Vegorðasafnið

Vegorðasafnið er gagnagrunnur í gagnvirkri vefútgáfu á slóðinni https://idord.arnastofnun.is/.

Í orðasafninu eru nú um 2000 íðorð en takmarkið er að það innihaldi öll  helstu íðorð sem notuð eru í vegagerð. Orðasafnið er þannig gert að sérhvert hugtak er skilgreint í stuttu máli en að auki fylgir nánari skýring ef þurfa þykir. Í mörgum tilfellum eru birt ensk og norsk íðorð sömu merkingar. Auðvelt er að leita í orðasafninu, hvort heldur er að skilgreiningum á einstökum hugtökum eða að sérhverju orði sem þar kemur fyrir. Íðorðum í safninu er skipt í 11 efnisflokka og leit er hægt að takmarka við hvern þeirra. Orðasafnið er ætlað öllum þeim sem vinna að vegagerð og einnig öllum almenningi til fróðleiks.

Starfrækt er orðanefnd fyrir vegorðasafnið og í henni sitja núverandi og fyrrverandi starfsmenn Vegagerðarinnar. Einnig er leitað til annarra sérfræðinga með sértækari orð til að skilgreiningar sé sem skýrastar og nái vel yfir þau hugtök sem um ræðir.

Sum orð kunna að hafa fleiri merkingar en þá sem felst í skilgreiningu orðasafnsins. Í mörgum tilfellum er aðeins sú merking tekin með sem er notuð í vegagerð. Í flestum tilfellum voru skilgreiningar í lagabálkum látnar halda sér, stundum þó lagaðar að almennu orðfæri.  Einnig var skilgreiningum úr Íslenskri orðabók (Edda útgáfa, 2007) oft gert hátt undir höfði, en voru stundum lagaðar að notkun orðsins í vegagerð.

Það er von nefndarinnar að orðasafnið muni koma vegagerðarmönnum og öllum almenningi að góðum notum við vinnu sína. Fólk er hvatt til að senda athugasemdir um það sem betur má fara í orðasafninu til Páls Valdimars Kolka Jónssonar, tölvupóstfang pall.v.k.jonsson [hjá] vegagerdin.is.