Hafnabótasjóður

Hafnabótasjóður er eign ríkisins og fer hafnaráð með stjórn sjóðsins í umboði samgönguráðherra. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, A-deild og B-deild. Hlutverk A-deildar sjóðsins er að fjármagna hlut ríkisins í ríkisstyrktum framkvæmdum en B-deildar að fjármagna tjónaviðgerðir. Siglingastofnun annast vörslu sjóðsins, bókhald og daglega afgreiðslu en hafnaráð fer með stjórn sjóðsins í umboði samgönguráðherra.

Tekjur Hafnabótasjóðs eru tekjur af starfsemi sjóðsins og framlag úr ríkissjóði. Hafnaráð ráðstafar fé Hafnabótasjóðs að fengnum tillögum Siglingastofnunar Íslands með samþykki ráðherra á eftirgreindan hátt:

  1. Fjármagnar framkvæmdir ríkisins samkvæmt samgönguáætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi.
  2. Hafnabótasjóði er heimilt að starfrækja sérstaka þróunardeild hafna. Markmið hennar er að styðja minni hafnir á landsbyggðinni sem eru mikilvægar fyrir byggðarlagið og atvinnuuppbyggingu þess.
  3. Hafnabótasjóði er heimilt að bæta tjón á hafnarmannvirkjum sem eru styrkhæf að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sjá nánar hafnalög nr. 61/2003

Á árinu 2005 voru veittir styrkir til nýframkvæmda í 20 höfnum að fjárhæð 73,8 m.kr. Engin lán voru veitt á árinu. Lista yfir úthlutanir sjóðsins er að finna í skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd samgönguáætlunar 2005 (siglingamálakafla).