Erlent samstarf

Markmið með þátttöku Vegagerðarinnar í erlendu samstarfi á sviði rannsókna og þróunar eru m.a. :

  • að afla þekkingar og reynslu frá öðrum, fylgjast með þróun og færa hana inn í landið,
  • að koma þekkingu okkar og reynslu á framfæri,
  • að afla fjármagns til rannsóknarstarfs úr sjóðum Evrópusambandsins.


Vegagerðin tekur nú þátt í eftirtöldu erlendu samstarfi á sviði rannsókna- og þróunar:

  • NVF (Nordisk Vejforum - Norræna vegasambandið)
    eru þau samtök sem Vegagerðin hefur gegnum árin haft mest tengsl við. Tímabilið 2008-2012 stýrði Ísland samtökunum, en Noregur tók við stjórninni þann  2012-2016. Stjórnartímabili Norðmanna lauk með ráðstefnunni Via Nordica 2016 sem haldin var í Þrándheimi dagana 8.-10. júní 2016. Svíar stýra samstarfinu árin 2016-2020 og verður ráðstefnan Via Nordica 2020 haldin í Malmö 10.-12. júní 2020 . Megin hluti NVF-starfsins fer fram í nefndum og er markmiðið að stuðla að samstarfi og upplýsingaskiptum milli fagfólks á Norðurlöndunum á vegasamgöngusviðinu. Á tímabilinu 2016-2020 verða starfandi 10 nefndir. Ísland tekur þátt í starfinu í nær öllum þessum nefndum

  • NordFoU (Fællesnordisk forskningssamarbejde)
    Í desember 2004 var undirritaður samningur Vegagerðanna á Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi (Færeyjar hafa líka verið með frá árinu 2014), sem hefur það að markmiði að vinna sameiginlega að ákveðnum afmörkuðum rannsóknaverkefnum og fjármagna þau úr sínum sjóðum. Verkefnin verða valin af sérstakri stjórnarnefnd sem í sitja yfirmenn rannsókna innan hverrar stofnunar. Tvö lönd eða fleiri geta staðið að einstökum verkefnum og ákvörðun um þátttöku er tekin af hverri stofnun fyrir sig. Sérstakur samningur er gerður um hvert verkefni, þar sem tiltekin er verkefnislýsing, verkefnishópur og verkefnisstjóri, fjárhagslegar skuldbindingar og fleira. Verkefni geta ýmist verið unnin innan eða utan stofnananna. Niðurstöður verða aðgengilegar fyrir allar þjóðirnar fimm.
  • ESB (Evrópusambandið)
    stendur fyrir tvenns konar rannsóknarstarfi á samgöngusviði, sem Vegagerðin tekur þátt í. Í svonefndum rammaáætlunum skilgreinir sambandið ákveðin verkefni sem það vill láta vinna, og rannsóknaraðilar hinna ýmsu landa taka höndum saman og keppa um að fá verkefnin.  Nú er unnið í rammaáætlunar sem nefnd er Horizon 2020 og sjá má upplýsingar um það hér.

  • CEDR (Conference of European Directors of Roads)
    eru samtök vegamálastjóra og aðstoðarvegamálastjóra (aðstoðarmanna) í Evrópu. Markmið með samtökunum er að stuðla að þróun í vegasamgöngum, mynda sambönd, vinna með sameiginleg vandamál og taka þátt í þróun hjá ESB og í Evrópu almennt varðandi vegasamgöngur. Vegagerðin var meðal stofnaðila árið 2003 (þegar tveimur samtökum, "Western European Road Directors" (WERD) og "Deputy European Road Directors" (DERD), var slegið saman). Ísland var í forystu fyrir samtökin árið 2006.
    Samtökin setja sér starfsáætlun árlega til þriggja ára í senn.

  • COST (European cooperation in the field of scientific and technical research) verkefnin eru fjármögnuð af 5 eða fleiri aðildarríkjum ESB og EES, en ESB greiðir hluta ferðakostnaðar vegna funda, skrifstofu sem heldur utan um daglegan rekstur, útgáfu og fleira. Mörg þessara verkefna fá síðan fjármagn til rannsóknarstarfsins sjálfs úr sjóðum ESB, eftir umsókn í rammaáætlunina. Vegagerðin hefur á undanförnum árum tekið þátt í nokkrum COST verkefnum.
    COST Verkefni sem Vegagerðin hefur tekið þátt í eru:
    COST 323 - Umferðargreinar (Weigh-in-Motion of Road Vehicles), 1992-1996.
    COST 331 - Yfirborðsmerkingar (Requirements for Horizontal Road Marking), 1995-1999. Lokaskýrsla COST 331
    COST 333 - Burðarþolshönnunarlíkön (Development of New Bituminous Pavement Design Method), 1994-1998. Út úr þessu verkefni þróaðist rammaáætlunarverkefni, AMADEUS (Advanced Models for Analytical Design of European pavement Structures), sem fékk fjárveitingu frá ESB, og Ísland tók þátt í.
    COST 334 - Áhrif "Super Single" dekkja (Effects of Wide Single Tyres and Dual Tyres), 1995-1999.
    COST 336 - Notkun falllóðsmælinga (Use of Falling Weight Deflectometers in Pavement Evaluation), 1995-1999.
    COST 337 - Óbundin burðarlagsefni (Unbound Granular Materials for Road Pavements), 1996-2000. Út úr verkefninu þróaðist rammaáætlunarverkefni, COURAGE (Construction with Unbound Road AGgregates in Europe), sem fékk fjárveitingu frá ESB.
    COST 344 - Bætt vetrarþjónusta (Improvements to Snow and Ice Control on European Roads), 1998-2002.
    COST 347- Hraðað álagspróf (Pavement Research with Accelerated Loading Testing Facilities), 2000-2004.
    COST 351- Vatnsflæði um vegbyggingar (Water Movement in Road Pavements and Embankments -WATMOVE), 2003-2006. Í verkefninu er bæði unnið að rannsóknastofu- og raunprófunum í vegum, þar sem m.a. er byggt á verkefnunum COST 337 og COURAGE.
    COST 353 - Stjórnkerfi vetrarþjónustu og aukið umferðaröryggi (Winter Service Strategies for Increased European Road Safety), 2004-2008. Í verkefninu er m.a. byggt á verkefninu COST 344 en nú lögð meiri áhersla á stjórnkerfin og tengingu vetrarþjónustu og umferðaröryggis.
    COST TU0702 – Rauntímaeftirlit og -stjórnun vegakerfa við erfið veðurskilyrði (Real-time Monitoring, Surveillance and Control of Road Networks under Adverse Weather Conditions), 2008-2012. Meginmarkmið verkefnisins er að öðlast betri skilning á áhrifum veðurs á vegakerfi og umferð og efla tækni til að draga úr vandamálum sem af því stafa.
    COST TU1406 - Quality specifications for roadway bridges, standardization at European level (BridgeSpec), 2015-2019.

  • PIARC (World Road Association)
    Vegagerðin er aðili að þessum alþjóðlegu samtökum, sem segja má að séu móðursamtök NVF og byggð upp á svipaðan          hátt. Hlutverk PIARC er einkum að miðla þekkingu um vegi og vegasamgöngur. 

  • PIANC (The World Association for Waterborne Transport Infrastructure)
    Markmið þessara samtaka er að skapa grunn til að safna saman sérfræðiþekkingu vegna hagkvæmra, áreiðanlegra og endingargóðra mannvirkja sem þarf til að standa undir vexti flutninga á sjó.

  • NR&TR (Nordic Road & Transport Research)
    er norrænt tímarit sem ætlað er að kynna vega- og samgöngurannsóknir á alþjóðlegum vettvangi. Vegagerðin á þar fulltrúa í ritstjórn og hefur átt þátt í birtingu nokkurra greina.

  • INFRAVATION Vegagerðin tók þátt í Infravation-samstarfinu, með fjárframlagi. Infravation stendur fyrir „Infrastructure innovation“ og er samvinnuverkefni 11 landa ásamt Evrópusambandinu undir ERA-NET PLUS rammanum, sem hafði það markmið að leita uppi hugmyndir og hefja rannsóknaverkefni sem lúta að framtíðarlausnum í vegagerð. M.a. var horft til nýrra efna og nýrrar tækni. Í þessu sambandi er verið að tala um nýjungar, e.t.v. eitthvað sem alls ekki er þekkt í dag.   Opnað var fyrir umsóknir þann 3. mars 2014. Meira en 100 umsóknir bárust. Um mitt ár 2015 var gengið til samninga við þá sem stýra verkefnum sem valin voru úr þessum umsóknum eftir mat óháðra sérfræðinga víða úr heiminum. Níu verkefnum var hleypt af stokkunum á haustmánuðum 2015. Verkefninu lauk formlega haustið 2018 og var haldin lokafundur þann 4. október, sjá upplýsingar hér

  • ROADEX verkefnið er tæknilegur samvinnuvettvangur vegagerða í norður Evrópu er hefur það að markmiði að deila upplýsingum um vegi og rannsóknir á þeim milli aðildarlandanna. Verkefnið er að hluta til fjármagnað af ESB, norðurslóða áætluninni INTERREG IIIB.
-------------
Fram til loka árs 2017 tók Vegagerðin þátt í samtökum Evrópskra rannsóknastofa á sviði vegagerðar, FEHRL  (Forum of European National Highway Research Laboratories). Markmið samtakanna er að stuðla að samvinnu og miðla upplýsingum og þekkingu til stjórnvalda. Yfir 4000 manns stunda rannsóknir á vegum þessara stofnana. Öll Evrópuverkefni sem Vegagerðin hefur tekið þátt í voru upprunnin hjá þessum samtökum. Vegagerðin átti fulltrúa í stjórn FEHRL frá 1995 til 2017 og í samræmingarnefnd rannsókna (research coordinators) frá 2003 til 2017.