Mælingar á sjávarhæð

Vegagerðin er brautryðjandi í að koma upp upplýsingakerfi um veður og sjólag við ströndina og á miðunum umhverfis landið, en tilgangurinn er meðal annars að efla öryggi í siglingum og annarri starfsemi meðfram ströndinni og úti á sjó. Upplýsingakerfið innifelur rauntímamælingar á veðurþáttum, öldueiginleikum og sjávarhæð, en auk þess eru þar birtar spár um veður og sjólag nokkra daga fram í tímann.

Í dag eru starfræktir 20 sjávarborðsmælar umhverfis landið og unnið er að uppsetningu fleiri stöðva, m.a. á Akureyri, Siglufirði, Reykhólum og víðar. Mælistöðvarnar eru í eigu hafnanna og verktakar sjá um rekstur.

Tilgangur sjávarborðsmælistöðvanna er að veita upplýsingar um sjávarstöðu í rauntíma í höfnunum sem er nauðsynlegt vegna siglingaöryggis. Gögnin eru einnig notuð til þess að ákvarða stjarnfræðilega flóðastuðla, langtíma breytingar á meðalsjávarhæð og áhlaðanda. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar vegna hönnunar og annarrar skipulagsvinnu í höfnum og meðfram ströndinni.

Mikilvægur þáttur í rekstri mælistöðvanna er að tryggja að stöðvarnar sýni rétta sjávarhæð öllum stundum. Til þess að það sé hægt þarf að mæla sjávarhæðina með óháðri aðferð út frá hæðarmerki á staðnum og bera við álestur stöðvarinnar. Ef frávik kemur í ljós getur þurft að breyta hliðrun stöðvarinnar til samræmis.

Vegagerðin hefur staðið fyrir samanburðarmælingum við sjávarborðsmælistöðvar sem eru starfræktar umhverfis landið. Smíðuð var færanleg radar mælistöð og hefur hún verið notuð til þess að ákvarða hvort og hversu mikið frávik er í stöðvunum á SV landi. Jafnframt hafa fastmerki verið endurskoðuð og í einhverjum tilvikum hefur nýjum verið bætt við. Niðurstöður sýna að munurinn getur verið allt að 20cm, en ásættanlegur mismunur er innan við 3-5cm. Stefnt er að því að lagfæra þetta í samvinnu við eigendur og rekstraraðila stöðvanna. Nauðsynlegt er að endurtaka samanburðarmælingar oftar en áður til þess að tryggja betur gæði gagnanna. 

Vegagerðin stefnir að því að vinna og gefa út árlegar samantektir um sjávarborðsmælingar í öllum sjávarhæðarmælistöðvunum umhverfis landið. Nú þegar hafa slíkar samantektir verið unnar í um helming stöðvanna. 



Skýrslur um mælingar á sjávarhæð. Veljið stað úr hliðarvalmyndinni eða hér fyrir neðan:

Akranes
Grindavík
Hafnarfjörður
Húsavík
Höfn í Hornafirði
Ísafjörður
Landeyjahöfn
Ólafsvík
Reykjavík-Miðbakki
Sandgerði
Skagaströnd
Vestmannaeyjar
Þorlákshöfn