Umferðaröryggismat og –rýni

Umferðaröryggismat og –rýni eru tveir af meginþáttum umferðaröryggisstjórnunar vegamannvirkja.

Markmið með umferðaröryggismati er að tryggja að umferðaröryggi lausna sé metið á faglegan hátt, og borið saman, ef við á, áður en endanlegt val fer fram. Markmið með umferðaröryggisrýni er að tryggja að ný eða endurbætt umferðar­mannvirki verði eins örugg og hagkvæmt er.

Umferðaröryggismat

Umferðaröryggismat skal fara fram á fyrsta hönnunarstigi, þ.e. frumdragastigi. Eftirtalin verkefni á sviði vegamannvirkja skulu fara í umferðaröryggismat:

  • Verkefni sem innifela nýja vegi eða verulegar breytingar á núverandi vegarköflum á Evrópuvegum (TERN-vegum).
  • Verkefni sem innifela nýbyggingar á öðrum stofnvegum og tengivegum en TERN-vegum.
  • Verkefni sem innifela verulegar breytingar, lengri en 2 km, á öðrum stofnvegum og tengivegum en TERN-vegum og er þá átt við samfelldan kafla og skiptir ekki máli þó verkið sé unnið á nokkrum árum.
  • Verkefni sem innifela ný eða breytt vegamót á stofnvegum og tengivegum þar sem áætluð mesta umferð á hliðarvegi er 10 bílar á klukkustund eða meiri.
  • Skipulagsáætlanir sem innifela verulegar breytingar á stofn- og tengivegum.
  • Smærri verk sem hafa mikla þýðingu út frá umferðaröryggi og fela í sér breytingar á akbraut vega.
  • Reiðvegi, göngu- og hjólastíga sem fjármagnaðir eru af Vegagerðinni að hluta eða öllu leiti.

Leiki vafi á hvort verkefni skuli sæta umferðaröryggismati skal forstöðumaður áætlanadeildar taka ákvörðun í samráði við verkefnisstjóra umferðaröryggisrýni.

Umferðaröryggisrýni

Umferðaröryggisrýni skal fara fram á eftirtöldum stigum:

1. stig - forhönnun.
2. stig - verkhönnun.
3. stig - rýni skal fara fram fyrir eða samhliða lokaverkfundi framkvæmdar verks.
4. stig - rýni skal fara fram samhliða ábyrgðarúttekt í verki.

Eftirtalin verkefni á sviði vegamannvirkja skulu fara í umferðaröryggisrýni:

  • Kaflar á Evrópuvegum (TERN-vegum) og á öðrum stofnvegum og tengivegum lengri en 2 km og er þá átt við samfelldan kafla og skiptir ekki máli þó verkið sé unnið á nokkrum árum.
  • Vegamót, áningarstaðir, keðjuplön og biðstöðvar.
  • Smærri verk sem hafa mikla þýðingu út frá umferðaröryggi og fela í sér breytingar á akbraut vega.

  • Göngu- og hjólastígar sem fjármagnaðir eru af Vegagerðinni að hluta eða öllu leyti.

  • Heimilt er að senda í rýni hönnun til notkunar á fleiri en einum stað (týputeikningar). Þá skulu aðstæður tilgreindar og þær vera sambærilegar, hvað varðar t.d. umferðarmagn og leyfilegan hámarkshraða á vegi.