Fréttir
  • Umferðin samanlagt
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin eftir vikudögum

Umferð á Hringvegi eykst í mars

eftir samdrátt í janúar og febrúar

1.4.2022

Umferðin á Hringveginum í mars jókst um 2,4 prósent en umferðin hafði dregist saman í janúar og febrúar frá fyrra ári. Mikil aukning varð á mælisniði við Mýrdalssand sem bendir til aukningar ferðamannaumferðar. Frá áramótum hefur umferðin þó dregist saman um ríflega sex prósent frá því sem hún var á sama tíma árið 2021.

Milli mánaða 2021 og 2022
Umferðin, yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, jókst um 2,4% milli marsmánaða 2021 og 2022.  Þessi aukning er í samræmi við meðaltalsaukningu í marsmánuði frá árinu 2005.

Yfirlit yfir umferð í hverjum mánuði sýnir að nýliðinn mars var þriðji umferðarmesti mánuður frá upphafi mælinga, en mars 2018 er sá umferðarmesti hingað til.

Mest jókst umferðin á Austurlandi eða um rúmlega 23%, en umferðin dróst saman um rúmlega 2% yfir lykilteljara á og í grennd við höfuðborgarsvæðið.

Fyrir einstaka talningarstaði jókst umferðin mest um mælisnið á Mýrdalssandi eða um tæplega 197%, sem gæti gefið vísbendingu um að ferðaþjónustan á Suðurlandi sé aftur að taka við sér, en þó skal haft í huga að umferðin á þessum sama stað dróst saman um tæp 50% í mars á síðasta ári.

Mest dróst umferð saman um mælisnið á Geithálsi eða um 6,5% en umferðin á síðasta ári hafði aukist um 28% á þessum sama stað.

Samanburðartafla 






Frá áramótum
Þegar þrír fyrstu mánuðir ársins eru liðnir mælist rúmlega 6% samdráttur um mælisniðin 16, miðað við sama tímabil á síðasta ári. Mestu munar þar um mikinn samdrátt á höfuðborgarsvæðinu sem mælist 8,5% en umferðin á Austurlandi hefur aukist um rúmlega 11%, á umræddu tímabili.

Umferðin eftir vikudögum
Umferðin í öllum vikudögum hefur dregist saman frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Hlutfallslega hefur umferð dregist mest saman á mánudögum en minnst á miðvikudögum.

Mest hefur verið ekið á föstudögum en minnst á mánudögum.