Vitar og leiðsaga

Vegagerðin annast rekstur landsvitakerfisins og hefur umsjón og eftirlit með uppbyggingu hafnarvita og innsiglingarmerkja. Landsvitar eru til leiðbeiningar á almennum siglingaleiðum og eru í eigu og umsjá ríkisins en hafnarvitar, sem vísa leið inn til hafnar, eru í eigu og umsjá sveitarfélaga. Viðhald og eftirlit Vegagerðarinnar með vitum landsins skiptist í stórum dráttum í eftirlit með búnaði og viðhald á vitabyggingum.

Í umsjá stofnunarinnar eru 104 ljósvitar. Starfsmenn Vegagerðarinnar sinna eftirliti með búnaði og viðhaldi vitabygginganna. Hafnarvitakerfið er byggt upp af tæplega 20 ljósvitum, um 90 innsiglingarljósum á garðsendum og bryggjum, rúmlega 80 leiðarljósalínum og tæplega 50 baujum er vísa leið í innsiglingum að höfnum.

Einnig rekur stofnunin leiðsögu- og eftirlitskerfi fyrir siglingar sem eru DGPS-kerfið og sjálfvirkt auðkennikerfi skipa, AIS, en gegnum AIS,  tilkynningaskylduna og tengd kerfi er í Vaktstöð siglinga fylgst með skipasiglingum í íslensku lögsögunni. Vegagerðin ber stjórnsýslulega ábyrgð á og fjármagnar Vaktstöð siglinga en henni er ætlað að verða miðstöð upplýsinga fyrir skipaumferð í íslenskri efnahagslögsögu og halda utan um siglingar erlendra skipa sem koma til landsins sem og siglingar íslenskra skipa.