Umferðarþjónusta - Tilkynning

Jón Hálfdán Jónasson 2014-12-21 13:08

Ábendingar frá veðurfræðingi

Búast má við snjókomu og skafrenningi um landið norðaustanvert frá Skagafirði
austur með norðurlandi að Austfjörðum í dag.
Hvessir af norðaustri á Vestfjörðum og NV-landi í kvöld, 15-23 m/s og snjókoma
og skafrenningur og mjög takmarkað skyggni fram á nótt.

Færð og aðstæður

Á Hellisheiði, Þrengslum og Sandskeiði er hálka og éljagangur. Það er hálka og snjóþekja á Suðurlandi en hálkublettir og hálka á Suðvesturlandi. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut. Flughált er í Grafningnum.

Á Vesturlandi er hálka og snjóþekja og sumstaðar éljagangur. Flughált er í uppsveitum Borgarfjarðar.

Á Vestfjörðum er hálka, krap eða snjóþekja á flestum leiðum. Flughált er í vestanverðum Hrútafirði.

Snjóþekja eða hálka er á Norðurlandi og víða éljar og snjóar. Þæfingsfærð, snjókoma og skafrenningur er á Þverárfjalli og Öxnadalsheiði.

Hálka er á Austurlandi og sumstar flughált. Flughálka er víða á útvegum sem og á Vatnskarði eystra.

Á Suðausturlandi er hálka.

Siglufjarðarvegur

Vegna óvenju mikils jarðsig á Siglufjarðarvegi eru vegfarendur beðnir að gæta ýtrustu varúðar.

Hæðatakmörkun á Breiðholtsbraut við Norðlingaholt

Verið er að byggja göngubrú milli Seláss og Norðlingaholts og því hafa verið settar
upp hæðarslár á Breiðholtsbraut í báðar áttir sunnan hringtorgs við Rauðavatn.  
Fyrst er komið að hliði með skynjurum sem setja af stað blikkljós og flautur á seinna hliðinu.  Á seinna hliðinu eru slár yfir götuna í hæð 4,35 yfir malbiki. Hámarkshraði í gegnum vinnusvæði er 30 km/klst. Hægt er að aka hjáleið um Suðurlandsveg og Norðlingabraut.

Lokun vegna eldsumbrota

Almannavarnir hafa lokað  leiðum á hálendinu Norðausturlands, norðan Dyngjufjalla. Vegurinn vestan við Dettifoss er einnig lokaður að hluta. Hægt er að sjá lokuð svæði hér.

Hreindýr á Austur- og Suðausturlandi

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi. Sjá staðsetningu hreindýra hér.

Akstur á hálendisvegum yfir veturinn

Hálendisvegir eru aðeins í þjónustu yfir sumarið og utan þess tíma er færð ekki könnuð. Á haustin þegar snjóað hefur til fjalla, eru vegirnir merktir ófærir í varúðarskyni þar sem miklar líkur eru á að færð hafi spillst. Yfir veturinn er akstur á hálendisvegum að jafnaði ekki óheimill, séu menn á nægilega stórum tækjum en aksturinn er á ábyrgð ökumanns. Mikilvægt er að fara ekki út í óþarfa tvísýnu og hafa í huga að víða er takmarkað símasamband.  Nú er akstur þó bannaður á ákveðnum vegum vegna eldsumbrotanna og eins er akstur á hálendisvegum bannaður á vorin þegar frost er að fara úr jörð, til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru.