin ár hefur það verið vinnuregla hjá Vegagerðinni að gengið skuli frá námum samhliða uppbyggingu vega ef ekki er fyrirhugað að nýta námuna í náinni framtíð. Frágangur gamalla efnisnáma er eitt af árangursmarkmiðum Vegagerðarinnar.

Vegagerðin hefur verið í samstarfi við Umhverfisstofnun um frágang efnisnáma. Eftirlitsmaður Umhverfisstofnunar skoðar allar námur þegar gengið hefur verið frá þeim og ef frágangurinn er fullnægjandi að mati stofnunarinnar gefur hún út vottorð því til staðfestingar. Staða frágangs á námum er skráð í námukerfi Vegagerðarinnar og vottun Umhverfisstofnunar einnig.