Fréttir
  • Grindavíkurvegur (43). Mynd/Baldur Kristjánsson

Viltu taka þátt í að einfalda regluverk og bæta þjónustu hins opinbera?

Könnun á vegum innviðaráðuneytisins

11.4.2022

Innviðaráðuneytið og stofnanir þess óska eftir tillögum um hvernig megi einfalda regluverk og bæta þjónustu á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Allir eiga kost á því að taka þátt í netkönnuninni til og með 6. maí nk. eða í samráðsgátt stjórnvalda.

Markmiðið er er bæta þjónustu hins opinbera með því að greina hvort og hvar lagðar eru óþarfar, flóknar eða óljósar byrðar á einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög eða félagasamtök sem þurfa þjónustu eða leita erinda hjá ráðuneytinu eða stofnunum þess.

Könnunin snýr að innviðaráðuneytinu og sjö fagstofnunum þess en þær eru: Byggðastofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Samgöngustofa, Skipulagsstofnun, Vegagerðin og Þjóðskrá Íslands.

Ábendingar geta verið af ýmsum toga og geta snúið að íþyngjandi reglum, skorti á leiðbeiningum eða upplýsingum, hvar þjónustuferlar gætu verið betri eða stafrænni eða hvort þjónustu vanti eða þurfi að breyta vegna breytinga í samfélaginu.

Verkefnið er ein af áherslum innviðaráðherra í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings.

Fyrir tveimur árum réðist innviðaráðuneytið (þá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið) í fyrstu könnun af þessu tagi og bárust þá rúmlega 50 ábendingar sem unnið var úr bæði í stofnunum og ráðuneytinu í samræmi við aðgerðaáætlun þar að lútandi. Frá því að síðasta könnun var gerð hafa málaflokkar húsnæðis- og mannvirkjamála annars vegar og skipulagsmála hins vegar færst til ráðuneytisins.

Hægt er að taka þátt í könnuninni hér að neðan eða í gegnum samráðsgátt stjórnvalda.

Taka þátt á netkönnun 

Skoða könnun í gegnum samráðsgátt stjórnvalda