Skýringar við benditexta færðarkorta

Benditextar á færðarkortum Vegagerðarinnar.

Vegagerðin innleiðir nú nýjungar í færðarkortunum þar sem hægt er að nálgast ýmsar ítarupplýsingar í benditexta ("mousetip"/"tooltip") þegar notandinn fer með mús yfir ákveðin svæði á kortunum eða þegar þessi svæði eru snert á tækjum með snertiskjá.

Vefsíðum  með færðarkortum hefur einnig verið breytt á þann hátt að nú geta snjallsímanotendur þysjað og hliðrað („zoom“ og „pan“) færðarkortunum innan ákveðins kortaglugga á þessum vefsíðum.

Færðarskráningar og þjónustutími.

Með því benda á með mús eða snerta gulu táknin fyrir veður og aðstæður birtast upplýsingar um færðarskráningu og þjónustutíma á viðkomandi þjónustuleið.  Ef ekkert slíkt tákn er á leiðinni er settur lítill ferningur á leiðina í stað táknsins og býður ferningurinn upp á sömu virkni og gula táknið.  Ferningurinn er hafður í sama lit og tilgreinir færðina á þjónustuleiðinni.

Upplýsingar um færð og aðstæður segja notandanum hvenær skráning á upplýsingunum fór fram á þjónustustöð Vegagerðarinnar.  Aldur skráningarinnar auðveldar það að meta hversu áreiðanlegar þessar upplýsingar séu m.t.t. þess veðurfars sem verið hefur yfir daginn. 

Auk nýjustu skráningar um færð og aðstæður er einnig hægt að nálgast fyrri skráningar.  Upplýsingar gærdagsins geta gagnast vegfarendum sem skoða færðarkortin snemma morguns áður en starfsmenn Vegagerðarinnar hafa skráð inn nýjar upplýsingar um færðina.  Einnig geta vegfarendur séð hvort búið sé að endurmeta færðarástand innan sama dags og þá hvort færðarástand sé að batna eða versna.

Einnig er birtur þjónustutími á viðkomandi þjónustuleið, hvaða daga leiðin er þjónustuð og á hvaða tíma dagsins.

Auk framangreindra upplýsinga koma fram þau vegnúmer sem notuð eru á þjónustuleiðinni og heiti þjónustuleiðarinnar.  Þjónustuleið getur verði ákveðinn hluti af vegi en einnig nokkrir veghlutar mismunandi vega á sama landsvæði.

Punktskráningar.

Ef færðarkort inniheldur rauðan ferning með gulu X-i í miðjunni, vegavinnumerki eða önnur umferðarmerki má benda á með mús eða snerta þessi merki og birtast þá upplýsingar sem tengjast skráningu þessara merkja.

Rauði ferningurinn með gulu X-i er tákn um lokun vegar á ákveðnum stað en vegurinn þó opinn að öðru leyti.  Er þetta tákn t.d. notað þegar loka þarf vegi á ákveðnum stað vegna umferðaróhapps.
Ef um vegavinnumerki er að ræða birtist áætlaður framkvæmdatími en að öðrum kosti birtist tímasetning skráningar á merkinu.  Einnig birtist texti til nánari upplýsingar um skráninguna.

Veðurstöðvar.

Þegar færðarkortunum var breytt í ársbyrjun 2017 var nafn veðurstöðvar ásamt tímasetning veðurmælingar fellt burt af kortunum til að spara pláss.  Nú er hægt að benda á með mús eða snerta kassana með veðurupplýsingum og birtast þá ítarupplýsingar með þessum upplýsingum.  Línuritin birtast svo ef smellt er með mús á kassann eða hann snertur í annað sinn á snertiskjá.

Ferjur.

Með því að benda með mús eða snerta táknmynd af ferju birtast nánari upplýsingar um ferjuleiðina.  Ef smellt er með mús á táknmyndina eða hún snert í annað sinn á snertiskjá birtist vefsíða frá rekstraraðila ferjunnar eða ferjusíðan á vef Vegagerðarinnar ef rekstraraðili hefur ekki sett up sérstaka vefsíðu um ferjuna.

Kort.

Með því að benda með mús á ákveðinn landshluta á Íslandskortinu birtist heiti viðkomandi landshluta.  Ef smellt er með mús á landshlutann eða hann snertur á snertiskjá birtist kort af landshlutanum.  Þessi möguleiki er á heildar Íslandskortinu þar sem hægt er að fara á kort yfir einstaka landshluta og einnig á korti Suðvesturlands þar sem hægt er að fara á kort yfir Reykjavík og nágrenni.

Afritun korta.

Einstaka notendur vefsins hafa í gegnum tíðina afritað kortin til frekari notkunar, t.d. til birtingar í fréttamiðlum eða til útprentunar. Til að afrita kort má fara með músarbendilinn í jaðar kortsins sem næst norðvesturhorni þess og hægri-smella með músinni. Kemur þá upp sprettigluggi vafrans sem býður upp á afritun kortsins.

Ábendingar frá notendum vefsins.

Vegagerðin vonar að þessi nýja framsetning upplýsinga í benditexta verði til að auka ánægju vegfarenda með vefinn en á „góðum óveðursdegi“ hafa yfir 80 þúsund notendur nýtt sér vef Vegagerðarinnar. Þeim notendum vefsins sem vilja koma á framfæri ábendingum eða athugasemdum er bent á vefsíðu fyrir fyrirspurnir hér á vef Vegagerðarinnar .